20.03.1962
Efri deild: 67. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

21. mál, lausaskuldir bænda

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég efast ekkert um það, að hv. 5. þm. Austf. hefur lesið rétt úr tímariti Landsbankans, og öll sú skýrsla, sem þar er, hlýtur að vera byggð á staðreyndum. það ætla ég ekkert að efast um. En það er dálítið athyglisvert, sem kom fram í skýrslunni. Og það er það, að s.l. 3 ár, skýrslan er fyrir 1960, 1959 og 1958, — að s.l. 3 ár hafi fjárfesting í landbúnaði dregizt nokkuð saman. Samdrátturinn byrjaði árið 1958. Eitt þykist ég vita, að hv. 5. þm. Austf. man árið 1950, þegar gengisbreytingin var gerð, og ef hann flettir upp í skýrslum, muni hann sjá, að einmitt það ár, sem gengisbreytingin var gerð og verðhækkun varð á landbúnaðarvélum og á byggingarefni, varð samdráttur, sem rétti sig furðufljótt við, hafði rétt sig við á fjórða ári, 1954. Og það er einmitt árið 1960, sem skráningu krónunnar var breytt. Sú skráning var ekki ótímabær, eins og hv. þm. fullyrti. Það ætla ég samt ekki að fara að rökræða hér nú. En þetta er ástæðan fyrir því, að það minnkaði nokkuð fjárfesting í landbúnaðinum 1960, alveg sú sama og var 1950.

Hitt vil ég svo leiðrétta, að raforkuframkvæmdir hafi verið minni á árinu 1960 en áður, og það sýnir sig, að þegar Steingrímsstöðin er reiknuð til ársins 1959, þetta dýra mannvirki, hvað raforkuframkvæmdir aðrar hljóta að hafa vaxið mikið, þegar rýrnunin er ekki nema 5%, það, sem varið er til rafmagnsframkvæmda 1960, er ekki nema 5% minna en var árið áður, enda þótt Steingrímsstöðinni hafi verið lokið þá. Það kemur líka í ljós, að það var leitt rafmagn á fleiri býli á árinu 1960 en á árunum 1957 og 1958. Þetta veit ég að hv. 5. þm. Austf. er fús til þess að viðurkenna og hafa það, sem réttara reynist.

Ég vil svo láta þá skoðun mína í ljós, sem ég gerði í dag, að fjárfesting í landbúnaði muni aukast aftur, um leið og verðlagið jafnar sig, jafnvægi kemst á og verðlagið samræmist, enda þótt það séu vitanlega takmörk fyrir því, sem það fólk, sem nú býr í sveitunum, getur ræktað og byggt. Það er komið að því, að það þarf að gera ráðstafanir til, að fólkinu í sveitunum geti fjölgað, og það verður gert fyrst og fremst með því að gera þeim, sem vilja stunda búskap í sveit, fært að fá lán til bústofnunar, bygginga op ræktunar í stærri stil en verið hefur. Og það er það, sem nú er verið að leggja grundvöllinn að og ég veit að hv. 5. þm. Austf. kemur til með að verða mér sammála um, áður en lýkur.