22.02.1962
Neðri deild: 53. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (688)

21. mál, lausaskuldir bænda

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það hafa nú orðið nokkrar umr. um þetta mál og ekki að ófyrirsynju, bæði við 1. umr. málsins, við 2. umr. og einnig nú við 3. umr. Ég hef ekki tekið þátt í þeim umr. hingað til og veit ekki, hvort ég hefði gert það, ef ekki hefðu komið fram ummæli nokkur í ræðu hv. síðasta ræðumanns, sem mér finnst ástæða til að gera að umtalsefni. Þar virtist mér hjá þeim mæta manni koma fram nokkur misskilningur eða þá það, að hann hafi ekki íhugað þau málsatriði, sem þar er um að ræða, sem skyldi. En úr því að ég hef kvatt mér hljóðs, mun ég fara nokkrum orðum um þetta frv., sem hér liggur fyrir, og upphaf þess.

Eitt kvöld á slættinum s.l. sumar, ef ég man rétt, birti ríkisútvarpið þá frétt, að út hefðu verið gefin brbl. um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán, og síðan birtur texti þessara brbl. Eins og venja er, fylgdi þessum brbl. grg. sú, sem hlutaðeigandi ráðherra hafði látið forseta lýðveldisins í té, þegar brbl. voru fyrir hann lögð. Með leyfi hæstv. forseta, hljóðaði þessi grg. til forsetans á þessa leið, eins og frá henni er skýrt af forseta:

„Landbrh. hefur tjáð mér, að ríkisstj. hafi gefið fyrirheit um breytingu á hluta af lausaskuldum bænda í föst lán til langs tíma, með svipuðum hætti og gert hefur verið með sérstökum lögum gagnvart fyrirtækjum, sem stunda útgerð fiskiskipa og fiskvinnslu. Þar eð undirbúningi að þessari breytingu er lokið og nauðsynlegt að létta nefndum lausaskuldum af bændum hið allra fyrsta, beri brýna nauðsyn til að veita veðdeild Búnaðarbanka Íslands nauðsynlegar heimildir til þess, að breytingin geti farið fram og náð tilgangi sínum“ o.s.frv.

Aðalákvæði þessara brbl. voru svo á þá leið, að veðdeild Búnaðarbankans væri heimilt að gefa út nýjan flokk bankavaxtabréfa og að bankavaxtabréf þessi yrðu notuð til þess að breyta í föst lán lausaskuldum bænda vegna framkvæmda, sem þeir hafa ráðizt í á jörðum sínum á árunum 1956–60, og að lán samkv. lögum þessum skuli aðeins veitt gegn veði í fasteign bónda ásamt mannvirkjum, sem á jörðinni eru. Lánstími skuli vera allt að 20 ár og vaxtakjörin ákveðin sérstaklega. Enn fremur, að lán, samkv. þessum lögum að viðbættum veðskuldum þeim, sem hvíla á fyrri veðréttum, skuli ekki nema hærri fjárhæð en 70% af matsverði veðsins.

Ég var staddur í Norðurlandi, þegar þessi frétt barst um brbl. og efni þeirra, og ég varð þess strax var af viðtölum við bændur, sem komu að máli við mig út af þessari frétt, að menn áttuðu sig ekki fullkomlega á því, í hverju þessi fyrirgreiðsla væri fólgin. Sýndist flestum hún vera fremur lítil, ef ekki væri um annað að ræða en að menn gætu fengið bankavaxtabréf, sem þeir yrðu svo að ráðstafa sjálfir, og þá vafamál, hvort þau kæmu að haldi til þess að greiða þær lausaskuldir, sem um væri að ræða. Einnig varð ég þess var hjá mönnum, sem eiga ekki jarðir sínar sjálfir, að þeim sýndist mundi vera nokkur bagi á, að þeir gætu notað sér lögin, þar sem ekki væri gert ráð fyrir, að hægt væri að veðsetja vélar eða bústofn. Um vextina af þessum lánum var á þeim tíma enn ekkert kunnugt. Það var gert ráð fyrir, að þeir yrðu ákveðnir síðar. En það var auglýst eftir umsóknum og umsóknarfrestur settur til 1. okt.

Ég ætla, að það hafi verið hv. síðasti ræðumaður, og ég bið hann afsökunar, ef það hefur verið einhver annar úr hans flokki, en mig minnir, að það væri hann og e.t.v. einhverjir fleiri, sem létu orð falla um það, að þm. Framsfl. hefðu latt menn í sambandi við umsóknir um þessi lán, hefðu dregið úr því, að menn sæktu um þessa fyrirgreiðslu. Ég veit ekki, hvaðan þessi hv. þm. eða aðrir hv. þm. hafa þær fréttir. Ég skal ekki svara fyrir aðra menn, en að því er mig sjálfan varðar, þá vil ég alveg vísa þessu til baka, þessari frétt eða fullyrðingu, svo að ég hafi ekki um það önnur orð, heim til föðurhúsanna, því að ég get sagt fyrir mitt leyti, að við þá menn, sem spurðu mig um það, hvort ráðlegt mundi vera að sækja um þessi lán, — kannske hafa það ekki verið margir, en það voru einhverjir, — þá sagði ég alltaf það sama, að það væri sjálfsagt að gera það, alveg sjálfsagt að gera það, því þó að aðstoð samkv. þessum brbl. væri sýnilega eða virtist vera mjög ófullkomin, þá væri ekki fyrir það að synja, að hér kynni að verða bætt úr á einhvern hátt. Mér þætti líklegt, að Alþingi mundi gera athugasemdir við þessi brbl., þegar það kæmi saman, og þar mundi vera vilji fyrir því að gera þessa fyrirgreiðslu meiri og láta hana koma að notum, það mundi verða reynt — eða væri ekki ólíklegt, að það yrði reynt að leysa úr því á einhvern hátt og þá sennilega með breytingu á brbl., því að það þótti mér reyndar líklegast að yrði. Hins vegar verð ég að segja það og vil hér með skýra frá því hér á þessum vettvangi hæstv. landbrh. og öðrum, sem það vilja taka trúanlegt, að ég hef ástæðu til að ætla, að það fyrirfinnist menn í hópi bænda, sem hafa ekki sótt um þessi lán, af því að þeim sýndust lögin ekki þessleg, að neitt gagn mundi verða að slíkum umsóknum, og af því að engin endurbót var komin á lögunum eða neitt fyrirheit um slíka endurbót um það leyti, sem umsóknarfresturinn var útrunninn. Og ummæli hæstv. landbrh. í formálanum fyrir brbl., sem ég las áðan, að undirbúningi að lagasetningunni sé lokið, eins og þar er orðað, þau gátu vissulega gefið mönnum tilefni til þess að ætla, að ekki væri að vænta breytinga hér á. Það er nú svona, að þó að það þyki kannske í fljótu bragði ekki mikil fyrirhöfn að senda hingað suður í veðdeild Búnaðarbankans nokkra pappíra áritaða, þá er það stundum töluvert mikil fyrirhöfn að ná í þessa pappíra og bændur hafa oft í öðru að snúast en vera að afla sér þeirra, ef þeir þá telja, að það hafi enga þýðingu. Hins vegar vil ég segja það, að ég álít, að margir eða e.t.v. mikill meiri hluti af þeim, sem óska eftir aðstoð vegna lausaskulda, hafi sótt. En ég þykist, eins og ég sagði áðan, hafa ríka ástæðu til að ætla, að það muni vera nokkuð af mönnum, sem ekki hefur gert það.

Svo gerist það í málinu, að hæstv. landbrh. gefur út reglugerð samkv. brbl. hinn 9. okt. s.l., og sú reglugerð var eiginlega ekki til þess fallin að hvetja menn til þess að reyna að koma inn umsóknum, eftir að umsóknarfresturinn var liðinn, jafnvel þó að veðdeildin hefði viljað taka á móti umsóknum eftir það. Reglugerðin gaf ekki neinar nýjar vonir í þessu máli, síður en svo. Þó að liðnir væru þrír mánuðir frá útgáfu brbl. og hefði því gefizt allríflegur tími fyrir hæstv. ráðh. til þess að sinna málinu, þá gaf þessi reglugerð frá 9. okt. ekki neinar nýjar vonir í þessu máli, heldur þvert á móti, því að þar var ekki komið fram með neitt úrræði til þess að gera verð úr þessum vaxtabréfum, gera þau nothæf til síns brúks, og þar kom svo ákvæði um vextina, sem mun ekki hafa aukið bjartsýni manna verulega í þessu sambandi, þar sem þeir voru ákveðnir 8%, eins og margsinnis hefur verið vikið að hér í umr. Og ég held, að það sé ekki ofmælt, þó að það sé sagt, að mörgum bændum, sem var kunnugt um vexti í stofnlánadeild sjávarútvegsins í sambandi við fyrirgreiðslu þar, hafi komið þetta á óvart, að vextirnir til bænda skyldu vera þetta hærri en til útvegsmannanna, án þess að menn séu þar með nokkurn meting. Það er sannarlega ekki ástæða til þess, að menn séu með neinn meting á milli sjávarútvegsmanna og bænda, nema síður sé. En bændum finnst þetta eðlilegt, að þeir njóti sams konar kjara og ekki lakari í sambandi við lán og aðrar atvinnustéttir eða aðrir atvinnuvegir, og það hefur verið í seinni tíð viðurkennt hér á Alþingi, a.m.k. í orði kveðnu, af öllum eða svo að segja öllum, að bændur og landbúnaðurinn ættu að njóta þess, sem kalla mætti beztu kjör í lánsfjármálum, að þeir ættu ekki að greiða hærri vexti eða yfirleitt að öðru leyti að hafa óhagstæðari lánskjör en aðrir atvinnuvegir eða aðrar stéttir á hverjum tíma, og þannig held ég, að hafi verið yfirleitt að málum staðið fram að þessu. Þess vegna virðist mér, að hér sé um nokkurt nýmæli, nokkra nýlundu að ræða, þar sem bændum í þessu tilfelli er ætlað að sitja við annað borð, lægra en öðrum, sæta óhagstæðari kjörum. Í því virðist mér eiginlega örla á nýrri stefnu í þessum málum, nýrri stefnu í landbúnaðarmálum. Þó að þar sé kannske ekki um nýja stefnu að ræða, þá virðist mér örla á henni þarna, og væri vonandi, að það væri ekki undanfari meiri tíðinda af því tagi. En í því sambandi verð ég að segja það, að þau hryggðu mig mjög, ummæli, sem hér féllu við síðustu umr. frá hv. þm., sem hefur nú verið starfandi við landbúnað, hv. 3. þm. Austf., þar sem hann eiginlega lagði lykkju á leið sína til þess að ræða þessi lánsfjármál landbúnaðarins umfram það, sem þetta mál, sem hér liggur fyrir, gaf beinlínis tilefni til. Og hann gekk svo langt í því, að hann lýsti yfir því sem sinni skoðun, að vaxtahækkunin, sem gerð var fyrir tveimur árum hjá Ræktunarsjóði Íslands, hefði verið fullkomlega réttmæt og eðlileg, og hann teldi meira að segja, að hún hefði átt að koma fyrr, þessi vaxtahækkun á lán bændanna hefði átt að koma fyrr. Mig furðaði töluvert mikið á þessum ummælum, ekki sízt frá þessum hv. þm., sem ég hef álitið að væri einn þeirra manna í Sjálfstfl., sem helzt mundu hneigjast til þess að líta á þarfir landbúnaðarins og nauðsyn og kunna skil á þýðingu hans almennt fyrir þjóðlífið. Þess vegna furðaði mig á þessum ummælum, og ég ætla, að svo muni fleirum fara. Ég hefði haldið, að þessi þm. og aðrir slíkir, sem studdu vaxtahækkunina á sínum tíma á stofnlánum landbúnaðarins, mundu vilja skýra afstöðu sína á þá leið, að þetta væri neyðarráðstöfun, hrein neyðarráðstöfun eða samkomulagsráðstöfun innan flokks eða meðal stjórnarstuðningsmanna, en ekki að þeir í sjálfu sér teldu þetta réttmætt og að aðra eins ráðstöfun hefði átt að gera miklu fyrr. Og það er illt til þess að vita, ef þetta er tákn nýrrar stefnu í landbúnaðarmálum á vegum hæstv. ríkisstj.

Nú var það svo, eins og ég var að ræða um áðan, að reglugerðin samkv. brbl. var gefin út 9. okt. s.l., og eins og ég sagði áðan, var hún síður en svo til þess fallin að glæða vonir manna um góða fyrirgreiðslu í þessu máli. Svo leið og beið og málið var lagt fyrir Alþingi. Frv. var vísað til nefndar, og nefnd skilaði áliti eða álitum. Síðan er langur tími liðinn, og nú er komið fram í febrúarmánuð 1962. Nú hefur það gerzt, að hæstv. landbrh. hefur tilkynnt þingheimi það, sem út af fyrir sig verður að telja góðar fréttir, að Seðlabankinn hafi fallizt á að veita viðtöku vaxtabréfum þeim, sem hér er um að ræða, á þann hátt, að ætla má, að að gagni geti orðið, a.m.k. flestum þeim, sem um þessi lán þurfa sækja, þannig að þeir geti greitt lausaskuldir sínar með þessum bréfum. Þó sýnist mér, að svo geti farið, að ekki komi þetta öllum að gagni, eða hvernig fer um þá, sem skulda ekki bönkum, ekki sparisjóðum og ekki verzlunum, heldur einhverjum einkaaðilum? Það eru lausaskuldir og geta verið óþægilegar við að fást ekki síður en hinar, en ég hef ekki komið auga á það, að fyrirheit Seðlabankans, eins og það er skráð í bréfi, sem hæstv. ráðh. las upp í deildinni, leysi vanda þeirra manna. Ef það væri, þá væri mér mjög kært að fá það upplýst, því að það skiptir vissulega máli. Eins er um hitt, að bændur, sem eiga ekki jarðir sínar, verða hér í nokkrum vanda, því að þeir verða þó að geta tryggt lánin. Hér er um að ræða bæði landseta ríkisins, þ. á m. embættismenn, t.d. presta í sveitum, og einnig menn, sem búa á jörðum í einkaeign sem leiguliðar. Nú getur verið, að hæstv. ríkisstj. geti tryggt það, að veðleyfi fáist fyrir þá, sem búa á opinberum jörðum, og vonandi tekst að tryggja það, en þá eru hinir, sem búa á jörðum í einkaeign sem leiguliðar. Lögin heimila ekki, að þeir veðsetji eignir, sem þeir kunna að eiga, eða verðmæti, sem þeir kunna að eiga og í ýmsum tilfellum hafa verið veðhæf, eins og vélar og bústofn. Og við 2. umr. var felld — því miður — brtt. frá minni hl. fjhn. um það, að vélar væru veðhæfar í þessu sambandi. En ýmsar af þeim lausaskuldum, sem hér er um að ræða, eru áreiðanlega orðnar til einmitt í sambandi við vélakaup og ekki óeðlilegt, að vélarnar gætu þá staðið sem trygging fyrir lánunum, enda var það svo í þeim lögum, sem samþykkt voru hér á hv. Alþ. árið sem leið um lausaskuldir útvegsins, að þá var gert ráð fyrir því, að vélar yrðu veðsettar fyrir lánunum.

Í framhaldi af því, sem ég sagði áðan, virðist mér, að brtt. tveggja hv. þm. úr minni hl. fjhn. á þskj. 311 um, að umsóknarfrestur skuli vera til 1. maí 1962, sé eðlileg og sanngjörn, og ég vil mjög mega vænta þess, að menn geti fallizt á að samþykkja hana. Einnig virðist mér, að eðlilegt sé að samþykkja fyrri brtt. á þskj. 311, um það, að lán skuli veitt til framkvæmda, sem bændur hafa ráðizt í á jörðum sínum á árunum 1956–61. Í frv. stendur: 1956–60. Samkv. þeim ákvæðum er ekki heimilt að lána til greiðslu á lausaskuldum, sem stofnaðar eru vegna framkvæmda á árinu 1961. Ég held, að sanngirni og nauðsyn mæli með því, úr því að afgreiðsla málsins hefur dregizt svona á annað borð, að taka árið 1961 með. Ef það verður ekki gert, þá er hætt við því, að ýmsar skuldir, sem til voru á árinu 1960 og taldar hafa verið fram, falli niður og verði ekki veitt lán til greiðslu á þeim, því að eftir lögunum og reglugerðinni mundi það vera svo, að ekki verður veitt lán til greiðslu á öðrum skuldum en þeim, sem eru til, þegar lánið er veitt. En ýmis dæmi munu vera um það að menn hafi greitt skuld frá árinu 1961 á þann hátt að stofna til annarrar skuldar. Það er í raun og veru um sömu skuldina að ræða, þó að það líti ekki þannig út við skuldaframtal eða við það yfirlit, sem gert er, um leið og lánið er afgreitt. Auk þess er það áreiðanlegt, að á árinu 1961 hafa safnazt nýjar skuldir hjá allmörgum, og það er ekki óeðlilegt.

Ef hætta hefur verið á því á árunum 1956–1960, að skuldir söfnuðust hjá bændum, vegna vélakaupa og vegna bygginga og ræktunar, þá hefur sú hætta þó verið miklu meiri á árinu 1961, því að aldrei hefur verið eins dýrt að byggja, aldrei eins dýrt að kaupa vélar, aldrei eins dýrt að rækta.

Ég trúi því ekki, fyrr en ég heyri það eða sé, að hv. þm. felli till. á þskj. 311. Nóg var að gert, þegar hv. deild felldi við 2. umr. brtt. minni hl. n., sem þá voru fluttar. Ég hef gert þær till. hér nokkuð að umtalsefni ásamt öðru, þótt þær liggi ekki fyrir nú, og mun ekki ræða þær umfram það, sem ég hef gert.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál. Ég ætla ekki að ræða það, hvort ástæða sé til, að fulltrúar bænda standi hér upp í hv. deild til þess að bera fram þakkir til hæstv. landbrh. út af þessu máli. Það geta þeir gert, sem sýnist, og hæstv. ráðherra veitt þeim þökkum viðtöku, sem honum þykir ástæða til. En ég hygg, að hann ætti a.m.k. að beita sér fyrir því, að þær brtt. verði samþykktar, sem nú liggja fyrir.