16.02.1962
Neðri deild: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

21. mál, lausaskuldir bænda

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það er búið að ræða þetta mál mikið og af misjafnlega mikilli sanngirni. Það var gamall siður á Íslandi að bjóða gestum inn, og gestrisnin hefur verið eitt af aðalsmerkjum íslenzku þjóðarinnar. Eitt af menningarmálum hennar, sem alltaf hefur verið við lýði, er gestrisnin, og börnunum var strax kennt að þakka fyrir góðgerðirnar. Ef þau gerðu það ekki, var litið svo á, að þau kynnu enga mannasiði. Það er enn fremur venja, ef einhverjum er gerður greiði, að hann þakki fyrir það. Í stjórnmálunum er þessu hagað á nokkuð annan veg. Þar reynir hver að hæla sjálfum sér og sínum flokki og gera lítið úr andstæðingunum. Ég er í vafa um, að stjórnmálaflokkarnir vinni mikið við þetta. Það er vafasamt að „verma sitt hræ við annarra eld og eigna sér bráð, sem af hinum var felld“, og í heildinni held ég, að það verði drýgst að unna bæði einstaklingum og andstöðuflokkum sannmælis, viðurkenna það, sem vel er gert, en deila á það, sem ástæða er til að deila á. Þá verði meira mark tekið á því, sem blöð og flokksforustumenn segja.

Ég skal játa, að þegar ég las þetta frv. fyrst, fannst mér það ófullkomið, og það er það. Það var ekki neitt tekið fram um það í þessu frv., að hægt væri að losna við bréfin, og vitað var, að ef það yrði ekki tryggt á einhvern hátt, kæmu lánin að tiltölulega litlu gagni. Það var enn fremur ekkert talað um vexti, og fleiri atriði voru óljós í þessu frv. Segja má, að með reglugerðarákvæðum hefði mikið mátt laga þetta. Í framsöguræðu virtist það koma fram hjá landbrh., að hann gerði ekki ráð fyrir því, að það væri fullkomlega tryggt, að hægt væri að losna við bréfin. Og ég held, að á því stigi hafi það alls ekki verið. Þetta leiddi til þess, að ýmsir bændur litu svo á, að það væri ekki til neins fyrir þá að sækja um lán. Þegar þeir töluðu við þá, sem stjórnuðu sparisjóðum og kaupfélögum, þá vissi ég, að sumir þeirra fengu þau svör, að það kæmi ekki til mála, að bréfin væru tekin, nema það væri tryggt, að bankarnir tækju þau. Ég bendi á þetta atriði vegna þess, að af þessari ástæðu er það dálítið ósanngjarnt að gefa ekki bændum kost á því að sækja um lán, eftir að lögin hafa verið endanlega samþykkt og það liggur fyrir, að nú er nokkurn veginn tryggt, að hægt verður að losna við bréfin. Það er ranglátt, vegna þess að þetta var ekki tekið fram í lögunum í byrjun og mönnum voru ekki einu sinni gefin nein loforð um það, það var aðeins sagt um þær skuldir, sem væru við Búnaðarbankann og Landsbankann, beinar skuldir, þau mundu verða tekin þar, en ekki hjá öðrum. Þetta hlýtur landbrh. að vita. Hitt skal ég játa, að mikið hefur áunnizt, og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að landbrh. hefur orðið að hafa mikið fyrir þessu, og það er ekki nema sjálfsagt að þakka það og meta, sem vel er gert. Og ég vil enn fremur þakka þeim mönnum innan stjórnarliðsins, sem mest hafa að þessu unnið, því að vitanlega hefur landbrh. ekki róið þar einn á báti. Og það er rétt einnig að meta það við þá menn, sem hafa lítilla hagsmuna að gæta, bæði hvað atkvæði snertir og aðstöðu þeirra í atvinnulífinu, að þeir hafa fallizt á þessa lausn, því að þetta er meira en lítill greiði við bændur. Það hafa verið gerðar tvær kreppuráðstafanir, bæði gagnvart útgerðarmönnum og bændum. Það var talað um viðreisnarskuldir hér í gær. Það er nokkuð mikið sannmæli í því, þegar talað er um viðreisnarskuldir, því að talsvert mikið af þeim skuldum, sem þegar hafa lent í þessum kreppuráðstöfunum, hefur myndazt vegna aðgerða efnahagsráðstafananna. En þetta er aðeins byrjunin, þær eiga mikið eftir að aukast enn, viðreisnarskuldirnar, og verða erfiðar viðfangs.

Ég áleit, að það hefði verið of langt gengið í þessum ráðstöfunum strax í byrjun. Ég hélt ekki öðru fram en því, sem ég meinti í því efni. Landbrh. lét að því liggja í gær, að núv. ríkisstj. hefði ekki fellt gengið, heldur sú fyrrv. En þetta er ekki rétt. Í þeim tveimur gengisfellingum, sem verið hafa gerðar, lætur nærri, að gengið hafi verið fellt um 40%. Þetta þýðir það, að þeir ríkari í þjóðfélaginu hafa grætt, en þeir fátækari hafa tapað. Ofan á þessar gengislækkanir bætist svo vaxtahækkunin, og þó skal ég játa, að vaxtahækkunin var ekki nærri eins hættuleg eða skaðleg fyrir efnahagskerfið og gengislækkanir. Við hljótum því að játa, þegar litið er til þess, að þetta eru einhver tvö beztu ár, sem komið hafa yfir atvinnulífið, þá hlýtur eitthvað að hafa verið athugavert við viðreisnina, því að ekkert neyðarástand ríkti áður, það vitum við vel, þó að það næðist ekki samkomulag í vinstri stjórninni um að leysa vandamálin. Það þurfti ekkert annað að gera en að taka vísitöluspóluna úr gangi. Ef vinstri stjórnin hefði getað komið sér saman um það, þá hefði hún getað setið enn. Annað þurfti ekki að gera.

S.l. ár hefur verið sérstaklega gott fyrir sjávarútveginn, sem skapar aðalgjaldeyristekjurnar, og ástæðan fyrir því er m.a. sú, að tæknin hefur aukizt stórkostlega. Síldarleitartækin hafa skapað mikinn afla, og fiskaflinn hefur orðið miklu meiri vegna landhelginnar. Undirstaðan að þeirri velgengni er ráðstafanirnar um útfærslu landhelginnar. Núv. stjórn hefur verið heppin, a.m.k. s.l. ár, og það á hún að nokkru leyti þeirri stjórn, sem sat á undan henni, að þakka. Það er þannig, að uppskeran kemur á eftir sáningunni.

Ég held, að bændur hafi ekki undan þessari lausn að kvarta viðvíkjandi því að afsetja skuldabréfin. Ég hef kynnzt ofur lítið skuldabréfaverzluninni hér í bænum, og hún er fyrir neðan allar hellur. Það er þannig með samvinnubyggingarfélögin, að þau fá ríkistryggð skuldabréf, handhafaskuldabréf, sem nemur eitthvað 730 kr. fyrir hvern rúmmetra í íbúð. Þetta eru miklir peningar, og væri mikil hjálp, ef hægt væri að losna við þessi bréf. En það er nú eitthvað annað. Þau hafa gengið manna á milli frá 60–70%. Ég hef ekki kynnzt þessu verzlunarkerfi fyrr en nú í vetur. Og ég undrast, að fólkið skuli geta sætt sig við þessa lausn á þessum málum. Gangurinn er þannig, að þeir, sem hafa peninga, kaupa skuldabréf með stórum afslætti, þannig að ofan á gengislækkanirnar og háa vexti neyðist fólkið til að selja þessi handhafaskuldabréf með 30–40% afslætti. Og ég furða mig á því, að fulltrúar Reykjavíkurbæjar skuli ekki hafa gert meira en þeir hafa gert til þess að tryggja sölu á þessum bréfum á einhvern hátt, því að þarna er fólkinu beinlínis fleygt í fangið á okrurunum. Ég álít, að þetta ástand sé algerlega óviðunandi, og væri miklu skynsamlegra og mannlegra af ríkinu að lækka lánsupphæðina, en tryggja það, að hægt sé að selja skuldabréfin. Svo er braskað með þetta með ótal milliliðum, í mörgum tilfellum sennilega í gegnum lögfræðinga, og allir græða nema þeir, sem eru að byggja. Ég tel, að ekki sé réttilega búið að þessu fólki. Og ég held, að Framsfl., ef aðrir flokkar vilja ekki aðstoða hann við það, ætti að gera þetta að baráttumáli, því að þetta er réttlætismál, hvað sem öllu öðru líður, og við höfum alltaf elskað bæði vizkuna og réttlætið, framsóknarmennirnir, eins og þið vitið allir.

Annað atriðið, sem ég ætlaði að minnast á, er viðvíkjandi vöxtum af þessum lánum. Það hefur komið fram í umr., að þeir eigi að vera 8%. Ég skal játa, að þetta eru nokkuð háir vextir, og það er villandi að halda, að viðkomandi aðili fái þetta endurgreitt í afurðaverðinu, því að eins og ég sýndi fram á í grein, sem ég skrifaði í vetur, þá eru það þeir, sem lítið skulda, sem græða á þessu, en ekki þeir, sem mikið skulda, því að allir fá sama verð fyrir afurðirnar, og þess vegna verða teknir meðaltalsvextir hjá bændum yfirleitt, þannig að þeir, sem borga háa vexti og skulda mikið, fá ekki nema lítið brot af því, sem þeir í raun og veru verða að borga, en þeir, sem skulda lítið og hafa hagstæða vexti, þeir njóta þess, að aðrir skulda mikið og hafa háa vexti, svo að þetta kemur engan veginn réttlátlega niður, þó að kannske byrðin komi að einhverju leyti á neytendur landsins, það er ekki nein afsökun. En það má vel vera, og ég get vel fallizt á, að það sé óþægilegt fyrir stjórnarflokkana, eins og sakir standa, að hafa vextina lægri, vegna þess að erfiðara verði að losna við bréfin. Það álít ég vera fyrir öllu. En þó að það verði ekki ástæða til þess eða þeir þykist ekki geta núna haft vextina lægri, þá vildi ég leyfa mér að benda hæstv. landbrh. á það, hvort það mundi ekki vera vegur, — af því að ég geri ekki ráð fyrir, að okkar brtt. verði samþ., því að við eigum því ekki að venjast, — hvort það mundi ekki vera vegur að búa skuldabréfin þannig út, að það væri tekið fram, að ef vextir lækkuðu almennt, þá lækkuðu þessir vextir hliðstætt öðrum vöxtum. Ef það yrði gert, þá teldi ég það vera mikið til bóta. Ég satt að segja hef þá trú, að þegar liður að kosningum, muni hæstv. ríkisstj. lækka vextina, því að það er oftast nær þannig, að þegar kosningaskrekkurinn kemur í menn, þá verða þeir liprari og líta meira á hag kjósendanna en rétt eftir kosningarnar, og þá vafalaust munu þeir halda því fram, að viðreisnin sé búin að gera svo mikið gagn, að það sé hægt að lækka vextina, og það er í sjálfu sér alveg aukaatriði og mannlegt, þó að þeir haldi því kannske fram. Aðalatriðið er það, ef væri hægt að framkvæma einhverja vaxtalækkun.

Ég efast ekki um, að landbrh. vill fylgja þessu eftir, eins og hann getur, og ég hef aldrei efazt um það, að hann hafi viljað leysa þetta mál á eins hagkvæman hátt og hægt hefur verið. En það er náttúrlega við ramman reip að draga í mörgu tilfelli, og hefur vafalaust verið þannig ástatt hjá hæstv. landbrh. En það eru þessi tvö atriði, sem væri hægt í framkvæmdinni að taka til greina: Það væri að gefa mönnum kost á því núna, eftir að búið er að ganga endanlega frá þessum málum, að sækja um lán. Það er aukaatriði í því tilfelli, hvort blöðin hafa rekið áróður eða ekki með eða móti þessu, það má ekki láta einstaka bændur uppi í sveitum gjalda þess, hvað blöðin eru að segja, því að þeir ráða hreint engu um það, hvað skrifað er í þessi blöð, og það er algerlega ranglátt að láta þá gjalda þess, hvort blöðin hafa hvatt þá til þess að sækja um lán eða ekki, og þetta er sanngirnismál. Og í öðru lagi að hafa vextina ekki þannig bindandi, að þeir lækki ekki, ef aðrir vextir lækka. Ég er ekki í vafa um, að þrátt fyrir það, þó að megi eitthvað að þessu finna og við vildum kannske hafa þetta eitthvað fullkomnara og betra, þá er þetta stórhjálp fyrir íslenzka bændur og ekki nema sjálfsagt að meta það á réttan hátt. Ég veit, að einstaka menn hefðu neyðzt til að hætta að búa, ef þessi fyrirgreiðsla hefði ekki fengizt.