20.03.1962
Efri deild: 67. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

21. mál, lausaskuldir bænda

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það gleður mig, að hv. 1. þm. Vesturl. (GGuðbj) hefur haft eitthvað fyrir sér, þegar hann sagði áðan, að bændum hefði fækkað um 100 á hverju ári undanfarið. En ég harma það, að enn þá hlýtur þetta að vera á misskilningi byggt, annaðhvort spurningin ekki lögð rétt fyrir hagstofuna eða einhvers staðar er misskilningur í þessu, vegna þess að mér dettur ekki í hug að ætla, að það skjal, sem ég hef hér fyrir framan mig og ég vil nú leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta, sé ekki rétt. Það er beinlínis tekið upp úr jarðaskrá Landnáms ríkisins. Það hlýtur að vera rétt, og það segir þar:

Tala byggðra jarða í sveitahreppum. Kaupstaðir ekki taldir og tví- eða fleirbýli ekki talið, en bændur eru 1100–1200 fleiri en jarðirnar, það hefur verið talið tvíbýli á þeim. Og þá kemur skráin eins og ég las hana áðan, að 1955–1956 eru byggðar jarðir 5146, 1957–1958 5168, 1958–1959 5208, 1959–1960 5159 og 1960–1961 5266. Þetta er tekið upp úr jarðaskrá Landnáms ríkisins.

Ég efast ekki um, að þetta er rétt, og þá er einnig rangt það, sem hv. þm. fullyrti hér áðan með fækkun bændanna, og sem betur fer á einhverjum misskilningi byggt, en ekki á ásetningi, og bað er vitanlega reginmunur, sem ég legg mikið upp úr, því að slíkan misskilning er vitanlega alltaf hægt að leiðrétta.

Hv. þm. var að tala hér um laun bóndans, að þau væru ekki í samræmi við laun vinnandi stétta, verkamanna, iðnaðarmanna, sjómanna, eins og vera ber. En það er þá vegna þess að grundvöllurinn er rangur, og ég hef ekki verið með fullyrðingar um það, að grundvöllurinn sé rétt upp byggður, heldur lagði ég áherzlu á það áðan, að það væru hér e.t.v. nokkrir liðir, sem þyrftu lagfæringar við. En að mati fulltrúa bænda í sex manna nefnd eru það ekki útgjaldaliðirnir, sem eru rangir, heldur tekjuliðirnir, bændunum eru reiknaðar meiri tekjur en þeir raunverulega fá. En kaup bóndans í grundvellinum er ekki 55 þús. 1960, eins og hv. þm. sagði hér áðan. (Gripið fram í: Var það reyndin?) Í reyndinni, — það er hér í grundvellinum, eins og það er byggt upp. Það er 69924 kr. 1959, og það er sama kaup 1960, vegna þess að grundvellinum var ekki sagt upp. Ef grundvellinum hefði verið sagt upp, hefði verið miðað við tekjur verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna, sem munu hafa verið það ár 6 þús. kr. hærri. Ef hér er um sök að ræða, þá er það ekki við aðra en þá, sem sögðu ekki grundvellinum upp. En tekjur bóndans í grundvellinum 1961 eru 86142 kr., eins og verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna. Þetta vildi ég líka láta koma fram, vegna þess að þarna virðist einnig vera um nokkurn misskilning að ræða. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta.