16.02.1962
Neðri deild: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

21. mál, lausaskuldir bænda

Gunnar Gíslason:

Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. að ráði, en ég kann þó ekki við, að þær líði svo, að ég færi ekki hæstv. landbrh. þakkir fyrir að hafa beitt sér fyrir mikilvægri aðstoð bændum til handa, þeirri aðstoð, sem felst í brbl. frá 15. júlí í sumar um að breyta lausaskuldum bænda í föst lán, sem eru nú hér til umr. í deildinni. Það er e.t.v. til of mikils mælzt, en þó hefði mér ekki þótt ótilhlýðilegt, að einhver þakkarorð hefðu fallið í garð hæstv. ráðh. í ræðum þeirra framsóknarmanna, sem hér hafa talað. Ég segi þetta af því, að þessir menn láta ætið svo, að þeir séu hinir einu sönnu og réttu málsvarar bændastéttarinnar. Það mætti því ætla, að þeir gleddust yfir þeirri aðstoð, sem bændum er veitt með þessum lögum. En það er nú eitthvað annað. Ræður þeirra eru fullar af gremju, og þeir hafa allt á hornum sér, og jafnvel jafnhógvær maður og sanngjarn sem hv. 2. þm. Sunnl. er getur ekki stillt sig um að ráðast á hæstv. landbrh. með miður fallegu orðbragði og notar að vopnum ómerkar ófrægingarsögur um ráðh., sem birtast í Tímanum. Ekki eru þau vopn bitmikil. Og ég er alveg viss um, að hv. 2. þm. Sunnl. sannfærist um það m.a. af forgöngu hæstv. landbrh. í því máli, sem hér er til umr., að það er með öllu ómaklegt að gefa í skyn, svo sem þessi hv. þm. gerði í ræðu sinni hér í gær, að afstaða hæstv. landbrh. til bændanna og þeirra málefna mótist af óefndum loforðum. Ég held líka, að þessi hv. þm. hafi séð strax eftir þessum ummælum sínum, því að hann gat þess rétt á eftir, að hann vissi vel, að hæstv. landbrh. vildi bændum vel, og það er það, sem ég veit að hv. 2. þm. Sunnl. meinar. Það veit ég af minni góðu kynningu við hann.

Ein brtt., sem hv. minni hl. fjhn. flytur á þskj. 133, er um að skylda Seðlabankann til þess að kaupa bankavaxtabréfin. Þegar nú er upplýst, að samið hefur verið við Seðlabankann um það, að hann taki þessi bréf, þá er vitaskuld eðlilegast, að þessi brtt. verði tekin til baka og komi ekki til atkv. hér í þinginu. Mér finnst það hreint og beint vera móðgun við þessa stofnun, Seðlabankann, ef við samþykkjum, að hann verði skyldaður til þess að taka bréfin, eftir að við hann hefur verið samið.

Þá heimtar hv. 1. þm. Norðurl. v., að umsóknarfrestur um lánin verði framlengdur. Ég get ekki neitað því, að ég er dálítið hissa á þessu. Þessi hv. þm. stóð hér upp í deildinni á þriðjudaginn var og kvaddi sér hljóðs utan dagskrár og býsnaðist yfir þeim drætti, sem væri orðinn á því, að brbl. yrðu afgreidd í þinginu og bændur fengju þessi lán. Ég fæ ekki betur séð, ef farið væri nú eftir óskum þessa hv. þm., en að það mundi tefja um langan tíma, að bændur fengju þessi lán. Og ég sé heldur enga ástæðu til þess að framlengja umsóknarfrestinn. Bændur, sem töldu sig þurfa á þeirri aðstoð að halda, sem í brbl. felst, höfðu óneitanlega nægan tíma til þess að sækja um þessi lán og skila umsóknum sínum og plöggum til veðdeildar Búnaðarbankans. Og það verður að líta svo á, að það hafi þeir gert, sem töldu sig í þörf fyrir lánin.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. og einnig hv. 1. þm. Austf. töldu raunar, að brbl. væru þannig úr garði gerð, að ýmsir bændur hefðu ekki talið

Þau sér að gagni koma, og þess vegna ekki sótt um lánin. Ég held nú, að hv. 1. þm. Austf. hafi átt gott ráð í fórum sínum til þess að ráðleggja bændum í þessum efnum. Hann þurfti ekki annað en skrifa grein í Tímann og segja sem svo: Jú, þessi brbl. Ingólfs Jónssonar eru ekki mikils virði. En bændur góðir, blessaðir sækið þið um lánin. Hin viturlega og skelegga stjórnarandstaða mín tryggir það, að frá þessum málum verður gengið þannig, að þið megið vel við una. — En þetta gerði ekki þessi hv. þm. Hvers vegna gerði hann það ekki? E.t.v. hefur hann ekki haft tíma til þess. Við vissum það vel allir, að þessi hv. þm. hafði í mörgu að snúast á s.l. sumri, en sjálfsagt hefði hann getað tekið sér einhverja stund frá öllu verkfallabröltinu til þess að ráðleggja bændum heilt í þessum efnum.

Eins og ég sagði, hlýt ég að líta svo á, að þeir, sem á þessum lánum hafa þurft að halda, hafi sótt um þau. Og nú fá bændur þessi lán, og það er það, sem við hljótum öll að fagna. Og þeir framsóknarmenn ættu að fagna því líka. Það er með öllu óhugsandi fyrir þá að nota þetta mál til árása á hæstv. landbrh. Honum er afgreiðsla málsins til sóma, en e.t.v. er það nú það, sem gremjunni veldur.