16.02.1962
Neðri deild: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

21. mál, lausaskuldir bænda

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd. Hæstv. landbrh. virtist hafa skilið orð mín svo, að ég álíti, að Framsfl. hefði ekki átt neinn verulegan þátt í því, að þessi lög komust á, sem nú eru til umr. Ég nefndi dæmi og bar saman, hvernig lántakendur losna við þessi skuldabréf, sem fá handhafabréf með ríkisábyrgð út á samvinnubyggingar hér í bænum. Ég nefndi þetta sem dæmi, en ég nefndi ekki Framsfl. En bak við þetta lá það, að aðstaða bændanna viðvíkjandi þessum skuldabréfum var önnur og betri en þessara manna, sem standa að samvinnubyggingarfélögunum, af því að þeir höfðu átt öruggari málsvara. Það er alveg dæmalaust, hvernig að þessu er farið með samvinnubyggingarfélögin hér í bænum. Fólkinu er beinlínis kastað í klærnar á okrurunum. Ég er hræddur um, að kjör bænda væru önnur og verri, þótt þau séu engan veginn nægilega góð, ef Framsfl. hefði ekki verið til, og ég er hræddur um, að það væri þá meira ógert hjá bændum og viðreisnarskuldirnar mundu vera hærri.

Ég vildi enn fremur benda hæstv. landbrh. á það, — ég vil meta hans verk, og ég vil þakka það, sem vert er í þessu máli, bæði hvað hann sjálfan snertir og flokk hans, — en hitt veit ég, að það hefði verið ógerningur fyrir hann að koma þessu máli þó í það horf, sem það er, ef Framsfl. hefði ekki verið til. Þó að flokkur sé í minni hl., þá er hann engan veginn áhrifalaus, því að áhrif hans liggja fyrst og fremst í því, að ef flokkurinn er til og samtökin eru til, þá veigra hinir flokkarnir sér við að gera hluti, sem þeir halda að þeir tapi atkvæðum á. Það er þetta, sem á sinn mikla þátt í því, að þetta mál hefur komizt svo vel áleiðis, að Framsfl. var til og Sjálfstfl. kærði sig ekki um að tapa atkv. út af þessu máli.