16.02.1962
Neðri deild: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

21. mál, lausaskuldir bænda

Fram. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég ætla fyrst að minnast á það, sem hæstv. landbrh. sagði síðast í sinni síðustu ræðu. Hann var þá að tala um útflutningsuppbæturnar og hélt því fram, að ríkið hefði ekki þurft að borga útflutningsuppbætur nú fyrir áramótin, þær sem forstjóri Sambandsins gat um í sinni grein, vegna þess að þar hefði verið um að ræða vörur frá því verðlagsári, sem nú stendur yfir. Ég vil benda á það, að þetta skiptir engu máli um útfluttar landbúnaðarvörur, frá hvaða verðlagsári þær eru. Það er alveg ljóst, eins og lögin um þetta eru, þá eru þessar uppbætur gjaldfallnar, þegar búið er að flytja vörurnar út og fá verð fyrir þær og reikna út, hvað uppbæturnar eiga að vera miklar.

Í ræðu hér í gær bar ég fram nokkrar fsp. til hæstv. ráðherra. Hann hefur haldið tvær ræður síðan. Ég hef fengið mjög ófullnægjandi svör við þessum fsp. og alls engin við einni þeirra t.d., viðkomandi vöxtunum, sem bændum er ætlað að greiða. Ég spurði um það, hvers vegna væru heimtaðir hærri vextir af bændum en útvegsmönnum. Það hefur ekkert svar fengizt við þessu, sem svar getur kallazt. Ég skil það vel, að það er ákaflega erfitt fyrir hæstv. ráðherra og hans menn að fást við þetta og svara þessu, vegna þess að það getur enginn maður bent á það eða sýnt fram á, að það sé nokkur minnsta sanngirni í því að hafa þetta svo. Það sjá allir, sem íhuga málið, að í þessu efni eru bændur rangindum beittir. En hvernig stendur á þessu? Er það svo, að hæstv. landbrh. telji það sjálfur sæmandi að heimta 8% vexti af bændum, þegar útvegsmenn borga 6½% af hliðstæðum launum? Mér skilst nú á einum flokksbróður hans, sem talaði hér áðan, hv. 3. þm. Austf. (JP), að hann telji þetta hagstæð vaxtakjör. Er þetta upprunnið frá sjálfum hæstv. ráðherra? Var það kannske hans till., þegar ríkisstj. var að ræða um útgáfu brbl. og þeirrar reglugerðar, sem á eftir fylgdi? Eða var hann hér ofurliði borinn af öðrum í stjórninni? Hvernig skyldi þessu vera varið?

Ég vil benda á það, að hæstv. ráðherra hafði ágæta aðstöðu í stjórninni, ef hann vildi, að bændur fengju þessi lán með hagstæðari vaxtakjörum. Áður var fyrir skömmu búið að afgreiða lánamál útvegsins og ákveða þar lægri vexti. Landbrh. gat sagt við aðra ráðherra í stjórninni: Ég sætti mig ekki við lakari vaxtakjör fyrir bændurna. — Hann stóð hér ákaflega vel að vígi að heimta það sama fyrir landbúnaðinn, sem ráðherra útvegsmála hafði fengið fyrir sjávarútveginn. Gerði hæstv. ráðherra þetta ekki? Bar hann ekki fram þá sjálfsögðu kröfu fyrir bændanna hönd, að þeir fengju þessi lán með ekki hærri vöxtum en útvegsmenn greiða fyrir hliðstæð lán? Eða vildu hinir alls ekki hlusta á hann? Og var það vilji annarra, sem hér réð? Þetta er, sýnist mér, alveg óskiljanlegt. Alþingi verður að koma hér til skjalanna og jafna þennan halla. Það er alls ekki sæmandi fyrir Alþingi að afgreiða málið þannig, að bændur borgi hærri vexti en útvegsmenn. Og ég held, að þeir hv. þm. úr stjórnarliðinu, sem fluttu hér þakkarávörp áðan til ráðherrans, hv. 3. þm. Austf. og hv. 2. þm. Norðurl. v., ættu að minnast bændanna, þegar til atkvæða kemur um till. okkar um að færa niður vextina, og hrista einu sinni af sér slenið. Ræður þeirra benda nú því miður ekki til þess, að það sé mikils að vænta í þessu efni, en við sjáum til.

Svo er það um lánin út á vélarnar hjá bændum. Hæstv. ráðherra sagði í gær, að það væri ætlun stjórnarinnar að vinna að því, að bændur gætu framvegis fengið lán út á vélar hjá Búnaðarbankanum, mér skilst hjá ræktunarsjóði. Gott er að taka því, ef af því verður. En hvenær skyldi það verða? Og ráðherra sagði, að þess vegna ætti þetta ekki heima í þessum lögum, — ætti ekki heima í þessum lögum að ákveða þar lán út á vélar hjá bændum. Hvers vegna á það ekki heima þar, eins og það er í lögunum um stofnlánadeild sjávarútvegsins og hefur verið framkvæmt, að útvegsmenn fá lán út á vélar? Það kemur ekki því máli við, hvað verður í framtíðinni um lán út á þessar eignir eða aðrar hjá atvinnuvegunum. Hæstv. ráðherra segir, að það þurfi nýtt fé, ef eigi að taka þetta inn í lögin. Það þarf ekki frekar nýtt fé til að lána bændum út á vélar, sem þeir nú eiga, heldur en þurfti nýtt fé til þess að lána útvegsmönnum út á vélar til greiðslu á eldri skuldum. Þessi lán mundu fara til greiðslu á lausaskuldum alveg eins og það, sem lánað er út á fasteignir, jafnt hjá bændum og útvegsmönnum. Sama er að segja vitanlega um lán út á vinnslustöðvar landbúnaðarins, það er óhæfa að neita að lána út á þær, þegar nýbúið er að lána til fiskvinnslufyrirtækja út á slíkar eignir.

Það er þegar fram komið, að viðhorf er nokkuð breytt nú frá því, sem var í haust, að því leyti, að sumir þeir aðilar, sem áður treystu sér ekki til að taka bankavaxtabréfin, sjá nú möguleika til þess að losna við þau, a.m.k. að einhverju leyti. Það er náttúrlega ekki rétt, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. áðan, að það væri búið að semja við Seðlabankann um, að hann tæki bréfin, menn gætu losnað við þau, allir sem eignuðust slík bréf. Það er ekki rétt. Mér skilst, að t.d. ef sá hv. þm. eignast svona bankavaxtabréf og kæmi með það í Seðlabankann, þá sé bankinn alls ekki samningum bundinn að kaupa það af hv. þm. En samt er viðhorfið breytt í þessu efni.

Hæstv. landbrh. sagði í ræðu í gær, að hann hefði sagt mönnum s.l. sumar, að svo yrði um hnútana búið, að lögin næðu tilgangi sínum. Hann virðist hafa talað ósköp lágt, ef hann hefur sagt einhverjum þetta, alveg óvenjulega lágt, — eða kannske hefur þessu aðeins verið hvíslað að einstöku mönnum, ég veit það ekki. Lítið almennt gagn er að því, og það er nú komið upp, að hann hafði svo hljótt um þetta, að hann vildi ekki segja þeim þetta á aðalfundi Stéttarsambandsins, þegar rætt var um þessi mál í byrjun sept. s.l. ár. Nei, tilfellið er, eins og hér hefur komið fram, að hæstv. ráðh. fór ekki að fást við sína hnúta fyrr en nú í vetur og hefur verið að því undanfarnar vikur og mánuði, því að ef hann hefði verið farinn að hugsa um slíkt, áður en umsóknarfresturinn um lánin rann út í haust, sá sem settur var, þá hefði hann sjálfsagt látið Búnaðarbankann vita um þetta, til þess að ráðamenn þar gætu skýrt mönnum frá þessu, því að vitanlega sneru menn sér til Búnaðarbankans til þess að fá allar upplýsingar viðkomandi þessum mátum, þar sem bankanum var falið að fara með framkvæmdirnar. Bankinn hefði þá getað látið aðra vita þetta, t.d. stjórnir sparisjóðanna og aðra, sem hér áttu hlut að máli. En þar var engar slíkar fréttir að fá, sem var ekki að vænta, því að mönnum þar var þá ekki kunnugt um það, að neinar ráðstafanir væru fyrirhugaðar til þess að greiða fyrir þeim að losna við bréfin, sem kynnu að eignast þau. Mér er kunnugt um þetta. Ég tók að mér að vera umboðsmaður fyrir nokkra menn í mínu héraði við væntanlegar lántökur, og ég gerði það fyrir ýmsa þá menn að leita upplýsinga hjá Búnaðarbankanum um framkvæmd á þessu, og þar var mér sagt, að menn yrðu að koma með yfirlýsingar frá sínum lánardrottnum um, að þeir tækju bréfin sem greiðslu, því að annars mundu lán ekki verða veitt, og þetta sagði ég mönnum, og þeir reyndu vitanlega að fá slíkar yfirlýsingar og gátu það í ýmsum tilfellum. Þó var það þannig eins og ég sagði hér í gær, að sparisjóður, sem þar starfar og hefur mikil viðskipti við bændur, sá sér ekki fært að lofa því að taka bréf nema til greiðslu á víxilskuldum bænda að hálfu leyti, vegna þess að þegar stjórn sparisjóðsins spurðist fyrir um þetta í bönkum, þá var þeim sagt það, sem stjórna sparisjóðnum, að ekki væri kunnugt um, að neinar ráðstafanir hefðu verið gerðar eða yrðu gerðar til þess að greiða fyrir því, að sjóðirnir gætu losnað við bréfin.

Svona var þetta í haust. En nú er orðin á nokkur breyting, eins og ég hef áður vikið að, þannig að einstakir kröfuhafar, t.d. sparisjóðir, treysta sér nú sennilega til að taka bréf til greiðslu á skuldum bænda, þótt þeir sæju sér ekki fært að lýsa slíku yfir í sept. í haust. Og þá er vitanlega sjálfsagt að taka til greina umsóknir frá mönnum, sem geta lagt fram slíkar yfirlýsingar nú. Það þarf alls ekki að tefja fyrir afgreiðslu á lánum til þeirra, sem áður hafa sent umsóknir. Það er hægt að afgreiða lánin, sem nú liggja fyrir umsóknir um, hvað sem þessu liður. Hitt getur komið síðar, ef nýjar umsóknir berast.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði, að bændur hefðu haft nógan tíma til að koma fram umsóknum í tæka tíð, og mér skildist hann telja óþarfa að taka til greina nokkrar nýjar. Ég vit nú benda á það, að þetta var á mjög miklum annatíma í septembermánuði, sem bændur þurftu að undirbúa þetta, að fá metnar jarðir sínar.

Umsóknir áttu að komast til sjóðsins fyrir 1. okt. Ég held því, að það sé alveg sjálfsagt fyrir þá, sem ekki sóttu um lán í haust, en þurfa þó á þeim að halda, að senda umsóknir nú, ef þeir geta nú fengið þær yfirlýsingar hjá lánardrottnum, sem þeir gátu ekki fengið í haust, — það er alveg sjálfsagt fyrir þá bændur að gera það, því að það hlýtur að verða þannig, að þær umsóknir verði teknar til greina, þó að síðar verði. Og vegna þess, hvað lengi hefur dregizt afgreiðsla á þessu máli, vil ég benda á, að það gæti verið mjög athugandi, enda þörf á því fyrir ýmsa bændur, að þeir gætu líka fengið lán til greiðslu á lausaskuldum, sem myndazt hafa á árinu 1961.

Hæstv. ráðherra lét þess getið í framsöguræðu sinni í haust, að það væri auðveldara að losna við bankavaxtabréfin af því, hvað vextirnir væru háir. Getur það hugsazt, að það sé frá honum sjálfum runnið að hafa vextina svona háa, en hann hafi hér ekki verið ofurliði borinn af öðrum í stjórninni? Ég veit það ekki. Þetta er lítt skiljanlegt. En ég vil út af þessu segja, að ég veit ekki, af hvaða ástæðu var farið að gefa út þessi bankavaxtabréf eða setja í lög, að það skyldi gert. Hvers vegna var þetta ekki haft eins og hjá sjávarútveginum? Þar eru ekki gefin út slík bréf. Stofnlánadeild sjávarútvegsins bara stofnar til skuldar við Seðlabankann, sem lánveitingunum nemur. Það eru ekki gefin út nein bankavaxtabréf til að afhenda kröfuhöfum þar. Hvers vegna var þetta ekki haft eins? Búnaðarbankinn eða veðdeild hans gat á sama hátt stofnað til skuldar við Seðlabankann. Það þurfti bara mörgum sinnum minni fjárhæð en til hinna, sem við útgerð fást. Þá þyrfti ekkert að fást við útgáfu bréfa og verzlun með bréf. Og lánin gátu alveg á sama hátt gengið upp í áhvílandi skuldir við bankana og aðra. Þetta hefði verið miklu einfaldara, að leysa málið þannig, og kostnaðarminna, því að það er ekki lítill kostnaður, sem fylgir þessari bréfaútgáfu og öllu því, sem á eftir kemur: innlausn bréfa og vaxtagreiðslur af þeim o.s.frv. Hitt var miklu þægilegra í vöfum og fyrirhafnarminna á allan hátt og ódýrara. Þessi aðferð, sem valin hefur verið í þessu og ég botna satt að segja ekkert f, hvers vegna er upp tekin, sýnir mikla ást hæstv. núv. landbrh. eða stjórnarinnar á skjölum og skriffinnsku.

Ég vil að lokum enn benda á það, að í brtt. á þskj. 133, sem ég flyt ásamt hv. 4. þm. Austf., eru bornar fram þær kröfur, sem stjórn Stéttarsambands bænda og bændafundir hafa gert um breytingar á þessu frv.