20.03.1962
Efri deild: 67. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

21. mál, lausaskuldir bænda

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem fram komin nál. leiða í ljós, hefur ekki orðið samkomulag í fjhn. um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði afgreitt óbreytt, en minni hl. er að vísu efnislega sammála um kjarna málsins, en leggur til, að tilteknar breytingar verði gerðar á frv., og eru brtt. um það fluttar á sérstöku þskj.

Hæstv. landbrh. gerði grein fyrir máli þessu, þegar það var lagt fram og var hér til 1. umr. í hv. deild, og ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka þau rök í einstökum atriðum. Eins og nál. okkar í meiri hl. n. bendir til, leggjum við til, að frv. sé afgreitt óbreytt. En mér þykir rétt að ræða nokkur atriði málsins, sem sérstaklega hafa verið gagnrýnd af hálfu stjórnarandstöðunnar, og taka örlítið til athugunar þær röksemdir, sem fram eru færðar af hálfu talsmanna hennar og koma fram í nál. hv. minni hl., þó að ég muni svo aftur síður, eftir að þeir hafa gert grein fyrir sínu nál., ræða nánar um þau sjónarmið, sem þar koma fram.

Það er grundvallargagnrýnin á þessu frv., að bændum sé ætlað að búa við lakari kjör en útvegsmönnum í sambandi við þá aðstoð, sem þeim hafi verið veitt með breytingu lausaskulda í föst lán. Og það er í rauninni eina atriðið, sem máli skiptir, sem fært er fram sem gagnrýni á þessu frv. hér. Allir eru sammála um nauðsyn þess að breyta lausaskuldum bænda í föst lán, þannig að um það mál út af fyrir sig þarf ekki að ræða.

Það mun vafalaust engum blandast hugur um það, að varðandi lausaskuldir bænda voru margvíslegir örðugleikar, sem var ekki hægt að leysa úr á sama hátt og í sambandi við lausaskuldir útvegsmanna. Ein orsökin er sú, að lausaskuldir útvegsins voru að miklum meiri hluta en lausaskuldir bænda skuldir við tvo viðskiptabanka útgerðarinnar. Lausaskuldir bænda eru hins vegar miklu dreifðari, við alls konar aðila, ekki hvað sízt verzlunarfyrirtæki og hinar og aðrar stofnanir, og miðað við þá reglu, sem fylgt var í sambandi við lausaskuldir útvegsins, lá í augum uppi, að mjög torvelt yrði að framkvæma lausaskuldamál bænda á svipuðum grundvelli. Það mun öllum hv. þdm. kunnugt, að breytingu lausaskulda útvegsins var hagað þannig, að það losnaði ekkert fé. Þessir tveir viðskiptabankar, sem lán þessi gengu að öllu leyti gegnum, Útvegsbankinn og Landsbankinn, urðu að bæta hag sinn gagnvart Seðlabankanum í sama mæli og Seðlabankinn eða stofnlánadeildin létti á lausaskuldum útgerðarinnar. Sannleikur málsins mun vera sá, eftir því sem ég hef kynnt mér það mál, að sáralitlu af almennum viðskiptaskuldum útgerðarmanna mun hafa verið breytt í föst lán. Það eru fyrst og fremst og nær eingöngu bankaskuldir útvegsins, sem komið hafa til greina í því efni. Í sambandi við lausaskuldir bænda er ætlunin að ganga miklu lengra. Og það er ekki ætlunin að gera greinarmun á lausaskuldum eftir því, hverjir eiga þar hlut að máli, að svo miklu leyti sem það getur komizt innan þess ramma, sem verður að setja í sambandi við framkvæmd málsins, sem hv. þdm. er nú kunnugt um, hvernig er háttað. En einmitt þessi staðreynd, að það verður að byggja á því töluvert mikið, að auðið sé að fá hina ýmsu aðila, sem bændur skulda, til þess að taka þessi bréf, án þess að geta verið öruggir um að losna við bréfin, — og á ég þá við þá aðila, sem geta ekki skuldajafnað í sambandi við þessi bréf, eins og var fylgt sem fastri reglu við útveginn, — þá var óumflýjanlegt að hafa vaxtakjör bréfanna ekki lægri en svo, að ekki væri fyrir fram raunverulega útilokað, að bændur gætu fengið aðstoð eftir þessari leið. Þetta var meginsjónarmiðið, sem varð að hafa í huga, þegar út í þetta var ráðizt varðandi lausaskuldir bænda.

Það hefur verið gagnrýnt, að ekki hafi verið fyrir fram tryggt, að hægt væri að leysa þetta mál á þann veg eins og nú liggur fyrir. Það gefur auga leið, að það var gersamlega útilokað að tryggja fyrir fram. Það vissi enginn um það, hvernig skuldum bænda væri háttað eða hversu miklar skuldir þarna kæmu fram. Og miðað við þá samninga, sem gerðir hafa verið við bankana nú, var augljóst, að enginn banki mundi taka þátt í slíkum samningaumleitunum eða viðræðum nema vita, hvaða viðfangsefni við væri að glíma. Það er engin afsökun, að bændur hafi ekki sótt um þessi lán, — ekki nokkur minnsta. Það var um það rætt strax í upphafi, þegar talað var um málið, og það kom opinberlega fram, að það mundi verða reynt að sjá til þess, að þessi aðstoð kæmi að fullum notum, og það gaf auga leið, þegar ríkisstj. efndi til þessara ráðstafana, að það mundi ekki verða látið renna út í sandinn, því að það gat engum orðið til góðs. Það er enda svo, að fjöldi bænda, sem hafði ekki neina örugga vitneskju um lausn sinna mála, nema menn gengu út frá því, að þetta yrði ekki látið vera dauður bókstafur, þeir hafa sótt. Og sú hugmynd að fara nú að rifja það mál allt upp aftur, auglýsa á nýjan leik, seinka þessu máli um marga mánuði eða jafnvel ár og valda því, að enn á ný verði að taka upp samninga við viðskiptabanka og Seðlabanka, er að sjálfsögðu ófær leið og gersamlega ástæðulaus.

Eins og málið liggur fyrir í dag, er sæmilega tryggt, að þessi aðstoð muni koma að notum öllum þeim, sem hafa tiltekin og tilætluð veð eða tryggingar fyrir lánum sínum. Og ég hygg, að það sé mjög yfirgnæfandi meiri hluti umsækjenda, sem þurfi ekki að lenda í neinum vandræðum hvað þá hlið málsins snertir, þannig að þetta ætti í langflestum tilfellum að geta leitt til lausnar á vanda bænda þeirra, sem sótt hafa, þó að það kunni auðvitað að vera einstök tilfelli þar á meðal, sem menn hafa rekið augun í, sem gera það að verkum, að erfitt sé að fá lausn á málum viðkomandi manna, svo sem t.d. það, ef það sýnir sig, að bændur eiga alls ekki fyrir skuldum, — en sem betur fer eru þau tilfelli fá. Ég held því, að miðað við allar aðstæður hafi hér tekizt vel til og fengizt fram á málinu lausn í sambandi við samninga við bankana, sem eigi að geta tryggt bændum viðunandi afgreiðslu þeirra mála, og er það vissulega mikils virði. Það eru vafalaust allir sammála um, að æskilegast sé að hafa vexti sem lægsta og ekki þá sízt af lánum sem þessum. En þegar menn athuga, ef þeir gera það af fullu raunsæi, mismuninn, sem hér er á og í sambandi við lán útgerðarinnar, sem voru í þessu tilfelli á mjög fárra aðila höndum, þá gefur auga leið, að hér var við allt annan vanda að glíma. Og þar sem það lá ljóst fyrir, að til þess að fá fram þessa lausn málsins, varð að finna leið, sem yki ekki á þenslu í þjóðfélaginu, — en það hefði það óneitanlega gert, ef veitt hefði verið tugmilljónum króna út í efnahagslífið í nýju fjármagni, — þá var ekki önnur lausn finnanleg á vandanum en sú, sem hér er um að ræða. Og án þess að ég ætli að fara að rekja hér eða gera grein fyrir framkvæmd á skuldamálum útgerðarinnar, þá þori ég nokkurn veginn að fullyrða, að það mundi a.m.k. áreiðanlega valda bændum töluverðum bollaleggingum, áður en þeir ákvæðu að lúta heldur þeim reglum, sem útgerðin býr við, heldur en þeim reglum, sem gert er ráð fyrir hér að bændur búi við, jafnvel þó að um þennan vaxtamun sé að ræða. Það fullyrði ég. Þegar menn eru að ræða um það sem grundvallaratriði þessa máls í gagnrýnisskyni, að mjög sé mismunað bændum og útgerðarmönnum, þá eru óneitanlega miklu fleiri hliðar á því máli en minnzt er á og snerta vextina eingöngu, og það hygg ég, að útgerðarmenn, sem þetta mál þekkja, muni geta staðfest. Með þessu er ég á engan hátt að gera lítið úr þeirri aðstoð, sem útveginum hefur verið veitt, en þar hljóta að koma til greina ýmis önnur sjónarmið og ýmsar aðrar reglur, sem farið er eftir, heldur en í sambandi við þessi lán til bændanna. En ég endurtek það, að ég held, að óhætt sé að fullyrða, að þegar öll kurl eru til grafar komin og öll atriði málsins metin, þá muni sízt vera verr búið að bændum í sambandi við lausn á lausaskuldamálum þeirra, eins og hér er lagt til, heldur en sú lausn var, sem útvegsmenn hafa fengið á sínum málum, þannig að þær röksemdir séu meira og minna byggðar á misskilningi.

Þá er að því fundið, að ekki sé gert ráð fyrir að taka veð í vélum bænda og þar sé einnig bændum mismunað. Það mun hafa verið í framkvæmd hjá útveginum þannig, að meðan fasteignir hrukku til, voru þær ætíð teknar sem veð og það á undan skipum, og síðan skip. Það kann að vera í einhverjum tilfellum, að það hafi verið tekin veð í vélum, en það mun hafa verið algerlega í undantekningartilfellum. Hingað til hefur ekki verið tekið veð í vélum í sambandi við fjárfestingarlán til bænda. Vissulega er það mál, sem þarf athugunar við, og það hlýtur að koma að því, að nauðsynlegt verði að lána til vélakaupa á þann hátt, að veð verði tekið í vélunum, en ekki eingöngu í jörðunum. En í sambandi við það mál, sem hér er um að ræða, þar sem er verið að ræða um 20 ára lánstíma, er að sjálfsögðu fráleitt með öllu að taka veð í vélum, og ég held, að mér sé nokkurn veginn óhætt að fullyrða, að þetta muni í sárafáum tilfellum leiða til nokkurra vandræða, vegna þess að eins og menn vita, þá er hugmyndin með breytingu á lausaskuldum byggð á því, að þessar lausaskuldir stafi af framkvæmdum, sem gerðar hafa verið á jörðum bænda, og það ætti því ekki, jafnvel þótt menn væru aðeins ábúendur á jörðum, að geta verið meira vandamál að fá heimild til veðsetningar fyrir þeim skuldum heldur en skuldum við stofnlánasjóðina sjálfa, sem stofnað hefur verið til í sambandi við sömu framkvæmdir. Það er a.m.k. alveg ljóst, að ef ætti að fara út í það að fara að taka veð í vélum, þá yrðu þessi lán að vera til miklu skemmri tíma, og ég hygg, að það væri mjög hæpið, að hverju gagni það kæmi bændum, af því, eins og ég áðan sagði, að það sýnist vera nokkurn veginn ljóst, að þetta vandamál risi ekki nema í sárafáum tilfellum, og munu þá að sjálfsögðu verða tekin til sérstakrar meðferðar þau einstöku atriði. En breyting frv. í þessa átt held ég að hafi vægast sagt enga þýðingu, því að framkvæmd þessara mála í sambandi við allar stofnlánaveitingar til þessa hafa alls ekki verið við það miðaðar að lána til vélakaupa, heldur hafa veðin verið tekin í jörðum, meira að segja þó að beinlínis hafi verið lánað til að kaupa vélar, hvað þá þegar hér er um að ræða almennar skuldir vegna fyrst og fremst annarra framkvæmda á jörðunum en vélakaupa.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til þess að eyða lengri tíma á þessu stigi málsins til að ræða þetta mál. Ég endurtek aðeins, að það er skoðun meiri hl. n., að með þessu frv. og með þeim samningum við Seðlabanka og viðskiptabanka, sem fram hafa farið fyrir forgöngu hæstv. landbrh., sé það tryggt á viðunandi hátt, að þessi mikilvæga aðstoð við bændur geti komið að fullum notum, og á þeim grundvelli leggjum við til, að þetta frv. verði samþykkt óbreytt.