15.02.1962
Neðri deild: 49. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

21. mál, lausaskuldir bænda

Frsm. 1. minni hl. ( Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að gera nokkrar athugasemdir við þá ræðu, sem hæstv. landbrh. var að enda við að flytja. Hann segir m.a., að hér sé ólíku saman að jafna, sjávarútvegi og landbúnaði, því að sjávarútvegurinn skipti aðeins við tvo banka og hafi ekki skuldað öðrum en bönkum. Ég hygg, að þessi fullyrðing geti alls ekki staðizt hjá hæstv. ráðh. Það er kunnugt, að ýmis útgerðarfyrirtæki hafa og þurfa að hafa viðskipti við fleiri en banka. Þau hafa haft viðskipti við verzlanir og oft komizt þar í skuldir, og ég hygg, að það sé þannig með þetta mái, að sjávarútvegurinn hafi einmitt fengið töluvert af lánum hjá stofnlánadeildinni á síðasta ári til að borga skuldir við aðra en banka, en kröfuhafar á útveginn hafi þá getað notað lánið til greiðslu á sínum skuldum við bankana.

Hæstv. ráðh. las hér upp bréf frá Seðlabankanum, sem gaf til kynna, að bankinn mundi fáanlegur til að taka eitthvað af þessum væntanlegu bankavaxtabréfum. Mér skilst, að bankinn ætli að taka bréf frá sparisjóðum og kaupfélögum, sem hafa innlánsdeildir, til greiðslu á því bindingarfé, sem hann heimtar af þessum aðilum árið 1962 og upp í vanskil á slíku bindingarfé frá 1961. Hafi ég tekið rétt eftir, þá var þetta þannig. En ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvernig er með þær stofnanir, sparisjóði t.d., sem greiddu að fullu fyrir síðustu áramót það, sem af þeim var krafizt fyrir árið 1961. Eiga þeir ekki að fá að leggja inn bréf og fá þá endurgreiddar þær upphæðir í peningum, sem þeir greiddu bankanum inn á bundinn reikning fyrir áramótin? Á aðeins að verðlauna þá, sem hafa verið í vanskilum við Seðlabankann, með því að taka bréf af þeim? Ég vil óska að fá svör um þetta frá hæstv. ráðh. Ég tel, að það skipti nokkuð miklu máli fyrir þá aðila, sem hafa orðið að binda fé í Seðlabankanum undanfarin ár, ef þeir gætu látið slík bréf til Seðlabankans og fengið laust þetta fé, fengið endurgreitt um leið það fé, sem þeir eru búnir að greiða inn á bundna reikninga. Annars væri aðeins verið að verðlauna þá, sem hafa verið í vanskilum við Seðlabankann, og það teldi ég ekki góða afgreiðslu á málinu.

Ráðherra segir, að eftir þetta samkomulag muni sparisjóðirnir geta tekið bréfin. Mér er reyndar ekki svo ljóst að öllu leyti, þó að ég heyrði þetta bréf lesið upp, hvað í því felst, að ég skuli um þetta dæma. En ef svo er, þá vil ég benda á, að þá er alveg nauðsynlegt að gefa mönnum kost á að senda nýjar umsóknir um lán, því að ef það er rétt, að það sé búið með þessu samkomulagi við Seðlabankann að gera sparisjóðunum auðveldara en áður að taka bréfin, þá breytist viðhorf þeirra til málsins vitanlega. Ég hef heyrt, að sumir sparisjóðir, sem hafa haft allmikil viðskipti við bændur og veitt þeim lán, hafi í haust neitað að láta þá hafa yfirlýsingu um, að sparisjóðirnir tækju bréfin, vegna þess að þeir sáu sér ekki fært að eiga þau og ekki möguleika til að losna við þau eftir þeim upplýsingum, sem þá fengust um framkvæmd þessara mála. í því héraði, þar sem ég er kunnugastur, var það þannig, að sparisjóður, sem þar er og hefur allmikil viðskipti við bændur, lét þá hafa yfirlýsingu um, að hann mundi sjá sér fært að taka bréf til greiðslu á helmingi af lausaskuldum, og mér er kunnugt um það, að sumir þeir menn, sem höfðu hugsað sér að sækja um lán, töldu ekki taka því að sækja um slík lán, fá metnar eignir sínar o.s.frv., — það er ýmiss konar fyrirhöfn í sambandi við þetta, — ef þeir gætu aðeins losnað við helminginn af sparisjóðsskuldinni. En ef málið tekur nú þeim breytingum, að sjóðurinn telur sér fært að taka bréfin til greiðslu á öllum skuldum, þá væri rangt að leyfa ekki þeim mönnum að koma umsóknum frá sér á framfæri. Viðhorfið er þá orðið annað hjá þessum lánastofnunum og skuldunautum þeirra en var í haust.

Hæstv. ráðh. segir, að minni hl. fjhn. finni að því, að lánið sé aðeins veitt gegn bankavaxtabréfum. Út af fyrir sig var það ekki aðfinnsluvert, ef hægt var að losna við bréfin fyrir nafnverð. Það er það, sem við höfum gert tillögu um. Við höfum tekið upp tillögu frá stjórn Stéttarsambands bænda, sem fram kemur í bréfi stjórnarinnar 3. nóv. í vetur til fjhn., þar sem ein till. er um það, að Seðlabankanum verði gert skylt að kaupa skuldabréfin á nafnverði.

Þá er það um lán út á vélar í eigu bænda. Hæstv. ráðh. segir, að það sé ekki hægt að lána út á vélar til 20 ára. Það hefur ekki verið gerð nein krafa um það að lána út á vélar til 20 ára. Við flytjum tillögu um það, að bændur geti fengið lán út á vélar til 10 ára.

Þá segir ráðh., að til þess að veita lán út á vinnslustöðvar landbúnaðarins þurfi nýtt fé. Ef það er svo komið, að bankarnir vilji taka þessi bréf til greiðslu á útistandandi lánum, þá er ekki þörf á slíku, þá er ekki þörf á nýju fé. Þá geta þau fyrirtæki, sem eiga þessar vinnslustöðvar, notað bankavaxtabréfin til greiðslu á skuldum við bankana. Hitt er annað mál, að það vantar mikið fé til að veita lán út á slíkar framkvæmdir í framtíðinni. En það er annað mál. Og ég vil spyrja og óska svars frá hæstv. ráðh. um það, hvers vegna er ekki hægt að lána bændum út á vélar til 10 ára eins og útvegsmönnum og þeirra fyrirtækjum. Hvers vegna? Ég þekki dæmi þess, að menn, sem þurfa á slíkum lánum að halda til greiðslu á lausaskuldum, geta ekki fengið þau, nema þeir geti fengið lánin út á vélar. Hvers vegna má ekki hið sama gilda í þessu atriði fyrir landbúnaðinn og sjávarútveginn?

Þá er það um vextina. Hæstv. ráðh. segir, að það væri æskilegt, að vextir gætu verið lægri.

Hvað er því til fyrirstöðu, að bændur og þeirra fyrirtæki geti fengið lán með sömu vöxtum og útvegurinn? Ég óska að fá það skýrt frá hæstv. ráðh. Hvernig stendur á því? Útvegsmenn og þeirra fyrirtæki hafa á næstliðnu ári, skilst mér, fengið 350 eða 400 millj. að láni hjá stofnlánadeild sjávarútvegsins með 6½% ársvöxtum. Hvernig stendur á því, að það er ekki hægt að láta bændur og þeirra fyrirtæki hafa lán, sem nema ekki nema nokkrum hluta af þessari upphæð, með sömu vöxtum og útveginum er gert að greiða? Það er alveg þýðingarlaust að halda því fram, að þetta geri bændum ekkert til með vextina, því að þeir fái þá greidda í afurðaverðinu. Er ekki reiknað með vöxtum, þegar fundið er út, hvað frystihúsin geti greitt fyrir fiskinn? Og eru ekki vaxtagreiðslur taldar með gjöldum hjá útvegsmönnum, þegar þeir eru að semja við fiskkaupendur um fiskverðið? Eru ekki vaxtagreiðslur taldar með í verði á iðnaðarvörum, sem iðnaðarfyrirtækin framleiða? Og þannig mætti lengi telja. Og hæstv. ráðh. segir, að bændur fái að fullu þá vexti, sem þeir greiða. Þetta getur vitanlega ekki staðizt. Vaxtagreiðslur bænda eru áætlaðar í verðlagsgrundvellinum miðað við þær upplýsingar, sem fyrir hendi eru um skuldir þeirra að meðaltali, og þeir, sem skulda meira en því nemur, verða að taka svo og svo mikið af vöxtum yfir á sig. Atvinnurekstur þeirra borgar þá ekki. Þeir verða að borga þá af sínum þurftartekjum, af því, sem þeir fá raunverulega fyrir sína vinnu sér og sínum til framfærslu.

Þá fór hæstv. ráðh. að minnast á í þessu sambandi, að bændur ættu að fá og mundu fá útflutningsuppbætur á vörur, sem fluttar eru úr landi. Ég fæ nú ekki beint séð, að þetta komi þessu máli við, sem hér liggur fyrir. En hvað var tekið af bændum í staðinn, þegar þeir fengu þetta? Ég veit ekki betur en þeir hafi haft rétt til þess að hækka verð á vörum sínum á innlendum markaði til þess að bæta upp tap, sem verða kynni á útflutningi. Þetta var af þeim tekið. Það voru höfð skipti við þá, þeir féllu frá þessum rétti, en fengu í staðinn lagaákvæðið um útflutningsuppbæturnar.

Hæstv. ráðh. viðurkennir, að bændur eigi ekki að búa við minni rétt en útvegurinn. Hvers vegna er hann þá að skammta þeim minni rétt og lakari kjör, meina þeim að fá lán út á vélar, neita að lána út á vinnslustöðvar landbúnaðarins, þó að lán séu veitt út á slíkar stöðvar hjá útveginum, og krefjast þess, að þeir greiði hærri vexti af lánum en útvegurinn? Hæstv. ráðh. segir, að það mundi tefja fullnaðarafgreiðslu málsins, ef mönnum væri nú gefinn kostur á að senda umsóknir. Ég fæ ekki séð, að það þyrfti að tefja afgreiðslu þeirra umsókna, sem nú liggja fyrir. Það er hægt að afgreiða þau lán, sem nú er búið að biðja um, þó að viðbót kæmi siðar. Ef nú er með samkomulagi við bankana, Seðlabankann og viðskiptabankana, búið að koma því þannig fyrir, að ýmsir þeir, sem vildu ekki gefa bændum yfirlýsingar um það í haust, að þeir væru fúsir til að taka bréfin sem greiðslu, treysta sér nú til að taka bréfin, þá er vitanlega óhjákvæmilegt og sjálfsagt, að mönnum gefist kostur á að senda nýjar umsóknir.

Þá sagði ráðh., að Stéttarsamband bænda legði ekki mikla áherzlu á vextina. En um vextina segir í bréfi stjórnar Stéttarsambandsins, eins og ég hef áður skýrt hér frá, með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki virðist sanngjarnt, að lán til landbúnaðar í þessu skyni séu með hærri vöxtum en lán til sjávarútvegsins undir svipuðum kringumstæðum. Er því gerð krafa til, að þeir verði ekki hærri.“

Svo kemur ráðh. og segir: Stéttarsambandið leggur ekki mikla áherzlu á vextina. — Ég tel, að þessu máli verði alls ekki komið í viðunandi horf, nema sú breyting verði gerð, að vextirnir verði lækkaðir, lán veitt út á vélar og vinnslustöðvar, og eins og ég sagði áðan, þá hef ég ekki, þótt ég heyrði þetta bréf frá Seðlabankanum lesið hér einu sinni, getað myndað mér að fullu skoðun um það, hvað í því raunverulega felst. En mér skilst þó, að þar sé um lagfæringar að ræða frá því, sem áður var. En hin atriðin, sem ég hef nefnt, er alveg óhjákvæmilegt og sjálfsagt og sanngirnismál að lagfæra.