20.03.1962
Efri deild: 67. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

21. mál, lausaskuldir bænda

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að þessu sinni að blanda mér inn í þessar umr., þess gerist ekki þörf málefnisins vegna, þar sem hv. 6. þm. Norðurl. e. hefur haft hér framsögu í málinu og rætt það allýtarlega. En ég sé ástæðu til þess að mótmæla sérstaklega einu, sem kom hér fram hjá hv. 1. þm. Vesturl. (GGuðbj.), um leið og ég harma það, að hann byrjar göngu sína hér í hv. Alþingi með því að hagræða svo sannleikanum sem hann gerði hér áðan.

Bóndinn á Hjarðarfelli flytur í sinni jómfrúræðu þann boðskap, að bændum fækki um eitt hundrað árlega. Og fækkunin náttúrlega eykst að hans áliti nú síðari árin, eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum. Við þetta var náttúrlega nauðsynlegt að bæta, að það væri samdráttur í framleiðslunni og ef þessu héldi fram, þá mætti búast við því, að hér yrði skortur á landbúnaðarvörum. Ég undraðist þessa fullyrðingu og fékk mér því skjallegar upplýsingar um, hversu mikið hv. þm. skrökvaði. Bændatalið er tekið upp úr jarðaskrá Landnáms ríkisins. Það er tala byggðra jarða í sveitarhreppum, kaupstaðir ekki taldir, og tví- eða fleirbýli ekki talið heldur, og bændur eru þess vegna 1100–1200 fleiri en kemur hér fram í skránni, eftir því sem sá segir, sem skrifar undir þetta og tekur það upp úr jarðaskránni. Það kemur í ljós, að 1955–1956 voru bændur 5176, að viðbættum þessum 1100–1200 1957–1958 5168, þá var vinstri stjórn, en fækkaði samt; 1958–1959 5078, þeim hafði sem sagt fækkað 1958–1959 um 90, það er kannske þetta, sem hv. þm. hefur haft í huga, en 1959–60 eru þeir orðnir 5159, það hefur þá fjölgað á fyrsta ári, eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum, um nær 80; og 1960–61 eru bændurnir 5266, að viðbættum þessum 1100–1200, sem eru í tvíbýli, eða hefur fjölgað um 115, en hv. þm., bóndinn á Hjarðarfelli, segir í sinni frumræðu hér, jómfrúræðu, að bændum fækki nú árlega. Ég segi það, vegna þess að ég hef ekki þekkt þennan hv. ræðumann að neinu slæmu, að ég harma það, að hann skuli hafa orðið til þess að hagræða sannleikanum á þennan hátt, og ég tel, að það sé ekki leyfilegt annað en að mótmæla svona fullyrðingu, sem stangast algerlega á við sannleikann.

Í rauninni þarf ég ekki að segja meira en þetta, því að um frv. hefur verið rætt málefnalega af hv. síðasta ræðumanni og málefnalega af hv. frsm., og það má segja, að þar hallist lítið á. En hv. síðasti ræðumaður reyndi að draga fram sinn málstað frá því sjónarmiði, sem hann taldi eðlilegt að túlka hann. Ég er alls ekki honum sammála og gæti fært rök að því, að það er ekki rétt, sem hann heldur fram. En eins og ég sagði, af því að það er í rauninni búið að gera það, þá er ástæðulaust að vera nú að taka það fram.

Hv. þm. var að tala um, að ég hefði ekki getað gefið nein ákveðin fyrirheit á aðalfundi Stéttarsambands bænda s.l. haust um það, hvers konar fyrirgreiðsla fælist í brbl. Ég man eftir því, að það var rætt um lögin á aðalfundinum, og það, sem ég sagði, var eitthvað í þá átt, að lögin bæru það með sér, hvers konar fyrirgreiðsla væri fyrirhuguð, og ég fullyrti einnig, að það, sem vekti fyrir ríkisstj., væri, að lögin gætu komið að gagni fyrir bændur landsins. Ég held ég hafi ekki sagt annað eða meira. En það er algerlega í samræmi við framhaldið og allt, sem hefur skeð síðan, og þá er ljóst, enda viðurkennt einnig af andstæðingum ríkisstj., að lögin munu verða til mikils gagns fyrir bændur, þótt hv. stjórnarandstæðingar telji ástæðu til að flytja brtt., t.d. eins og um það, að lögin nái til ársins 1961. Því hefur nú verið lýst hér af hv. frsm., hvaða áhrif það mundi hafa.

En ég tel það nokkurs virði, að hv. stjórnarandstæðingar tala um árið 1961, en ekki 1962. Það sýnir, að þeir hafa þó nokkra trú á því, að hagur bænda verði jafnvel betri á árinu 1962 en 1961, og stangast það nokkuð á við þær kenningar, sem hv. stjórnarandstæðingar hafa stundum borið á borð, t.d. eins og það, að bændunum fækkaði, það væri samdráttur í framleiðslunni, og jafnvel það frv., sem nú er flutt um endurreisn lánasjóða landbúnaðarins, muni nú ekki ná tilgangi sínum. En skyldi það nú ekki vera einmitt vegna þess, að hv. stjórnarandstæðingar hafa séð framan í það frv., að þeir láta sér nægja að tala um árið 1961, að jafnvel þótt þeir ætli að greiða atkvæði á móti því frv., sjái þeir fram á, að með því er lagður grundvöllur að meiri framlögum úr stofnlánadeildinni og því minni þörf á því á árinu 1962 en áður að gera ráð fyrir að leysa lausaskuldir þessa atvinnuvegar?

Þá er hér ein till., og ég undrast það, af því að fyrri flm. hefur samið hana, en mér finnst það stangast algerlega á við lögin. Þar segir: „Við greinina bætist: og enn fremur til lánveitinga handa fyrirtækjum, er á undanförnum árum hafa komið upp vinnslustöðvum fyrir landbúnaðarafurðir, en hafa ekki fengið nægilegt fjármagn til langs tíma til þeirra framkvæmda.“ Það er alveg ljóst, að þegar talað er um, að þessi löggjöf eigi að vera í samræmi við lögin varðandi útgerðina, þá getur þetta alls ekki samrýmzt, og það held ég líka að hv. fyrri flm. þessara till. ætti að vita, að það eru ekki lausaskuldir, sem lama vinnslustöðvar landbúnaðarins, heldur aðeins fjármagnsskortur. Það eru ekki lausaskuldir, sem hvíla á þeim. Það er þess vegna ekki um það að ræða hér, að það þurfi að breyta lausaskuldum þessara fyrirtækja í löng lán, heldur að útvega þeim nýtt fé, en það hefur alltaf verið fyrir fram vitað, að það felst ekki í þessum lögum útvegun á nýju fé.

Það hefur verið rætt hér mikið um það, að þessi lög gera aðeins ráð fyrir lánum út á fasteignir, en ekki út á vélar. En ég held, að ég hafi upplýst það hér við 1. umr., hvað fyrir stjórnarvöldunum vakir í því efni, þ.e., að með því að byggja upp lánasjóði landbúnaðarins er ætlað, að þeim verði gert mögulegt það, sem þeim hefur ekki verið mögulegt áður, að lána út á vélar og þá einnig vélar, sem eru 1–2 ára gamlar, og þá til styttri tíma, þannig að það er fundin lausn á því máli, ef það tekst, sem vonir standa til, að byggja upp lánasjóði landbúnaðarins, veðdeildina og stofnlánadeildina, eins og hún á nú að heita.

Þá er það lánstíminn. Það er vitanlega ekki ágreiningur um, að það er eðlilegt, að það sé til 20 ára, og þá má segja, að það sé betra fyrir landbúnaðinn að eiga þess kost að fá lán til 20 ára heldur en útgerðina, sem hefur orðið að sætta sig við, að mikið af þeim lánum, sem var breytt fyrir hana, er til 10 ára og nokkur til 15 ára, en það er sennilega alger undantekning, ef það er nokkuð til 20 ára. Og það er rétt að minna á þetta, þegar spurt er að því, að hverju leyti þetta sé hagstæðara fyrir bændur en útgerðarmenn. Það má einnig minna enn á það, sem reyndar hefur áður verið gert, að það er öruggt, að þeir bændur, sem hafa sótt um breytingu á sínum lausaskuldum, fá hlutfallslega miklu betri og meiri fyrirgreiðslu en útgerðin, þannig að það verða margir bændur og kannske flestir, sem fá öllum þeim lausaskuldum, sem þeir hafa sótt um breytingu á, breytt í föst lán. En það liggur fyrir, að það er ekki nema nokkur hluti af lausaskuldum útvegsins, sem hefur tekizt að breyta þannig.

Þá eru það vextirnir, sem hafa verið gerðir mjög að umtalsefni hér. Í tilefni af því, sem hv. 1. þm. Vesturl. talaði um hér áðan, að það væri skýlaus krafa til stjórnarvaldanna, að hinn aukni rekstrarkostnaður væri tekinn til greina, sem er vextir og rekstrarvörur, þá þykir mér óhjákvæmilegt að upplýsa hv. þm. um það, því að hann hefði ekki talað svo, ef hann hefði vitað betur, — ég trúi því ekki, — að í verðgrundvelli landbúnaðarvara er tekið tillit til aukins kostnaðar við reksturinn. Ég vil t.d. minna á það, þegar talað er um vexti, að vextir hafa hækkað ákaflega mikið í grundvellinum, og það er þess vegna hreinn misskilningur að halda því fram, að bændur greiði raunverulega alla vaxtahækkunina. Ég hef hér útreikninga sexmannanefndar og grundvöllinn fyrir framan mig. Það sýnir sig, að vextir í grundvellinum 1957 hafa verið reiknaðir 8188 kr. bóndanum til útgjalda, og það færist inn í verðlagið og verður til þess að hækka verðlag vörunnar, eftir því sem útgjaldaliðirnir eru betur teknir til greina. 1958 er sama upphæð tekin í vöxtum, 8188, og það er sérstaklega nauðsynlegt fyrir hv. 1. þm. Vesturl. að leggja sér þetta á minni og gera sér grein fyrir því, hvernig verðlagið er byggt upp. Og 1959 hækka vaxtagjöldin upp í 11614. 1960 hækka vaxtagjöldin upp í 12824 kr., og hefur verið talið of lítið. En 1961 eru vaxtagjöldin hækkuð í 16579. Hvort stendur betur í vaxtakostnaði 1961 eða 1957 og 1958? 1957 og 1958 voru vextir af ræktunarsjóðslánum 4%. Þá voru vextir í grundvellinum 8188. 1961 eru vextir af lánum úr ræktunarsjóði 6½%. Þá eru vextir í grundvellinum 16579. 1957 og 1958 eru vextir af víxlum 7½%. 1961 eru vextir af víxlum 9½%, 2% hærri. En vextirnir í grundvellinum hafa hækkað um meira en helming, úr 8188 í 16579. Hvílir nú vaxtakostnaðurinn með meiri þunga á bændum nú 1962 eða 1961 heldur en 1957 og 1958? Ég held, að það sé rétt, þegar talað er um, að bændur standi undir þessum vöxtum öllum, að gera sér grein fyrir þessu, og það er leiðinlegt, þegar menn tala af hreinni vanþekkingu um þessi mál, en einmitt þess vegna er nauðsynlegt að koma með leiðréttingar.

Kjarnfóður hefur hækkað, og það er meira, sem bóndinn verður að láta fyrir það, heldur en áður, sömuleiðis áburður, og það er fróðlegt að sjá, hvað kjarnfóðrið var í grundvellinum 1957 og 1958 og hvað það var 1961. 1957 er kjarnfóðrið 9600 kr., þegar allt er talið með, en 1961 er kjarnfóðrið 20100 kr., sem það er reiknað til útgjalda og verður til þess að hækka afurðaverðið. Nú man ég ekki nákvæmlega, hvað fóðurbætirinn hefur hækkað í prósentum síðan 1957, en ég held þó, að fóðurblandan sé nú eitthvað um 4 kr., og ég held, að það sé ekki langt úr vegi, að hún hafi verið 3 kr. 1957.

Stærstu rekstrarútgjöldin eru fóðurbætir, áburður og vextir og svo náttúrlega vélar líka. Ef við tökum áburðinn, þá er hann 1957 um 8800, en 1961 14600. Ég hef ekki heldur borið saman eða reiknað út, hvað áburðurinn kostar 1957, en ég hygg, að útgjaldaliðurinn í grundvellinum hafi ekki hækkað minna en verðlag á áburðinum.

Svo höfum við vélarnar hérna. Ég er bara ekki búinn að lesa þetta nógu vel og alls ekki taka það saman, en það er sá liður náttúrlega, sem hækkar ekki nægilega ört. Það er vegna þess, að bóndinn á kannske vélina í fimm eða tíu ár og þessi útgjöld í grundvellinum hækka þess vegna seinna en t.d. vextir, fóðurbætir og áburður, og hættan er því mest á því, að bændur verði fyrir halla einmitt í sambandi við mat á þeim. Það tekur það langan tíma að samræma verðlagið, og þess vegna verða bændur óhjákvæmilega fyrir nokkrum halla. En ég átti einmitt áðan tal við einn mann úr sex manna nefndinni, fulltrúa bænda, og var að tala um verðgrundvöllinn við hann. Ég sagði kankvís og brosandi: Mér sýnist, að þessi verðgrundvöllur hafi alltaf verið vitlaus og að hann sé ekki miklu vitlausari núna en hann var áður, kannske ekki eins vitlaus. — Ekki mótmælti hann því, samþykkti það ekki heldur. Ég spurði hann, hvað það væri, sem hann teldi helzt ábótavant í grundvellinum. Hann sagði: Það eru ekki útgjaldaliðirnir. Ég tel, að þeir hafi verið teknir til greina. Það, sem ég er óánægðastur með í verðlagsgrundvellinum, sagði hann, og reyndar það eina, sem ég er óánægður með, það er það, að bændum eru taldar tekjur og hlunnindi, sem þeir ekki fá. Hann sagði t.d., að ullin væri reiknuð bændum öllu meiri en hún væri. Það væri miðað við 2 kg, en hann sagðist álíta, að það væru ekki nema 1.8 kg af kind, en þar væru reiknuð bóndanum til tekna 2 kg. Ef þetta er svo, þá er það náttúrlega alveg rangt og þarf að leiðrétta. Hann sagði einnig um hlunnindi og aukatekjur, það eru 17700 í grundvellinum 1961, en voru 15100 í grundvellinum 1960 og 14300 í grundvellinum 1959, — hann sagði, að þetta væri ekki réttlátt, því að það væri alveg vitað, að margir bændur með meðalbú hefðu sáralitlar aukatekjur, og einmitt þessi atriði í grundvellinum, sem eru ekki byggð á föstum og traustum grunni, þarf að leiðrétta, en útgjaldaliðina, sagðist þessi maður, sem er mjög skýr og þekkir þetta alveg út í gegn, ekki vera óánægður með.

Ég vildi láta þetta koma fram hérna vegna þess, að það hefur oft verið talað um vextina og útgjaldaliðina í sambandi við búreksturinn af miklum misskilningi, og það er eina afsökunin, að þessar fullyrðingar, sem hafa ekki við rök að styðjast, séu fram bornar vegna þess, að menn hafa ekki kynnt sér málið. Mér dettur t.d. ekki í hug, að hv. 1. þm. Vesturl. hafi farið vísvitandi rangt með áðan, þegar hann sagði, að bændunum fækkaði um 100 á ári, í staðinn fyrir að þeim hefur fjölgað um rúmlega 100 árið sem leið. Hann hefur bara sagt það af því, að hann hefur ekki kynnt sér þetta nógu vel, en trúað því, sem hann hefur verið að lesa oft og iðulega í sínu eigin flokksblaði. Og þetta er vitanlega miklu betra en ef hann hefði vísvitandi viljað fara rangt með, því að einmitt þessi árekstur hlýtur að leiða til þess, að hann reynir að kynna sér þetta betur, og ég er alveg sannfærður um það og vona það, að hann vilji frekar hafa það, sem réttara reynist, að vanda sig betur, næst þegar hann kemur hér upp í ræðustólinn og fullyrðir um einhver mál eða málefni.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð öllu fleiri. Þau lög, sem hér er leitað eftir staðfestingu á, verða til gagns fyrir bændur. Það eru 1200–1300 bændur, sem hafa sótt um þessa fyrirgreiðslu. Það er gert allmikið úr því, að ýmsir bændur hafi ekki sótt um fyrirgreiðsluna, vegna þess að það hafi ekki verið fyrir fram tryggt, að bréfin gengju á nafnverði eða þeir fengju fyrirgreiðslu, og því er borið við, að þessir menn, sem talið er að muni verða út undan, hafi talað við einhverja menn í fyrirtækjum og stofnunum, sem hafi jafnvel fullyrt, að þetta væri ekki. Ríkisstj. getur vitanlega ekki tekið þetta til greina, vegna þess að það var alltaf fyrirhugað, að lögin næðu tilgangi sínum, og það hefur verið á það bent réttilega af hv. frsm., að það var ekki í rauninni mögulegt að ákveða þessar reglur fyrir fram, á meðan ekki var vitað um, hvað það yrði mikil upphæð, sem um væri að ræða. Það er vitað nú, að það eru 82 millj., sem umsóknirnar nema, en það hefðu alveg eins getað verið 200 eða jafnvel 300 millj. Þetta var ekki hægt að vita fyrir fram. En mér finnst, að það verði að trúa því, að þeir bændur, sem voru með lausaskuldir og töldu sig hafa þörf á að breyta lánunum, hljóti að hafa gert það, þó að það lægi ekki á borðinu einhver trygging um það, að þeir fengju 100% fyrirgreiðslu, því að hvaða kostnaður var það að sækja um lán? Hann var hverfandi lítill og fyrirhöfnin svo hverfandi lítil, að það gat ekki staðið í vegi eða verið hindrun fyrir þann mann, sem þurfti aðstoðarinnar við. Ég harma það, ef það hefur verið mikið að því gert, að bændur hafi orðið þannig út undan. Það á eftir að koma í ljós, og ég ætla ekki að trúa því, fyrr en það kemur þá greinilega í ljós, að það geti verið mikið um slíkt að ræða. Og eitt er það, sem styður nokkuð vel þá skoðun mína, að þeir, sem fyrirgreiðslunnar þurfa með, hafi sótt um hana. Það er, að það virðist svo sem það sé nokkuð jafnt úr öllum landshlutum, sem umsóknirnar nema, og hvers vegna skyldu þá sumir hafa orðið út undan og aðrir haft þessa fyrirhyggju eða sjálfsbjargarviðleitni? Ég trúi því ekki fyrr en það kæmi í ljós síðar meir.

Út af fyrir sig er ekkert að undrast það, þó að hv. stjórnarandstæðingar flytji brtt., og það má vel vera, að lögin litu betur út með því að samþ. sumt af þessum brtt. En hvort þau væru í reyndinni, í framkvæmdinni nokkru meira virði fyrir bændur eftir þær breytingar heldur en er í dag, það er svo allt annað mál. Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég tel, að þetta mál sé orðið svo mikið rætt og liggi svo ljóst fyrir hv. þm., að þess gerist tæplega þörf.