01.03.1962
Efri deild: 54. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

21. mál, lausaskuldir bænda

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Við útvarpsumr. í fyrra var því lýst yfir af hálfu stuðningsmanna stjórnarinnar, að unnið væri að því að breyta lausaskuldum bænda, þeirra er mest væru hlaðnir slíkum skuldum, í föst lán til langs tíma. Að sjálfsögðu kom þessi yfirlýsing ekki fram undirbúningslaust. Mál þetta hafði þá lengi verið til umr. og athugunar hjá ríkisstj. og í hópi stuðningsmanna hennar. Og þó að fullur hugur væri til mikils stuðnings við þessa bændur, þurfti að sjálfsögðu meira en orðin tóm til að leysa þar úr. Það þurfti fé og raunar mikið fé, og ráð varð að finna til að leysa það aðalvandamál að afla fjárins. Það var enn örðugra fyrir það, að stofnlánasjóði landbúnaðarins vantaði líka fé, meira að segja mjög mikið fé, til að geta sinnt lánveitingum til ræktunar og bygginga samkvæmt ætlunarverkum þeirra, þó að ekki væri reiknað með nema óverulegum hækkunum til að mæta auknum byggingarkostnaði og kostnaði við ræktun. Ofan á það bættist svo það, að vitanlega voru uppi kröfur og það þungar kröfur um að hækka lán verulega til bygginga. Enn má benda á það, að veðdeild Búnaðarbankans hafði ekki heldur fé til að sinna réttmætum beiðnum og hefur raunar aldrei haft. M.ö.o.: þarna voru mörg verkefni á þessu eina sviði fjármálanna, sem kröfðust úrlausnar í einu, og undirstaðan, Búnaðarbankinn, peningalaus stofnun og raunar langt fyrir neðan núllið.

Ég held, að sanngjarnir bændur og aðrir, sem gert hafa sér grein fyrir þessum málum öllum, hljóti að viðurkenna, að 80 millj. kr. til lúkningar lausaskulda og eitthvað í kringum 60 millj. til útlána vegna bygginga í árslok 1960 urðu naumast gripnar upp úr götunni í einu augabragði, samhliða því einnig, að unnið hefur verið að því að leysa á varanlegan hátt mikil verkefni fyrir Búnaðarbankann og unnið að því að færa eitthvað út starfssvið hans frá því, sem verið hefur, þannig að hann hefði fleiri lánaflokka.

Nokkuð bar á því s.l. sumar og haust, að það heyrðist klingja frá herbúðum stjórnarandstæðinga, að svíkja ætti það fyrirheit, er ég nefndi áðan um lausaskuldalán, er Jónas Pétursson, hv. 3. þm. Austf., flutti við útvarpsumr. hér í fyrra með fullri vitund síns flokks. En þegar Ingólfur Jónsson, hæstv. landbrh., gaf út brbl. um þetta 15. júlí s.l., mátti ætla, að það vekti fögnuð. Örstuttu síðar fengu sýslumenn fyrirmæli um að skipa virðingarmenn í öllum hreppum landsins til að virða jarðir þeirra manna og hús, er höfðu í hyggju að sækja um lán eftir þessum lögum. Umsóknarfrestur um lánin var auglýstur rækilega og upplýsingar kunngerðar um skilyrði og möguleika fyrir því að fá þessi lán. Hvert mannsbarn í landinu hlaut því að fylgjast með þessu máli, a.m.k. bændur, sem höfðu hug á að notfæra sér tækifærið, sem brbl. buðu.

Á því hefur verið mjög hamrað af andstæðingum þessara laga, — ég kalla þá menn svo, sem við öll möguleg og ómöguleg tækifæri eru að reyna að gera þau tortryggileg í augum bænda, — já, á því hefur verið hamrað, að upplýsingar um alla tilhögun og lánsupphæðir hafi verið svo litlar, að fjöldi bænda hafi ekki sótt um þau þess vegna. Þetta er villandi málflutningur og meira að segja mjög villandi. Það er að vísu rétt, að tæmandi upplýsingar gat ekki hver og einn bóndi fengið um það, hvað miklu af skuldum sínum hann kynni að geta fengið breytt í föst lán. Það stafaði einfaldlega af því, að málið var þungt í vöfum og ómögulegt var að fullyrða í sumar um sum atriði þess. Lánardrottnar bænda eru allir bankar, allir sparisjóðir, öll kaupfélög, fjöldi annarra verzlana og einstakir menn að auki. Enginn vissi fyrir fram, hve háar upphæðir samtals væri um að ræða. Óljóst var, hversu langt veð mundi hrökkva til tryggingar skuldum bændanna, því að jarðir margar eru mjög hlaðnar veðum. Allt þurfti þetta að leiða í ljós, áður en hægt væri að ganga til fulls frá samningum við lánardrottna, umsóknir fyrst og upplýsingar samhliða.

Andstæðingar þessa frv. liggja hæstv. landbrh. mjög á hálsi fyrir það að leggja þetta ekki allt nákvæmlega útlistað á borð fyrir framan hvern einasta bónda í sumar, svo að hann gæti þá þegar talið þau þúsund á fingrum sér, sem hann gæti átt von á að fá. Þeir segja, að engin von hafi verið til almennt skoðað, að skuldabændur hafi farið að sækja um lán út í þessa óvissu, nema þá bara einhver hluti af þeim. Þetta eru furðulegar staðhæfingar og ákaflega ómaklegar. Þrautseigja hæstv. landbrh. í þessu erfiða máli er mjög þakkarverð, enda kemur daglega í ljós, að fjöldi bænda metur hana að verðleikum. Á þessum ásökunum bar mjög í Nd. við umr. málsins. Voru þær þá þar hraktar. Á þessum ásökunum bar ekki mikið hjá hv. 1. þm. Vesturl. (AB), sem hér talaði á undan mér, og virði ég það við hann. En í Nd. var því mjög á lofti haldið, að margt bænda hefði engar umsóknir sent, af því að þeir hafi ekki vitað, að þeir fengju jákvæð svör. Mér er spurn: Hvers vegna ekki að senda umsóknir, ef þörf var fyrir lán og fyrir fyrirgreiðslu, jafnvel þótt ekki væri handvíst um jákvæða úrlausn? Einhvern tíma hafa bændur hætt öðru eins til og að senda umsókn, því að hún kostaði ekki nema eitt frímerki á bréf, suma ekki einu sinni frímerkið. Virðingarmenn voru til staðar að virða fasteignir og munu hafa flestallir látið ógert að taka kaup fyrir, nema þá eitthvert smáræði úr sveitarsjóði. Eyðublöð fengust gefins og enginn hlutur auðveldari en útfylla þau eða útvega umboðsmann, t.d. einhvern alþm. Meira að segja máttu þeir til að byrja með senda umsóknina og svo skjölin síðar, ef einhver töf var á að útfylla þau rétt og nákvæmlega, áður en fresturinn var útrunninn.

Mér er öldungis óskiljanlegt það tómlæti, sem á að hafa ríkt á bæjum skuldugra bænda í sumar og haust, þar sem mikil þörf kallaði að um úrlausnir. Slíkt fyrirhyggjuleysi þekki ég ekki á sveitabæjum. Ef þetta er ekki fleipur eitt út í loftið, stafar það af pólitískum áhrifum stjórnarandstæðinga, sem voru því andvígir, að bændur fengju fyrirgreiðslu á þennan hátt, og má hver sem vill kalla það heilindi fyrir mér. Annars held ég, að þetta sé viðbára ein. Á Íslandi eru liðlega 6 þús. bændur. Nú liggja fyrir skjöl um það, að 1200–1300 þeirra hafi sent umsóknir í tækan tíma eða meira en fimmti hver bóndi. Í sumum byggðarlögum hafa um 5% bænda sótt, annars staðar allt upp í 28%. Það er athyglisvert, hve umsóknir eru mismiklar úr hinum einstöku byggðarlögum, án þess þó að um aðstöðumun geti verið að ræða hjá bændunum innbyrðis, né heldur það, að um sé að ræða mismunandi þátttöku af því, að ódugnaður eða framtakssemi hafi verið meiri eða minni á einum stað en öðrum. Til grundvallar þessum mismun liggur sýnilega það, að skuldasöfnun hefur orðið mjög mikil í vissum landshlutum undanfarið, en miklu minni í öðrum, og virðist það stafa af mismunandi hugsunarhætti, mismunandi ráðdeild og mismunandi skynsemi, hverjar svo sem orsakirnar eru þar á bak við. Í þeim sveitum, sem ég þekki til, held ég, að allir bændur hafi sótt um þessi lán í tækan tíma, sem mesta höfðu þörfina, enda latti þá enginn nema blaðakostur Framsfl. með ólund sinni út í þetta mál.

Með örfáum orðum verð ég að lokum að minnast á vaxtakjörin. Það hefur mjög verið gagnrýnt, að lán þessi verði bóndanum heilu prósenti dýrari en hliðstæð lán til sjávarútvegsmanna. Allir eru sjálfsagt sammála um, að hagur sé það fyrir hvern einasta lántakanda að fá fé með sem allra vægustum vöxtum, og ég skal játa, að mér urðu það nokkur vonbrigði, að þessir vextir urðu að vera 7½%, en ekki 6½%, eins og hjá sjávarútveginum. En það er mjög skiljanlegt, að örðugt var um vik, þar sem um varð að semja og breyta fárra mánaða víxilskuldum í tuttugu ára lán og lækka um leið verulega vexti á þeim. Ég tek þá skýringu gilda, að betri niðurstöðu var ekki unnt að fá, eins og á stóð, þar sem ekkert nýtt fé var til umráða, og heldur vil ég þessa niðurstöðu en þá, að beðið væri um, að ríkissjóður greiddi 1% af vöxtunum, eins og margir hafa verið að tala um að væri eðlileg leið. Bændastéttin þarf að leita til ríkisins og ríkissjóðs um það að jafna aðstöðu sína frá grunni, en ekki um fyrirgreiðslu á þennan hátt. Auk þess vil ég taka undir þau rök hæstv. landbrh. hér í fyrradag, að gert er ráð fyrir því, að unnt sé að breyta svo til öllum lausaskuldum bænda, sem um hefur verið sótt að breyta, en ekki hægt að breyta öllum lausaskuldum útvegsmanna. Þetta atriði jafnar að líkindum alveg þann mismun, sem þarna er á, og ég tel, að þetta sé mjög stórt atriði í málinu. Og það er betri niðurstaða fyrir bónda, sem ræður ekki við sínar lausaskuldir, að fá einar 80 þús. kr. með 7½% vöxtum að láni, heldur en ef hann fengi aðeins 60 þús. eða máske 40 og yrði að hafa afganginn á háu vöxtunum. Þegar á þetta er litið frá öllum hliðum, verður samanburðurinn ekki svo mjög umtalsverður, að ég hygg. Aðalatriðið í þessu máli er það, að nú er lögð leið að því marki, sem sett var í fyrravetur, að ryðja til hliðar kúfnum af lausaskuldum bænda. Stór hópur bænda fagnar þessum lögum og þeirri niðurstöðu, sem nú er að nást eftir langt þóf. Ég held, að sú lausn verði að teljast viðunandi eftir ástæðum. Að henni hefur stjórnarandstaðan ekkert unnið, þó að hv. 1. þm. Vesturl. væri hér að tala um það áðan, að sú niðurstaða, sem nú liggur fyrir, væri að þakka skeleggri baráttu stjórnarandstæðinga gegn hugmyndum ríkisstj. um það að níðast á bændum. Það er varla heldur von, að þeir hafi að því unnið, því að þeir hafa ekki haft aðstöðu til þess. Nú orðið liggur það í lofti, að frammistaða hæstv. landbrh. í þessu máli mælist yfirleitt vel fyrir úti um landið, og um leið kemur þá nýtt hljóð í strokkinn við Tímann. Þar er skeleggri baráttu Framsfl. þakkaður sigur í málinu í gamaldags vísu. Jafnan er gaman að gortinu af litlu tilefni og enn meira þó, þegar tilefnið er minna en ekki neitt.