16.02.1962
Neðri deild: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

21. mál, lausaskuldir bænda

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Út af því, sem hæstv. landbrh. sagði hér síðast, þá vildi ég leyfa mér að spyrja hann, — þegar ráðh. segir, að landbúnaðurinn fái lán í viðskiptabönkunum, þá spyr ég: Fær landbúnaðurinn lán út á afurðirnar? Það er ekki um það að ræða, hvort landbúnaðurinn fái lán í viðskiptabönkunum, heldur hvort hann fái lán út á afurðirnar, eins og sjávarútvegurinn fær. Um það er spurt. Þá segir hæstv. ráðh.: Það var alltaf hugsað, það átti alltaf að framkvæma þetta svona, það átti alltaf að semja við Seðlabankann um þetta. — Ég spyr hæstv, ráðh., því að hann virðist ekki hafa hlustað nógu vel áðan, þegar hv. 1. þm. Austf. las upp úr hans ræðu, — þess vegna leyfi ég mér að endurtaka það, með leyfi hæstv. forseta, en hæstv. landbrh. segir í framsöguræðu sinni fyrir þessu máli hér í hv. þd.: „Hins vegar hefur ríkisstj. ekki tekið að sér að semja við sparisjóði eða verzlanir, það verður að vera samkomulag á milli bændanna, sparisjóðanna og verzlananna.“ Hvað meinaði hæstv. ráðh. með þessum orðum, ef það var ekki hans hugsun, að það ætti að vera hlutverk bændanna sjálfra að semja við þessa aðila? Hæstv. ráðh. segir: Bændurnir gátu spurt, ef þeir þurftu að fá frekari upplýsingar, áður en þeir sóttu um lánin á s.l. hausti. — Bændurnir spurðu um framkvæmdina, áður en þeir sóttu um á s.l. hausti, og þeir spurðu ekki ómerkari aðila en hæstv. landbrh. Þeir spurðu hann á aðalfundi Stéttarsambands bænda, báðu hann að gefa upplýsingar um framkvæmdina á þessu máli. Hver voru svörin? Þau voru það sama og hæstv. ráðh. sagði í framsöguræðunni, sem hann flutti hér í okt. í haust, það er samkomulag við Búnaðarbankann og Landsbankann um að breyta þeim víxlum í löng lán, sem þar eru, og annað ekki. Þetta er það, sem bændurnir spurðu um, og þetta voru svörin, sem ráðh. gaf. Svo kemur hæstv. ráðh. hér á hv. Alþingi og segir: Ef þeir hafa ekki áttað sig á þessu nógu vel, þá gátu þeir spurt. En þegar þeir spurðu, fengu þeir þessi svör, svo að þeir voru jafnnær eftir sem áður. Hins vegar sóttu margir um lánin, af því að þeir treystu á það, að hæstv. ráðh. mundi láta undan þunganum, sem yrði í þessu máli, eins og raun ber nú vitni um að hefur gerzt.

Hæstv. ráðherra segir: Það var ekki ástæða til að setja það í lögin strax, að Seðlabankinn keypti skuldabréf með nafnverði. — Ég spyr: Af hverju var þá ástæða til að setja það inn í lögin um stofnlánadeild sjávarútvegsins? Af hverju var ástæða til að setja það inn í þá löggjöf, að Seðlabankinn skyldi innleysa skuldabréfin? Vegna þess, að málið var óframkvæmanlegt að öðrum kosti. Það var ekki verið að halda neinar þakkarræður hér á hv. Alþingi þá. Ég man ekki til, að varaþingmaðurinn af Austurlandi, hv. varaþm. Einar Sigurðsson, sem þá mun hafa setið hér á þingi, hafi komið og þakkað ráðh. og sagt: Góðir menn, núv, ráðh. gera þetta fyrir sjávarútveginn. — Það er álit þjóðarinnar, að hæstv. ríkisstj. á hverjum tíma eigi að greiða úr fyrir atvinnuvegina í landinu, vegna þess að það er verkefni ríkisstj. á hverjum tíma að leysa vandamál fyrir atvinnulífið í landinu. Það þótti sjálfsagt þá, að Seðlabankanum yrði gert að skyldu að innleysa þessi skuldabréf með nafnverði, og það hefur sýnt sig, að það var ekki hægt að leysa þetta mál, lausaskuldir bænda, nema með því, eins og ég benti á við 1. umr. þessa máls hér á hv. Alþingi, að Seðlabankinn keypti bréfin.

Svo kemur hæstv. landbrh. og segir: Það hefur alltaf verið ætlunin, að lögin næðu tilgangi sínum. — Ég spyr hæstv. ráðh. og hv. þm.:

Hvenær eru sett lög hér á hv. Alþingi, sem er ekki ætlað að ná tilgangi sínum? Var eitthvað sérstakt við þessi lög? Af hverju þurfti hæstv. ráðh. að taka þetta fram? Vegna þess, að brbl. voru þannig úr garði gerð, að þau voru lítt framkvæmanleg. Hæstv. ráðherra segir: Það var vel um hnútana búið. — Við hæstv. ráðherra vil ég segja það, að það vantaði að hnýta hnútana. Endarnir voru lausir og þeir voru að trosna, og það tók hæstv. ráðherra þrjá mánuði að búa sig undir að geta rætt málið við 2. umr. hér á hv. Alþingi. Þessi hæstv. ráðherra er þó þekktur að öðru en að vera sérstaklega feiminn, en það tók hann 3 mánuði að undirbúa það að geta talað fyrir málinu við 2. umr. Af hverju? Af því að hann sá það sjálfur, að málið var óframkvæmanlegt og hann varð að fara að hnýta hnútana. Það var það, sem þurfti með. Svo kemur hæstv. ráðh. og tekur það fram í sinni fyrstu ræðu hér í gær, að það hafi verið vel um hnútana búið. Og af hverju sagði hann það, hæstv. ráðherra? Af því að hann sá, hvað endarnir voru trosnaðir.

Svo segir hæstv. ráðherra hér áðan, að til sjávarútvegsins sé yfirleitt ekki rætt um nema 10–15 ára lán. Hér er misskilningur hjá hæstv. ráðherra. Og hann spyr: Var þá betra fyrir landbúnaðinn að fá styttri lánstíma? — En í 2. gr. laga um stofnlánadeild sjávarútvegsins frá Atþingi 1960–61 segir svo í 2. málsgr., með leyfi hæstv. forseta: „Lán út á fasteignir 20 ár, lán út á skip 15 ár og lán út á vélar 10 ár.“ Það eru engin lán veitt út á vélar til landbúnaðarins. Þess vegna er ekki hægt að hafa þar 10 ára lán. Það eru engin lán lánuð til landbúnaðarins nema út á fasteignir. Þess vegna eru það 20 ára lán eins og hjá sjávarútveginum. Þetta ætti hæstv. ráðherra að vita og ætti þess vegna ekki að vera að tala um annan lánaflokk hér á hv. Alþingi en þann, sem um er að ræða í sambandi við lögin um lausaskuldir bænda. Það er ekki um að ræða hér nema fasteignalán, og þau eru 20 ár í báðum tilfellum.

Hv. 3. þm. Austf. (JP) flutti hér sína þakkargjörð um þetta mál. Málið hefur verið tekið föstum tökum, sagði hv. þm. Það hefur verið tekið fastari tökum en ég sagði frá í ræðunni á Alþingi í fyrravetur. — Óskapa lauslæti hefur átt að vera í þessu máli hjá hv. þm., ef hann hefur ætlað það meira en er í lögunum frá því í sumar. Ég átta mig ekki á því, hvað hv. þm. hefur meint með þessari væntanlegu lagasetningu, ef hann ætlaði, að það væri enn þá lausara í reipum en brbl. frá því í sumar eru.

Hv. þm. fór að hreyta hér fúkyrðum í hv. 1. þm. Vesturl. (AB). Út af hverju? Af því að hv. 1. þm. Vesturl. spurði, hvort það væru hagkvæmir vextir, sem eru 8%, hvort það væru hagkvæmir vextir fyrir landbúnaðinn. Ég spyr hv. þm., — hann svaraði því ekki áðan, heldur ætlaði sér að svara því með fúkyrðum einum, eru það hagkvæmir vextir fyrir landbúnaðinn að fá 8% ? Eru menn búnir að gleyma því, að það eru tvö ár síðan víxilvextir hér á landi voru 7½%? Hvað haldið þið, að hæstv. núv. landbrh., þáv. hv. 1. þm. Rang., hefði sagt hér á Alþingi 1958, ef bændum hefði verið boðið upp á aðstoðarlán með 8% vöxtum? Ég skal segja ykkur það.

Hann hefði ekki látið standa á sér í ræðustól, sá hv. þm., í þá daga. En nú eru þetta taldir hagkvæmir vextir. Hæstv. ríkisstj. talar um að lækka vextina von bráðar. Ég hef spurt um það í lánastofnunum, hvort þessir vextir á þessum skuldabréfum verði fastir. Því hefur alltaf verið svarað játandi, að það væri ekki framkvæmanlegt öðruvísi. Og þá segi ég: Þá gæti það skeð eftir tvö ár, að bóndi væri kominn með hærri vexti á aðstoðarláni heldur en víxilvextir eru. Það er mikið að þakka, ef þannig verður fyrir komið. Eða halda þessir hv. þm., að vaxtaokur þeirra verði varanlegt? Og hvaða leið er þá til að losa bændur við okurvexti? Það er aðeins til ein leið til þess að komast þá út úr þessum vandræðum. Það er að breyta fastalánum í lausaskuld aftur, ef það er þá hægt. Það er sú eina leið, sem bændurnir í landinu hefðu þá til þess að forðast vaxtaokur hæstv. núv. ríkisstj. Og ég held, að hv. 3. þm. Austf. ætti að svara því, áður en hann fer að hreyta úr sér fúkyrðum hér í garð hv. 1. þm. Vesturl., hvort hann álitur 8% vexti vera hagstæða fyrir bændur.

Hv. 3. þm. Austf. sagði, að það, sem skipti máli fyrir bændurna, væri að fá sem mestum hluta af lausaskuldunum breytt í föst lán. Það er rétt, það skiptir máli, ef þau eru einnig hagkvæm.

Hæstv. ráðherra hefur mikið rætt um, að útvegsmenn hafi ekki getað breytt öllum lausaskuldum sínum í föst lán. Af hverju er það, hæstv. ráðherra? Það er af því, að veðin vantar. Ef það er eins ástatt hjá bændum, að þá vantar veð fyrir sínum lausaskuldum, þá er það nákvæmlega sama og hjá útvegsmönnum. Það er ekki af því, að þessi hæstv. ráðh. geri neitt betur við bændastéttina en sjútvmrh. gerði við útveginn. Það er hins vegar af því, að veð vantar, sem er ekki framkvæmanlegt að breyta lausaskuldunum í föst lán, en ekki af öðrum ástæðum. Þess vegna er það ekki til þess að vera að hæla sér af hér á hv. Alþingi, þótt útvegsmenn vanti veð.

Um lánstímann segir svo hv. 3. þm. Austf.: Það er mjög hagkvæmt fyrir bændur, að lánstíminn sé lengdur. En hvað hefur gerzt, síðan þessi hv. þm. kom hér á Alþingi? Ég veit ekki betur en ræktunarsjóðslánin, sem bændur verða að fá til þess að byggja upp í landinu, hafi verið stytt síðan þessi hv. þm. kom hér inn á Alþing sem stjórnarstuðningsmaður. Ég veit ekki betur en lánin, sem eru veitt til þess að byggja yfir bændurna, hafi verið stytt að lánstíma. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, má telja, að meðallán í ræktunarsjóði sé um 60 þús. kr. Afborgun og vextir af þessu láni voru 4416 kr., áður en núv. ríkisstj. komst til valda, en eftir að búið er að hækka vextina og stytta lánstímann 6384 kr., eða 1968 kr. hærra. Það taldi þó hv. 3. þm. Austf. vera eitt af höfuðskilyrðum, sem bændastéttin þyrfti að sækjast eftir, að fá langan lánstíma og hagstæða vexti. Og svo hefur þessi hv. þm., síðan hann kom hér á Alþingi, stutt ríkisstjórn, sem gengur þvert á þetta, hækkar vextina, styttir lánstímann. Svo kemur hv. þm. og þakkar hæstv. landbrh. fyrir, hvað vel hann hefur gert í landbúnaðarmálum, þakka honum fyrir það líka, sem gengur þvert á það, sem hv. þm. sjálfur lýsir yfir að mestu máli skipti fyrir bændur.

Ég hef sýnt fram á það, að vextir eru hærri nú en víxilvextir voru fyrir tveim árum. Þeir eru hálfu öðru prósenti hærri en vextir af aðstoðarlánum sjávarútvegsins. Og svo ætlast þessi hv. þm. til þess, að bændurnir í landinu og forsvarsmenn þeirra hér á hv. Alþingi þakki landbrh. fyrir mjög duglega frammistöðu við að veita þeim svona hagkvæm lán með svona góðum kjörum. Er hv. þm. að gera grín að hæstv. ráðherra?

Vextirnir eru teknir í verðlagið, segir hæstv. ráðherra, það er allt í lagi. Það er nú búið að sýna fram á það og ráðherrann að viðurkenna, að það getur þó ekki gagnað, nema um þá vexti, sem eru ekki fyrir ofan meðaltal. En hvað sagði hæstv. sjútvmrh. hér á hv. Alþingi fyrir nokkrum dögum, þegar hann svaraði fyrirspurn frá hv. 1. þm. Austf.? Hann sagði: „Ég lagði fyrir formann verðlagsráðs sjávarútvegsins að reikna með sömu vöxtum og nú gilda við verðlagsákvörðun.“ Þar er tekið tillit til vaxtanna, í verði sjávarútvegsins, og svo á að halda því fram, að það geri bændum ekkert til, hvað vextir séu háir, þeir fáist endurgreiddir. Ég er ekki viss um, að hv. 3. þm. Austf., bóndinn á Skriðuklaustri, sé alveg öruggur um, að hann fái vextina endurgreidda í verðlagi á búvöru sinni sem bóndi. Ég er ekki viss um það, þó að hann hér á hv. Alþingi standi upp og þakki fyrir háu vextina.

Ástæðan til þess, að vextirnir eru hafðir svo háir, er sú, hvernig málið var úr garði gert í upphafi, vegna þess að það var ekki farið að eins og með sjávarútveginn, að Seðlabankanum væri gert að skyldu að innleysa skuldabréfin. Það var það, sem átti að gera. En vegna þess að það var ekki gert, var farið að reyna að hafa vextina svo háa, að það væri hugsanlegt að koma bréfunum í verð. Þetta er sannleikurinn í málinu, og þýðir ekkert á móti því að mæla.

Hv. 3. þm. Austf. vék að því, að þm. væru að þvælast fyrir, eins og hann orðaði það á sinn smekklega hátt. Ég hefði viljað, svo að ég noti hans eigin orð, því að það hefði verið mikið til bóta fyrir bændastéttina í landinu, að hv. þm. hefði reynt að þvælast fyrir, er verið var að stytta lánstímann í ræktunarsjóði og byggingarsjóði sveitanna og hækka vextina og þegar verið var að ákveða að veita bændum aðstoðarlán með okurvöxtum. Það hefði verið strax til bóta, ef þessi hv. þm. hefði þvælzt fyrir þá, svo að notuð séu hans eigin orð.

Hv. þm. talaði um það, að búskapur á Austurlandi væri ekki góður, og vildi kenna hv. 1. þm. Austf. um það, að svo væri. Nú ætla ég ekki að fara að ræða um búskap á Austurlandi, því að ég er ekki nógu kunnugur þar. Hitt veit ég, að hv. 3. þm. Austf. var settur tilraunastjóri austur á landi fyrir nokkrum árum á vegum Búnaðarfélagsins og tilraunaráðs ríkisins til þess að koma búskap bændanna í betra horf, og þess vegna væri nær að spyrja hann um árangurinn af hans starfi í búskap austur þar heldur en hv. 1. þm. Austf., þó að ég viti, að hann sé meiri forsvarsmaður bænda þar í öllum málum, eins og hv. þm. játaði þarna.

Nei, hv. þm., sem hér hafa risið upp og þakkað hæstv. landbrh. fyrir þetta mál, hafa e.t.v. ástæðu til að þakka honum fyrir það, að hann hafi haft samráð við samtök bændanna í landinu, Stéttarsamband bænda, þegar þessi lög voru upphaflega sett sem brbl.? Það var ekki óeðlilegt, að það hefði verið gert. Ég man ekki betur en það væri haft samráð við L.Í.Ú. um lögin um stofnlánadeild sjávarútvegsins, hæstv. sjútvmrh. hefði samráð við útvegsmenn um þau. En hæstv. landbrh. hafði ekki samráð við Stéttarsamband bænda, þegar brbl. um lausaskuldir bænda voru sett, og meira að segja gaf svo ófullkomin svör á þeirra aðalfundi, að enginn maður skildi, hvað ráðh. meinti. Er það e.t.v. ekki óeðlilegt, þegar lögin voru jafnóljós af hans hendi og raun ber vitni um. Og ég spyr enn: Eiga bændurnir í landinu að þakka fyrir það, að þegar Stéttarsamband bænda mótmælir ýmsum atriðum í lagasetningunni og telur, að tvímælalaust eigi að breyta þeim, þá hefur hæstv. ráðh. það að engu? Er það þetta, sem ég hef nú talið, sem á að þakka og hv. þm., 3. þm. Austf. og 2. þm. Norðurl. v., séra Gunnar, voru að þakka? Ég sé nú ekki, hvað það er, sem bændurnir í landinu hafa að þakka. Ég lít svo á, að landbrh. eigi stöðu sinnar vegna að vera höfuðforsvari bændastéttarinnar á hverjum tíma. Ef það er eitthvað, sem sérstaklega er að þakka hæstv. ráðh. í þessu máli, þá er það innanflokksmál hjá stjórnarliðum. Þeir eru svo erfiðir viðfangs í landbúnaðarmálum, að flokksmenn hans, sem telja sig talsmenn í landbúnaðarmálum, vilja þakka landbrh., þó að hann nái ekki lengra en svo að bjóða bændum aðstoðarlán með okurvöxtum og á allan hátt verri kjörum en sjávarútvegsmenn njóta. Fyrir þetta á ekki að þakka, heldur að mótmæla því.