01.03.1962
Efri deild: 54. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (699)

21. mál, lausaskuldir bænda

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Naumast eru skiptar skoðanir um það hjá mönnum, sem nokkuð þekkja til, að bændum sé þörf á þeirri fyrirgreiðslu, sem felst í þessu frv. og samningar hafa nú tekizt um við Seðlabankann, þ.e.a.s. um breytingu lausaskulda þeirra í föst lán. Hins vegar verður ekki komizt hjá því að benda á, hversu illa og ótryggilega var frá máli þessu gengið í öndverðu og hversu mikið skorti á, að brbl. ein út af fyrir sig tryggðu bændum fyrirgreiðslu sambærilega við þá, sem sjávarútvegurinn fékk með stofnlánum sínum. Ég skal þó ekki fara langt út í þá sálma. Ber tvennt til. Í fyrsta lagi, að það hefur þegar verið bent á þau atriði allrækilega af þeim ræðumönnum, sem hér hafa talað á undan mér, svo og hitt, að ég tel það þó aðalatriðið í sambandi við þetta mál, að vegna vinsamlegrar afstöðu Seðlabankans og ríkisbankanna er málið nú komið í allt annað og betra horf en gera mátti ráð fyrir við útgáfu brbl. Hér er því tvímælalaust um mikilsverða fyrirgreiðslu að ræða, og úr því vil ég ekki gera lítið.

En þrátt fyrir þær lagfæringar á fyrirhugaðri framkvæmd þessa máls, sem náðst hafa, á meðan málið hefur verið hér til meðferðar á Alþingi, eru enn á fyrirhugaðri framkvæmd þess nokkrir agnúar, eins og bent hefur verið á, agnúar, sem þarf að sníða af og er auðvelt að sníða af, ef góður vilji er til.

Bændur hafa á undanförnum árum safnað miklum lausaskuldum, svo sem óumdeilanlega er nú ljóst af lánbeiðnum þeim, sem fyrir liggja, og gögnum þeim, er þeim fylgja. Sú skuldasöfnun er að mínum dómi skiljanleg. Bændur hafa staðið í miklum framkvæmdum, bæði byggingarframkvæmdum og ræktunarframkvæmdum. Þeir hafa lagt í kostnaðarsöm, en í raun og veru óhjákvæmileg vélakaup, þeir hafa margir hverjir lagt í kostnað í sambandi við rafvæðingu heimila sinna, og þannig mætti lengi telja. Bændur hafa ekki átt kost á nægilegum föstum lánum til þessara framkvæmda. Lánastofnanir landbúnaðarins hafa ekki getað fullnægt lánaþörfinni vegna þessara framkvæmda og vélakaupa, og er það mál allt kunnara en svo, að ég þurfi að rekja það, og skal ég ekki fara lengra út í það út af fyrir sig. En bændur hafa neyðzt til þess að safna lausaskuldum, bæði þannig, að þeir hafa fengið víxillán í bönkum eða sparisjóðum eða safnað verzlunarskuldum í kaupfélögum og öðrum verzlunum. Það þarf ekki orðum að því að eyða, hversu slíkar lausaskuldir eru óþægilegar og óhagkvæmar. Búin hjá mörgum bændum hafa því miður verið svo smá, að þeir hafa átt erfitt með að standa undir vaxtagreiðslum og kostnaði við slíkar lausaskuldir. Þegar hin gífurlega vaxtahækkun átti sér stað á byrjunarskeiði valdatímabils núv. hæstv. ríkisstj., varð þessi skuldabyrði auðvitað miklu þungbærari en áður, og var raunar þá þegar auðsætt, að mörgum bændum mundi reynast það algert ofurefli að standa undir þessum lausaskuldum. Ég álít því, eins og ég áðan sagði, ofur skiljanlegt, að bændur hafi safnað allmiklum lausaskuldum, og ég álít það síður en svo leggjandi þeim til lasts, að þeir hafa haft þá bjartsýni til að bera, að þeir hafa ráðizt í þær framkvæmdir, sem voru í raun og veru óhjákvæmilegar, ef þeir áttu ekki að dragast því meir aftur úr og ef þeir í raun og veru áttu að geta haldið áfram að stunda búskap. Þess vegna verð ég að segja eins og er, að mér virtust ummæli hv. 10. landsk. þm. um þetta efni vægast sagt ómakleg í garð þessara bænda, en hv. þm. var með bollaleggingar um það, af hverju söfnun þessara lausaskulda mundi stafa, og lét þess getið, að allmikill munur væri á því, hversu margar lánbeiðnir hefðu borizt úr hverju héraði, og var að bollaleggja um, að þessi skuldasöfnun mundi stafa af mismunandi hugsunarhætti hjá bændum, af mismunandi skilsemi og af mismunandi ráðdeild. Ég hygg, að þessar bollaleggingar séu almennt ekki réttmætar. Það er sjálfsagt rétt, að það hefur kveðið mismunandi að söfnun þessara lausaskulda eftir héruðum. En ég hygg, að þessar lausaskuldir hafi einmitt safnazt í þeim héruðum, þar sem framkvæmdir voru áður skemmst á veg komnar og bændur urðu þess vegna að leggja í framkvæmdirnar, þegar dýrari tímar voru komnir, og kaupa vélar, þegar þær voru komnar í miklu hærra verð en áður. Ég álít, að þar sé skýringarinnar á þessu fyrirbrigði að leita almennt, en ekki í hinu, að þessir menn, sem ratað hafa í þetta, að stofna til allþungbærra lausaskulda, séu almennt talað meiri óskilamenn eða minni ráðdeildarmenn heldur en hinir.

Það var, eins og hv. 5. þm. Austf. sýndi fram á í ræðu sinni hér áðan, í raun og veru þegar sýnt, eftir að hin gífurlega vaxtahækkun hafði átt sér stað, að það mundi þörf sérstakra aðgerða í því skyni að létta lausaskuldum af bændum eða létta byrði þeirra nokkuð. Og það má minna á það í þessu sambandi, að við framsóknarmenn höfum flutt tillögur einmitt í þá átt. Ég nefni það t.d., að við höfum hér í þessari hv. deild, bæði á þessu þingi og á síðasta Alþingi, flutt frv. um bústofnslánasjóð, þar sem gert var ráð fyrir stofnun sérstaks sjóðs í því skyni m.a. að veita bændum aðstoð til þess að greiða fyrir því, að þeir gætu staðið skil á þungbærum lausaskuldum, auk þess sem gert var ráð fyrir aðstoð við bústofnskaup og vélakaup í þessu frv. En þessu frv. hefur ekki enn þá, hvorki á síðasta þingi né á þessu, sem nú situr, verið sýndur sá sómi eða sá skilningur af þeirri hv. þingnefnd, sem það hefur fengið til meðferðar, að áliti hafi verið um það skilað. Geri ég þó ráð fyrir, að flestir geti orðið sammála um, að ekki sé síður þörf á því að auðvelda ungum bændum og bændaefnum að eignast bústofn heldur en jafnvel að létta skuldabyrði bænda. Það má enn fremur minna á það í þessu sambandi, að við framsóknarmenn höfum flutt frv. um að aðstoða lánasjóði Búnaðarbankans með þeim hætti að létta af þeim gengistapi, en þau frumvörp hafa ekki heldur fengið hljómgrunn hjá hv. stjórnarstuðningsmönnum.

Eftir að lög voru svo sett um stofnlán útgerðinni til handa í byrjun s.l. árs, eins og hv. 5. þm. Austf. gerði rækilega grein fyrir hér áðan og ég skal ekki endurtaka, fluttu framsóknarmenn einmitt tillögur um það hér á þingi, að sams konar fyrirgreiðsla yrði veitt bændum. En þær tillögur framsóknarmanna fengu þá ekki byr stjórnarstuðningsmanna. Og ég minnist nú ekki þess, að það kæmi fram í sambandi við þær umr. nein yfirlýsing um það af stjórnarinnar hálfu, að bændur mættu eiga von á svipaðri fyrirgreiðslu og fólst í þessum lögum sjávarútveginum til handa.

En þó að hæstv. ríkisstj. gæfi ekki neinar slíkar yfirlýsingar í sambandi við meðferð þess máls á þingi, ef ég man rétt, þá mun henni þó fljótlega hafa orðið ljóst, að það yrði ekki stætt á því að setja bændur algerlega hjá í þessu efni. Og þá var það, eins og rakið hefur verið, að við útvarpsumr. var af hálfu ríkisstj. gefið fyrirheit um breytingu á hluta af lausaskuldum bænda í föst lán til langs tíma og með hagstæðum vaxtakjörum, eins og að orði var komizt í þessari yfirlýsingu, sem flutt var af hv. þm. Jónasi Péturssyni og var flutt, að því er hv. 10. landsk. þm. upplýsti hér áðan, með fullri vitund, eins og hann orðaði það, flokksmanna hans.

Samkv. þessu fyrirheiti eru svo gefin út þau brbl., sem hér liggja nú fyrir til staðfestingar, brbl. frá 15. júlí s.l. Og þar er í upphafi þeirra, eins og venja er til, gerð grein fyrir ástæðunum til útgáfu þessara brbl., og þar segir, með leyfi forseta:

„Landbrh. hefur tjáð mér, að ríkisstj. hafi gefið fyrirheit um breytingu á hluta af lausaskuldum bænda í föst lán til langs tíma, með svipuðum hætti og gert hefur verið með sérstökum lögum gagnvart fyrirtækjum, sem stunda útgerð fiskiskipa og fiskvinnslu.“

Í sjálfum ástæðunum fyrir brbl. er þannig kveðið sterkara að orði í raun og veru um þetta fyrirheit heldur en í yfirlýsingu hv. þm. Jónasar Péturssonar, því að í þessum ástæðum fyrir brbl, segir beinlínis, að það eigi að breyta lausaskuldum bænda í föst lán „með svipuðum hætti“ og gert hefur verið með sérstökum lögum að því er varðar útgerðina. En þegar brbl. voru athuguð, kom fljótlega í ljós, að mikið skorti á, að bændum væru með þessum brbl. einum út af fyrir sig tryggð sambærileg kjör og útvegsmönnum með lánum úr stofnlánadeildinni, og það kom í ljós, að samkv. þessum brbl. voru hin fyrirhuguðu bankavaxtabréfalán ærið mikið frábrugðin lánum stofnlánadeildarinnar. Meginmunurinn var að sjálfsögðu sá, að í brbl. var enga tryggingu að finna fyrir því, að bankastofnanir mundu kaupa bréfin eða skuldaeigendur taka þau sem gilda greiðslu á sínum kröfum. Í lögunum um breytingu á lausaskuldum útgerðarmanna var hins vegar stofnlánadeild sjávarútvegsins gert að skyldu að veita lánin til langs tíma. Og það varð líka fljótlega ljóst, að lánskjörin samkv. þessum brbl. yrðu önnur en þegar um var að ræða lán til útgerðarinnar. Samkv. þessum brbl. skyldi aðeins lánað út á veð í fasteignum, en hvorki út á vélar né vinnslustöðvar, svo sem gert var, þegar um stofnlán til sjávarútvegsins var að tefla. Og það kom líka fljótt í ljós, eftir að reglugerð samkvæmt þessum brbl. sá dagsins ljós, að vextir af þessum lánum mundu ekki verða 6½% eins og af stofnlánum sjávarútvegsins, heldur raunverulega 8%. En eins og ég áðan sagði, var þó auðvitað aðalatriðið og aðalhængurinn á þessari lagasetningu sá, að með henni var á engan hátt tryggt, að bændur gætu losnað við þessi skuldabréf, bankavaxtabréfin. Í framsöguræðu sinni gat hæstv. landbrh. þess að vísu, að bændur hefðu getað treyst því, að ríkisstj. hefði ekki farið að gefa út brbl., nema tryggt væri, að bændur gætu greitt lausaskuldir sínar með bréfunum. Og hann sagði réttilega, að það hefði verið tilgangslaust eða tilgangslítið að vera að gefa lögin út, nema þetta væri tryggt. En það var ekki tryggt í lögunum. Ríkisstj. ætlaði, samkv. sínum yfirlýsingum nú, að leita um þetta samninga við bankastofnanir. Ríkisstj. taldi ekki fært, að því er hún hefur líka lýst yfir, að taka upp þá samninga, fyrr en upplýsingar lægju fyrir um heildarfjárhæð þá, sem ætla mætti að þyrfti til þess að fullnægja þessum lánbeiðnum. Þegar ríkisstj. gaf því brbl. út, hafði hún enga hugmynd um það, hvort slíkir samningar við bankastofnanirnar mundu bera árangur eða ekki. Hvernig í ósköpunum átti það þá að vera tryggt við útgáfu laganna, að bændur gætu losnað við þessi skuldabréf með nafnverði? Sjálf ríkisstj. hafði ekki nokkra tryggingu fyrir því, og hvernig í ósköpunum áttu þá bændur að geta treyst því, að þetta væri tryggt? Það hefði verið meira oftraustið, sem þeir hefðu þá mátt bera til hæstv. ríkisstj. En ég hygg nú, að það muni vera æði margir bændur, sem ekki bera Ýkja mikið traust til hæstv. núv. ríkisstj., og liggja til þess ýmsar ástæður, sem ég skal ekki að þessu sinni fara út í að rekja.

En það er af þessu, sem ég hef sagt, ljóst, að það er auðvitað gersamlega út í hött og ekkert annað en innantóm slagorð, þegar hæstv. ráðh. segir þetta, að bændur hafi mátt treysta því, þegar ríkisstj. gaf slík brbl. út, að þeir mundu geta losnað við skuldabréfin á nafnverði. Það var á þeim tíma alls ekki nokkur trygging fyrir því, síður en svo, að af hálfu hæstv. ríkisstj. né af hálfu þeirrar bankastofnunar, sem hefur með höndum útgáfu þessara bankavaxtabréfa, væru gefnar nokkrar yfirlýsingar, sem skilja mætti á þá lund. Það lá hins vegar fyrir, að ríkisstj. taldi ekki rétt að lögbjóða, að bankastofnanir skyldu kaupa þessi bréf á nafnverði, heldur vildi hún fara samningaleiðina, að því er hún nú lýsir yfir. Og það var ekki talið sem sagt hægt að taka upp slíka samninga, fyrr en fyrir lægi, hver heildarfjárhæðin yrði. Hér skýtur nú enn að vísu skökku við, þegar litið er til sjávarútvegsins. Það var hægt þá að lögbjóða þessi lán alveg hiklaust og skylda stofnlánadeildina eða Seðlabankann til þess að veita þau lán, sem þar var um að tefla, enda þótt þar lægi ekki beinlínis fyrir, hve mikið fé mundi þurfa til þeirra hluta, en þá var talað um ákveðna upphæð samt í því skyni og sagt, að það mundi a.m.k. þurfa að gera ráð fyrir 400 millj. kr. í þessi stofnlán sjávarútvegsins. Ég vil í því sambandi geta þess, að þó að það sé rétt, sem hér hefur verið sagt, að við síðustu áramót hafi ekki verið búið að veita nema 288 millj. kr. lán úr stofnlánadeild sjávarútvegsins, þá er auðvitað langt frá því, að þar séu enn öll kurl komin til grafar, þar sem enn er eftir að afgreiða, að því er ég bezt veit, algerlega lán til togaraflotans og sennilega ýmis fleiri lán, svo vel má vera, að þegar allt kemur til alls, verði stofnlán sjávarútvegsins ekki mikið undir þeirri upphæð, sem í öndverðu var talað um í sambandi við þau, 400 millj. kr. En þetta sýnir enn, að það virðist svo sem landbúnaðurinn sé að þessu leyti til settur skör lægra, þar sem það þykir ekki fært, hvorki að lögbjóða skuldabréfakaupin né taka upp samninga við bankastofnanir um þau, fyrr en það liggur fyrir nokkurn veginn nákvæmlega, hverju muni nema heildarfjárhæð sú, sem til þessara lána muni fara.

Af þessum sökum, að það var svo ótryggilega frá þessu gengið í öndverðu, er því miður hætt við því, að einhverjir bændur, sem fulla þörf hafa fyrir þessi lán, hafi ekki sótt. Það eru e.t.v. ekki margir bændur og vonandi, vil ég segja, ekki margir. En út af fyrir sig er það ekkert aðalatriði, hvort það eru margir eða fáir, sem hafa ekki sótt af þessum ástæðum. Þó að það séu aðeins fáir, þá er jafnmikil ástæða til þess að láta þá ekki gjalda þess, að ekki var tryggilega frá þessu gengið. Það er jafnmikil ástæða til þess að láta þá ekki gjalda þess, þó að þeir af einhverjum ástæðum hafi ekki sótt. En sjálfsagt má skýringarinnar á því leita að nokkru leyti, eins og ég held að hv. 5. þm. Austf. hafi bent á, í því, að sparisjóðum og verzlunum var vitaskuld ókleift eða illkleift að taka þessi bréf á nafnverði til greiðslu á skuldum, ef engin von var til að losna við þau. Má þess vegna vera, að slíkar stofnanir hafi ekki sérstaklega ýtt undir sína skuldunauta um það að sækja. Hitt er náttúrlega algerlega út í hött og full ástæða til að mótmæla því sem algerlega órökstuddum ummælum hjá hv. 10. landsk. (BGuðm), sem hann lét sér sæma að bera á borð í ræðu sinni hér áðan, að ef einhverjir bændur, sem þörf hefðu fyrir þessi lán, hefðu ekki sótt um þau, þá mættu þeir sjálfum sér um kenna, að manni skildist, og sagði hann í því sambandi: „enda latti þá enginn nema blaðakostur framsóknarmanna.“ Ég leyfi mér að efast um, að hv. þm. geti fundið þessum ummælum sínum stað í einu einasta tilfelli í blöðum framsóknarmanna, að bændur hafi þar verið lattir til þess að sækja um þessi lán. Það kemur mér spánskt fyrir eyru að heyra slíku haldið fram. Það er auðvitað allt annað, þó að þar hafi verið gagnrýndir þeir agnúar, sem voru á þessari lagasetningu, en ég staðhæfi það, að hvorki blöð framsóknarmanna né framsóknarþingmenn hafi latt sína umbjóðendur að sækja um þessi lán. Það er hrein fjarstæða. Í raun og veru get ég ekki, þó að ég hafi ekki neitt sérstaklega mikið álit á hæstv. núv. ríkisstj., ætlað henni þann hugsunarhátt að hugsa á þessa lund, að úr því að þessi bóndi, Pétur eða Páll, sótti ekki í tæka tíð, þá sé honum mátulegt að fá ekki lánið. Þannig veit ég, að hæstv. ríkisstj. mun ekki hugsa, heldur geri ég ráð fyrir, að andstaða hennar og hv. stuðningsmanna hennar gegn því að fallast á þá breytingu á lögunum að framlengja nokkuð umsóknarfrest til þess að gefa mönnum færi á því að koma umsóknum á framfæri byggist á því, að hæstv. landbrh. gerir ráð fyrir því, að það hafi allir sótt, sem þurfa þessi lán. Það getur ekki verið meiningin hjá honum að ætla að fara að setja einhverja bændur hjá, sem virkilega þurfa þessi lán, bara af því að þeir hafi ekki sótt í tæka tíð. Þess vegna vil ég trúa því, að ef einhverjir sækja nú hér eftir, og jafnvel þó að það verði ekki fallizt á að breyta formi laganna að þessu leyti til, þá verði mál þeirra athuguð og tekin til afgreiðslu, eftir því sem efni standa til. Hitt væru svo óeðlileg formlegheit, að það er tæpast stætt á því fyrir ríkisstj., því að tilgangurinn með þessari lagasetningu er auðvitað sá að veita þeim færi á að breyta lausaskuldum í föst lán, sem þörf hafa fyrir það, og það væri náttúrlega strax til bóta, ef hæstv. ráðh. vildi gefa yfirlýsingu í þá átt, enda þótt hann af einhverjum ástæðum telji ekki rétt að fallast á það, að lögunum verði breytt að þessu leyti, svo sem þó væri eðlilegast. Ég vil nú ganga út frá þeirri skoðun minni og þessum skilningi mínum, nema þá hæstv. landbrh. lýsi beinlínis öðru yfir. Fyrir bankana getur þetta ekki skipt neinu höfuðmáli. Hér er sennilega ekki um stóra heildarfjárhæð til viðbótar að tefla, og hér er auk þess aðeins um lánabreytingu að ræða. Það er yfirleitt ekki ætlunin, að með þessu sé sett neitt nýtt fé í umferð, og þegar til þess er litið, þá skiptir það í raun og veru ekki neinu höfuðmáli fyrir bankana, sem hér eiga hlut að máli, hvort þetta eru 82 millj., sem hér er um að tefla, eða kannske 92, vegna þess að í raun og veru er með þessu ekki verið að gera annað en viðurkenna staðreyndir. Þó að þessar skuldir hafi verið lausar, er vitað mál, að það var búið að festa fé í þeim og útlánum þeirra vegna, og það hefði þess vegna ekki mátt vænta þess, að þetta fé hefði greiðzt inn á mjög skömmum tíma.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um aðra agnúa, sem eru á lögunum, eins og fyrirhuguð er framkvæmd þeirra, af því að það hefur þegar verið gert af öðrum. Það er þó rétt að undirstrika það, sem sagt hefur verið viðvíkjandi veðunum, að það getur vitaskuld verið svo í einstökum tilfellum — og reyndar í mörgum tilfellum, að bændur geti ekki notfært sér þessi lán, vegna þess að þau eru bundin við fasteignaveð. Það er auðvitað svo, að leiguliðar hafa enga möguleika á að veðsetja fasteignir til tryggingar þessum lánum. Hæstv. landbrh. lét þess getið í sinni ræðu, að það væri reiknað með því, að jarðareigendur gæfu veðleyfi í slíkum tilfellum. En það er auðvitað engin vissa fyrir því að þeir vilji gera það. Það eru engin ráð til þess að skylda þá til þess. Þess vegna væri einmitt mikil ástæða til að lána út á vélar. Hæstv. ráðh. hreyfði þeirri mótbáru gegn slíkri hugmynd í sinni frumræðu, að það væri ekki hægt að veita lán út á vélar til svo langs tíma sem hér væri gert ráð fyrir, til 20 ára. Það er alveg rétt, enda hefur enginn látið sér detta það í hug, að lán út á vélar yrðu veitt til 20 ára. 20 ár eru hámarkstími skv. þessum lögum, lánstíminn getur verið styttri, og 1 bréfi Stéttarsambands bænda var, ef ég man rétt, gert ráð fyrir því, að lán út á vélar yrðu 10 ár, þannig að þessi röksemd hæstv. ráðh. gegn lánum út á vélar fær ekki staðizt. Það er enginn að tala um 20 ára lán út á vélar, heldur lán til hæfilegs tíma, miðað við endingartíma vélanna. Í ummælum sínum um þetta virtist mér annars hæstv. ráðh. nokkuð blanda saman lánveitingum vegna væntanlegra vélakaupa og greiðslu skulda, sem menn eru í vegna vélakaupa, en það er vitað mál, að einmitt verulegur hluti af lausaskuldum bænda stendur í sambandi við vélakaup. Þess vegna þyrfti að sníða þennan agnúa af frv. og breyta því á þá lund að heimila að veita lán út á vélar og vinnslustöðvar landbúnaðarins, svo sem hér hefur áður verið talað um af öðrum en mér.

Þá eru það einnig vaxtagreiðslurnar. Þessir vextir, sem gert er ráð fyrir, 8%, eru óneitanlega háir vextir. Ég held, að það geti ekki verið skiptar skoðanir um það hjá mönnum, sem nokkuð eru kunnugir kjörum bænda, að það sé teflt á tæpasta vað að ætla þeim að standa undir slíkum vaxtagreiðslum, eins og bústærð hjá þeim mörgum er nú. Það er óneitanlegt, að ef um verulega fjárhæð er að ræða, þá er það talsverður munur á því, hvort vextir eru 6½% eða 8%. Mér finnst þess vegna, þegar vextirnir hafa hér verið ákveðnir 8%, þá hafi ekki verið staðið fyllilega við það fyrirheit, sem gefið var, bæði í yfirlýsingu hv. þm. Jónasar Péturssonar, þegar talað var um það, að vaxtakjörin yrðu hagkvæm, né heldur í ástæðunum fyrir brbl., þar sem sagt er, að lánskjörin muni verða með svipuðum hætti og þegar um lán til sjávarútvegsins væri að ræða. Ég fæ ekki séð, hvaða sanngirni mælir með því, að bændur séu að þessu leyti til settir á annan bekk en útgerðarmenn, að þeim sé ætlað að greiða 8%, en útgerðarmönnum og vinnslustöðvum sjávarútvegsins aðeins 6½%. Það hefur verið sýnt fram á það svo rækilega, nú síðast af hv. 5. þm. Austf. (PÞ), að sú röksemd hæstv. landbrh., að þetta skipti í sjálfu sér ekki svo miklu máli fyrir bændur, vegna þess að vextirnir séu teknir með í verðlagsgrundvellinum, fær með engu móti staðizt. Það nær ekki nokkurri átt sú kenning, að það skipti engu máli, hvernig vaxtagreiðslum er háttað og hversu háa vexti þeir þurfa að greiða af sínum lánum, af því að slíkt sé reiknað inn í verðlagsgrundvöllinn. Ég hygg, að það muni ákaflega fáir bændur taka undir þá kenningu. Og ég get satt að segja ekki séð, að það nái nokkurri átt, sem hæstv. landbrh. þó sagði hér, að með þessum hætti mundu bændur fá betri fyrirgreiðslu en sjávarútvegurinn. Ég held, að þetta sé algert öfugmæli, eins og lögin eru úr garði gerð og framkvæmdin er fyrirhuguð nú.

Hv. 10. landsk. lét svo um mælt, að þrautseigja hæstv. landbrh. í þessu máli væri þakkarverð og ég held jafnvel aðdáunarverð, a.m.k. þakkarverð, og hann talaði líka um þá lausn, sem nú væri að fást eftir langt þóf. Mér er nú spurn: Við hvaða öfl hefur hæstv. landbrh. orðið að berjast og einbeita sinni þrautseigju svo mikið sem hv. 10. landsk. gerði orð á? (Gripið fram í: Fjárskortinn.) Ég skal koma að því seinna. Og hvaða óskaplega þóf er það, sem staðið hefur verið í? Það hefur ekki þurft í þessu máli að berjast við stjórnarandstöðuna. Stjórnarandstaðan hefur verið reiðubúin frá öndverðu til þess að ganga fullkomlega eins langt í þessu máli gagnvart bændunum og gert var gagnvart sjávarútveginum. Það þurfti enga þrautseigju hæstv. landbrh. til þess að fá fylgi stjórnarandstöðunnar um þetta mál. Það hefði ekki þurft að standa í löngu samningaþófi við hana um það. Það hljóta þess vegna að hafa verið önnur öfl, annars staðar en í stjórnarandstöðunni, sem hæstv. landbrh. hefur þurft að glíma við í þessu efni. Og ég efast ekkert um, að hv. 10. landsk. segir þetta alveg satt og rétt. Ég efast ekkert um, að hæstv. landbrh. hefði út af fyrir sig haft vilja til þess að leysa þetta mál með viðunanlegri hætti en leit út fyrir í öndverðu og með betri hætti en þó enn er gert. Ég efast heldur ekkert um, að hv. 10. landsk, mundi hafa fylgt honum í því efni. En það eru aðrir innan flokks þessara hv. manna, hæstv. ráðh. og hv. 10. landsk., sem hefur þá þurft við að glíma í þessu máli, og það eru út af fyrir sig engin ný sannindi fyrir mér. Það hefur verið vitað lengi, að það væru sterk öfl í Sjálfstfl., sem hefðu tiltölulega takmarkaðan skilning á hagsmunamálum bænda og málefnum bændastéttarinnar. Hitt hefur þá ekki síður verið vitað, að samstarfsflokkur Sjálfstfl., Alþfl., hefur lengi átt ákaflega erfitt með að átta sig á málefnum bænda og sýna þeim fulla sanngirni.

Ég held, að þessi játning hv. 10. landsk. þm. sé lærdómsrík. Hún ætti að færa bændum nokkrar upplýsingar um það, hvar þeirra stefnumál eigi fylgi að fagna, og hún ætti að færa þeim heim sanninn um það, hverja þýðingu það hefur fyrir þá að þoka sér saman stjórnmálalega og hverja þýðingu það hefur fyrir þá, að Framsfl. sé sem sterkastur og áhrif hans á Alþ. séu sem mest, því að það er áreiðanlegt, eins og ég áðan sagði, að hæstv. landbrh. hefði ekki verið þreyttur eftir þá glímu, sem hann hefði þurft að eiga við Framsfl.. í þessu efni. Það hefði ekki staðið á honum að fylgja þessu máli.

Hv. 10. landsk. skaut því fram hér áðan, að það hefði verið fjárskorturinn, sem við var að glíma. Þetta er hinn mesti misskilningur, vegna þess, eins og ég tók fram áðan, að hér er ekki um það að ræða, að neitt nýtt fé sé sett í umferð. Það er aðeins um að tefla breytingu á skuldum, sem þegar hefur verið stofnað til. Það er lánabreyting, sem hér er um að tefla, a.m.k. að langmestu leyti. Þess vegna gat það ekki á neinn hátt staðið hér í vegi.

Mig minnir, að hv. 10. landsk. væri eitthvað að tala hér áðan um gort. Mér flaug þá í hug hið fornkveðna: Ef enginn annar hælir mér, þá verð ég að gera það sjálfur. Og einhvern veginn fannst mér tónninn í ræðu hv. 10. landsk. á þá lund, að hann hefði orðið lítið var við ánægju yfir útgáfu þessara brbl., eins og þau voru fyrst úr garði gerð. Þess vegna fór hann inn á það að hæla þeim höfundum, sem að þessu hafa staðið. En það verður að segja, að því hóli, sem hann lét sér um munn fara í því sambandi um hæstv. landbrh., var í hóf stillt, því að hann sagði, að frammistaða ráðh. í þessu máli mundi yfirleitt hafa mælzt vel fyrir úti um land. Þetta er mjög hófsamlega til orða tekið.

Þá sagði hv. 10. landsk., að stjórnarandstaðan hefði ekki haft aðstöðu til að hafa áhrif á þetta mál. Þeirri aths. hans hefur þegar verið svarað svo rækilega af hv. 5. þm. Austf., að ég sé ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum, en hv. 5. þm. Austf. sýndi glögglega fram á, að þær breytingar, sem orðið hafa á fyrirhugaðri framkvæmd þessa máls, sem vissulega eru til stórbóta, má einmitt rekja til þrýstings frá bændastéttinni og frá stjórnarandstöðunni. En eins og ég hef áður sagt, þá eru enn, þrátt fyrir það að þetta sé mikilsverð fyrirgreiðsla, sem þarna er um að ræða, agnúar hér á, sem auðvelt er að sníða af. Og um það þurfa þm. þeir, sem eiga bændur að umbjóðendum, að sameinast. Það er alveg augljóst mál, að bændur geta ekki borgað 8% vexti. Og það er líklegt, að vextir verði lækkaðir hér í náinni framtíð, og þá sjá allir, hversu það er óeðlilegt og ósanngjarnt að vera búinn að binda bændum þessa byrði með háum vöxtum um langan tíma. Það verður a.m.k. að komast inn í þetta frv. eða þessi lög, að vöxtum verði þá breytt af þessum bréfum, ef almennar vaxtalækkanir eiga sér stað.

Það þarf að taka til vinsamlegrar afgreiðslu umsóknir og lánbeiðnir frá þeim, sem af einhverjum ástæðum, misskilningi eða öðrum ástæðum, hafa ekki sótt um þessi lán í tæka tíð. Það má að sjálfsögðu ekki verða til þess að tefja afgreiðslu lána hjá þeim, sem hafa nú öll sín skjöl í lagi, enda er það ástæðulaust, því að það er vitaskuld hægt að fara að afgr. þau.

Eins og ég hef sýnt fram á áður, getur það ekki skipt neinu höfuðmáli, hvort heildarfjárhæðin verður 82 millj. eða eitthvað meira, auk þess sem alltaf má náttúrlega gera ráð fyrir, að ekki sé hægt að taka til greina allar þær umsóknir, sem inn hafa verið sendar.

Og að lokum er það rétt, sem hér hefur verið bent á, að það er auðvitað fyllilega sanngjarnt að taka með árið 1961, sem bændum hefur þrátt fyrir gott árferði að ýmsu leyti orðið þungt í skauti vegna þeirrar sívaxandi verðbólgu og dýrtíðar, sem við hefur verið að stríða.