26.03.1962
Efri deild: 70. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

146. mál, almannatryggingar

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég vil ekki verða á neinn hátt til þess að tefja framgang þessa máls hér í hv. d. Eins og hæstv. félmrh. tók fram, þarf að hraða afgreiðslu málsins, með því að mjög er áliðið mánaðarins. En mig langaði til, úr því að hæstv. félmrh. er nú staddur hér í d., að beina því til hans, hvort ekki kæmi til mála að hafa ákvæði í l. um þetta efni án þess að tiltaka upphæð, þannig að það yrði sett á vald ráðh. að fengnum till. tryggingaráðs t.d. Ég vil í því sambandi benda á, að eins og öllum er kunnugt, gekk illa um samninga milli Sjúkrasamlags Reykjavíkur og Læknafélags Reykjavíkur um síðustu áramót. En þótt allt hefði verið í bezta lagi hjá báðum aðilum um samkomulag, hefði ekki verið hægt að semja í lok desembermánaðar, vegna þess að þessar tölur, 5 og 10 kr., voru lögbundnar. Ég vil enn fremur benda á, að nú standa fyrir dyrum tilraunir til að semja fyrir 1. apríl milli Læknafélagsins og Sjúkrasamlagsins. Við vitum ekki enn, hvernig það tekst til, og við vitum ekki, hvaða erfiðleikar eða agnúar kunna að koma þar upp, en hugsanlegur er sá agnúi, að betra væri að hafa ekki tiltekinn krónufjölda. Það er hugsanlegt, að samningar færðust þannig til, að það yrði auðveldara um samkomulag að geta hnikað hér aðeins til aftur. Ég nefni þetta, hef ekkert fyrir mér í þessu og veit ekki til, að það verði svo, en þetta er hugsanlegur möguleiki í hvert skipti sem samið er. Ég teldi mjög tryggilega og vel frá því gengið, þó að krónufjöldinn yrði ekki lögbundinn, með því að það yrði lagt á vald ráðh. og tryggingaráðs. Mig langaði aðeins til þess að orða þetta hér við þessa 1. umr. í viðurvist hæstv. félmrh., meðfram af því, að þær óskir eru meðal margra lækna, að upphæðin verði ekki lögbundin.