15.02.1962
Neðri deild: 49. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

21. mál, lausaskuldir bænda

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Hæstv. forseti. Það er í rauninni ekki margt, sem ég þarf að segja, vegna þess að þeir hv. þm., sem hafa talað hér og gagnrýnt það, sem ég sagði í ræðu minni, hafa ekki hrakið það, sem ég hef sagt. Þeir hafa reynt að gera það, en það hefur ekki tekizt.

Hv. 1. þm. Austf. talaði um, að lögin hafi verið botnlaus, þegar þau voru gefin út, með því að það hafi ekki verið ákveðið þar, að bankarnir væru skyldugir til þess að taka bréfin. Hitt er þó alveg víst, að meining ríkisstj. var sú, að lögin gætu náð tilgangi sinum, og hver sem talaði við mig s.l. sumar og ætíð síðan, eftir að lögin voru gefin út, mun ekki hafa heyrt annað frá minni hendi en það, að lögin ættu að ná tilgangi sínum, það yrði þannig um hnútana búið með samningum, að þetta mætti verða. Það eru því ekki nema getsakir einar, að þetta hafi ekki verið frá því fyrsta ætlun ríkisstj. Hitt skal ég svo alveg láta óátalið, þótt hv. 1. þm. Austf. þakki Framsfl. það, að hann er nú orðinn eftir atvikum ánægður með lögin, þakkar Framsfl. það, að samningar hafa tekizt við Seðlabankann og aðra banka. Ég öfunda hv. þm. ekkert af því, ef hann ætlar að reyna að telja landsmönnum trú um, að það sé framsóknarmönnum að þakka, að samningar hafa tekizt við bankana og Seðlabankann. Það er vitað, að ekki hafa þeir verið kvaddir þar til aðstoðar sérstaklega, t.d. hv. 1. þm. Austf., en liðsinni hans til alls góðs er vitanlega vel þegið, hvenær sem er.

Hv. þm. fullyrðir, að landbrh. hafi loks látið undan þunganum, samþykktum utan af landi og gagnrýni framsóknarmanna. En afstaða mín til málsins hefur alltaf verið ein og hin sama: að láta lögin koma að gagni. Fullyrðingar þessar meiða mig þess vegna ekki nokkurn hlut, þær eru aðeins sagðar af hv. þm., sem vill berja í brestina og segja í sínu málgagni, sem fer út um landið, að framsóknarmenn þrátt fyrir allt, þótt þeir séu ekki í stjórn, þá ráði þeir nú því, sem til bóta horfir.

Það eru nokkur tíðindi, sem hafa gerzt hér í dag, þegar hv. 2. þm. Sunnl. (AÞ) tekur að sér það lélega og ógeðslega starf að taka sér í munn það slúður, sem Tíminn hefur haft fram að bera oft undanfarið, t.d. það, að ég hafi ráðlagt bændum 1959 að kaupa ekki vélar, Ég lýsi því yfir hér í hv. Alþingi, að ég hef ekki dregið úr bændum að kaupa vélar, hvorki 1959 né í annan tíma, og hv. 2. þm. Sunnl. ætti, ef hann vill ekki minni maður heita, að nefna einhver nöfn, einhverja bændur, sem vilja vitna með honum í þessu efni. Og e.t.v. eigum við eftir að vera saman á stjórnmálafundum í Suðurlandskjördæmi aftur á ný. Þá gefst tækifæri til þess að spyrja fundarmenn að því, hvort þeir vilji vitna með þessum hv. þm. það slúður, sem hann hefur eftir Tímanum. (Gripið fram í: Ég kvíði ekki fyrir því.) Það er ágætt. Ég held, að hv. þm. ætti nú samt að bíða og vera ekki allt of bjartsýnn í þessu efni, því að ef ég þekki Sunnlendinga rétt, þá vitna þeir ekki með röngum málstað, ekki heldur flokksmenn hv. þm., og mér eru það hrein vonbrigði, að þessi hv. þm. skuli hafa lagzt svo lágt að taka sér í munn slúður Tímans í þessu efni.

Hitt er rétt, að ég talaði um framsóknarskattana, sem voru lagðir á allan almenning, ekki aðeins bændur, heldur og á allan almenning, og það munu flestir nú vera farnir að skilja, að það var gæfa íslenzku þjóðarinnar, að stefnuleysi vinstri stjórnarinnar, sem Framsfl. réð mestu um, réð ekki lengur.

Svo talar hv. 2. þm. Sunnl. um gengislækkun ríkisstj. alveg eins og núv. ríkisstj. hafi fellt gengið. Hann man ekki eftir því, að með yfirfærslugjaldinu 1958 var gengið fellt. Hann man ekki eftir því, að með þeirri skriðu, sem þá var losuð, hélt krónan áfram að lækka til ársloka þess árs. Ég veit ekki, hversu góður þessi hv. þm. er í reikningi, en ég hygg þó, að hann sé svo góður í reikningi, að hann geti gert sér grein fyrir því, að krónan var felld á árinu 1958 niður í það, sem hún var skráð í ársbyrjun 1960. Þess vegna er rangt að segja, að núverandi ríkisstj. hafi fellt gengið. Núverandi ríkisstj. tók sér forustu um það að skrá gengið eins og það raunverulega var, eftir að vinstri stjórnin lét af völdum, og það er nauðsynlegt, ef þessi hv. þm. hefur ekki vitað þetta fyrr, að hann geri sér þetta nú ljóst, áður en hann tekur aftur til máls.

Hv. þm. talar um, að það sé nauðsynlegt fyrir menn að gera sér grein fyrir brigðmælum mínum frá 1959, því að ég hafi þá lofað gulli og grænum skógum og batnandi tímum. Ég man það, og það munu Sunnlendingar líka muna, sem á fundunum voru, að ég gerði grein fyrir ástandinu eins og það var og að það yrði ekki bætt nema með því, að almenningur fengi skilning á því, að það yrði að gera róttækar aðgerðir, sem í bili gætu valdið nokkrum sársauka. Þetta er það, sem ég sagði. Þetta eru loforðin. En ég mun hafa bætt því við, að ef þjóðin öðlaðist þá gæfu að skapa sér þingmeirihluta, sem hefði djörfung til þess að taka á málunum, þá mundu koma batnandi tímar og það væri þess vegna ekki ástæða til svartsýni, þótt að kreppti í bili. Þetta voru loforðin, sem ég gaf 1959, og ef hv. 2. þm. Sunnl. man það ekki, þá er ég sannfærður um, að Sunnlendingar, sem á okkur hlustuðu, muna það, og það væri mér þess vegna fögnuður, ef það ætti eftir að vera, að við mættum mætast saman á fundum í Suðurlandskjördæmi og ræða það, sem gerzt hefur, og það, sem fram undan er.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. var með vangaveltur hér í annarri ræðu sinni. Það var þó auðheyrt á hv. þm., að það var ekki mikil ástæða til að gagnrýna lögin, sem hér er um að ræða, eftir að ég hafði haldið mína ræðu og gefið skýringar á lögunum, eins og þau raunverulega eru, því að það er eins og hv. þm. hafi ekki áttað sig á því, hvað í lögunum fólst, fyrr en hann hafði hlustað á mína ræðu. Og ég ætla ekki að segja hv. þm. það til lasts, síður en svo. Það er miklu frekar þakklætisvert, að hann virðist hafa tekið nokkrum rökum við það að hlusta á það, sem ég sagði áðan.

Hv. þm. var að tala um, hvort ætti að verðlauna þau fyrirtæki, kaupfélög og sparisjóði, sem væru í vanskilum við Seðlabankann, því að í bréfi Seðlabankans væri talað um að taka veðdeildarbréf upp í skuldir frá árinu 1961. Ég geri ekki ráð fyrir því, að það séu margar stofnanir í vanskilum við Seðlabankann, hvorki sparisjóðir né kaupfélög. Hins vegar skil ég það, að Seðlabankinn hefur orðað þetta bréf á þann veg, sem hann gerði, jafnvel þótt ekki væri nema einn sparisjóður eða eitt kaupfélag, sem hefði átt eftir að inna skyldur sínar af hendi. Ég hygg, að þarna sé ekki um stórt atriði að ræða, og við getum verið ánægðir með það, að í bréfi Seðlabankans felst það, að hann er reiðubúinn að taka veðbréfin af sparisjóðunum upp í bindingu, og það, sem fram yfir er, hefur hann einnig heitið að kaupa og leggja á bundinn reikning með 9% vöxtum, eins og vextirnir eru nú reiknaðir, og losa bréfin aftur, en þó ekki á skemmri tíma en þremur árum. Ég er sannfærður um, að þeir, sem stjórna sparisjóðunum, eru ánægðir með þessa lausn, — alveg sannfærður um það, — og það er einnig svo með kaupfélögin, á meðan bindingarskyldan hvílir á þeim, þá munu þau vera ánægð með að láta bréf upp í bindinguna. Það, sem fram yfir er, munu viðskiptabankarnir taka til lækkunar á skuldum kaupfélaga, annarra verzlana og SÍS. Ég er einnig sannfærður um, að þessi fyrirtæki eru ánægð með að hafa tækifæri til þess að lækka skuldir sinar við viðskiptabankana. Þessi þáttur málsins er þess vegna alveg ljós, og er ég þess vegna undrandi á því, að eftir að hv. þm. hafa heyrt bréf Seðlabankans, eru þeir enn að tala um að samþykkja brtt. við frv. um að skylda Seðlabankann til þess að kaupa bréfin. Hvers konar hráskinnaleikur er þetta, sem hér er leikinn? Hvers vegna ekki að lýsa því yfir, að till. um að skylda Seðlabankann til að kaupa bréfin er nú orðin óþörf? Hvers vegna ekki að bjóðast til að taka till. aftur? Nei, þrátt fyrir loforð Seðlabankans á að halda áfram að greiða atkvæði um þessa till., og sú till. var alltaf óþörf, vegna þess að það var frá því fyrsta ákveðið að láta lögin ná tilgangi sínum. Það var frá því fyrsta ákveðið, og þarf þess vegna ekki að vera að halda því fram, að það hafi verið samið við bankana vegna þess, að einhver þungi hafi komið frá framsóknarmönnum hvað þetta snertir.

Fullyrðing hv. 1. þm. Norðurl. v. um, að bændur hafi ekki sótt um lánin vegna þess, að þeir hafi ekki trúað því, að í lögunum fælist sú lausn, sem þeir óska eftir, er vitanlega algerlega út í bláinn. Hv. þm. vitnar í sparisjóðina, og hann segir, að bændur hafi spurt sparisjóðina um það fyrir fram, hvort þeir vildu taka bréfin, og sparisjóðirnir hafi undir flestum kringumstæðum neitað því. En ég verð að segja það, að bændum er ekki rétt lýst, ef þeir hafa látið sér nægja eða tekið gilda neitun eins manns, þótt hann væri sparisjóðsstjóri. Eðlilegra hefði verið að leita upplýsinga á öðrum stöðum, sem gátu svarað fullum hálsi, ef ekki þótti ómaksins vert að sækja um þessa fyrirgreiðslu án þess að hafa 100% tryggingu fyrir því, að hún væri tekin til greina. Það er rétt, það er einhver kostnaður við það að virða hús og jörð og mannvirki á jörðunum, en hann er ekki svo mikill, að bændur hefðu ekki viljað taka áhættuna af því, þótt það lægi ekki fyrir fullkomlega, að sú lausn fælist í lögunum, sem þeir óskuðu eftir. Og ég segi þess vegna, að hafi bændur ekki talið ómaksins vert í sumar að sækja um lánin, vegna þess að þeir bjuggust ekki við nægilegri fyrirgreiðslu, þá er það ekki vegna þess, að einhver sparisjóðsstjóri hafi talið vandkvæði á að taka bréfin, heldur er það vegna þess, að einhverjir aðrir hafa talið heppilegt í leiðinni að segja: Þetta er nú svipað svo mörgu, sem kemur frá núv. ríkisstj., að ekki er á það að treysta. — Og í sannleika sagt, þá hef ég heyrt þetta orðalag frá vissum mönnum, en sem betur fer, mun þetta ekki hafa haft áhrif á marga bændur. Það hafa 1200–1300 bændur sótt um, og það verður að ætla, að það séu flestir þeirra, sem töldu sér nauðsyn á því að breyta skuldunum.

Hv. þm. var að tala um, að bændur hefðu ekki trúað því, að þeir gætu fengið nema kannske helming af því, sem þeir sæktu um. Hvaðan fengu þeir þá vitneskju? Ekki er talað um það í lögunum. Hitt er miklu líklegra, að bændur geti yfirleitt breytt öllum lausaskuldum sínum í föst lán samkvæmt þessum lögum, því að það vill svo til, að eftir hinni nýju virðingu eru eignir bænda svo miklar, að þeir hafa tilskilin veð. Þeir, sem búa á ríkisjörðum, sem framkvæmdir hafa verið gerðar á, ræktun, húsabyggingar og annað fleira, þeir eiga auðvitað að fá veðleyfi samkvæmt reglunni, til þess að þeir geti orðið með. Og ég er sannfærður um það, að margir, sem eiga jarðir í ábúð annarra, þó að það séu einstaklingar, þeir muni fúsir til að greiða fyrir ábúandanum með því að gefa honum veðleyfi innan skynsamlegra takmarka.

Eitt er það, sem vekur undrun mína, að hv. stjórnarandstæðingar, sem hér hafa talað, hafa haldið áfram fullyrðingunni um það, að núverandi ríkisstj. væri að mismuna landbúnaði og sjávarútvegi með því að gera ekki ráð fyrir að lána út á vélar samkvæmt þessum lögum. Og mér er nær að halda, að hv. 1. þm. Norðurl. v. hafi ekki hlustað nema með öðru eyranu áðan, þegar ég var að tala, úr því að hann heldur áfram fullyrðingum sínum um vélarnar, vegna þess að það er fram tekið, að það er meiningin að leysa þessi svokölluðu vélalán með öðrum hætti. Vélarnar eiga ekki heima í þessum lögum, og hvort skyldi vera betra fyrir bændur að fá lán, t.d. úr ræktunarsjóði, til 8 eða 10 ára, jafnvel þó að það sé ekki nema til 8 ára, — ég skal ekkert fullyrða um, hvort það sé eðlilegt að lána út á dráttarvélar — til 10 ára, ég býst við því, að það sé alveg verjandi, — hvort skyldu þeir heldur vilja fá lán úr ræktunarsjóði út á vélarnar en að það væri tekið með í þessu? Ég þarf ekki að spyrja að því. Ég er sannfærður um, að bændur taka miklu fremur þann kostinn að fá ræktunarsjóðs- eða veðdeildarlán út á vélarnar, ekki aðeins það, sem þeir koma til með að kaupa á næsta vori, heldur einnig það, sem þeir keyptu s.l. ár eða jafnvel 1960, ef kostur er gefinn á því. Og bændur fá ekki þá fyrirgreiðslu í vélalánum, sem þeir nauðsynlega þurfa, nema með því að það sé útvegað nýtt fé, en samkv. þessum lögum er ekki um neitt nýtt fé að ræða frekar en lögunum varðandi sjávarútveginn.

Hv. þm. töluðu um vinnslustöðvar landbúnaðarins af miklum misskilningi, og skil ég ekki, hvernig á því stendur, vegna þess að þeir ættu að vera því kunnugir. Það eru ekki lausaskuldirnar, sem þjá vinnslustöðvar landbúnaðarins, það er fjárskortur. Að hvaða gagni kæmi t.d. Mjólkursamsölunni, að það væri einhver heimild í þessum lögum til þess, að hún kæmist hér inn? Að hvaða gagni kæmi Sláturfélagi Suðurlands, þótt það væri heimild til að taka það hér inn? Og skyldi ekki vera á sama hátt eitthvað svipað um aðrar vinnslustöðvar landbúnaðarins, t.d. á vegum kaupfélaganna eða SÍS? Þessar stofnanir vantar nýtt fé, og það er mjög æskilegt að útvega það með einhverjum hætti, og það er það, sem núverandi ríkisstj. hefur hug á.

Ég skrifaði það ekki hjá mér, en mig minnir, að hv. 2. þm. Sunnl. væri svo smekklegur hér áðan að tala um, að núverandi ríkisstj. hefði eitthvað svikið í þessu efni, að hún hefði eitthvað svikið með því, að hún hefði ekki enn lánað út á vélar, hún hafi eitthvað svikið með því, að hún hafi ekki enn útvegað nægileg lán vinnslustöðvum landbúnaðarins. Hv. þm. talaði ekki hátt um það, meðan hann studdi fyrrv. hæstv. fjmrh., hv. 1. þm. Austf., sem fjmrh., — þá talaði hann ekki hátt um það að útvega lán út á dráttarvélar eða lán til vinnslustöðva landbúnaðarins.

Og það eru leiðinlegar fullyrðingar, sem þessir hv. þm. hafa í frammi í blekkingaskyni. Ég man eftir því, að nú fyrir nokkrum dögum las ég leiðara í Tímanum, þar sem vitnað var í grein, sem forstjóri SÍS hafði skrifað, og þar er beinlínis sagt, að sjávarútvegurinn fái a.m.k. 75% afurðalán, en landbúnaðurinn 55, og að lán til landbúnaðarins hafi lækkað óheyrilega mikið nú upp á síðkastið. Það skal viðurkennt, að það væri æskilegt, að afurðalán til landbúnaðar og sjávarútvegs væru hærri, en að fara svona með tölur og með heimildir í riti, sem fer inn á flesta sveitabæi, það er beinlínis móðgun við fólkið og við lesendur, því að það er vitað, að þetta er ekki satt. Eru ekki útvegsmenn nú að heimta hækkuð afurðalán? Hafa þeir ekki talað um það í blaðagreinum, að afurðalánin væru jafnvel ekki nema 50% eða 55%? Svo segir forstjóri SÍS, að þau séu a.m.k. 75%.

Þá var enn fremur í sama leiðara vitnað í, að ríkisstj. stæði ekki við það að greiða útflutningsuppbætur eins og lög stæðu til, vegna þess að það hefðu verið ógreiddar 17.6 millj. við s.l. áramót. Þess er þó að geta, að þessar 17.6 millj. kr. voru ekki fallnar í gjalddaga. Þær eiga að greiðast af fjárlögum 1962. Þessi upphæð er vegna útflutningsuppbóta á afurðir, sem tilheyra verðlagsárinu frá 1. sept. 1961 til 31. ágúst 1962, og var ekki gjaldfallin fyrr en eftir s.l. áramót. Forstjórinn kvartaði undan því að fá ekki þessa peninga fyrir áramót. En hvernig hefði hann farið að, ef útflutningsuppbæturnar hefðu ekki átt að greiðast, ef lögin hefðu ekki verið í því formi, sem þau nú eru? Og það er rétt að koma einmitt að þessu máli, vegna þess að hv. 1. þm. Norðurl. v. líkti því saman, þeim rétti, sem bændurnir höfðu áður, að hafa leyfi til þess að hækka landbúnaðarvörur á innlendum markaði og vinna þannig upp tapið, og þeirri sölu og verðtryggingu, sem bændurnir nú hafa með því að fá 45–50 millj. kr. greiddar í útflutningsuppbætur á þessu ári. Jú, bændur höfðu þennan rétt. Þeir höfðu vissulega réttinn frá 1947 eða jafnvel frá 1943 til þess að vinna upp hallann af útfluttum vörum með því að hækka þær á innlendum markaði. En hvernig tókst það 1958 og 1959? Hvernig var það? Og skyldi hv. 2. þm. Sunnl. muna það, þegar Mjólkurbú Flóamanna vantaði 22 aura 1958 til þess að geta borgað verðgrundvöllinn, vegna þess að það var tap á útfluttum ostum? (Forseti: Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, hvort hann hafi senn lokið ræðu sinni.) Ég skal ljúka máli mínu eftir eina mínútu. — Hv. 2. þm. Sunnl. var þó svo vitiborinn að vitna ekki í þetta ákvæði og leggja það ekki að jöfnu, eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. gerði.

Útflutningstryggingin, sem bændur nú hafa, er verðtrygging á öllu því, sem þeir framleiða. Þessa verðtryggingu höfðu þeir ekki áður, og þrátt fyrir það ákvæði, sem var í lögum um heimildina til þess að hækka útsöluverð innanlands til þess að vinna upp tapið, þá tókst það ekki. Það var ekki hægt af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi var aldrei hægt að áætla fyrir fram, hversu mikið þyrfti að flytja út nákvæmlega. Í öðru lagi þorðu þeir, sem með verðlagninguna fóru, beinlínis ekki að hækka verðið svo mikið innanlands, að það gæti borið hallann uppi, af ótta við, að það leiddi til meiri útflutnings og þeir ynnu bókstaflega ekkert með því að hækka verðið. Og þótt hér finnist hv. þingmenn á Alþingi, sem kunna ekki að meta þetta ákvæði í lögunum, þá kunna bændurnir það, þá kann stjórn Stéttarsambandsins það og framleiðsluráð landbúnaðarins, og skilja, að þetta ákvæði er þeim mikils virði og að þetta ákvæði hefur ekki annar atvinnuvegur í lögum. Þess vegna er eðlilegt, að spurt sé, þegar hv. þingmenn segja, að bændur eigi að hafa sama rétt og sjávarútvegurinn, hvort þeir meini það, að landbúnaðurinn megi þá ekki hafa annan eða meiri rétt en sjávarútvegurinn, eins og landbúnaðurinn hefur nú, meðan þetta ákvæði er í lögum.