20.11.1961
Neðri deild: 21. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða miklu meira um þetta mál, en ég vildi leyfa mér að gera örstuttar athugasemdir.

Frsm. meiri hl. fjhn. taldi vera þrjár aðalástæður til þess, að þessir vöruflokkar væru frekar teknir en aðrir. Ég hygg, að tvær ástæðurnar eigi við flestar vörur í landinu, þ.e. að verðið er hátt á þeim og þörf væri að lækka tollana. En þriðja atriðið er, að það sé meira smyglað af þessum vörutegundum en öðrum, vegna þess að tollar á þeim séu hærri, en ekki af því, að þær séu meiri nauðsynjavörur fyrir almenning. Það má vera, að þetta sé rétt. En hitt er ég sannfærður um, að þó að tollarnir verði lækkaðir á þessum vörum, eins og ráð er fyrir gert í þessu frv., þá verður ekki komið í veg fyrir smyglið eingöngu með því. Við vitum það, að smyglið er mjög vel skipulagt hér á landi. Það er mörgum vörutegundum smyglað og sjálfsagt miklu fleiri en þessum. Við verðum því að leita að ástæðunum fyrir því, að svona mikið er um smygl. Ég hygg, að það sé aðallega tvennt, það sé, að þeir, sem fara á milli landa, hafi of mikil ráð á erlendum gjaldeyri, og í öðru lagi, að eftirlitið sé ekki nógu strangt. Við vitum, að sjómenn og áhafnir flugvéla og aðrir slíkir fá nokkurn hluta af kaupi sínu greiddan í erlendum gjaldeyri. Þeir þurfa eitthvað að gera við þennan gjaldeyri, og þá kaupa þeir eðlilega vörur fyrir hann, og ég hygg, að eftirlitið sé í mörgum tilfellum lítið sem ekkert, þannig að þetta sé hægðarleikur. Í sumum tilfellum er þeim beinlínis leyft að hafa með sér vissan skammt af vörum, eins og t.d. vín, — ég veit ekki nákvæmlega, hvað það er mikið, svona eina eða tvær flöskur, eitthvað svoleiðis, en það dregur sig saman, og þegar verið er að leyfa mönnum, sem ferðast milli landa, að hafa einhvern ákveðinn skammt með sér, þá er ákaflega þægilegt að láta fljóta eitthvað meira með. Það má vera, að smygl minnki með þessar vörutegundir við þessar lagabreytingar, en smyglararnir fara þá bara yfir í aðrar vörutegundir, þannig að þetta eitt verður ekki nóg til að koma í veg fyrir smygl. Ég hygg, að allir menn óski eftir því, að það verði dregið úr smyglinu, því að það er viss tegund af spillingu og ranglæti, sem því fylgir, en það verður ekki gert með þessu einu saman.

Viðvíkjandi því, hvort meiri þörf er á að lækka tolla af þessum vörum eða öðrum, þá hygg ég, að menn séu sammála um, að ekki sé mest þörf að lækka tolla á þessum vörum.

Ég geri ekki ráð fyrir, að neinar brtt. verði samþ. hér við þetta frv. og þess vegna þurfi ekki að fjölyrða mikið um það. En ef ætti að taka þær vörur, sem mest þörf væri á að lækka tolla á, þá mundu það vera heimilistæki og tæki til atvinnurekstrar, bæði vegna skipa og landbúnaðar. Þeir, sem eru að hefja búskap, þurfa að kaupa vélar, og þeir, sem eru að mynda heimili í kaupstöðunum, þurfa að kaupa heimilistæki, og raunar hvar sem er. Það er mest ástæða til þess að lækka verðlag á þessum vörum, ef litið er á þá hlið málsins.

Það er staðreynd, að þessar vörur eru lækkaðar í verði vegna smyglsins, og þá er það líka staðreynd, að það eru afbrotamennirnir, sem eru farnir að hafa áhrif á löggjöfina. Vitanlega er fólkið fegið, að verð lækkar á vörum, en það stendur fyrst og fremst í þakklætisskuld við smyglara, og ef smyglararnir halda nú þessari starfsemi áfram og fá að þrífast, þá verða þeir vinsælir hjá þjóðinni, ef þeim tækist að lækka verðlag á fleiri vörutegundum. Það er dálítið hæpin leið að fara að láta þá menn, sem brjóta lögin, ráða allt of miklu í þjóðfélaginu.

Ég er engan veginn að mæla á móti þessu frv., að það geti ekki verið gott, það sem það nær. En það nær bara skammt, og við getum ekki hugsað okkur það í framtíðinni, að þeir menn eigi að ráða tollalöggjöfinni, sem brjóta hana. Það er óeðlilegt og ósanngjarnt. Þess vegna held ég, að það þurfi að gera gangskör að því að koma í veg fyrir smyglið, það verði að fara aðrar leiðir og róttækari en þessar. Það eru ótrúlegar leiðir, sem smyglararnir hafa, og þekkja kannske engir þær allar nema þeir sjálfir. Þess vegna held ég, að tollstjóri og fjmrh. ættu að reyna að fá einhvern snjallan smyglara í þjónustu sína, því að hann yrði allra manna lagnastur að koma upp um smyglara, ef hann á annað borð væri eftirlitinu trúr.