16.02.1962
Neðri deild: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

21. mál, lausaskuldir bænda

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf nú ekki að vera langorður. Það, sem fram hefur komið hér, er ekki þannig vaxið margt af því, að það þurfi miklu að svara.

Hv. síðasti ræðumaður vildi vera sanngjarn í sínum málflutningi, eins og hann er oftast, og er rétt að taka til athugunar nokkuð af því, sem hann var að segja.

Hv. þm. talaði um, að það hafi ekki upphaflega verið tryggt, að bréfin yrðu tekin, og þess vegna hafi margir bændur ekki sótt um lánin. Það má segja, á meðan ekki var búið að fá samkomulag við bankana um að kaupa bréfin, að þetta væri ekki tryggt. Eigi að síður finnst mér, að bændur hefðu ekki átt að láta það verða til þess, að þeir sæktu ekki um þessa fyrirgreiðslu, því að kostnaðurinn og fyrirhöfnin, sem af því leiddi, eru ekki svo mikil, að það hefði hver maður átt að gera, sem taldi sig hafa þörf á fyrirgreiðslunni, enda þótt það væri ekki alveg öruggt 100%, að fyrirgreiðslan væri fyrir hendi. Og með því að 1200–1300 bændur hafa sótt um fyrirgreiðsluna, þá virðist mér, að það sanni, að menn hafi haft þennan skilning á málinu, og ég tel, að það sé ekki eðlilegt og réttmætt að tefja málið nú á ný með því að fara að auglýsa nýjan umsóknarfrest.

Það ættu margir að muna eftir því, sem sagt var um þessi mál í haust. Það var alltaf frá stjórnarinnar hendi, og ég veit, að ef flett er upp í ræðum eftir mig, að þá má finna þar þau orð eða þann skilning, að það hafi alltaf verið ætlun ríkisstj. að láta lögin koma að gagni, og áreiðanlega stendur það einhvers staðar skrifað eftir mér, að sparisjóðirnir geti á engan hátt tekið á sig vaxtatapið, sem af því leiðir að taka bréfin í staðinn fyrir víxla og skuldir, sem með þeim voru. Og einmitt vegna þessarar fullyrðingar hlýtur að vera eðlilegt að draga þá ályktun, þrátt fyrir það, sem hv. 1. þm. Austf. vildi halda fram hér áðan, að það hafi alltaf verið ætlun ríkisstj. og ákveðinn vilji að fá Seðlabankann til þess að gera sparisjóðunum fært að taka bréfin, því að það hefur aldrei farið á milli mála, að sparisjóðir geta ekki tekið á sig 2% vaxtatap, eins og hér er um að ræða. Það hefur heldur aldrei staðið til og alveg útilokað, að nokkrum hafi dottið það í hug, að bændurnir sjálfir tækju að sér að semja um þessi mál við banka og lánardrottna.

Hv. 1. þm. Austf. las hér upp ræðupóst áðan, sem ég hafði flutt í haust, og hann taldi, að með því gæti hann sannað, að það hafi ekki verið ætlun ríkisstj. frá upphafi að gera bréfin gjaldgeng. Sannleikurinn er, að einmitt það, sem hann las upp, staðfestir það, sem ég sagði hér í gær og allir vita að það var í fyrstunni aðeins samið við ríkisbankana um, að þeir tækju bréf vegna víxla, sem þeir hefðu keypt af bændum. Hinu var frestað, vegna þess að það var talið eðlilegt að bíða eftir því að sjá, hversu upphæðin væri há, sem þyrfti að semja um, og það lá ekki fyllilega fyrir fyrr en um miðjan janúar s.l., en þá byrjuðu samningar við bankana, sem enduðu á þann hátt, sem lýst hefur verið.

Ég fyrirgef hv. 5. þm. Norðurl. v., þótt hann talaði hér um viðreisnarskuldir, þótt hann vildi gefa í skyn, að þær lausaskuldir, sem bændur telja sér nú nauðsyn á að breyta, hefðu skapazt síðustu tvö árin, síðan núv. ríkisstj. tók við völdum. Sannleikurinn er sá, að með lögunum er ætlazt til að breyta lausaskuldum, sem skapazt hafa fimm síðustu árin, og mér er kunnugt um, að þær eru ekki síður frá árunum 1957 og 1958, þessar lausaskuldir, heldur en frá árunum 1959, 1960 og 1961. Hv. þm. hefði því haldið eins góða ræðu fyrir sinn málstað, þótt hann hefði sleppt þessari fullyrðingu, sem er tæplega samboðin öðru því, sem hann sagði.

Þá talaði hv. 5. þm. Norðurl. v. um, að tvær gengisfellingar, sem gerðar hefðu verið, 1960 og svo aftur 1961, þær hefði núv. ríkisstj. framkvæmt. Það er rétt. Núv. ríkisstj. stuðlaði að því, að gengisskráningin færi fram. En þegar hv. þm. eru að tala illa um gengisfellinguna, þá er eðlilegt, að þeir séu spurðir að því, hvort gengið sé rangt skráð í dag. Búum við, við rangt gengi í dag? Er krónan rangt skráð? Ef ekki er hægt að svara þessu neitandi, þá eru þeir menn, sem halda því fram, að gengisfellingin hafi verið ranglát ráðstöfun, að halda því fram, að við eigum að búa við falskt gengi. En hver vill játa, að það sé eðlilegt, að þjóðin búi við falskt gengi? Ég minnist þess 1950, þegar gengisskráningin var gerð þá, að þá töldu hv. framsóknarmenn alveg fráleitt að búa við falskt gengi. Þá voru þeir í ríkisstj. með sjálfstæðismönnum og töldu sjálfsagt og nauðsynlegt að skrá krónuna á því verðgildi, sem hún raunverulega hafði. Og það, sem gert var 1960, var að skrá krónuna á því verði, sem hún raunverulega hafði eftir útreikningum og mati hinna sérfróðustu manna. Og á s.l. sumri var það Seðlabankinn og sérfræðingar hans, sem gerðu tillögu um gengisskráninguna, eins og hún nú er. Ef hv. þm., sem tala um böl gengislækkunarinnar, sem tala um, að það hafi ekki verið rétt að skrá gengið eins og gert var, telja, að krónan sé raunverulega ekki of lágt skráð, þá er það þeirra meining, að það hefði átt að búa við falskt gengi, eins og reyndar hafði verið gert um nokkurn tíma áður. Og ég held, að ég geti ekki að því gert að endurtaka það, sem ég sagði hér í gær, að krónan var raunverulega fallin, áður en núv. ríkisstj. tók við völdum.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. talaði um, að það væri rangt, að bændur fengju alla vextina endurgreidda í verðinu. Ég held, að það hafi enginn fullyrt, að bændur fái alla vextina endurgreidda í verðinu. En hitt hljóta þeir menn, sem vita, hvernig verðlagningin er upp byggð, að viðurkenna, að bændur fá verulegan hluta af vöxtunum endurgreiddan gegnum verðlagninguna. Og einmitt vegna þess, að skuldirnar eru teknar til greina í verðlagningunni og ekkert deilt um það, hvað greiddir vextir eru miklir, þá hlýtur það að vera, að talsverður hluti af vöxtunum komi inn í verðið. Það er alveg rétt, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. sagði, að bændur skulda misjafnlega mikið, og vegna þess að þeir skulda misjafnlega mikið og sumir kannske ekkert, þá er ekki rétt að segja, að allir vextirnir verði endurgreiddir. En það væri þá miklu ranglátara að segja, að það kæmi ekkert af þeim til baka. Og einmitt vegna þess að við vitum, að það kemur talsvert af þeim til baka í gegnum verðið, þá getum við verið sammála um það, að bændur í þessu tilfelli greiða ekki hærri vexti en sjávarútveginum er gert að greiða í sambandi við lögin um stofnlánadeildina. Og það væri eðlilegt, að spurt væri að því : Hefði verið heppilegra fyrir bændur, að vextirnir væru lægri á skuldabréfunum og lánstíminn styttri, t.d. 10–15 ár, eins og sjávarútvegurinn fékk, — því að það munu ekki hafa verið lengri lán hjá sjávarútveginum í sambandi við breytingu á lausaskuldum hans en 10–15 ár, — hefði verið heppilegra að hafa það aðeins 10–15 ára lán og lægri vexti heldur en hafa það 20 ára lán? Ég held ekki. Ég held, að það sé hagkvæmt fyrir bændur, að lánstíminn sé sem lengstur. Í öðru lagi væri eðlilegt að spyrja: Væri heppilegra fyrir bændur, að vextirnir væru lægri, en fyrirgreiðslan minni, þannig að eftir að búið er að framkvæma þessi lög, þá sætu bændur uppi með talsverðan hluta af lausaskuldum eftir sem áður, eins og sagt er að útgerðin geri núna, eftir að búið er að framkvæma lögin um stofnlánadeildina? Ég held ekki. En einmitt eins og lögin eru, er gert ráð fyrir, að bændur geti, þeir sem hafa sótt um lánin, losnað við lausaskuldirnar í ríkari mæli en útgerðin hefur gert.

Hv. 1. þm. Austf. las hér upp kafla úr ræðu, sem ég hélt í haust við 1. umr. þessa máls, og vildi með því reyna að sanna, að það hafi aldrei verið ætlunin að taka upp samninga við bankana og gera bréfin gjaldgeng. En eins og ég sagði áðan, um leið og við viðurkennum, að sparisjóðirnir geti alls ekki tekið á sig vaxtahallann, þá stenzt ekki þessi fullyrðing, sem hv. 1. þm. Austf. las upp, enda er hvergi að finna í ræðu minni neitt um það, að ríkisstj. ætli sér ekki að gera þetta. Það er hvergi að finna orð um það, og þess vegna hefði hv. þm. getað sparað sér að lesa upp ræðukaflann, sem hann gerði áðan.

Hv. þm. vildi enn þakka framsóknarmönnum fyrir það, að nú er málið komið í gott horf. Hv. 5. þm. Norðurl. v. vildi hins vegar þakka allt öðrum fyrir það. Og við skulum láta hv. þingheim skera úr um það, hvor þeirra flokksbræðranna er líklegri til þess að fara með rétt mál í þessu efni, og get ég látið útrætt um það atriði með því.

Að lokum reyndi hv. 1. þm. Austf. að verja grein, sem birtist í Tímanum fyrir nokkru, þar sem vitnað var í forstjóra SÍS, að forstjóri SÍS á að hafa sagt, — ég hef ekki séð Samvinnuna, en ég hef lesið greinina í Tímanum, — að afurðalán til sjávarútvegsins væru a.m.k. 75%, en til landbúnaðarins aðeins 50 eða 54%, og hv. 1. þm. Austf. reyndi að halda því fram, að forstjórinn hefði farið með rétt mál með þessari fullyrðingu. Að vísu reyndi hv. þm. að draga í land með því að segja, að þessi 75% væru ekki frá Seðlabankanum, heldur aðeins 55%, hitt væri frá viðskiptabönkunum. Afurðalánin eru frá Seðlabankanum, á 7% vöxtum, en lánin frá viðskiptabönkunum eru, eins og kunnugt er, á hærri vöxtum. Hvers vegna er verið að reyna að blekkja í þessu máli? Hvers vegna er verið að reyna að halda því fram, að landbúnaðurinn eigi engan aðgang að viðskiptabönkunum? Landbúnaður og sjávarútvegur fá svipaðar prósentur hjá Seðlabankanum út á afurðir. Báðir þessir atvinnuvegir verða að leita til viðskiptabankanna, og mér er kunnugt um það, að landbúnaðurinn fær lán hjá viðskiptabönkunum, og ég veit, að hv. 1. þm. Austf, veit af þessu líka. Ég veit t.d. um eitt stórt félag, líklega stærsta samvinnufélag landsins, það hefur aldrei borgað betur út á afurðir en í haust, enda þótt það sé rétt, að afurðalán frá Seðlabankanum hafi lækkað nokkuð síðustu tvö árin, bæði út á landbúnaðarafurðir og sjávarútveg.

En viðskiptabankarnir lána líka nokkuð þeim, sem fást við afurðasölu landbúnaðarins, og við skulum ekki alltaf vera að þessum metingi á milli landbúnaðar og sjávarútvegs. Við skulum vera sammála um það, að þessir atvinnuvegir báðir eru nauðsynlegir og þurfa að fá þá fyrirgreiðslu í bönkunum, sem nauðsynleg er, til þess að atvinnureksturinn bíði ekki hnekki. Þá er það skuldin, sem hv. 1. þm. Austf. talaði um hér áðan, 17.6 millj. kr., sem ríkissjóður skuldaði út á útflutningsuppbætur árið sem leið. Og hv. 1. þm. Austf. talaði hér eins og hann væri orðinn einhver lögspekingur, vitnaði í rit eftir Bjarna Benediktsson, sem kom þessu máli ekkert við og staðfesti ekkert af því, sem hann hélt fram. En ég vil upplýsa hv. 1. þm. Austf. um, að það voru lögfróðir menn, að það voru meira að segja menn, sem hann gæti haft aðgang að, sem úrskurðuðu það fyrir jólin, hvort þessi skuld væri gjaldfallin, og það var úrskurðað, að hún væri ekki gjaldfallin, vegna þess að þetta væri út á útfluttar afurðir, sem tilheyra þessu verðlagsári, verðlagsárinu, sem byrjaði 1. sept. 1961 og endar 31. ágúst 1962. Ef ríkissjóður hefði átt eftir að greiða útflutningsuppbætur á afurðir frá verðlagsárinu 1960–61, þá var það gjaldfallið. Hv. þm. las hér upp lögin, sem ákveða, að útflutningsuppbætur skuli greiddar. Það er hvergi talað þar um gjalddaga. Það er aðeins talað um, að hagstofan reikni út, hversu háa upphæð beri að greiða á útfluttar afurðir til þess að ná fullu verði, en gjalddaginn er ekki neinn, og ég verð að segja það, að ég var dálítið undrandi, að forstjóri SÍS, — því að það er víst hann, sem hefur skrifað þetta, það er vitnað í hann í Tímagreininni, — að hann skyldi þrátt fyrir það, sem á undan var gengið, og þrátt fyrir lögfræðilegan úrskurð láta hafa þetta eftir sér, vegna þess að forstjóri SÍS ætti frekar öðrum að vita, hversu mikils virði það er fyrir landbúnaðinn að fá þessar útflutningsuppbætur. Og enda þótt forstjórinn hafi ekki fengið peningana í vasann fyrir áramót. þá notaði hann þessa upphæð vegna fyrirgreiðslna, sem hann fékk á öðrum stað, eigi að síður til nokkurs konar greiðslu eða sem ávísun, sem félli fljótt í gjalddaga eftir áramótin. Og ég segi það: ég var undrandi, þegar ég las þetta, og mér fannst það ekki sæmandi, mér fannst það ekki eðlilegt, eftir það, sem á undan var gengið, því að forstjórinn átti að vita betur, og það er tvímælalaust, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, að þessi skuld var ekki fallin í gjalddaga, hana átti að greiða með fé, sem veitt er á fjárlögum 1962, og þess vegna ekki um það að ræða, að hún yrði greidd fyrr en á þessu ári.