20.03.1962
Efri deild: 67. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

21. mál, lausaskuldir bænda

Gunnar Guðbjartsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. áminnti mig um það áðan að fara rétt með sannleikann, og skal ég taka undir það með honum, að það er hverjum manni skylt, því að enn eru í gildi orð Ara fróða: Hafa skal það, sem sannara reynist í hverju máli. — En um það efni, þar sem hann taldi mig hafa farið hér með rangt mál, vildi ég þó segja það, að samkv. upplýsingum, sem búnaðarþing aflaði sér hjá hagstofunni og Landnámi ríkisins, voru þær tölur teknar, sem ég fór hér með í ræðu minni áðan, og til þess að fá fullvissu mína um það, að ég færi með rétt mál í því efni, hringdi ég í hagstofuna í fundarhléinu og fékk nákvæmlega tölu þeirra bænda, sem hafa talið fram til skatts árin 1957–1960 samkv. búnaðarskýrslum, sem hreppstjórar gera hverju sinni. Samkv. þeim tölum voru bændurnir 1957 6400, 1958 6422, 1959 6309, og þá hefur þeim fækkað um 113, 1960 6151, og hefur þá fækkað um 158. Árið 1961 er ekki með enn þá, vegna þess að framtöl eru ekki komin, en það er álit þeirra manna, sem fylgjast bezt með þessu, að sama þróun hafi verið árið 1961 og var árið 1960. Hvort hagstofan gefur upp rangar tölur, skal ég ekki um segja, ég rengi þær ekki, en það er þá annarra að gera það.

Það kom fram í ræðum hv. stuðningsmanna ríkisstj. og hæstv. landbrh. hér áðan, að kjör eða hagur bænda mundi ekki vera verri nú en áður. Í þessu sambandi vil ég segja það, að á stéttarsambandsfundi bænda s.l. sumar var upplýst, að skuldir bænda hefðu aukizt á árinu 1960 um 26%. Þessi tala talar sínu máli. Hún er staðreynd og talar ljósu máli um það, hvort hagur bænda hafi ekki versnað það ár. Það er almannarómur, að á sama hátt hafi skuldir bænda og hagur þeirra versnað árið 1961. Tölurnar liggja að sjálfsögðu ekki fyrir enn þá, en þær munu koma fram síðar og verða hægt að grípa til þeirra, þegar þær liggja fyrir. Ég held, að það sé hyggilegast að neita ekki staðreyndunum, þegar þær liggja fyrir tölulega, og held, að væri rétt fyrir stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. að taka tillit einmitt til þessara staðreynda og leiðrétta aðbúðina að bændunum í samræmi við það.

Ég vil líka í þessu sambandi nefna eitt. Búnaðarþing kynnti sér núna, hvernig tekjur bænda væru í hlutfalli við tekjur annarra svokallaðra vinnandi stétta, sem launakjör þeirra eru við miðuð. Samkv. skýrslunum fyrir árið 1960, þeim nýjustu, sem til eru í þessu efni, eru meðaltekjur verkamanna, iðnaðarmanna og sjómanna, þ.e.a.s. þeirra stétta, sem við er miðað, þegar verðlag landbúnaðarvara er ákveðið, 89 þús. kr., en bændanna af landbúnaði það sama ár, 1960, 55 þús., þar að auki voru tekjur utan búsins, sem ég ætla að hafi numið rúmlega 5000 kr. að meðaltali á bónda. Af þessu er ljóst, að tekjur bændanna eru mun minni en allra annarra stétta, sem við er miðað í þessu efni. Það sýnir, að hagur þeirra er verri en annarra stétta í þessu efni. Þessum staðreyndum mun ég ekki neita, þó að aðrir kunni að gera það.

Þá vildi ég nokkuð víkja að verðlagsgrundvellinum, sem hæstv. landbrh. ræddi hér um í ræðu sinni áðan. Hann vildi halda því fram, að hlutur landbúnaðarins hefði verið bættur á s.l. ári í þessu sambandi, og fór þar með tölur úr verðlagsgrundvellinum. Nú segja þessar tölur ekki allt, því að um leið og skuldir aukast, þá aukast vaxtabyrðarnar af þeim sökum, og líka þegar vextir hækka, þá aukast vaxtabyrðarnar af þeim sökum. Hvort tveggja varð á árinu 1960. Fulltrúar bænda í sex manna nefnd fóru fram á það s.l. haust og töldu sig byggja það á sterkum rökum, að vextirnir þyrftu að vera og ættu að vera 23 þús. kr., í stað þess að þeir voru úrskurðaðir 16 þús. kr., og allir stjórnarnefndarmenn Stéttarsambands bænda, þ. á m. fulltrúar bænda í sex manna nefnd, undirskrifuðu mótmæli gegn því, að þessu yrði breytt í yfirdómi, svo að ég fæ ekki skilið, að neinn úr stjórn Stéttarsambandsins sé ánægður með þá niðurstöðu, sem varð, eins og hæstv. landbrh. vildi láta skína í. En þó að vextir væru allir teknir inn í verðlagsgrundvöllinn, eins og fulltrúar bænda fóru fram á, er ekki þar með sagt, að það leysti allra þarfir, því að þetta er meðaltal. Það meðaltal er fundið út þannig, að allir vextir, sem landbúnaðurinn greiðir, eru teknir og í þá tölu deilt með bændafjöldanum, þannig að hlutur þeirra, sem skulda mikið, hlýtur alltaf að verða verri en hinna, sem skulda ekkert eða lítið. Og eftir því sem vextirnir eru hærri, þeim mun lakari verður hlutur þeirra, sem skulda mikið og búa við óhagstæð vaxtakjör. Þess vegna er það þýðingarmikið atriði og ekki hvað sízt til þess að hjálpa þeim, sem verst eru settir, að vaxtakjörin séu ekki óhagstæð. Því verð ég að álíta, að það sé í alla staði til hags fyrir landbúnaðinn að halda vöxtunum í skefjum.

Það mætti fara mörgum orðum um verðlagsgrundvöllinn, en af því að hann er ekki hér til umr., mun ég láta það vera. Þó vil ég koma inn á eitt, að landbúnaðurinn fær engar fyrningarafskriftir af húsum, sem tilheyra landbúnaðinum, og það eitt skaðar hann stórlega á hverju ári.

Mér sýnist, að hvernig sem þessu er velt fyrir sér, þá hljóti það að verða krafa bændastéttarinnar og þeirri kröfu verði beint að hæstv. ríkisstj. og Alþingi, að vaxtakjör landbúnaðarins verði ekki óhagstæðari en annarra höfuðatvinnuvega, t.d. sjávarútvegsins, og þá kröfu verðum við að bera fram hér á Alþingi.