23.03.1962
Efri deild: 69. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

21. mál, lausaskuldir bænda

Gunnar Guðbjartsson:

Herra forseti. Ég hef rætt þetta mál nokkuð við 2. umr. hér í hv. d., en vildi þó víkja að því nokkrum orðum hér nú við 3. umr. vegna upplýsinga, sem ég fékk á búnaðarþingi, eftir að málið hafði hér verið afgr. við 2. umr.

Það var rætt nokkuð um þetta á búnaðarþingi í sambandi við lánamál landbúnaðarins almennt, og þá talaði einn af stjórnarmönnum Stéttarsambands bænda, Einar Ólafsson, sem mörgum er kunnur og glöggur maður á tölur, og gat hann þess, að lausaskuldir bænda mundu hafa verið í árslok 1960, eftir því sem næst yrði komizt, um 212 millj. kr., og að umsóknir um lán í þessu skyni mundu nema á milli 30 og 40% af þeirri upphæð. Mér finnst, að þarna komi fram svo gagnmerkar upplýsingar um það, að bændur hafi ekki sótt um lán í þessu skyni eins og búast hefði mátt við, að það sé full ástæða til að taka til athugunar á ný, hvort ekki sé rétt að framlengja umsóknarfrest um lánin. Ég skal ekki segja um, hvað hefur valdið því, að þeir, sem skulda 60% af þessum skuldum eða heldur meira en það, hafa ekki sótt um lausaskuldalán til Búnaðarbankans, en það leikur sterkur grunur á því, að orsökin til þess sé einmitt sú, að bændur hafi álitið, að þeir yrðu sjálfir að selja skuldabréfin, en eftir að það viðhorf hefur breytzt, sýnist ástæða til að gefa enn kost á því, að um þetta verði sótt. Það sýnir sig, að þegar ekki er um að ræða að leysa nema kannske í hæsta lagi 40% af þeim erfiðleikum, sem í þessu efni eru eins og sakir standa, þá fullnægir það engan veginn landbúnaðinum í þessu efni. Auk þess er það óleyst að mínu viti enn þá, hvernig farið verður með leiguliðana, sem munu þó nokkrir vera í hópi þeirra, sem þegar hafa sótt um, og kannske enn fleiri í hópi þeirra, sem hafa ekki sótt um. Það kom ekki fram hér við 2. umr. málsins, hvernig væri hugsað að leysa þeirra þarfir í þessu efni. Það kom ekki fram, hvort jarðeignadeild ríkisins mundi veita veðleyfi í þessu skyni eða hvernig hægt yrði að leysa þarfir annarra leiguliða, sem eru allverulegur hluti af bændastétt landsins, og þannig kynni þá að ganga úr líka af þeim 30–40%, sem sótt hafa um lán, ef ekki væri hægt að taka tillit til þessara manna. Það virðist því liggja nokkuð ljóst fyrir, að þessi úrlausn mun ekki fullnægja nema litlum hluta — litlum hluta, segi ég — þeirra bænda, sem skulda verulegt fé í lausaskuldum. Að meðaltali eru lausaskuldirnar í árslok 1960 um 44 þús. kr. á hvern bónda í landinu, en það skiptist mjög misjafnt, þannig að sumir eru með mjög háar fjárhæðir í þessu, en aðrir ekkert, þannig að þeir bændur eru áreiðanlega verst settir til búskapar nú, sem skulda mikið fé í lausaskuldum.

Þá er það líka varðandi vaxtaatriðið. Búnaðarþing lagði áherzlu á það, að vaxtaákvæðið yrði fært til samræmis við það, sem gildir um lausaskuldalán sjávarútvegsins, og það kom alveg sérstaklega fram í umr. á búnaðarþinginu um þetta, að bændur telja það sérstaklega óhagstætt, ef vextir af þessum skuldabréfum yrðu bundnir 8% til allt að 20 ára, og margir, sem ræddu þessi mál, lögðu á það höfuðáherzlu, að það yrði í öllu falli haft laust í skuldabréfunum, þannig að hægt yrði að lækka þessa vexti, ef aðrar vaxtabreytingar yrðu í landinu á þessu tímabili. Það hefur komið fram í umr. um efnahagsmál á undanförnum árum, að ef til þess kæmi, að hin svokallaða viðreisn, sem núv. stjórnarflokkar hafa komið á og virðast trúa á að heppnist, heppnaðist, þá væri gert ráð fyrir því, að almennir vextir kynnu að lækka, og það er því eðlilegt, að bændur geri kröfu til þess, að þessir vextir á lausaskuldalánunum lækkuðu þá í hlutfalli við aðrar vaxtabreytingar í landinu, ef svo kynni að fara, að hin svokallaða viðreisn heppnaðist og slíkar vaxtabreytingar yrðu. Þess vegna held ég, að sé ástæða til — og ég vildi beina þeim tilmælum til hv. fjhn. — að taka til athugunar enn á ný, hvort ekki væri hægt að breyta þessum tveim atriðum til hags fyrir bændastéttina, og ég vonast til þess, að hæstv. forseti gefi þann frest til afgreiðslu málsins, að n. fái tækifæri til þess að athuga það mál enn á ný.