16.02.1962
Neðri deild: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

21. mál, lausaskuldir bænda

Ágúst Þorvaldsson:

Hæstv. forseti. Það hafa nú orðið hér allmiklar umr. um þetta mál, sem er ákaflega eðlilegt, málið er þannig vaxið, það hefur verið rætt hér síðan í gær um marga einstaka þætti þess, og hæstv. landbrh. og ríkisstj. í heild hafa fengið þakkir frá sínum stuðningsmönnum fyrir frammistöðuna í þessu máli. Ég ætla ekki að finna að því, þó að þeir þakki fyrir sig. Ég læt það afskiptalaust. En það, sem veldur því, að ég kem hér upp í ræðustólinn aftur, er það, hvað landbrh. varð reiður við mig í gær. Það er leiðinlegt með þann annars mæta mann, hvað hann er oft garralegur og ónotalegur við okkur samþingismenn sína, en ég kann ekki við annað samt en aðeins að svara honum nokkrum orðum.

Hann taldi mig segja það ósatt, að hann hafi á framboðsfundum haustið 1959 lofað bættum lífskjörum, ef hans flokkur næði stjórnartaumum, og að hann hafi hvatt bændur til að fara sér hægt í vélakaupum, þar til framsóknarskattarnir hefðu verið afnumdir. Hann heimtaði, að ég nefndi nöfn manna í þessu sambandi, sem hann hefði átt að hvetja í þessa átt. En sannleikurinn er bara sá, að á þessum framboðsfundum, sem við vorum saman á í Suðurlandskjördæmi haustið 1959, voru mörg hundruð manns, og ég kann þess vegna ekki að greina nein sérstök nöfn, en ég vonast til þess, að þegar næst verða framboðsfundir á Suðurlandsundirlendinu í Suðurlandskjördæmi, þá hafi þetta fólk ekki misst minnið. (Landbrh.: Það vona ég líka.) Já, við erum þá sammála um það. Og ég skal lofa því, að verði ég á uppréttum fótum, þegar þessir fundir verða, þá skal ég koma og þá getum við athugað þetta betur.

Hæstv. ráðh. sagði líka, að ég segði það ósatt, að núv. ríkisstj. hefði fellt gengið eða íslenzku krónuna. Hann sagði, að stjórnin hafi ekki annað gert en að skrá gengið, vinstri stjórnin hafi í raun og veru verið búin að fella gengið. Hann hefur tekið það fram í dag aftur í þeim umr., sem hér hafa verið, að það sé alveg nauðsynlegt að skrá gengið rétt, þetta verði að vera rétt. Þeir tóku þess vegna allir upp blýantinn, ráðherrarnir í þessari viðreisnarstjórn, og skrifuðu í einum takt, að einn Bandaríkjadalur skyldi kosta 38 kr., — það gerðu þeir árið 1960, — og annar gjaldeyrir í samræmi við það. Og þá var þar með búið að skrá gengið rétt. Ég skal ekki segja um það, hvað er rétt gengisskráning. En ég efast um, að það sé nokkur sá maður til, sem getur fullkomlega sagt um það, hvað sé örugglega rétt gengisskráning, ekki einu sinni hagfræðingarnir. Ég efast fullkomlega um það. Þegar þessir hæstv. ráðherrar höfðu komið þessari réttu gengisskráningu á, þá hneigði Sjálfstfl. sig, og Alþfl. hneigði sig líka fyrir þessu, og hagfræðingarnir tóku ofan fyrir ríkisstj. Þeir voru svo ákaflega hrifnir af því, að hún skyldi hafa manndóm í sér til þess að gera þetta. (Gripið fram í: Nei, var það ekki öfugt? Tók ekki ríkisstj. ofan fyrir hagfræðingunum?) Hún hefur verið búin að því áður. Já, hún hefur vitanlega verið búin að því áður. (Gripið fram í: Hún var sem sé berhöfðuð, þegar hún skráði.) En allt var þetta nú vitanlega þannig, að það var látið fylgja, að maður skildi það, og það var hægt að lesa það á milli línanna í þeim skrifum, sem um þetta voru, að kotkarlar og eyrarvinnulýður, þeir skyldu nú aldeilis vara sig á því, ef þeir færu að krukka eitthvað í þetta og reyna að breyta þessu á einhvern hátt, því að nú væri gengisskráningin orðin rétt og hér skyldi ekki vera falskur gjaldmiðill. Svo fór það eins og allir vita, að á s.l. ári fór þessi lýður að hreyfa sig. Þá bara tóku þeir blýantinn aftur og skráðu gengið upp að nýju, og þá sögðu þeir, að hver Bandaríkjadollar skyldi kosta 43 kr., það væri það rétta. Síðan hefur þar við staðið.

En það er öllum kunnugt, sem eitthvað hafa fengizt við atvinnulífið, hvaða áhrif þetta hefur haft fyrir atvinnuvegina. Verðið á vélunum hefur hækkað hér um bil um helming eða líklega öllu meira núna, síðan þeir skrifuðu upp á nýtt. Fóðurbætir og áburður stórhækkaði og allar lífsnauðsynjar. En það er nú kannske fyrir sig, þó að þetta hefði farið þannig, ef eitthvað hefði þá komið á móti. En það kom ekki það á móti, sem dugði. Það var sama og ekkert, sem kom á móti, a.m.k. allt of lítið. Hvað gerðu bændurnir? Ég er dálítið kunnugur þeirra högum, af því að ég er sjálfur bóndi. Hvað gerðu þeir nú til þess að reyna að bjarga sér yfir þetta? Þeir tóku það ráð, sem ég held að bændur hafi alltaf tekið, þegar að þeim hefur kreppt, en það var það að reyna að framleiða meira. Þeir hafa því hert á þeim þrældómi, sem fyrir var hjá þeim, og á þann hátt hafa þeir enn þá haldið jörðum sínum. Ég hygg, að það sama eða eitthvað svipað hafi verkalýðurinn líka gert, verkalýðurinn hafi reynt að krækja sér í eftirvinnu og næturvinnu til þess að reyna að geta haldið svipuðum lífskjörum og þetta fólk hafði áður. Þetta eru staðreyndir, það sem ég hef sagt hér um bændurna. Þeirra framleiðsluaukning, sem varð á s.l. ári, er fyrst og fremst orðin til fyrir þetta, að þeir hafi lagt á sig meira þrældómsok en áður. Og ég er alveg viss um það, að hæstv. landbrh. veit þetta alveg eins vel og ég, hann veit það alveg eins vel, því að hann er mjög kunnugur högum og háttum bænda.

Hæstv. landbrh. var að velta því fyrir sér dálítið í ræðu sinni í gær, hvort ég mundi vera góður í reikningi. En ég er nú helzt á því, að ég muni ekki fá háa einkunn hjá hæstv. ráðh. í reikningi, enda á ég það sjálfsagt ekki skilið. En við skulum nú sjá til. Ég skal segja ráðh. það, að mér reiknast nefnilega svo til, að ég þurfi núna 1/3 stærri bústofn en ég þurfti 1958 til þess að geta veitt mér og mínum svipuð lífskjör og ég hafði þá. Ég er ekkert að hafa á móti því, að ég sé lélegur í reikningi, ég hef aldrei fengið háar einkunnir í reikningi. En ég hef talað við bændur, sem eru góðir í reikningi, og þeim hefur reiknazt svipað og mér. (Gripið fram í: Er reiknað með fjölskyldubótunum?) Já, já, það er reiknað með þeim líka. Þær voru ekki svo miklar, viðbótin var ekki svo mikil. Ég held nú, að sá, sem fram í greip, hljóti að vita það. Hann hefur svipaða reynslu og ég, hugsa ég. Reyndar hefur það líklega verið hlutfallslega meira, sem hann hefur fengið, af því að hann á færri börn en ég.

Ég er nú viss um það, að ef hæstv. ríkisstj. hefði varið reikningskunnáttu sinni og orku í það að halda krónunni í horfi og vernda mátt hennar og gildi, þá þyrfti stjórnin ekki að vera að gera þær ráðstafanir ýmsar, sem nú er verið að gera, m.a. þessar ráðstafanir, sem er verið að gera vegna lausaskulda bændanna, sem safnazt hafa síðustu árin hjá þeim og öðrum, sem atvinnuvegina reka. Þá hefði ekki þurft að útvega mörg hundruð milljónir í lausaskuldir sjávarútvegsins. Og ég er alveg sannfærður um það, að þá hefðu bændurnir bjargazt. Það hefði verið nær að verja orku sinni og allri reikningskúnst í það að varðveita mátt krónunnar, og ég er sannfærður um, að efnahagslífinu er fátt nauðsynlegra en einmitt það að reyna að halda uppi mætti gjaldmiðilsins.