15.02.1962
Neðri deild: 49. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

21. mál, lausaskuldir bænda

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Það hafa nú orðið nokkrar umr. hér um nefndarálitin, og frsm. minni hl. hefur gert grein fyrir áliti hans á svo glöggan hátt, að það má álitast óþarfi af mér að bæta þar nokkru við. En þar sem þetta mái er þannig vaxið og ég tel mig hafa áhuga á, að málefni bænda fái góða afgreiðslu hér á Alþingi, vil ég leyfa mér að segja um þetta mál nokkur orð.

Það er eins og hér hefur komið fram í þeim umr., sem þegar hafa orðið, að á síðasta þingi var sett löggjöf um stuðning við sjávarútveginn. Með þeim lögum var útgerðarmönnunum gert mögulegt að breyta lausaskuldum sínum í alllöng föst lán með hóflegum vaxtakjörum, að maður verður að telja. Þetta þurfti sjávarútvegurinn að fá og miklu meira ári eftir að hin marglofaða viðreisn var sett í gang, en hún átti samkv. fyrirheiti hæstv. ríkisstj. að styrkja og treysta fjárhagsgrundvöll sjávarútvegsins alveg sérstaklega. Og raunar átti hún að bjarga atvinnuvegum þjóðarinnar í heild. Ég er ekki í vafa um það, að sjávarútvegurinn þurfti á þeirri hjálp að halda, sem hann fékk með þessum lögum og með því, að stofnlánadeild Seðlabankans tæki að sér að veita lán til langs tíma, svo að útgerðarmenn gætu greitt víxla og aðrar lausaskuldir, sem háir vextir voru af.

Við framsóknarmenn hér í þessari hv. deild studdum það mál, og það voru fluttar af okkar hálfu tillögur um, að bændurnir fengju sams konar fyrirgreiðslu sinna mála. Tillögurnar, sem fluttar voru hér af okkar hálfu, voru felldar. En það var látið í veðri vaka eða í það skína í umr., sem urðu um málið, og gefið um það raunar sérstakt fyrirheit, að þegar málið hefði fengið sérstaka athugun, þá mundi það verða leyst eins og bændum kæmi bezt. Og ég verð að segja það, að þó að ég sé andstæðingur hæstv. ríkisstj., þá vildi ég trúa því, að þarna væri alvara og heilindi á bak við, og ég sagði það við marga menn, bæði samherja mína og andstæðinga í bændastétt, að ég væri ekki í vafa um það, að stjórnin mundi leysa þetta mál farsællega, ég tryði ekki öðru, hún í raun og veru væri búin að binda sig þannig, því að hún gæti ekki látið það eftir sig liggja að gera bændunum lægra undir höfði en sjávarútveginum. Mér urðu það þess vegna mikil vonbrigði, þegar þessi brbl., sem hér eru nú til umræðu, voru sett í sumar, að sjá þá, að allt annar réttur og minni og verri kjör áttu að gilda í þessu efni fyrir bændurna heldur en fyrir útgerðarmennina, og ég verð að segja, að því fremur urðu mér þetta vonbrigði og ég held flestum, sem um þetta mál hafa hugsað, eða er það ljóst, að hér er þó miklu hægara úr að bæta en með lausaskuldir sjávarútvegsins, og það er vegna þess, hversu þessar skuldir bændanna eru miklu minni en skuldir útvegsins. Þar er ólíku saman að jafna, því að hafi ég tekið rétt eftir því, sem hæstv. landbrh. sagði, þá mun þarna, í þeim umsóknum, sem fyrir liggja núna, vera um að ræða 82 millj, kr., en sjávarútvegurinn mun hafa fengið a.m.k. um 400 millj. eða þar yfir, eftir því sem maður hefur heyrt, en ég skal þó ekki fullyrða neitt um það. Ég spyr þess vegna: Hvers vegna var ekki Seðlabankanum gert að skyldu að kaupa skuldabréfin, sem veðdeild Búnaðarbankans gefur út, og hvers vegna eru vextir af þessum lánum til bændanna miklu hærri en þeir eru til útvegsmanna? Er þetta einhver jafnaðarmennska í nýjum stíl, að hafa þetta á þennan hátt? Ég get ekki skilið það.

Hæstv. landbrh. segir, að samningaleiðin sé betri en löggjafarleiðin. Ég get ekki tekið undir það. Mér fannst eðlilegt, að úr því að þessi ákvæði voru lögfest í fyrra í sambandi við sjávarútveginn, að þá gengi hið sama einnig yfir bændurna og Seðlabankinn yrði skyldaður á sama hátt með lögum til þess að taka þessi bankavaxtabréf landbúnaðarins. Þá er líka ástæða til þess að spyrja, eins og hér hefur raunar verið gert: Hvers vegna fá útvegsmennirnir lán gegn veði í vélum og vinnslustöðvum, en bændur fá slíkt ekki? Þetta er nokkuð einkennilegt, því að það er vitað mál, að það, sem þyngst hvílir nú á bændum, þessar lausaskuldir þeirra, þær eru aðallega til orðnar vegna kaupa á vélum, og enn fremur eru þeirra vinnslustöðvar, mjólkurbúin og sláturhúsin og frystihúsin, skuldug fyrirtæki, sem hefðu þurft á þessari fyrirgreiðslu að halda alveg áreiðanlega mörg þeirra. Þeir hafa, bændurnir, brotizt í því nú upp á síðkastið að koma upp dýrum vinnslustöðvum fyrir afurðirnar, og það hvílir þannig á þeim þungur baggi í ofanálag á það, sem þeir hver og einn sjálfir hafa að bera í þessum efnum.

Ég verð að segja það, að það gleður mig að heyra, að hæstv. landbrh. gaf yfirlýsingu um það hér áðan, að nú yrði senn farið að lána út á landbúnaðarvélar, að ræktunarsjóði yrði gert kleift að lána út á landbúnaðarvélar. Þetta eru frá mínu sjónarmiði mikil fagnaðartíðindi, ef þessi loforð verða þá ekki efnd á sama hátt og ýmis önnur loforð, að það sé ekkert nema loforðið.

Ég verð að segja, að þegar litið er á þetta mál allt saman frá víðara sjónarmiði en því einu, sem snýr beint að bændum, þá kemur þegar í ljós, að þjóðfélagið allt á nokkurs að gæta í sambandi við þessi málefni. Landbúnaðurinn er enn þá annar höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar og a.m.k. sjötti hver maður í þessu landi hefur lífsframfæri sitt af landbúnaði beinlínis, auk þeirra, sem landbúnaðurinn á óbeinan hátt veitir atvinnu. Þótt ekki sé á annað litið en þetta út af fyrir sig og allt annað gildi landbúnaðarins fyrir þjóðlífið látið liggja á milli hluta, þá sér hver hugsandi maður, hversu stór ábyrgðarhluti það er fyrir ráðamenn þjóðfélagsins að hafa þennan þátt atvinnulífsins fyrir hornreku og þá, sem hann stunda, fyrir olnbogabörn. Það vita allir, sem til þekkja, að enginn annar atvinnuvegur hefur haft þvílíkan skaða af gengislækkunum hæstv. ríkisstj. og landbúnaðurinn hefur haft, og þessar ráðstafanir sverfa svo fast að bændunum núna, að ekki hafa margir þeirra átt áður við slíka fjárhagsörðugleika að etja. Þess vegna er þörf á að bæta úr erfiðleikum þeirra, sem verst eru stæðir, og gera það sem allra fyrst.

Mér er sagt, að nálægt 1300 bændur hafi sótt um hjálp, sem þeir þóttust geta vænzt af brbl. þeim, sem hér eru til umræðu. Þar að auki munu allmargir hafa hætt við umsóknir, af því að þeir sáu, að brbl. voru, — eða þeim sýndist það að minnsta kosti, að brbl. væru meira sýndarmennska, sem gæti ekki orðið þeim til gagns. Það vita allir, að það hefur orðið flestum eða öllum umsækjendum talsverð fyrirhöfn og útgjöld að láta meta hjá sér til lántöku og afla gagna, er verða að fylgja umsóknum þeirra. Ég hygg nú, að þeim þyki þeir allhart leiknir að hafa verið ginntir til þess konar útgjalda og fyrirhafnar, sem þeir hafa ekki gagn af. Sannleikurinn er sá, að meginhlutinn af lausaskuldum bændanna er til orðinn vegna bygginga og vélakaupa nú síðustu árin, síðan hinar miklu verðhækkanir dundu yfir. Þessar skuldir eru því að verulegu leyti við kaupfélög bænda og verzlanir, er þeir hafa skipti við, svo og við sparisjóðina, sem flestir eru smáir og þess ekki megnugir að lána fé nema til stutts tíma. Það er því óhugsandi að leysa lausaskuldamál bændanna á þann hátt að ætla þessum stofnunum að binda fé og taka bankavaxtabréfin upp í lausaskuldirnar, ef ekki væri hægt að selja þau.

Ég álít þess vegna, að það sé til stórbóta, að samizt hefur við Seðlabankann um að taka bréfin. En hitt er það, að ég hefði fellt mig miklu betur við, að það atriði hefði einnig verið lögfest á sama hátt og gert var í sambandi við skuldamál sjávarútvegsins. Og ég skil ekkert í því, af hverju farið er á annan hátt að í sambandi við bændur en við útvegsmenn. Ég álit, að báðar þessar stéttir séu — ég vil segja jafnþýðingarmiklar fyrir þjóðarheildina og þjóðarbúskapinn, og ég held, að bændastéttin sé ekki þekkt að þeirri óreiðu í fjármálum, að það sé ástæða til þess að hafa aðra framkomu í hennar garð í þessum efnum en annarra. Ég held því eindregið fram, að peningastofnanir þjóðarinnar hafi ekki þá reynslu af viðskiptum sínum við bændastéttina, að slík framkoma við bændur, sem mér finnst að þetta frv. því miður geri ráð fyrir, sé réttlætanleg. En það er í fyrsta lagi það, að bændum eru gefnar vonir um úrlausn á vandræðum þeirra vegna lausaskulda, er safnazt hafa að mestu leyti vegna óviturlegra ráðstafana, sem ríkisvaldið hefur gert í efnahagsmálum þjóðarinnar, og svo, þegar til framkvæmdanna á að koma, þá verður a.m.k. ekki nærri öllum bændum gagn að þessu. Ég vil leyfa mér að skora á hv. stjórnarlið hér í hv. Alþingi annaðhvort að samþ. brtt. þeirra Skúla Guðmundssonar og Lúðvíks Jósefssonar á þskj. 133 eða þá að hv. fjhn. taki málið til nýrrar athugunar og geri tillögur um breytingar á frv., sem komið geta að sama gagni. Mér finnst það satt að segja til vansa fyrir Alþingi að afgr. þetta mál á þann hátt, sem meiri hluti fjhn. leggur til, með því að samþ. frv. óbreytt.

Þegar litið er til afstöðu hæstv. landbrh. í þessu máli, sem ég efast ekkert um að vill bændastéttinni vel, — það hef ég aldrei efazt um, — þá þykir mér afstaða hans koma satt að segja úr hörðustu átt. Mér er það í minni, að í kosningunum haustið 1959 lofaði hann því á fundum um allt Suðurland, framboðsfundunum, sem þá voru haldnir, að þegar hann og hans flokkur næðu völdum eftir kosningarnar, þá skyldi renna upp sælutími fyrir bændur. Hann sagði, að þá yrði afnumið yfirfærslugjaldið á vélum og öðrum rekstrarvörum bænda, en þessi gjöld kallaði hann framsóknarskatta. Hann ráðlagði bændum að fara sér hægt í því að kaupa vélar, því að það yrði allt annað, þegar framsóknarskattarnir yrðu afnumdir, — og vissulega munaði þó nokkuð um það, ég skal játa það, að þá hefðu vélarnar vitanlega lækkað í verði, — og það trúðu náttúrlega ýmsir þessu. En ég held, að þeir hafi orðið fyrir alldýrkeyptri reynslu af trúgirni sinni. Framsóknarskattarnir voru afnumdir, það vita allir. En það kom nokkuð í staðinn. Það kom í staðinn gengisfelling, sem hækkaði hlutina í verði, þannig að vél, sem kostaði með framsóknarskatti 54 þús. kr., kostar nú yfir 100 þús. kr. Þetta var skattlækkunin eða afnámið. En án þessara véla og margra annarra góðra hluta og tækja, sem nú fást, geta bændur ekki verið, og því hafa nú margir síðan haustið 1959, þegar hæstv. landbrh. gaf hin fögru loforð, orðið að kaupa þessar dýru vélar og hafa af þeim ástæðum stofnað til óhæfilegra lausaskulda, sem þeir nú stynja vissulega undir, og verzlanir og peningastofnanir eiga í erfiðleikum, af því að þær fá ekki greiddar þessar skuldir.

Mér finnst nú satt að segja, að það hvíli siðferðileg skylda á hæstv. landbrh. og þeim flokki, sem ber ábyrgð á ráðherranum, að koma nú til skjalanna og bæta, þótt í litlu sé, fyrir þá brigð, er orðið hefur á loforðum ráðherrans, þegar hann var að biðja bændur um atkvæði haustið 1959. Ég skil vel, þegar menn eru að leita atkvæða kjósenda, að þá eru þeir vissulega uppfullir af góðum vilja, en mér finnst, að menn eigi ekki að lofa öðru en því, sem þeir eru vissir um að geta staðið við.

Sunnlenzkir bændur hafa nú tekið þessi mál nokkuð til umr. á sínum vettvangi, eins og hér hefur verið sagt frá, og þeir héldu fund, eins og hér var getið um áðan, — það var 24. nóv., að ég ætla, sem þeir héldu kjörmannafund Stéttarsambands bænda á starfssvæði Búnaðarsambands Suðurlands. Þessi fundur var haldinn á Selfossi. Þeir töldu rétt, bændurnir á Suðurlandi, að taka þessi mál til athugunar á vettvangi síns stéttarfélags. Þarna á þessum fundi voru mættir tveir kjörmenn úr hverju búnaðarfélagi í Árnes- og Rangárvallasýslum og Vestur-Skaftafellssýslu. Auk þess kom þarna fjöldi annarra bænda af svæðinu, og tóku sumir þeirra þátt í umræðum, sem þarna voru á fundinum. Ég var ekki staddur þarna, og er ég þó kjörmaður í minni sveit, — ég var þá hér á Alþingi, — en annar maður mætti þar í minn stað, sannorður maður, sem ég trúi um frásagnir af þessum fundi. Hann sagði mér, að á fundinum hefði verið fullkomin eining um afstöðu til mála og að sjálfstæðisbændur, sem margir eiga sæti á þessum fundi, eru kjörmenn fyrir sín búnaðarfélög, hafi ekki síður en aðrir hvatt þar til þeirrar áskorunar, sem á fundinum var gerð. Ég hef nú þessa áskorun eða þessar tillögur hér við höndina, því að þær voru sendar hv. Alþingi, og þó að það hafi verið drepið á þær hér áður, ætla ég að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þetta:

„Kjörmannafundur Stéttarsambands bænda á starfssvæði Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Selfossi 24. nóv. 1961, skorar á Alþingi að setja inn í frv. til laga um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán ákvæði um eftirtalin atriði: 1) Seðlabankanum verði gert að skyldu að endurkaupa skuldabréf sparisjóða og verzlana úti á landi vegna lausaskulda bænda. 2) Vextir af væntanlegum föstum lánum verði ekki hærri en hjá sjávarútveginum af hliðstæðum lánum.“ — Þeir leggja áherzlu á þetta. „3) Stofnunum bændanna, sem vinna úr vörum þeirra, svo sem mjólkurbúum, sláturhúsum og frystihúsum, verði veitt sömu kjör varðandi lausaskuldir og hliðstæðum vinnslustöðvum sjávarútvegsins.

Selfossi, 29. nóv. 1961.

Virðingarfyllst, f.h. stjórnar Búnaðarsambands Suðurlands,

Hjalti Gestsson.“

Bændur í Suður-Þingeyjarsýslu tóku þetta mál einnig til umr. á fundi hjá sér, og það var 11. nóv.

Þeir gerðu eftirfarandi samþykkt: „Almennur bændafundur, haldinn að Hólmavaði 11. nóv. 1961, skorar á Alþingi að tryggja það, að vextir af lánum vegna breytinga á lausaskuldum bænda í föst lán njóti sömu kjara og gilda um hliðstæð lán hjá sjávarútveginum og að Seðlabankinn sé skyldur að kaupa skuldabréfin við nafnverði. Þessar tillögur óskast lagðar fyrir hið virðulega Alþingi.

Árnesi, 12. nóv. 1961.

Búnaðarsamband Suður-Þingeyinga, Hermóður Guðmundsson.“

Ég hef þá lýst því, hvernig bændur í tveimur mjög fjölmennum bændahéruðum hafa litið á þetta mál og hvaða tillögur þeir hafa gert. En það fer saman, álit bændanna á þessum svæðum og tillögur minni hl. fjhn. á þskj. 133.

Ég get ekki skilið svo við þessi fáu orð, sem ég hef hér sagt, að ég drepi ekki þá um leið á vaxtakjör landbúnaðarins yfirleitt með örfáum orðum.

Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að það hefur verið stefna Framsfl., að vaxtakjörum til atvinnuvega þjóðarinnar þurfi að stilla svo í hóf sem frekast er unnt. Var líka svo um hnútana búið viðvíkjandi hinum opinberu lánasjóðum landbúnaðarins, þar til núverandi hæstv. ríkisstj. tók völdin og lét það verða eitt af sínum fyrstu verkum að hækka vexti og stytta lánstíma og þannig stórþrengja möguleika þeirra bænda, sem enn áttu eftir að byggja og rækta á jörðum sínum. Það er nú orðinn sá reginmunur fyrir þessar sakir á aðstöðu þeirra, sem voru búnir að framkvæma umbætur, áður en viðreisn hæstv. ríkisstj. hófst, og hinna, sem áttu það eftir, að aldrei áður hefur slíkur aðstöðumunur verið til staðar, þar sem sumir búa nú við tiltölulega lágar lánsfjárhæðir vegna framkvæmda, sem unnar voru fyrir viðreisn, og þeir borga, þeir bændur, af þeim lánum 2½–4½ % vexti, og lánin eru til 20 eða 25 ára. En þeir, sem eru nú að framkvæma umbætur, þurfa að borga 6½% vexti með 5–10 ára styttri lánstíma en hinir. Það er ekki að furða, þótt ýmsir eigi í erfiðleikum, þegar svona ráðstafanir eru gerðar, um leið og gengisfelling er gerð og allar framkvæmdir náttúrlega af hennar völdum stórhækka allt verðlag og þá ekki sízt fjárfestingarframkvæmdir. Ég hygg þess vegna, að það verði varla um það deilt, ef menn á annað borð vilja ræða mál af nokkru viti og sanngirni, að fátt sé atvinnulífinu í heild eins nauðsynlegt og hóflegir vextir af því fé, sem nauðsynlegt kann að vera að taka til láns á hverjum tíma. Og ég vil hér, um leið og ég lýk máli mínu, minna á það, sem ég hef fengið upplýsingar um og ég hygg að sé rétt, að það er ólíku saman að jafna um íslenzk eða dönsk stjórnarvöld, hvað þau hafast að í þessum efnum. Mér er sagt, að danskir bændur búi við miklu hagstæðari lánakjör en stéttarbræður þeirra hér á Íslandi. Þar eru fasteignalán bændanna til 80 ára með 2% vöxtum. Það er ólík aðstaða eða sú, sem bændur hér eiga við að búa, þar sem nú á að leysa vandræði þau, sem viðreisnin hefur valdið bændunum, með því að láta þá borga 8% vexti af viðreisnarskuldunum.

Ég ætla nú ekki að lengja þetta meira. Ég kunni ekki við annað en láta þessi sjónarmið mín koma hér í ljós, um leið og þetta mál var rætt.