22.03.1962
Efri deild: 68. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, 9. þm. Reykv., kvartaði sáran undan því, að meiri hl. heilbr.- og félmn. og að því er mér skildist sérstaklega form. nefndarinnar hefði sýnt honum sem minni hl. í nefndinni sérstaka óvirðingu með því að fá ekki að ræða við formann undirbúningsnefndar þessa frv. við þær umr., sem fram fóru í nefndinni. Til að ganga nokkuð til móts við þessar óskir hans ætla ég mér hér á eftir að segja nokkuð almennt frá störfum húsnæðismálastofnunarinnar. En áður en ég vík að því í einstökum atriðum, vildi ég leyfa mér að svara nokkru af þeim fullyrðingum, er hann viðhafði í þessari sinni síðustu ræðu.

Það hefur glögglega komið fram og kom mjög ljóslega fram við 1. umr. málsins, að þær tilvitnanir, sem hann vitnaði til um tölu fullgerðra íbúða á árunum 1957–58 og svo aftur á tveggja ára tímabilinu 1960–61, eru vægast sagt mjög villandi. Vegna lánsfjárskorts, ekki bara síðustu tveggja ára, heldur allt frá því að húsnæðismálastofnunin tók til starfa, hefur verið eitt af höfuðvandamálum þessarar stofnunar að útvega nægilegt lánsfé. Af þeim sökum, ásamt ýmsum blekkingum, sem viðhafðar hafa verið einmitt í kringum lagasetningar hér á Alþingi, hefur byggingartími íbúða orðið hér óhæfilega langur, eða allt að 3–4 ár að meðaltali. Þegar talað er um tölu fullgerðra íbúða á árunum 1957 og 1958, má því ætla, að það séu ekki íbúðirnar, sem byrjað var á á þessum árum, heldur á næstu 2–3 árum þar á undan. Mætti því langtum frekar ætla, að síðari talan, á árunum 1960–61, væri arfur hinnar svonefndu vinstri stjórnar og það væri sú tala, sem sú ríkisstj. gæti eignað sér í þessum málum, þegar höfð er hliðsjón af því, hve byggingartími er hér óhæfilega langur.

Áður hefur einnig verið minnzt á það hér í þessum umr., að á tveggja ára tímabilinu, þ.e.a.s. árunum 1957 og 1958, hækkar byggingarkostnaður um 21 stig, en á þremur árum næstu, þ.e.a.s. 1959, 1960 og 1961, hækkar hann um 32 stig samanlagt. Árleg hækkun er því meiri á byggingarkostnaði á þessum tveimur árum, sem ég fyrr nefndi, heldur en hinum síðari. Þetta er samkv. opinberum skýrslum.

Varðandi þær ádeilur hv. ræðumanns á húsnæðismálastofnunina, að ekki hafi verið nægilega unnið að framkvæmd þeirra lagaákvæða um stofnunina að lækka byggingarkostnað, vil ég, vegna þess að framkvæmdastjóri stofnunarinnar á hér ekki sæti og hefur ekki aðstöðu til þess að verja sitt mál, aðeins taka það fram, að tillögur frá honum sem forstöðumanni sér í lagi þessarar deildar stofnunarinnar hafa engar verið felldar, heldur langtum fremur allar samþykktar til þessa tíma, sem ég mun nánar víkja að hér á eftir. Það er þess vegna rangt, að ekki hafi verið að þessum málum unnið. Hins vegar hefur þessi s.l. tvö ár, sem frsm. minni hl. lagði sérstaka áherzlu á að útlista, verið við sömu erfiðleika að etja og öll ár stofnunarinnar, að ekki hefur verið hægt að fullnægja allri lánaeftirspurninni, svo sem nánar mun greint frá síðar í þessum orðum.

Ég hygg, að með þessu sé svarað því, sem svara er vert úr ræðu hans, og mun ég nú víkja að öðru því, sem ég vildi sagt hafa.

Við 1. umr. þessa máls vék ég örfáum orðum að lagasetningu um húsnæðismál almennt og því, hvað ég teldi, að áfátt hefði verið í þeim efnum. Til viðbótar þeim orðum mínum ásamt einstökum atriðum öðrum vildi ég nú segja nokkru frekar um þessi mál, auk þess sem ég tel það einnig sérstaka skyldu mína við þetta tækifæri að segja hv. þdm. frá störfum húsnæðismálastofnunarinnar, því þó að sú stofnun hafi með vissu millibili verið til umr. í blöðum og á málfundum, helzt fyrir kosningar, þá verður það að segjast eins og er, að þær umr. hafa reynzt húsbyggjendum heldur haldlitlar. Þegar frá eru dregnar aðfinnslur og dylgjur í garð stofnunarinnar sjálfrar og þeirra, er þar vinna hverju sinni, hafa þessar umræður fyrst og fremst mótazt af óskhyggju og beinum áróðri og blekkingum, sem eins og fyrr segir hefur lítt dugað húsbyggjendum í þeirra erfiðleikum. Hér á enginn einn sök á þessum óheillavænlegu blekkingum. Þar hafa allt of margir staðið að og eiga of margir sök á. Almenningur hefur litla aðstöðu til að vita í raun og sannleika um, hvaða störf eru unnin hjá stofnuninni né heldur hvaða tekjur stofnunin hefur til umráða. Þrátt fyrir, að liðin eru nálega 7 ár frá setningu laga um hið almenna veðlánakerfi og húsnæðismálastjórn, mun félmrn. ekki hafa verið gefnar sérstakar ársskýrslur fyrr en um s.l. áramót um störf stofnunarinnar. Að beiðni félmrh. hefur hins vegar verið unnið að skýrslum um einstök atriði á ýmsum tímum, þegar eftir því hefur verið óskað. Fundargerðabækur húsnæðismálastjórnar verða því að vera skýrslur fyrri ára um annað starf en sjálfar lánveitingarnar, en þær liggja fyrir í reikningum veðdeildar Landsbanka Íslands, sem hefur séð um afgreiðslu þessara lána. Í því ágripi, sem ég mun reyna að gera hér um störf stofnunarinnar, mun því fyrst og fremst stuðzt við ársskýrslur s.l. árs auk annarra heimilda, sem fyrr er frá greint.

Í 2. gr. gildandi laga er gefin mjög víðtæk heimild til hvers konar tæknistarfa í húsnæðismálunum, til hvers konar nýjunga, sem telja mætti til lækkunar byggingarkostnaðar. Samkv. heimildum þessum var samþ. á s.l. ári fjárhagsleg aðstoð við byggingu 5 íbúðarhúsa í tilraunaskyni. Er nú ýmist verið að undirbúa byggingu þeirra eða unnið að byggingunni, eitt er þegar orðið fokhelt. Þá var og samþykkt aðstoð við framleiðslustandarð eldhúsinnréttinga og ákveðin fjárupphæð til styrktar byggingu efnarannsóknardeildar atvinnudeildar háskólans. Framangreindar ákvarðanir tók húsnæðismálastjórn að fengnu áliti tækninefndar stofnunarinnar, en þá nefnd skipa auk framkvæmdastjóra hennar Hörður Bjarnason húsameistari ríkisins, Zóphónías Pálsson skipulagsstjóri ríkisins, Steingrímur Hermannsson framkvæmdastjóri rannsóknaráðs ríkisins, Skúli H. Norðdahl arkitekt og Ingibjartur Arnórsson húsameistari.

Í upphafi olli það miklum erfiðleikum í öllu lánveitingastarfi, hve víða bárust að lélegar og ófullkomnar teikningar með lánsumsóknum, sérstaklega þó utan af landi. Þetta var ein af höfuðástæðunum til þess, að ákveðið var að setja á stofn teiknistofu til þess að gefa væntanlegum húsbyggjendum kost á viðunanlegum teikningum með hóflegu verði. Stórfelld breyting hefur á orðið í þessum efnum, svo að það telst nú til undantekninga, ef léleg teikning berst. Frá því að teiknistofa stofnunarinnar tók til starfa, hefur hún selt teikningar af 520 íbúðum, þar af 117 íbúðum ásamt sérteikningum á s.l. ári, sem nær eingöngu hafa verið notaðar utan Reykjavíkur. Teikning ásamt öllum sérteikningum kostar nú 2 þús. kr., sem telja verður mjög vægt gjald, en höfðu til skamms tíma kostað aðeins 1500 kr. það sem af er þessu ári og s.l. haust er sýnileg stóraukin eftirspurn eftir hvers konar fyrirgreiðslu teiknistofunnar.

Á árinu 1958 ákvað húsnæðismálastjórn að stofna til eftirlits- og leiðbeiningastarfs, sérstaklega fyrir hina afskekktari staði. Á s.l. ári skoðaði eftirlitsmaður 117 íbúðir og skráði skýrslur um ástand þessara íbúða, sem velflestar voru byggðar samkv. teikningum frá teiknistofunni. Það er von húsnæðismálastjórnar, að starf þetta megi teljast til góðrar þjónustu, sér í lagi fyrir þá húsbyggjendur, sem erfiðasta aðstöðu eiga vegna fjarlægðar.

Þá hefur húsnæðismálastjórn talið sér skylt að vera í sem nánustu samstarfi við sams konar stofnanir á Norðurlöndum, bæði bréflega og með beinni þátttöku í norrænum ráðstefnum um byggingarmál, ásamt því að fá hingað sérfræðinga í þessum málum. Hingað til lands hafa einnig komið fyrir milligöngu Sameinuðu þjóðanna ýmsir sérfræðingar um byggingarmál og kynnt sér allar aðstæður okkar og síðan gert ýmsar tillögur þar að lútandi. Þess má geta, að á komandi sumri er væntanlegur hingað til lands bankastjóri norska Húsbankans til þess að lokinni veru sinni hér að gera tillögur um bætta skipan þessara mála hjá okkur, en hjá Norðmönnum eru þessi mál talin til sérstakrar fyrirmyndar. Á þessu umrædda ári, 1961, voru haldnir 98 bókaðir húsnæðismálastjórnarfundir, sem stóðu frá 1–7 klst. hver. Viðtalsdagar við umsækjendur voru 121. Lánveitingar námu á árinu 62 millj. 329 þús. kr., og afgreidd og fyrir tekin dagskrármál önnur voru 223. Frá veðdeild Landsbankans voru hins vegar afgreidd lán frá stofnuninni á þessu ári fyrir 78 millj. 233 þús. kr. Mismunur þessara niðurstöðutalna liggur í því, að síðasta lánveiting ársins 1960 fór fram á síðustu dögum þess árs, þannig að afgreiðsla meiri hluta þeirra lánveitinga fór fram á fyrstu vikum ársins 1961.

Nú kynni hv. þdm. að leika nokkur forvitni á að vita, hvernig þessara tekna var aflað. Skal nú skýrt frá því, en fram skal þó tekið, að hér er einungis um að ræða hin svonefndu A- og B-lán, sem veitt eru einstaklingum, en ekki þau lán, sem stofnunin veitti bæjar- og sveitarfélögum til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði, en heildarupphæð þeirra hefur verið ákveðin í fjárlögum. Nú er hins vegar gert ráð fyrir því í frv. þessu að leggja á móti bæjar- og sveitarfélögunum ótiltekna upphæð, þ.e.a.s. að mæta sveitarfélögunum í þessum efnum án þess að vera bundinn af fjárupphæðinni í fjárlögum. Fram til þessa hefur sjóður þessi ávallt fullnægt fjárbeiðni bæjar- og sveitarfélaga, og inn á það skal frekar komið síðar.

Tekna ársins 1961 var aflað á eftirfarandi hátt: Með sérstökum samningi við Seðlabankann og stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs fengust 25 millj. kr. Bréfakaup Landsbanka Íslands voru um 4 millj. kr. Tryggingastofnun ríkisins 1.5 millj. kr., Sjóvátryggingafélag Íslands 177 þús., Tryggingafélagið Andvaka 130 þús. og Almennar tryggingar 50 þús. Eigið fé byggingarsjóðs ríkisins var 30 millj. 20 þús. kr. Samtals 60 millj. 877 þús. Tilraun var gerð af hálfu ráðherra með samningaumleitanir við ýmsar fleiri fjármálastofnanir, t.d. banka og sparisjóði, án þess að árangur yrði af á því ári.

Afgreidd lán til umsækjenda frá veðdeild Landsbankans hafa á starfsárum stofnunarinnar annars verið svo sem hér skal nú greint:

Fyrsta afgreiðsla lánveitinga hófst 2. nóv. 1955, en fram til áramóta þess árs voru afgreiddar 27 millj. 434 þús. kr., árið 1956 63 millj. 655 þús., 1957 45 millj. 670 þús., 1958 48 millj. 769 þús., 1959 34 millj. 490 þús., 1960 52 millj. 171 þús. og árið 1961, eins og áður segir, 78 millj. 23 þús. kr. Samtals höfðu því verið veittar 350 millj. 212 þús. kr. frá upphafi veðlánakerfisins til síðustu áramóta.

Þann 15. ágúst 1961 fór fram athugun á því, hve margar íbúðir höfðu þá notið þessara lána, og reyndust það vera 4739 íbúðir, en þá var lánsupphæðin samtals orðin 324 millj. 693 þús. Varlegt virðist því að áætla, að nú í dag hafi yfir 5000 íbúðir fengið lán hjá stofnuninni.

Síðast þegar talning fyrirliggjandi lánsumsókna fór fram hjá stofnuninni, þ.e.a.s. l. jan. s.l., reyndust þær vera 1579, en skiptust þannig: Þær, sem enga fyrirgreiðslu hafa hlotið, 722. Þær, sem einhverja úrlausn höfðu hlotið, 857. Umsóknir þessar hljóðuðu upp á rúmar 98 millj. kr. Í sambandi við umsóknafjölda þennan er rétt að taka það fram, að nokkur hluti þessa fjölda mun nú vera orðinn óraunverulegur, þar sem umsóknirnar hafa ekki verið endurnýjaðar síðan árið 1957, og mun því hluti elztu umsókna ekki lengur teljast meðal raunhæfra umsókna. Þar á móti kemur aftur óvenjulegur fjöldi lánsumsókna, sem borizt hefur það sem af er þessu ári, og stangast það nokkuð á við þær fullyrðingar, sem fram komu við 1. umr. málsins, að íbúðabyggingar í landinu væru að leggjast niður.

Ég hef hér reynt að draga upp nokkra svipmynd úr störfum húsnæðismálastofnunarinnar og ástandi í lánamálum. Þótt ég hafi ekki sérstaklega tekið fyrir s.l. ár, má vel af því ráða, hvernig þessi mál raunverulega standa, því að hinar óreglulegu athuganir, sem á undanförnum árum hafa farið fram, sýna, að á hinum ýmsu tímum hefur ekki verið svo ýkja mikill munur t.d. á fjölda fyrirliggjandi umsókna og þar af leiðandi á lánsfjárþörfinni sjálfri, eða frá 95 millj. til 130 millj. Að sjálfsögðu breytast þessar tölur nú, ef hækkun sú á hámarkslánum, er frv. gerir ráð fyrir, verður samþykkt. Ég hef reynt í þessari frásögn minni að halda mig einungis við staðreyndir í trausti þess, að þær mættu verða til nokkurra upplýsinga við umr. málsins.

Því hefur verið yfirlýst, að frv. þetta væri hugsað sem bráðabirgðabreyting á lögunum um stofnunina og þess vegna aðeins um að ræða breytingu á takmörkuðum hluta laganna. Af þeim umr., sem þegar hafa farið fram, verður ekki heldur ráðið, að sérstök andstaða sé við breytingar þær, er frv. gerir ráð fyrir, heldur virðist mér, að það sé helzt að fundið, eins og hjá hv. síðasta ræðumanni, að frv. skuli ekki vera víðtækara en það í rauninni er. Eftir jafnmargra ára starf hjá slíkri stofnun sem húsnæðismálastofnunin er eru þeir áreiðanlega fáir, sem efast um réttmæti þess, að staldrað sé við og lögin um stofnunina endurskoðuð með hliðsjón af fenginni reynslu. Þess vegna var til þessarar endurskoðunar stofnað af hæstv. núv. ríkisstj., og stendur hún nú yfir. Sá hluti þeirrar endurskoðunar, sem birtist í þessu frv., er nánast leiðréttingar.

Varðandi þá breyt., sem frv. gerir ráð fyrir á stjórn stofnunarinnar, er það að segja, að það verður að teljast rangt, að styrkleikahlutfalla stjórnmálaflokkanna allra á Alþingi gæti ekki í þessari stjórn eins og nánast öllum öðrum stjórnum, sem hv. Alþingi kýs. Persónulega legg ég slík rangindi að líku við þá upphaflegu stjórn, sem á þessum málum var, þegar aðeins tveir fulltrúar þáverandi stjórnarflokka fóru t.d. með allar lánveitingar. Síðan gerði vinstri stjórnin þá yfirsjón um sinn að útiloka þáverandi stjórnarandstöðu frá áhrifum á þessi mál, sem að vísu síðar var leiðrétt. Allar þessar miður góðu tilfærslur og sífelldu breytingar á yfirstjórn jafnviðkvæmra mála og hér um ræðir hafa stórlega torveldað þá festu og tiltrú, sem nauðsynleg er í jafnábyrgðarmiklu og viðkvæmu starfi og hér um ræðir, ekki hvað sízt þegar við höfum verið jafnlangt frá því marki og raun ber vitni um að fullnægja eftirspurn allt frá byrjun þessa starfs til dagsins í dag. Meðan það er skoðun meiri hluta, já, jafnvel einróma skoðun Alþingis, að húsnæðismálastjórn skuli kosin af Alþingi, þá er það eins rétt, að styrkleikahlutföllin þar á hverjum tíma fái notið sín. Það ætti að fyrirbyggja tortryggni og sífelldar breytingar á yfirstjórn þessara mála.

Um 2. og 3. gr. frv. er áreiðanlega ekki ágreiningur, ef marka má tillögur og ræður hv. stjórnarandstæðinga, sem að venju finna það eitt að, að ekki sé nógu hátt farið. Brtt. hv. stjórnarandstæðinga, sem þegar liggja fyrir, bera þess glögglega vitni.

4. gr. frv. er nánast staðfesting á þeirri reglu, sem húsnæðismálastjórn hefur unnið eftir nokkur undanfarin ár. Hefur þetta verið gert til aðstoðar sveitarfélögum og þeim til léttis í lausn þess brýna vandamáls að útrýma heilsuspillandi íbúðum. Þá er, eins og fyrr er frá greint, ekki gert ráð fyrir bundinni upphæð í þessu skyni nú, heldur skal skylt að leggja jafnmikið fram og bæjar- og sveitarfélög kunna sjálf að leggja fram, og er því einnig hér um verulega bót að ræða.

Þessi umbót verður enn þá ljósari, þegar þess er gætt, að á yfirstandandi ári hefðu hinar fjárlagabundnu 4 millj. kr. ekki dugað Reykjavíkurbæ einum til þessara mála, og má þó fyllilega gera ráð fyrir, að önnur bæjarfélög hyggi á framkvæmdir til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði.

Eins og öllum hv. alþm. er sjálfsagt ljóst nú, er samkvæmt núgildandi lögum starf húsnæðismálastofnunarinnar tvíþætt. Annars vegar eru hin svonefndu tæknistörf, teiknistofa, útreikningar og áætlun byggingarkostnaðar og framkvæmd þeirra víðtæku heimilda, er 2. gr. laganna gerir ráð fyrir í nýjungum tæknimála. Hins vegar er svo sjálft lánveitingastarfið. Þó að verulega hafi markað í rétta átt í hinu almenna tæknistarfi stofnunarinnar, þá skal það þó fúslega viðurkennt, að mikið er enn óunnið og betur hefði mátt gera. Vonandi tekst að vinna enn betur að þeim hlutum í næstu framtíð, því að ekki er einhlítt að útvega aukið fjármagn, ef ekki tekst á sama tíma að þrýsta niður hinum gífurlega byggingarkostnaði, þ.e. að gera húsnæðiskostnaðinn lægri, en það er áreiðanlega ein raunhæfasta kjarabót, sem hægt væri við að koma almenningi til handa í dag. Til lausnar þeim vanda dugir lítið óskhyggja eða hvers konar tillöguflutningur byggður á henni, fluttur hér á hv. Alþingi, í bæjarstjórnum eða blaðaskrif, byggð á þeim sama sandi. Þar verður til að koma þrotlaust starf okkar færustu verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta og þá ekki hvað sízt byggingarmannanna sjálfra, sem gerst vita, hvar skórinn kreppir að í þessum málum. Lóðaúthlutanir bæjar- og sveitarfélaga geta hér einnig lagt mikla hönd að. Er t.d. ekki athugandi að úthluta samtökum mynduðum af fyrrgreindum aðilum heilum landssvæðum til byggingar íbúðarhúsa í stað þess að úthluta einni lóðinni þar og annarri hér? Slík samtök ættu að hafa aðstöðu til þess að byggja fjölda íbúða samkvæmt fyrirframgerðu skipulagi og áætlun, sem á að geta staðizt, og þannig lækkað sjálfan byggingarkostnaðinn. Út á slíkar framkvæmdir ættu þessir aðilar að geta notið fjárhagslegrar aðstoðar húsnæðismálastjórnar skv. gildandi lögum. Lítill vafi er á því, að það háir stórlega möguleikum til lækkunar byggingarkostnaðar, hvað framkvæmdaaðilar hér eru margir í byggingariðnaði, og ná mætti meiri árangri til lækkunar með færri en stærri og betur skipulögðum aðilum, sem þá gætu orðið fjárhagslegrar aðstoðar aðnjótandi í verðlaun fyrir góðan árangur. Út á þessa braut hafa nágrannaþjóðir okkar farið með mjög góðum árangri. Þannig mætti minna á mörg atriði fleiri, sem úrlausnar bíða, en gætu orðið mikilvæg í lausn þess vanda að lækka stærsta útgjaldalið almennings, húsnæðiskostnaðinn. Til þessa skortir ekki lagaheimild, hún er til í núgildandi lögum.

Varðandi hinn aðalþáttinn í starfi stofnunarinnar, fjáröflun og lánveitingar, þá hef ég þegar gert nokkra grein fyrir ástandi þeirra mála frá upphafi til þessa dags. Þrátt fyrir verulega aukið fjármagn til ráðstöfunar s.l. ár má öllum vera ljóst, að allmikið vantar á, að þörfinni sé fullnægt. Fastar tekjur stofnunarinnar hafa reynzt að vera frá 29 til 34 millj. kr., og hefur þó úr þeim dregið vegna minnkandi tekna af skyldusparnaði, sem virðist munu ganga í sjálfan sig sem tekjulind á næstu 2–3 árum vegna stóraukinna endurgreiðslna. Frjálsi sparnaðurinn, sem gildandi lög gera ráð fyrir, hefur enginn orðið, enda lítt girnilegur, þar sem fríðindi með innlögum þar eru lítil. Við framhaldsendurskoðun laganna finnst mér persónulega vel koma til álita einhvers konar skattfríðindi fyrir innlög samkvæmt þeirri grein laganna, en það munu t.d. Vestur-Þjóðverjar hafa gert á undanförnum árum með mjög góðum árangri. Slíkar aðgerðir þurfa þó verulegrar aðgæzlu við, þar sem þær eru nátengdar annarri fjáröflun ríkisins. Langstærsti tekjuliðurinn hefur þó verið umsamin framlög ýmissa fjármálastofnana, eins og áður er frá greint um tekjur s.l. árs. Margir þessara aðila viku sér á s.l. ári undan framlagi til þessara hluta með ýmsum mótbárum, sem ekki er þörf á að rekja hér. Persónulega hef ég verið þeirrar skoðunar, að ná mætti þessum framlögum með samningum við hlutaðeigandi aðila. Sýni það sig hins vegar nú, að samningaleiðir í þessum efnum sé ekki fær eða árangur fáist ekki, þrátt fyrir að sömu aðilar fáist ekki heldur til að lána í byggingar íbúðarhúsa og vísi í þeim efnum til húsnæðismálastjórnar, þá er ekki nema um tvær leiðir að ræða: í fyrsta lagi að lögbjóða ákveðin skylduframlög eða í öðru lagi að leggja lánveitingastarf stofnunarinnar niður og fela það öðrum starfandi lánastofnunum, því að óþarft ætti þá að vera að halda uppi sérstakri starfsemi um útdeilingu þessara fastatekna, sem nú eru mögulegar. Þessar stofnanir yrðu þá að taka upp hjá sér sérstök veðdeildarlán, þ.e.a.s. hliðstæða starfsemi og Landsbankinn annaðist á árunum fyrir styrjaldarárin, og sjá um fjárhagslegar þarfir almennings í þessum efnum, þar sem á vantar, hver að sínum hluta. Sjálfur trúi ég því, að samningaumleitanir þær, sem nú standa yfir, beri árangur, og held, að þessum málum sé bezt komið á einum stað, bæði vegna þeirra, er leggja fram fé, og hinna, er lánin eiga að fá. Með sérstöku tilliti til þeirrar hámarkshækkunar lána, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, er nauðsynlegt að hækka fastar tekjur stofnunarinnar, og mun endurskoðunarnefndin væntanlega taka þetta atriði til meðferðar og gera sínar till. þar um umfram það, sem gert kann að vera áður með samningum í þessum efnum.

Ég vil svo að lokum undirstrika það, sem ég drap á í upphafi þessara orða minna og reyndar við fyrri umr. málsins einnig, að hv. alþm. láti umr. um þessi mál byggjast á rökum, en ekki óskhyggju, eins og svo oft hefur áður borið á, þegar þessi mál hafa verið til umr., og of marga hefur blekkt út í fyrir fram vonlaust skuldafen, sem orðið hefur viðkomandi að ævilöngu böli.

Okkur er hollt að minnast þess, að allir núv. þingflokkar hafa átt aðild að ríkisstj. á þeim árum, sem húsnæðismálastofnunin hefur starfað. Öllum þessum stjórnmálaflokkum hefur því gefizt tækifæri til þess að láta ljós sitt skína í þessum málum. Það virðist t.d. vera afar einföld lausn þessa vanda að leggja til, að erlent lán yrði tekið til þess að ná endum saman. Engin ríkisstj. hefur þó lagt þetta til, og gegn slíkum till. hefur ávallt verið beitt sömu rökum: Erlent lán má ekki taka nema til framleiðsluatvinnuveganna eða í þágu þeirra. Lán til fjárfestingar í öðrum greinum verða að vera mynduð af innlendum stofnum, en með þessum rökum hafa erlendar lántökur verið hindraðar af fjórum ríkisstjórnum með sömu rökum. Enn fremur getum við með aukinni sparifjármyndun vænzt þess, að nýir möguleikar opnist í þessum efnum, þó að óneitanlega virðist nú margir telja sig eiga rétt í þann sjóð. Ég leyfi mér hins vegar að efast stórlega um, að allir þeir mörgu aðilar, sem telja sig eiga tilkall í þetta fé, geti byggt kröfur sínar á jafnfrumstæðum réttindum og þeim að geta búið fjölskyldu sinni mannsæmandi húsaskjól.