22.03.1962
Efri deild: 68. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Frsm. meiri hl. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt. á lögum 42/1957, um húsnæðismálastofnun, byggingarsjóð ríkisins o.fl., er samið af nefnd þeirri, sem staðið hefur undanfarið að endurskoðun laga um húsnæðismál. Nefndin var skipuð í sept. 1960. Breytingar þessar eru: 1) Að Alþingi kjósi fimm menn í stað fjögurra samkv. núgildandi lögum í stjórn sjóðsins. 2) Að kjörtímabili stjórnar er breytt úr þremur árum í fjögur. 3) Heimild Landsbanka Íslands til að gefa út bankavaxtabréf er hækkuð úr 100 í 150 millj. kr. á ári í næstu 10 ár. 4) Hámark lána verði 150 þús. kr. í stað 100 þús. kr. nú á hverja íbúð. 5) Ákvæði um, að ríkissjóður leggi fram jafna upphæð og sveitarfélög til útrýmingar heilsuspillandi íbúða, en í núgildandi lögum er framlag ríkissjóðs allt að 4 millj. kr.

Nefndin ræddi frv. og sendi það til umsagnar húsnæðismálastjórnar. Meiri hl. húsnæðismálastjórnar, þ.e. þrír af fimm, mælir með samþykkt frv. eins og það er, tveir senda sérálit, sem birt er sem fskj. með nál. hv. 9. þm. Reykv. Meiri hluti heilbr.- og félmn. mælir með, að frv. verði samþ. óbreytt. Hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) var fjarstaddur umr. um málið vegna veikinda, en hv. 9. þm. Reykv. gefur út sérstakt nál.

Það kemur í ljós, þegar maður athugar þetta sérálit, sem kemur frá minni hluta húsnæðismálastjórnar, að það virðist vera samstaða um meginatriði frv., þau atriði að hækka hámark lánanna, sömuleiðis að veita Landsbankanum heimild til að auka sölu bankavaxtabréfa og hafa þannig opna möguleika til þess að veita meira fé til húsbygginga en gert hefur verið til þessa, enda er ótrúlegt, að nokkur geti haft á móti því, að það sé gert, ef fært reynist. Mér er kunnugt um það, að ríkisstj. hefur haft í athugun að tryggja næstu eitt eða jafnvel næstu tvö ár aukið framlag í þessu skyni. Þeim athugunum er enn ekki svo langt komið, að hægt sé að skýra frá, hve mikinn árangur þær bera, en hæstv. félmrh. skýrði mér frá því, að það væru í gangi og hafnar umr., sem væntanlega leiddu til þess, að verulegt aukið framlag færi í þennan sjóð. En m.a. vegna veikinda hans er það ekki komið enn þá svo langt, að hægt sé að gefa upplýsingar um, hvað mikinn árangur það ber.

Þær till., sem koma hér fram við þetta mál frá hv. 4. þm. Vestf. og hv. 9. þm. Reykv., hafa ekki verið athugaðar í nefndinni, þær voru ekki komnar fram þá.

Það er rétt, sem hv. 9. þm. Reykv. segir í sínu áliti, að meiri hl. n. taldi ekki ástæðu til að kveðja formann nefndarinnar, sem samdi frv., á sinn fund. Þetta er ekki svo flókið mál, að nefndin taldi sig geta metið það eins og það lá fyrir og með þeim upplýsingum, sem komu frá húsnæðismálastjórn, en við töldum víst, að ef þm. óskaði eftir frekari upplýsingum, mundi hann geta fengið þær hjá formanni nefndarinnar, sem á sæti í þessari hv. d., hv. 10. þm. Reykv. Meira að segja bauðst form. heilbr.- og félmn, til þess að aðstoða hann við að ná tali af formanninum, ef það gengi illa með öðrum hætti.

Það er eins með þessar till. hv. 9, þm. Reykv., að nefndin hefur ekki athugað þær. Hann hreyfði þeim ekki í nefndinni, og það hefur þess vegna ekki gefizt tóm til að athuga þær. Það var að vísu rætt um vextina, sem hann kemur með till. um hér, en meiri hl. n. taldi, að það væri hentugra að hafa það eins og er í frv. heldur en ákveða þá í lögunum. Í skyldu máli, sem væntanlega kemur fyrir þessa deild á næstunni, voru vextir ákveðnir í lögum, og það getur verið mjög óþjált í framkvæmd, ef vaxtabreytingar verða, að þurfa að fá lagabreytingu frá Alþ., til þess að hægt sé að taka lán, sem kunna að vera fáanleg til þessara mála og á meira að segja að vera skynsamlegt að taka, þó að vextirnir séu aðrir en hafa verið ákveðnir á sínum tíma í lögunum.

Um það atriði, að ríkissjóður leggi fram jafnmikið og sveitarfélögin til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, virðast mér allir, sem ég veit til að þetta hafi rætt, vera sammála um, að það sé til bóta, sú breyting, sem á því er gerð, frá því, sem verið hefur. Það hefur að vísu ekki nú síðustu árin komið til, að það hafi verið veitt af sveitarfélögum hærri upphæð til þessa en veitt hefur verið á fjárlögum. En áður var það þó svo, að það kom fyrir, að framlag sveitarfélaganna var hærra en framlag ríkissjóðs, og tefði það fyrir, að heilsuspillandi íbúðum yrði útrýmt, af því að sveitarfélögin töldu sér ekki fært að leggja fram, a.m.k. ekki ár eftir ár, miklu hærri upphæð en von var á að fá frá ríkissjóði á móti.

Ég held ég sjái ekki ástæðu til að hafa lengra mál um þetta að þessu sinni, en eins og ég sagði áðan, leggur meiri hl. n. til, að frv. verði samþ. óbreytt.