09.02.1962
Efri deild: 44. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

132. mál, almenn hegningarlög

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Samkv. l. nr. 82 frá 21. ágúst 1961, um meðferð opinberra mála, hefur ákæruvaldið verið tekið úr höndum dómsmrh. og fengið sérstökum embættismanni, saksóknara ríkisins. Samkv. almennum hegningarlögum hefur dómsmrh. ákvörðunarvald um ákærufrestun og ýmis atriði, er snerta skilorðsdóma. Efni þessa frv. er að flytja þetta vald einnig til saksóknara ríkisins, enda talið eðlilegt, að þetta vald sé í hans höndum ásamt flestum öðrum þáttum ákæruvaldsins.

Þá er einnig í þessu frv. lagt til, að felld verði niður 2. mgr. 61. gr. hegningarlaganna, en ákvæði það, sem sú mgr. hefur að geyma, hefur ekki gildi lengur samkv. lögum frá síðasta Alþingi um réttindasviptingar í sambandi við refsidóma.

Eins og fram kemur í nál. á þskj. 272, leggur allshn. til, að frv. verði samþ. óbreytt, en einn nm., hv. 9. þm. Reykv., var ekki viðstaddur, þegar nefndin afgreiddi málið.