26.02.1962
Efri deild: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að fara að taka til máls við þessa umr., en ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, voru nokkur atriði, sem fram komu í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., sem sum þeirra að vísu snertu ekki þetta mál nema að takmörkuðu leyti, en voru þó þess eðlis, að það var sýnilega komin nokkur kosningastemmning yfir hv. þm., þannig að það leit fremur út fyrir að hann væri að tala á framboðsfundi heldur en hér í Alþingi. Ég skal hins vegar ekki fara út í að ræða ræðu hans í einstökum atriðum mikið, það yrði langt mál, — væri raunar fróðlegt að gera það, því að miðað við hófsemd þessa hv. þm. í málflutningi almennt voru fullyrðingar hans nánast óvenjulegar úr þeirri átt og það hvernig hann tengdi saman ýmis atvik og vildi leiða af því ákveðnar afleiðingar í sambandi við húsnæðismál.

Hv. framsóknarmenn eiga töluvert meira af úrræðum nú upp á síðkastið en þeir áttu í tíð vinstri stjórnarinnar, a.m.k. miðað við það, hvernig endalok hennar urðu, og þá yfirlýsingu hæstv. forsrh., Hermanns Jónassonar, að ríkisstj. yrði að gefast upp við vandamálin, vegna þess að hún hefði engin sameiginleg úrræði til þess að leggja fram. Það er auðvitað ágætt, að þessir hv. framsóknarmenn séu úrræðabetri en þeir voru þá. En manni liggur við að halda, a.m.k. þegar úrræði þeirra eru skoðuð í ljósi raunveruleikans og allra aðstæðna, að úrræðin hefðu verið nokkuð á annan veg, ef þeir hefðu sjálfir átt að bera ábyrgð á því, sem verið er að gera. Þetta er kannske mannlegt og hefur vafalaust hent marga fyrr og síðar, en er þó ekki sérlega heppilegt til lausnar á vandamálum.

Það getur auðvitað ekki verið neinn ágreiningur um það, hvar sem menn eru í flokki, að það er eitt af grundvallarlífsnauðsynjum, að fólk geti átt þak yfir höfuðið, og það er eins og hæstv. félmrh. sagði í ræðu sinni áðan, það er ótrúlegt og raunar útilokað, að í nokkrum stjórnmálaflokki séu til menn, sem vilja ekki gjarnan leggja fram krafta sína í þá átt, að sá árangur náist. Hitt er svo aftur annað mál, hvernig það verður bezt gert og hvað langt er hægt að ganga, miðað við aðstæður og getu þjóðfélagsins hverju sinni. Það er dálítið einkennilegt að heyra það, a.m.k. af munni manna, sem telja, að allt hafi illa gengið hjá hæstv. núv. ríkisstj., þegar þeir hvað eftir annað halda því fram nú á Alþingi, að ekki sé lengur um nein fjárhagsvandræði að ræða í landinu og það sé til í rauninni nægilegt fé til allra hluta. Ég minnist þess, að fyrir nokkru hlýddi ég á ræðu hv. núv. formanns Framsfl. í hv. Nd., þar sem hann hélt því mjög fram í sambandi við lánamál til bygginga í landbúnaði og annarra framkvæmda, að nú væri ekki einu sinni lengur nauðsynlegt að taka erlend lán, eins og hefði verið í hans stjórnartíð, heldur væru nógir peningar til að leysa vandann eftir öðrum leiðum. Og hér heyrum við í dag, að það sé ekki mikill vandi að hækka hámark húsnæðislána um helming, vegna þess að það séu nógir peningar til, það á að sækja þá niður í Seðlabanka, og þá sé hægt að leysa allan vandann, því að fyrir tilstilli ríkisstj. hafi verið sparað saman svo mikið fé, að þessi vandi sé auðleystur. Nú er málið ekki eins einfalt og þessir hv. þm. vilja vera láta. Hins vegar hljómar það nokkuð einkennilega að heyra þessu haldið fram, samtímis því, sem við heyrum, að staðhæft er, að allt hafi gengið á afturfótunum og öllu sé verið að koma í kalda kol.

Eitt atriði var það, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. vildi gera nokkuð mikið úr og taldi, að ekki hefði verið ástæða til að gera breytingar á í sambandi við þessa löggjöf, en það var um stjórn húsnæðismála eða skipan húsnæðismálastjórnar. Skipan húsnæðismálastjórnar hefur ekki verið breytt síðan 1957. En aftur á móti gerðist sá einkennilegi atburður á fyrstu dögum vinstri stjórnarinnar, að þá þótti það brýnast allra mála í sambandi við húsnæðismálin að breyta skipan húsnæðismálastjórnar. Það lá svo mikið við, að það voru gefin út brbl. af hæstv. þáv. félmrh., Hannibal Valdimarssyni, sem fjölluðu um það eitt að bæta við 2 mönnum í húsnæðismálastjórn. Það var ekki nokkur þörf talin á því að hækka lán til húsnæðismála eða bæta á neinn hátt hag fólksins að því leyti og látið sitja við það, sem gert hafði verið í tíð fyrrv. stjórnar og sá hæstv. ráðherra taldi að vísu ekki hafa afrekað mikið í þessum efnum. Nei, þetta var það eina, sem þá var gert, og til þess bar svo brýna nauðsyn, að það varð að setja brbl. til að koma þessari skipan á. Hér er hins vegar á allt annan veg að farið. Það er látið bíða, þar til gerðar eru veigamiklar breytingar aðrar á húsnæðismálalöggjöfinni, að breyta yfirstjórn húsnæðismálanna, sem óneitanlega er mjög fráleit samsetning á, eins og er í dag, og það er ekki nema einn þáttur í þessu máli og aðrir þættir þess að sjálfsögðu miklum mun þýðingarmeiri og skipta miklu máli fyrir þá, sem eiga að njóta þeirrar fyrirgreiðslu, sem hér er um að ræða.

Það hefur verið vikið að því einnig og var gert af þessum sama hv. ræðumanni, að það hefði dregizt óhóflega að hækka lánshámarkið og allt of skammt væri farið í því efni. Vitanlega væri æskilegt að hækka lánshámarkið meira, það getum við vafalaust öll verið sammála um. En mér skilst þó, að lánshámarkið, eins og það er ákveðið hér, sé miðað við þá hækkun, sem orðið hefur á byggingarvísitölu, þannig að það sé ekki alveg út í hött. Og það má minna á, að þegar sú húsnæðismálalöggjöf var lögð fram á sínum tíma af vinstri stjórninni, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur talið harla góða, þá var ekki breytt í einu né neinu lánshámarki því, sem gilt hafði í lögunum frá 1955, heldur var það haft óbreytt. Og mér er ekki kunnugt um, eftir að bjargráðin voru lögfest á sínum tíma af vinstri stjórninni, að það hafi heldur verið gerðar neinar ráðstafanir til að hækka þetta lánshámark, enda þótt vitað væri, að af þeim orsökum hafi byggingarkostnaður mjög hækkað, þannig að við getum sleppt í sambandi við þetta mál að vera með neitt aðkast út af því, að ekki hafi verið nógu vasklega að þessum málum unnið nú og nægilega hátt farið með þetta mark, því að vissulega er það rétt, sem hæstv. félmrh. sagði, að það skipti meginmáli, að markið sé ekki haft hærra en það, að raunverulega sé að verulegu leyti hægt að uppfylla það, til þess að gefa ekki fólki vonir, sem það getur ekki treyst á nema að litlu leyti. Ég held því, að hér sé mjög hyggilega að farið, að ákveða markið eins og það er hér, og ég hygg jafnframt, að það væri ekki sagt með réttu, að með þessu marki hafi ekki núv. hæstv. ríkisstj. reynt að ganga mjög verulega til móts við fólk, miðað við þær verðhækkanir, sem orðið hafa á síðustu árum, og hefur þó að sjálfsögðu orðið eigi aðeins að mæta þar hinum beinu gengislækkunum, heldur eigi síður því yfirfærslugjaldi, sem á var lagt á sínum tíma, en hv. stjórnarandstæðingar kæra sig ekki svo mjög að halda á lofti að hafi haft nokkur áhrif, sem það þó vissulega hafði mjög verulega.

Varðandi þá staðhæfingu, að nú hafi þróunin farið í þá átt, að helzt muni stefna til þess, að einstaklingar geti ekki byggt yfir sig og að einstakir athafnamenn, eins og það var orðað, muni taka þessi mál í sínar hendur og fara að leigja út húsnæði, þá hygg ég, að reynslan hafi orðið sú, eftir því sem ég bezt veit, að aldrei hafi menn síður lagt út í það en í dag að byggja stórhýsi til þess að leigja út íbúðir. Vissulega er kostnaðarsamt að byggja, mjög kostnaðarsamt, og ég vil segja: allt of kostnaðarsamt, og það er eitt af þýðingarmestu málum okkar í dag að reyna að kanna allar hugsanlegar leiðir til þess, ekki fyrst og fremst að útvega fé til að standa undir hinum háa byggingarkostnaði, heldur hvernig eigi með hagkvæmari úrræðum að reyna að lækka þennan kostnað, því að byggingarkostnaður er svo mikill í dag, að ég held, að sannast sagna sé vonlaust með öllu að byggja hús með það í huga að hafa af því stórtekjur að leigja það út. Það held ég að sé gersamlega útilokað í dag, svo að það sé síður en svo hvatning til manna um að leggja út í þær framkvæmdir.

Ég skal ekki, herra forseti, orðlengja meira um þetta mál. Við erum áreiðanlega öll sammála um það efnislega að reyna sem bezt að greiða fyrir því, að fólk geti eignazt eigið húsnæði. En það auðveldar á engan hátt þann vanda að vera að reyna að blása upp moldviðri og tengja saman á rangan hátt ýmiss konar atvik til þess að reyna að gera tortryggilegan einn eða annan í því sambandi, heldur er spurningin sú, hvernig raunhæft verður að því marki unnið eftir þeim tveim leiðum, sem ég hef hér nefnt, annars vegar, og vil ég nefna það fyrst, að reyna að finna úrræði til að lækka hinn háa byggingarkostnað og svo hins, vegar að reyna, svo sem hér er gert, að ganga til móts við fólk með lánsfé, þó að vitanlega væri æskilegt, að það væri miklum mun meira. En það eins og annað verður að vera gert með náinni hliðsjón af þeirri getu, sem fyrir hendi er. Við getum endalaust deilt um gengisbreytingarnar og orsakir þeirra, en ég hef nú sannast sagna haldið, að það mundi a.m.k. ekki verða þessi hv. ræðumaður, sem reyndi að halda því fram, að það hafi aðeins verið að kenna skammsýni núv. hæstv. ríkisstj., að gengislækkanirnar urðu til, og þess vegna beri að færa það á hennar reikning, að byggingarkostnaður í landinu hafi hækkað. Það getur vel verið, að einhverjir angurgapar geti haldið fram svo fáránlegum málflutningi, en ég vil ekki trúa því, að þessi hv. þm. taki undir það af neinni alvöru, því að það vitum við auðvitað öll, að hér var um að ræða það eitt að horfast í augu við afleiðingar þróunar, sem var búin að vera um langan tíma, og eina vonin til að byggja upp aftur okkar efnahagskerfi var að þora að horfast í augu við þessa staðreynd og reyna að koma fjárhagsmálunum á eðlilegan grundvöll, játa þær staðreyndir, sem þegar voru orðnar, og reyna síðan að byggja upp á þeim grundvelli. Og ég vil halda því fram, að það, sem síðan hefur gerzt, og það, sem nú er verið að gera til þess að bæta á ýmsan hátt fyrir fólki, það er ekki vegna þess, að ríkisstj. sé að hverfa frá sinni stefnu, heldur er það vegna þess, að stefnan hefur náð þeim árangri, að það er hægt að gera ýmsa þá hluti, sem nú er verið að gera.