22.02.1962
Neðri deild: 53. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

21. mál, lausaskuldir bænda

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það er út af umr., sem urðu við 2. umr., sem ég ætla að segja hér nokkur orð.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. lét orð falla í ræðu, sem hann hélt um þetta mál, á þá leið, að hann hlyti að líta svo á, að þeir, sem á þessum lánum þurfa að halda, hafi þegar sótt um þau. Ég held, að hv. 2. þm. Norðurl. v. viti betur. Ég þarf ekki að óska eftir því, að umsóknarfrestur verði framlengdur vegna bænda í Austur-Húnavatnssýslu. Ég átti tal við kaupfélagsstjórana um þetta í sumar og eins við ýmsa forráðamenn sveitarfélaganna, og ég held, að það hafi verið gengið að því að hvetja menn til að sækja um lánin. Ég hygg, að í þeirri sýslu séu fáir, sem hafa ekki sótt um lán. En ég hygg, að í Skagafjarðarsýslu horfi þetta nokkuð öðruvísi við og að í Fljótum hafi forráðamenn kaupfélagsins og sparisjóðsins sagt bændum, að þeir hefðu ekki aðstöðu til þess að taka bréfin til að liggja með þau. Það lá ekkert fyrir um það, eins og allir vita, að bréfin yrðu keypt af Seðlabankanum. Það voru aðeins Búnaðarbankinn og Landsbankinn, sem höfðu gefið vilyrði fyrir því, og í ræðu, sem landbrh. hélt hér við 1. umr., gaf hann það alls eigi í skyn, að Seðlabankinn mundi kaupa bréfin. Það er ekki eðlilegt, að ráðherra segi meira en hann getur staðið við, jafnvel þó að hann geri sér einhverjar vonir. En það er ekki hægt að ætlast til þess, að bændur uppi í sveitum geti fylgzt svo með, hvað gerist hér bak við tjöldin. Ég held því, að þarna sé ekki um réttlætismál að ræða, að það sé ekki rétt að farið, ef þetta verður ekki gert.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. lét liggja orð að því, að hv. 1. þm. Austf. hefði haft nógan tíma á s.l. sumri að hvetja bændur í Tímanum til að sækja, annað hefði ekki þurft að gera, og það hefði verið nær fyrir þann hv. þm. að gera það heldur en að vera að einhverju verkfallsbrölti s.l. sumar. Ég læt það liggja á milli hluta, hvort hv. 1. þm. Austf. hefur haft einhver afskipti af verkfallsbröltinu eða ekki. Hitt vil ég benda á, að það er ósanngjarnt að láta bændur í einhverju sveitarfélagi gjalda þess, hvað einhver maður í einhverjum flokki aðhefst. Ekki segja þeir honum fyrir verkum. Og viðvíkjandi blöðunum get ég bent á það, að ég veit ekki til, að neitt blað hafi sérstaklega hvatt bændur til að sækja um þessi lán, ég hef ekki lesið það, það hefur þá farið fram hjá mér a.m.k. þetta var látið liggja á milli hluta. Þetta voru brbl., sem gefin voru út, og það lá ekkert fyrir um það, á hvern hátt það vandamál yrði leyst viðvíkjandi skuldabréfunum. Ég held, að blöðin hafi hvorki verið að segja bændum að gera þetta né segja þeim að gera það ekki. En það er ranglátt að ætla að láta bændur gjalda þess, þótt einhver þm. eða fyrrv. ráðherra eða þótt hann sé jafnvel í blaðstjórn einhvers blaðs hafi ekki látið skrifa einhverja sérstaka grein til að hvetja þá til að gera eitt eða annað.

Ég skal játa, að hv. 2. þm. Norðurl. v. er að mínu áliti drengskaparmaður og vel gefinn, og það er einmitt þess vegna, sem ég er að tala um þetta. Við vitum, að auk þess er hann prestur. Í því sambandi datt mér í hug dæmisagan, þegar Jesús mettaði fimm þúsundir. Hann deildi fáum brauðum og fáum fiskum á milli fjölda fólks. Mér datt í hug í því sambandi, að fólkið hafi ekki orðið satt af því, hve mikið það borðaði, heldur af því, að þessu litla var bróðurlega skipt. Mér datt í hug í því sambandi að benda mínum góða vini á það, hvort hann hefði íhugað, hvað Jesús mundi gera, ef hann væri í sporum þessara hv. sjálfstæðismanna, sem öllu ráða nú, hvort hann mundi láta suma af þeim, sem þörf hafa fyrir lán, fá þau, en aðra ekki. Ég get vel fallizt á, að fjármagnið sé takmarkað, en við eigum undir öllum kringumstæðum að skipta því eins réttlátlega og hægt er og ekki láta neinn gjalda þess, þó að hann hafi af einhverjum misskilningi ekki sótt á réttum tíma. Ég held, að það sé ekki réttlátt. Ef einhverjir geta ekki fengið lán, þá á að gefa öllum kost á að sækja og láta þá svo sitja á hakanum, sem bezta aðstöðuna hafa, þá sem ekki skulda meira en það, að líkur eru til, að þeir geti borgað það t.d. á þessu ári og næsta ári. Það er það eina, sem er rétt og skynsamlegt.

Ég veit, að landbrh. hefur haft talsvert fyrir þessu máli, og ég efast ekki um hans góða vilja, ég hef metið hann. Hvað mundi hann segja t.d., ef hann hefði þjón, sem ætti að taka til í húsi, hann kæmi svo inn í húsið og sæi, að þjónninn hefði ekki þvegið nema vissa bletti á gólfunum í herbergjunum, það væru eftir smáblettir, og þegar hann hefði átt að taka til í rúmunum, þá væri eitt og eitt rúm eftir? Hann mundi finna að við þennan þjón og segja, að hann hefði gert þetta illa. Hvað mundi hann segja við málara, sem ætti að mála herbergi og skildi eftir smábletti ómálaða, það yrði að vinna verkið aftur? Hann mundi vanþakka þessum málara og segja, að hann hefði gert verkið illa, þetta væri gagnslaust verk. Nú er það hans hlutskipti að inna þetta af hendi, sjá um, að þetta fari allt vel úr hendi, og mundi þá ekki vera viturlegra og skynsamlegra að gera þetta þannig, að það þyrfti ekki að vera að ganga í það á eftir? Og það megið þið vera vissir um, að ef þið skiljið vissa hreppa eftir eða vissa einstaklinga, sem hafa af óaðgæzlu eða einhverra ástæðna vegna ekki sótt um lán, þá verður gengið á það á eftir, það verður ekki látið liggja kyrrt. Þó að þið séuð nú í meiri hluta, þá er ekki víst, að þið verðið alltaf í meiri hluta. Við munum áreiðanlega reyna að rétta hlut þeirra, sem á að setja hjá nú af þeim ástæðum, sem ég hef áður nefnt. Það er ekki búmannlegt, hyggilegt eða skynsamlegt af hæstv. landbrh. og ekki honum samboðið, úr því að hann fer að vinna að þessu, að gera það ekki sómasamlega. Það munar svo litlu, hvort verkið er gert vel eða illa.

Pólitískt vinnið þið ekkert á þessum aðgerðum, það get ég alveg fullvissað ykkur um. Það er ævinlega svo, ef menn breyta rangt, að það kemur fram á þeim sjálfum. Ég vona, að þarna eigi sér ekki stað neinn hefndarhugur, þannig að menn eigi að gjalda þess, að þeir hafi frekar trúað Tímanum eða einhverjum framsóknarmönnum heldur en öðrum. Ég held, að það sé ekki. Ég efast ekki um, að það séu einhverjir sjálfstæðismenn, sem eiga eftir að sækja. Ef menn ætla að hefna sín á einhverjum, þá kemur það vanalega fram á þeim sjálfum, og þið skuluð athuga það, að með því að gera hluti, sem eru ekki réttir eða skynsamlegir, þá ljáið þið andstæðingunum vopn í hendur. Og Tíminn getur ábyggilega skrifað fáeina leiðara út af því, ef menn eru rangindum beittir í þessu, þannig að ef þið hjálpið einhverjum, þá eru það þeir, sem skrifa leiðara Tímans, þeir fá þarna efni til þess að skrifa um, og þið gefið sjálfir höggstað á ykkur. Ég held því, að það sé meira en rangt af ykkur að gera þetta, það er vitlaust líka, það er vitleysa. Og þegar það fer saman að gera rangt og gera það, sem er óskynsamlegt, þá er bezt að láta það ógert. Það er aukaatriði, hvort þið samþykkið þessa brtt. eða ekki. Við vitum, að það er ekki venjulegt að samþ. brtt. frá okkur. Aðalatriðið er, að málið sé framkvæmt á réttan hátt, þótt það sé gert með reglugerðarákvæði eða með öðrum ráðstöfunum bak við tjöldin, það er alveg aukaatriði. Það þarf ekki að þakka okkur neitt í því efni, við ætlumst ekki til þess. Aðalatriðið er það, að hluturinn sé gerður og gerður rétt og heiðarlega.