19.03.1962
Neðri deild: 69. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

146. mál, almannatryggingar

Hannibal Valdimarsson:

Hæstv. forseti. Þegar nefndin hinn 23. febr. gaf út nál., ritaði ég og þáv. formaður n., hv. 1. þm. Vestf., undir það með fyrirvara, og vil ég nú með nokkrum orðum gera grein fyrir þeim fyrirvara, því að hann er ekki afturkallaður með framhaldsnefndaráliti því, sem síðar hefur verið gefið út.

Þegar almannatryggingalögin hlutu gagngerða endurskoðun seinast, var tekið upp það nýmæli, að læknum skyldu greiddar 5 kr. fyrir viðtal og 10 kr. fyrir vitjun, og olli þessi breyting allmiklum átökum hér á Alþingi. Voru margir, sem létu það í ljós, að þeim væri næsta óljúft að taka upp sérgreiðslur í sambandi við viðtöl og vitjanir lækna, því að sá væri megingrundvöllur trygginganna, að peningagreiðslur þyrftu ekki að koma til, þegar menn nytu fullrar tryggingar hjá almannatryggingunum. Það hafði og verið ein af röksemdum fyrir ávinningi við tryggingarnar, að hinir peningalausu, hinir fátækustu þyrftu ekki að spyrja um það, hvort þeir hefðu aura í buddunni eða ekki. Undireins og þeir eða einhverjir af þeirra nánustu væru veikir, væri hægt að ganga til læknis og fá læknisaðstoð strax á byrjunarstigi sjúkdóms, en það hefði úrslitaþýðingu um alla heilsugæzlu, að allir gætu vitjað læknis á byrjunarstigi sjúkdóms, þyrftu ekki að draga það af efnahagsástæðum.

Með tilliti til þessara raka og annarra svipaðra voru menn andvígir því að taka upp þessar greiðslur árið 1956, þegar almannatryggingalögin voru endurskoðuð. Meðal þeirra, sem á móti þessu voru, var ég, og ég hygg, að hv. 1. þm. Vestf., Gísli Jónsson, hafi einnig verið alleindregið á móti þeirri breytingu. Það kom og í ljós nú, þegar við ræddum þennan samning, sem ríkisstj. hafði gert við læknana, að þetta vakti andstöðu, því að nú átti að útfæra þetta á þann veg að tvöfalda viðtalsgjaldið og í staðinn fyrir 10 kr. gjald fyrir sjúkravitjun kæmi 25 kr. gjald hverju sinni. Vorum við hv. formaður nefndarinnar andvígir þessu.

En það var upplýst, að hæstv. ríkisstj. væri búin að leysa læknadeiluna, sem hér hefur staðið lengi yfir, svo sem kunnugt er, með því að semja við þá á þennan hátt, og væri þetta þannig orðið bundið. Til Alþingis væri leitað með það fyrir augum að fá þennan samning ríkisstj. lögfestan. Nú verður því ekki á móti mælt, að slíkt er mjög óviðkunnanlegt í fyllsta máta, að Alþingi eigi að lögfesta samninga, sem ríkisstj, gerir úti í bæ, og er nokkurt óbragð að því og líka lítt boðlegt Alþingi að mínum smekk. Um það lét formaður n. einnig í ljós, að hann væri á móti slíkum vinnubrögðum, en hann situr ekki á þingi nú og getur því ekki gert grein fyrir skoðunum sínum snertandi þetta mál. En ég lét einnig í ljós þá skoðun í nefndinni, að ég hefði kunnað betur við það, að sú lausn, sem þarna varð með samningum á læknamálinu, hefði verið gerð á þann hátt, að byrðin af þeim dreifðist á þá aðila, sem bera uppi almannatryggingarnar, þ.e.a.s. hið opinbera og atvinnurekendur, sem sagt þá aðila, sem bera uppi útgjöldin af almannatryggingunum, og þessi aukagreiðsla til læknanna hefði dreifzt á þá aðila. En með þessu fyrirkomulagi kemur sá tekjuauki, sem læknunum er tryggður með samkomulaginu, eingöngu niður á þeim sjúku, og það er ekki geðfellt. Talið er, að heimili, sem t.d. þyrfti mjög á lækni að halda, — við skulum segja, að það væru börn á heimilinu, stór barnahópur, eða gamalmenni eða heilsutæpt fólk, þannig að oft þyrfti að vitja læknis, þá er ekki nokkur vafi á því, að þessi hækkun gjaldanna getur í mörgum tilfellum orðið þyngri byrði á hinum sjúku en sjúkrasamlagsgjöldin eru, og getur þannig falizt í þessu frv., að það sé verið í vissum tilfellum að tvöfalda gjöldin eða jafnvel leggja þyngri byrði á þá sjúku. En þetta er gert til þess að bæta tekjur læknanna. Og það er ekki nokkur vafi á því, að þeir virðast meta þetta sem tekjur til sín, sem allmikla úrlausn á þeirra deilumáli við tryggingarnar og ríkisvaldið, og má því reikna með að í fjölmennustu læknishéruðunum og í Reykjavík sérstaklega gefi þetta læknunum allverulegan tekjuauka, en það þýðir þá að sama skapi byrði á þá, sem læknis þurfa að vitja, sem sé hina sjúku.

Þetta var það, sem ég vildi láta í ljós með þeim fyrirvara, sem ég hafði á um fylgi mitt við þetta frv. Mér finnst ógeðfellt að staðfesta samninga á Alþingi, sem gerðir hafa verið af stjórnarvöldum, áður en Alþingi kom saman. Hefði verið eðlilegast, að hæstv. ríkisstj. hefði tekið á sig ábyrgð af þeim samningum með útgáfu brbl., en óviðfelldið, að Alþingi fái slíkt valdboð um, að það skuli eiginlega staðfesta samninga, sem gerðir hafa verið. Í annan stað þetta, að með þessu formi fellur sú byrði, sem þarna er stofnað til, á hina sjúku, og hefði mér verið geðfelldara, að það hefði verið í því formi, að byrðin hefði dreifzt á þá aðila, sem bera uppi útgjöld trygginganna. Og ég vil a.m.k. áskilja mér rétt til þess, ef síðar yrði haldið áfram lengra á þeirri braut að hækka þessi gjöld, að þá hafi ég nú þegar lýst því yfir, að ég er andvígur því, að lengra sé haldið á þessari braut, og harma það, að Alþingi skuli hafa verið bundið af samningum um þessa deilu.