20.03.1962
Efri deild: 67. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

21. mál, lausaskuldir bænda

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir skoðun minni á því frv., sem hér liggur fyrir. Ég hafði því ekki ætlað mér að taka til máls við þessa umr., en tel rétt að segja örfá orð út af ýmsu, sem fram hefur komið nú í umr. En af því, sem ég tók fram og gerði grein fyrir í ræðu minni um málið við 1. umr. þess, leiðir það, að ég fylgi eindregið brtt. þeim, sem hv. minni hl. fjhn. ber fram.

Með ræðu þeirri, sem hæstv. landbrh. flutti hér, sérstaklega fyrri ræðu hans, eru þessar umr. færðar út á nokkuð vítt svið, því að minnst af eða aðeins lítill hluti af ræðu hæstv. ráðh. fjallaði raunverulega um það frv., sem hér liggur fyrir, heldur miklu fremur um verðlagsgrundvöll landbúnaðarafurða og hag og aðstöðu bænda í þjóðfélaginu yfirleitt. Ráðh. las í þessu sambandi tölur um vissa liði úr verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða og bar saman breytingar á þessum liðum um nokkurra ára skeið. Ég vefengi ekki þessar tölur, þó að ég hafi þær ekki í höndum, en ég vil aðeins benda á, að þessar tölur um einstaka liði, teknar út úr heildinni og út úr samhengi að vissu leyti, þegar á að skoða heildarmyndina, segja mjög lítið um þetta mál.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að fulltrúar bænda, bæði þeir, sem starfa í sex manna nefnd, og forustumenn í félagssamtökum bænda, hafa oft bent á það að undanförnu, að verðlagsgrundvöllurinn væri ekki nægilega hagstæður bændunum, framleiðendunum í landinu, og hafa leitað mjög eftir því að fá þar breytingar á bændastéttinni í hag, bæði með því að fá hækkaða kostnaðarliði og jafnvel nýjum bætt við frá því, sem verðtagsgrundvöllurinn gerir ráð fyrir, enda þarf alltaf á hverjum tíma að taka tillit til þeirrar þróunar og uppbyggingar, sem á sér stað í landbúnaðinum, stóraukinnar vélanotkunar og annars slíks, ef myndin á að verða rétt. Þegar verðlagsgrundvöllurinn var úr garði gerður á s.l. ári, voru nýlega um garð gengnar mjög miklar breytingar í þjóðfélaginu, almennar kauphækkanir og svo strax í kjölfar þeirra hin ótímabæra gengisfelling ríkisstj. Af þessum ástæðum hlaut verðlagið í landinu og kostnaður að hækka a.m.k. um 13–14%, Þegar tillit er tekið til hvors um sig, hinna almennu kauphækkana og gengisfellingarinnar. En niðurstaðan varð sú, að bændum var úrskurðað 14.5%, minnir mig, í hækkun á verðlagsgrundvellinum í heild. Það þarf því enginn að furða sig á því, þó að fulltrúum bænda og bændastéttinni fyndist nokkuð hart að gengið með þessum úrskurði og bændastéttin fá ekki nærri fullnægjandi réttingu sinna mála, þar sem sú hækkun, sem henni var ákveðin með þessum úrskurði, gerði í raun og veru lítið betur en að standa straum af þeim verðhækkunum, sem fyrirsjáanlegar voru eða þegar ákveðnar, skömmu áður en frá verðlagsgrundvellinum var gengið.

Þetta verðum við að hafa í huga, þegar við ræðum þetta mál, og skoða heildarmyndina, en ekki taka úr einstaka liði, því að það skýrir málið litið. Og ég vil nú vænta þess, að hæstv. ráðh. fallist á, að það sé heildarmyndin, sem mest gildi hafi í þessu sambandi, þegar málið er skoðað, og við verðum sammála um að ræða málið þannig, enda lá við, að hann áminnti menn hér áðan um sannsögli og að vera málefnalegir í málflutningi.

Nú er það svo, að bæði hinar almennu kauphækkanir og gengisbreytingin hin ótímabæra, sem ríkisstj. stóð fyrir s.l. sumar, hafa vitanlega nokkur áhrif á fjárhagsafkomu bænda, en gengisbreytingin þó hlutfallslega miklu meira. Það grundvallast á því, að samkv. verðlagsgrundvellinum er aðkeypt vinna bóndans ekki nema milli 12 og 13 þús. kr. á ári, þ.e.a.s. um það bil 1/7 hluti af kaupi bóndans sjálfs. Það má gera ráð fyrir, að hann fái útgjöld af kauphækkun fyrir hina aðkeyptu vinnu, sem nemur um það bil 1/7 hluta af kaupi bóndans sjálfs, en hann á að fá aftur þar á móti hækkun á sínum eigin tekjum í samræmi við hinar almennu kauphækkanir. En áhrif gengisfellingarinnar verður bóndinn vitanlega að bera með fullum þunga á öllum þeim vörum, sem verðlagsbreytingum taka vegna breyttrar skráningar krónunnar.

Þegar litið er á hag bændastéttarinnar, má minna á það enn, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Vesturl., sem talaði hér áðan, að á aðalfundi Stéttarsambands bænda var sú skýrsla gefin, að skuldir bænda hin síðustu ár, er það orðað, hafi aukizt um 26.7%. Ég hef ekki aðgang að þeirri athugun, sem liggur á bak við þessa tölu, en ég geri ráð fyrir því, að hún sé áreiðanleg. En í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir til umr., hefur mjög verið rætt um vexti og þann vaxtafót, sem á að ákveða samkv. því á þeim lausaskuldalánum, sem bændur fá. Það vita allir, sem til landbúnaðarins þekkja, að sá atvinnuvegur er tiltölulega tryggur, þannig að hann skapar þeim, sem að honum starfa, sæmilega öruggan efnahag með hlutfallslega jafnri þróun. En í þeim atvinnuvegi eru að jafnaði ekki stórar sveiflur, og þar er ekki heldur auðið að grípa skjótfenginn gróða. Af þessu leiðir það, að landbúnaðurinn sem atvinnuvegur þolir ekki háan vaxtafót á því fé, sem hann fær að láni til umráða og ávöxtunar í atvinnugreininni. Og þeir, sem veita landbúnaðinum lán, mega ganga að því sem vísu, miðað við langa reynslu í þjóðfélaginu, að á lánum landbúnaðarins verði ekki mjög mikil skakkaföll, þannig að hætta sé á bankatöpum vegna þeirra. Það er löng reynsla í þessu þjóðfélagi, sem staðfestir þetta. En með því að ákveða vaxtafótinn 8%, lætur nærri, að bóndinn, sem slíkum lánskjörum sætir, eigi að endurgreiða höfuðstólinn tvöfaldan á 12 árum, um það bil 12 árum. Það hljóta allir, sem líta á landbúnaðinn sem atvinnugrein og aðstöðu bóndans, að sjá það og viðurkenna, ef sanngirni er beitt í málflutningi, að það er ofætlun að leggja slíkar byrðar á landbúnaðinn. Þess vegna vil ég bæta því við, að það er mjög mikilsvert fyrir aðstöðu bóndans í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, að brtt. minni hl. fjhn. um lækkun vaxtanna verði samþykkt.

Það kom fram í ræðu 1. þm. Vesturl. hér í dag, að þær efnahagsráðstafanir, sem núv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir, hafi haft mikil og alvarleg áhrif á hag og aðstöðu íslenzkra bænda. Hæstv. landbrh. virtist ekki vilja fallast á þetta eða a.m.k. vildi gera lítið úr því. Á orðum hans mátti skilja, að í landbúnaðinum væri mikill blómi um þessar mundir og það væri eiginlega einungis hið vonda blað, Tíminn, sem sífellt væri að endurtaka fullyrðingar um samdrátt hjá landbúnaðinum. Út af þessu þykir mér hlýða, áður en ég lýk þessum orðum, að leiða hér fram nokkur ummæli til vitnisburðar í þessu máli. Og ég sæki þau ekki í heimild, sem telja má vafasama, heldur sæki ég þau í tímarit Landsbankans, Fjármálatíðindi. Við verðum að telja og munum geta verið sammála um það, að tímarit, sem gefið er út á vegum Landsbankans, sé traust heimild almennt skoðað, og margt, sem kemur fram í því, virðist mér þar að auki sízt stefna að því að halla á þá ríkisstj., sem nú situr. En í tímariti Landsbankans. 3. hefti 1961, er yfirlitsgrein um þróun atvinnulífs og fjármála, fyrirsögnin eru Framleiðsla og fjárfesting 1960. Þar er vikið að þróun landbúnaðarins á árinu 1960, og um það segir svo m.a. á bls. 184, í framhaldi af atriðum, sem er búið að ræða, með leyfi hæstv. forseta:

,.Enn fremur dróst fjárfesting í landbúnaði og raforkuframkvæmdum nokkuð saman á árinu eða um 5.4% og 4.1% hvort í sínu lagi. Hefur fjárfesting í landbúnaði farið minnkandi s.l. 3 ár. En hvað raforkuframkvæmdum viðvíkur, þá lauk framkvæmdum við virkjun Efra-Sogs snemma á árinu 1960, og stafar þessi samdráttur fyrst og fremst þar af,“ þ.e.a.s. Steingrímsstöðin er á þessari töflu færð á árið 1959, en ekki 1960.

Enn fremur segir á næstu blaðsíðu, 185: „Ræktunarframkvæmdir, bygging útihúsa, innflutningur hjóladráttarvéla, véla, verkfæra og jeppabifreiða dróst nokkuð saman, en töluverð aukning varð á bústofni.“

Í framhaldi af þessu segir enn fremur: „Skurðgröftur varð töluvert minni en árið áður sem og nýræktarframkvæmdir, en þær höfðu aukizt ár frá ári síðan 1955, eins og sjá má í 21. töflu.“

Enn er haldið áfram:

„Nokkur samdráttur varð í útihúsabyggingum og þá sérstaklega í byggingu þurrheyshlaðna. Byggð voru fjós yfir 2240 kýr, eða nokkru færri en árið áður.“

Og um búvélar er þetta tekið fram: „Innflutningur landbúnaðarvéla dróst allmikið saman frá því árið áður, sérstaklega minnkaði innflutningur hjóladráttarvéla mikið.“

Ég ætla, að þessi vitnisburður sé þannig, að það geti ekki leikið á tveim tungum, hvernig þróunin hefur verið í landbúnaðinum í sambandi við fjárfestingu í honum og uppbyggingu atvinnuvegarins á árinu 1960. Ég hef ekki með höndum sams konar tölur fyrir árið 1961 og skal ekkert um það ræða, ég er ekki viss um, að þær liggi fyrir opinberlega enn þá. En til þess að árétta þetta, er þessu ekki aðeins brugðið upp í tölum af hagfræðideild Landsbankans, heldur í myndum. Og það eru birtar hér myndir yfir hlutfallslega skiptingu heildarfjárfestingar í þjóðarbúskapnum, og það er allt umreiknað gagnvart öllum greinum fjárfestingarinnar í verðlag ársins 1954, til þess að verðlagsbreytingarnar hafi ekki áhrif á niðurstöðuna, heldur sé myndin miðuð við hinar raunverulegu framkvæmdir án tillits til verðlags hvers árs. Og gagnvart landbúnaðinum lítur þá þessi mynd þannig út:

Árið 1955 er fjárfesting í landbúnaði 18.3% af heildarfjárfestingu þjóðarbúsins, 1956 16.6%, 1957 16.1%, 1958 15.7%, 1959 13% og 1960 10.5%. Við sjáum ekki aðeins af almennu lesmáli, ekki aðeins af tölum, heldur af myndum, hvernig þróunin er í landbúnaðinum á árinu 1960, en það er fyrsta árið, sem viðreisnin hafði áhrif í þjóðfélaginu og þ. á m. á hag landbúnaðarins.

Mér þótti rétt að láta þetta koma fram nú í þessum umr. vegna þeirra orða, sem hæstv. landbrh. hafði mælt hér í dag, þar sem hann leiddi þetta mál út á svo vítt svið sem hann gerði.

Það frv., sem hér liggur fyrir, leysir vitanlega ekki, þótt samþykkt verði, að fullu þann vanda, sem landbúnaðurinn á við að etja. og þá erfiðleika, sem að bændastéttinni steðja. En það er þó spor í áttina. Það er einn liður í því, sem gera þarf. Þess vegna tel ég miklu varða að vel takist til um þessa lagasetningu, og vil því eindregið mæla með því og vona, að brtt. minni hl. fjhn. verði samþykktar.