27.02.1962
Efri deild: 53. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

21. mál, lausaskuldir bænda

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. til staðfestingar á brbl. um lausaskuldir bænda, sem voru gefin út 15. júlí s.l., er komið frá Nd. og hefur verið rætt mikið þar, og einnig hefur verið mikið skrifað um þetta mál, svo að hv. dm. eru áreiðanlega mjög kunnugir málinu. Eigi að síður þykir mér hlýða að fara nokkrum orðum um málið hér, þótt ljóst sé, í hverju það er fólgið.

Með frv. er gert ráð fyrir því, að veðdeild Búnaðarbankans gefi út nýjan flokk bankavaxtabréfa, og skulu þau eingöngu notuð til þess að breyta í föst lán lausaskuldum bænda. Auglýst var eftir umsóknum, eftir að lögin höfðu verið gefin út, og umsóknarfrestur gefinn til 1. okt., í 2½ mánuð. Eftir 1. okt. var ljóst, að ekki höfðu allar umsóknir verið fullnægjandi, og vantaði ýmis skjöl og skilríki í þær, til þess að þær væru teknar til greina, og var þá framlengdur fresturinn til 1. des. til þess að fullnægja umsóknunum. Má því ætla, að umsóknarfresturinn hafi verið nægilega langur til þess, að þeir, sem töldu sig hafa þörf fyrir fyrirgreiðslu í þessum efnum, reyndu að notfæra sér það, enda hafa um 1200–1300 bændur sótt um þessa fyrirgreiðslu. Og upphæðin, sem sótt er um að veita, er 82 millj. kr. Vextir af bréfunum eru ákveðnir 7½%, og er gert ráð fyrir, að lánið verði til 20 ára. Gera má ráð fyrir, að flestir, sem hafa sótt, geti fengið þá fyrirgreiðslu, sem ætlazt er til, með því að umsækjendur munu langflestir hafa nægileg veð, eftir að ný virðing hefur farið fram á húsum, jörðum og öðrum mannvirkjum. En það er gert ráð fyrir að lána aðeins út á fasteignir, enda um 20 ára lán að ræða.

Að því hefur verið fundið, að það skuli einungis lánað út á fasteignir og að það skuli ekki vera lánað út á vélar eða vinnslustöðvar landbúnaðarins. Er það borið saman við þá fyrirgreiðslu, sem sjávarútvegurinn hefur fengið, og ýmsir telja, að landbúnaðurinn fái lakari fyrirgreiðslu en sjávarútvegurinn. Ég tel hins vegar, að með þessum lögum muni bændur fá fyllri og betri fyrirgreiðslu. Það er gert ráð fyrir, að lán til þeirra verði til 20 ára. Lán til sjávarútvegsins voru aðeins til 10 og sum til 15 ára. Lán til sjávarútvegsins voru ekki nema á nokkrum parti af skuldum útgerðarinnar og vinnslustöðvanna, vegna þess að þau voru bundin aðeins við þær skuldir, sem voru í tveimur bönkum, Landsbankanum og Útvegsbankanum. Lán til bændanna eru ekki bundin við neina einstaka stofnun eða stofnanir, heldur er gert ráð fyrir að taka til greina og breyta skuldunum, hvar sem þær eru. Það er vitanlega mun hægara að eiga við útgerðina, sem aðeins þurfti að breyta skuldum í tveimur bönkum, heldur en hjá bændunum, sem skulda í velflestum bönkum, öllum kaupfélögunum og mörgum öðrum verzlunum og víða annars staðar. Það eru þess vegna ekki aðeins tveir aðilar, sem eru lánardrottnar bændanna í þessu efni, heldur eru það hundrað aðilar.

Gera má ráð fyrir, að flestir bændur, sem hafa sótt um lán, hafi nægileg veð, og þeir, sem eru á opinberum jörðum, munu fá veðleyfi fyrirhafnarlaust, vegna þess að það er gert ráð fyrir, að skuldirnar hafi orðið til vegna framkvæmda síðustu fimm ára, þ.e. áranna 1956–1960 að báðum árunum meðtöldum, og það er föst venja, að ríkið veiti veðleyfi vegna framkvæmda á ríkisjörðum. Þá er það og orðin að mestu föst venja, að eigendur jarða, sem eru í einkaeign, gefi einnig veðleyfi, þegar um framkvæmdir er að ræða á jörðunum, — framkvæmdir, sem gera jarðirnar byggilegri og útgengilegri á margan hátt. Það má þess vegna reikna með því, að bændalánunum, sem sótt hefur verið um, verði að langmestu leyti breytt í 20 ára lán, og verður það þá fyrirgreiðsla, sem kemur að góðu haldi og gerir mörgum bóndanum léttara að reka sitt bú og standa straum af skuldunum heldur en áður.

Það hefur verið fundið að því, að vextirnir af bændalánunum verði hærri en hjá útveginum, þar sem gert er ráð fyrir, að bréfin gefi 7½%, og jafnvel veðdeildin taki ½% fyrir sína þjónustu, að það verði þá e.t.v. 8%, a.m.k. 7½% vextir af þessum bændalánum, en ekki nema 6½% af útgerðarlánunum. Ég vil ekki fullyrða, hve mikinn hundraðshluta útgerðin hefur fengið af þeim lánum, sem hún sótti um, en það er vitað, að það voru aðeins þær skuldir, sem voru í ríkisbönkunum, en ekki aðrar skuldir, enda aldrei ætlazt til annars, þegar lögin voru gefin út. Ef við segðum, að útgerðin hefði fengið helmingi af sínum lausaskuldum breytt í 10–15 ára lán með 6½% vöxtum, en bændurnir fengju í sumum tilfellum 80% og flestir 100% breytt sínum lánum í 20 ára lán gegn 8% vöxtum, þá vil ég spyrja: hvort er betra? Væri ekki betra að fá öllum lausaskuldunum og öllum víxlunum breytt í 20 ára lán, þótt það væru 7½%–8% vextir, heldur en helmingnum af lausaskuldunum fyrir 6½% ? Þess ber og að geta, og það veit ég, að hv. alþm. Ed. vita, að kúfurinn af þeim vöxtum, sem bændur greiða, kemur inn í verðlag landbúnaðarvara. Menn geta haft skiptar skoðanir um það, og hv. þm. geta jafnvel verið sammála um það, að bændur vanti inn í verðgrundvöllinn ýmislegt, til þess að hann sé réttur. En það hefur ekki verið deilt um það, að þeir vextir, sem bændur greiða út, eru teknir inn í verðgrundvöllinn. Að vísu fá þeir, sem skulda mest, ekki allan kostnaðinn inn í verðgrundvöllinn, og þeir, sem skulda minnst, það má segja, að þeir fái of mikið. En undir öllum kringumstæðum hlýtur kúfurinn af þeim vöxtum, sem bændurnir greiða, að fara inn í verðlagið og vera að því leyti létt af bóndanum sem byrði.

Nú hefur verið gerður samanburður á vaxtagreiðslum annarra atvinnuvega og landbúnaðarins, og það hefur verið talað um, að það sé reiknað með vaxtagreiðslum útgerðarinnar í því verði, sem útgerðin fær fyrir fiskinn og frystihúsin gefa fyrir hráefnið. Þetta er að vísu rétt, en þó ekki nema að nokkru leyti, vegna þess að útgerðarmaður hefur enga verð- eða sölutryggingu á fiskinum. Útgerðarmaðurinn og vinnslustöðin verða að bera hallann, sem kann að verða af verðfalli á þeim fiski, sem þau hafa undir höndum. Bóndinn er hins vegar tryggður með það verð, sem semst um, með því að hann ber ekki lengur hallann af því tapi, sem kann að verða á útfluttum afurðum. Hitt er svo annað mál, að bóndann vantar inn í verðgrundvöllinn aðra kostnaðarliði, sem unnið verður vitanlega að því að fá viðurkennda og hljóta að fást viðurkenndir, eftir því sem betri og betri rök eru færð fyrir því, því að lögin um framleiðsluráð kveða skýrt á um það, að bóndinn skuli ekki hafa minni tekjur en verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn, og hann getur ekki fengið a.m.k. sams konar tekjur, nema þau útgjöld, sem greiða verður nauðsynlega við framleiðsluna, verði tekin til greina í verðgrundvellinum. Þetta er svo skýrt, að það hlýtur að vera hægt að fá kostnaðarliðina viðurkennda, ef þeir eru rétt og röksamlega fram færðir, og það má segja, að s.l. haust hafi framleiðsluráð byggt upp sínar kröfur af festu og nokkuð góðum rökum, þótt þar megi vitanlega mjög um bæta. En ástæðan til þess, að kröfur framleiðsluráðs voru ekki allar teknar til greina s.l. haust, var m.a. sú, að haustið 1960 var samkomulag um verðgrundvöllinn, fullt samkomulag, og þeir, sem hafa skoðað verðgrundvöll landbúnaðarvara 1960 og 1961, telja, að það sé mjög vafasamt, að verðgrundvöllurinn 1961 sé nokkuð lakari en 1960. Og aðrir vilja fara lengra aftur í tímann og segja: Grundvöllurinn 1957 var þó sýnilega miklu verri. — En þetta er önnur saga.

En ég held, að við getum verið sammála um það, að krafan um 30% hjá framleiðsluráði, sem ég get búizt við að hafi verið í raun og veru alveg rétt, að það þurfi ekki að undrast, þótt hún væri ekki tekin að fullu til greina á s.l. hausti, eftir að samkomulag hafði orðið 1960, því að það vita allir og þarf ekki að taka blað og blýant til þess að reikna það út, að það hefur ekki orðið skekkja á verðlagsárinu 1960 og 1961, sem nemur 30%. Hafi verið 30% skekkja á verðgrundvellinum s.l. haust, þá á hún eldri upptök en aðeins þetta eina ár, og þess vegna er það, að framleiðsluráð vitanlega heldur áfram að færa rök og enn fyllri rök en s.l. haust fyrir þeim kröfum, sem gera þarf til leiðréttingar á grundvellinum. Og það er trú mín, að málstaðurinn sé svo góður, að það hljóti að vinnast, ef festu og rökum er beitt. Það vitanlega veikti málstaðinn s.l. haust, að í þau 18 ár, sem sex manna nefndin hefur starfað, hefur verið samkomulag um verðgrundvöllinn 15 sinnum, en aðeins þrisvar sinnum úrskurðað, og svo bera menn það fram í fullri alvöru, að grundvöllurinn hafi aldrei verið réttur. Ég skal ekki fara lengra út í það. En þetta er vitanlega ákaflega mikið atriði yfirleitt í sambandi við málefni bændanna og hefur vitanlega haft sín áhrif á skuldasöfnun bænda undanfarin ár, ef verðgrundvöllurinn hefur ekki verið réttur, og að svo miklu leyti sem hann er ekki réttur nú, verður að gera ráðstafanir til, að ranglætið verði leiðrétt.

Lausaskuldasöfnun bænda undanfarin ár er vitanlega mest til komin vegna framkvæmdanna, vegna þess að lánasjóðir landbúnaðarins hafa ekki verið þess megnugir að lána nema litinn hluta af stofnkostnaði framkvæmdanna. Það var lengi, sem lán út á íbúðarhús var aðeins 45 þús. kr. Það mun hafa verið hækkað upp í 60 þús. 1952–53. 1955 mun það hafa verið hækkað upp í 75 þús. kr. og óbreytt síðan til haustsins 1960, þá var það hækkað upp í 90 þús. kr. og svo aftur s.l. haust upp í 100 þús. kr. Það má segja, að oftast nær hafi þetta ekki verið nema 25–30% af stofnkostnaði, og það er vitanlega svo litið, að þeir bændur, sem ráðast í það að byggja íbúðarhús, hafa ekki efni á því að leggja fram eigið fé, sem nemur 70–75% af kostnaðinum. Afleiðingin verður, að það verða lausaskuldir í verzlunum eða víxlar í bönkum. Það er þetta, sem gerir erfiðleikana, og úr þessu er þessum lögum ætlað að bæta. Ég er sannfærður um, að með því að 1200–1300 bændur hafa sótt um að notfæra sér það tækifæri, sem hér býðst, og möguleiki sýnist vera til þess, að þeir, sem sótt hafa um, geti undir langflestum kringumstæðum fengið úrlausn sinna mála, þá er hér stór bót á ráðin. Og um leið og við gerum okkur grein fyrir því, að þessi lagasetning ræður bót á því, sem fyrir er, þarf vitanlega að gera ráðstafanir til þess, að skuldasöfnun hefjist ekki á ný af sömu ástæðum og áður.

Þá komum við að vandamálinu, sem tækifæri gefst til þess að ræða síðar, það er nauðsynin á því að auka lánin, lána hlutfallslega meira út á framkvæmdirnar eftirleiðis en gert hefur verið hingað til. Og það er eina ráðið til þess að koma í veg fyrir, að lausaskuldasöfnun myndist á ný, og tryggja það, að áfram verði haldið að byggja og framkvæma í sveitum landsins með æskilegum hætti.

Það hefur verið fundið að því, eins og ég sagði áðan, að þessi lög gera ekki ráð fyrir, að lánað verði út á vélar. En vitað er, að hér er gert ráð fyrir allt að 20 ára lánum, og 20 ára lán er ekki unnt að veita nema út á fasteignir. Það er líka vitað fyrir fram, að með þessum lögum er ekki gert ráð fyrir að lána nýtt fé til framkvæmdanna, heldur aðeins að breyta lausaskuldum í föst lán. Vélarnar eiga þess vegna ekki heima í þessum lánaflokki, og það þarf að gera aðrar ráðstafanir til þess að lána út á vélar. Það er hörmuleg saga, en hún er sönn og við þekkjum hana, að undanfarið hefur ræktunarsjóður ekki getað, eins og hann hefur þó heimild til, lánað út á vélar. Lausaskuldasöfnun er vitanlega að einhverju leyti til orðin vegna þess, að menn hafa keypt vélar án þess að geta fengið lán út á þær. En það er vitanlega forsvaranlegt að lána til 10 ára út á nýjar vélar. Og nú er verið að vinna að því að gera ræktunarsjóði mögulegt að inna þessa — ég vil næstum segja: skyldu af hendi, sem ávallt hefur á honum hvílt, en hann hefur hingað til ekki verið megnugur að standa undir. Ég held þess vegna, að það sé engin ástæða til þess að finna út af fyrir sig að þessum lögum, að það er ekki gert ráð fyrir að lána út á vélar, vegna þess að það er ætlunin að leysa það með öðrum hætti.

Þá hefur verið fundið að því, að ekki skuli með þessum lögum gert ráð fyrir því að lána út á vinnslustöðvar landbúnaðarins. En hvað vinnslustöðvum landbúnaðarins við víkur, þá held ég, að okkur ætti öllum að vera það ljóst, að erfiðleikar þeirra stafa ekki af lausaskuldum, sem á þeim hvíla. Vinnslustöðvar landbúnaðarins eiga ekki í erfiðleikum vegna þess, að það hvíli á þeim lausaskuldir. Þær eru margar hverjar í erfiðleikum vegna þess, að þær vantar fé, þær vantar nýtt fé, rekstrarfé. Og það hefur í rauninni verið ætlunin mörg undanfarin ár, að ræktunarsjóður hlypi undir bagga og lánaði út á vinnslustöðvar, lánaði út á kjötfrystihús, sláturhús og mjólkurbú, en af fjárskorti hefur ræktunarsjóður ekki getað þetta. Þetta var gert í nokkuð ríkum mæli haustið 1960. Það var hins vegar ekki gert fyrir síðustu áramót, af því að það var ekki til fé. En það er ætlunin að reyna að leysa það nú á þessu ári. Og það er vitanlega alveg ljóst, að það er engin meining í því, að vinnslustöðvar landbúnaðarins séu hornreka og eigi ekki aðgang að lánastofnunum. En það má ekki blanda því saman við þessa löggjöf, vegna þess að þessi löggjöf gerir ekki ráð fyrir neinu nýju fé til útlána. Hún gerir aðeins ráð fyrir því að breyta lausaskuldum í föst lán. Þess vegna er ekki ástæða til að finna að því í þessari löggjöf, að vinnslustöðvunum er ekki ætluð fyrirgreiðsla samkvæmt henni.

Það hefur orðið samkomulag við bankana um það, að þeir taki á sig að breyta þeim víxlum, sem þeir hafa keypt, í 20 ára lán og taki á sig þann vaxtahalla, sem af því leiðir. Þeir fá 9½% núna af þeim víxlum, sem þeir hafa keypt, en fá hins vegar ekki nema 7½% af bréfunum, sem eru til 20 ára. Í öðru lagi hefur orðið samkomulag við Seðlabankann og ríkisbankana um það að taka önnur bréf, þannig að það er hægt að segja, að bréfin gangi á nafnverði í viðskiptabankana og Seðlabankann. Það var talað um það og alltaf ljóst, um leið og þessi lög voru gefin út, að sparisjóðirnir gætu ekki tekið á sig það vaxtatap, sem af því leiddi að taka 7½% bréf í staðinn fyrir víxla, sem þeir höfðu keypt og gefa 9½%. Þess vegna var alltaf meiningin sú að gera það mögulegt með einum eða öðrum hætti. Það þótti ekki fært að taka upp samninga við Seðlabankann eða ríkisbankana um kaup á bréfunum að öðru leyti en víxlunum, fyrr en það lá fyrir, hversu mikil upphæð það var, sem þyrfti að breyta. Og það lá ekki ljóst fyrir fyrr en um miðjan janúar s.l., og hefur það nú verið átalið, raunar af hreinum misskilningi, vegna þess að það er kunnugt, að starfslið Búnaðarbankans er önnum kafið síðustu mánuði ársins við undirbúning og fyrirgreiðslu venjulegra lána. Það var þess vegna ekki tæknilegur möguleiki að undirbúa lánsumsóknirnar fyrir áramót, þó að það kannske hefði verið æskilegast, og það lá ekki hreint fyrir, hvað hér var um mikla upphæð að ræða, fyrr en um miðjan janúar. En þegar það var ljóst, voru teknar upp samningaumleitanir við Seðlabankann og ríkisbankana að greiða fyrir þessu. Og Seðlabankinn hefur gefið fyrirheit um það að taka bréfin af sparisjóðunum, þannig að þeir verði ekki fyrir neinu vaxtatapi,og leggja bréfin inn á bundinn reikning, sem yrði ekki losaður á skemmri tíma en þremur árum.

Um kaupfélögin, verzlanir og önnur fyrirtæki, sem kunna að eiga útistandandi hjá bændum, er dálítið öðru máli að gegna. Það mætti þó segja, að kaupfélögin og verzlanirnar gætu ekki tekið á sig vaxtatapið frekar en sparisjóðirnir. Ég tel þó, að þau hafi getað það miklu frekar. Hitt er annað mál, að það er ekki hægt að segja, að það væri sanngjarnt að taka 7½% bréf til 20 ára upp í útistandandi skuldir, sem kynnu að greiðast á næstu 2–3–4 árum, og til þess að kaupfélög og aðrar verzlanir og fyrirtæki hefðu ekki ástæðu til að hafa neitt á móti því að gefa bændum þá fyrirgreiðslu, sem þeir óska eftir, þá var líka samið um það, að bréf, sem þau snertir, verði einnig tekin á nafnverði, svo að af þessu er ljóst, að umsækjendur, sem langflestir munu hafa nægileg veð samkvæmt hinu nýja mati, munu fá þá fyrirgreiðslu, sem þeir óska eftir, og lögin ná þeim tilgangi, sem þeim var upphaflega ætlað.

Það hefur verið fundið að því, að umsóknarfresturinn væri útrunninn, og í hv. Nd. var flutt till. um að framlengja frestinn til 1. maí á þeim forsendum, að bændur hafi ekki getað treyst því, að lögin kæmu að því gagni, sem þau sýnilega munu gera nú. Ég álít þetta allt á misskilningi byggt, því að bændur gátu vitanlega treyst því frá upphafi, að lögin næðu þeim tilgangi, sem þeim var ætlað. Ríkisstj. hefði ekki farið að gefa lögin út nema hafa þetta markmið. Annars var tilgangslaust að vera að gefa lögin út. Og það, að 1200–1300 bændur hafa sótt um lánin, sýnir, að þeir hafa gert sér grein fyrir, að hér var boðið gott tækifæri, sem sjálfsagt var að notfæra sér. Ég harma það að vísu, ef einhverjir bændur hafa orðið eftir, sem hefðu þörf fyrir fyrirgreiðslu. En við því er ákaflega erfitt að gera í þessu tilfelli. Það voru 2½ mánuður til stefnu. Umsóknarfresturinn var vel auglýstur, og þetta stóð sannarlega öllum til boða. Ég ætla, að umsóknir hafi borizt úr öllum landshlutum, kannske einna mest af Austurlandi. Ég held, að það hafi verið upplýst, að 28% af bændum í Suður-Múlasýslu hafi sótt um. En ég hygg þó, að það sé úr öllum sýslum meira og minna og að einmitt það út af fyrir sig sanni, að boðin hafa komizt með skilum til bændanna og þeir hafi fengið þær upplýsingar, sem þurfti í té að láta, til þess að þeir gerðu sér grein fyrir því, hvaða fyrirgreiðsla hér er boðin.

Ég tel, að það sé ekki við þessa 1. umr. hér í hv. deild ástæða til að fara öllu fleiri orðum um málið. Maður kynni þá að endurtaka margt af því, sem sagt var í hv. Nd., og ég hygg, að málið sé svo vel upplýst fyrir hv. þm., að það sé ekki ástæða til að fjölyrða öllu meira um það. Ég mundi vilja leggja áherzlu á, að málið yrði ekki mjög lengi hér í þessari hv. d., því að um leið og brbl. hafa verið staðfest, ætti að vera unnt á tiltölulega skömmum tíma að vinna að úrlausn málsins.

Hæstv. forseti. Ég legg til, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. fjhn.