23.03.1962
Efri deild: 69. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Frsm. minni hl. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Ég harma það, að hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. hefur ekki séð sér fært að mæla með þeim brtt., sem fram hafa komið. Þær till., sem ég flyt á þskj. 387, miða allar að lausn mikilsverðra vandamála í sambandi við íbúðabyggingar í landinu. Sumpart miða þær að því að lækka byggingarkostnað hjá einstaklingunum og sumpart miða þær að því að afla meira fjár til byggingarsjóðs ríkisins. Það eru sérstaklega tvær síðustu till., sem ég flyt á þskj. 387, sem miða að því að auka fjárráð byggingarsjóðsins, og ég tel þær í raun og veru mikilsverðastar, eins og sakir standa. Ef þær yrðu samþ., mundu um leið opnast miklir möguleikar fyrir fátæka menn að byggja sér íbúðarhús, en á því virðist nú vera mikil þörf að örva byggingarstarfsemina í landinu.

Ég gat þess í ræðu við 2. umr., hvernig dregið hefði úr byggingu íbúðarhúsnæðis á síðustu árum, og nefndi þar tölur. Ég benti á, að í Reykjavík einni hefði íbúðabyggingum stórhrakað á síðustu tveim árum, þannig að um 600 íbúðum hefði verið byggt þar minna en á tveim árum vinstri stjórnarinnar, 1957 og 1958. Hv. 10. þm. Reykv. vefengdi ekki þessar tölur, sem ég nefndi, en vildi hins vegar gera lítið úr gildi þeirra og jafnvel telja þessa minnkun byggingarstarfseminnar síðustu árin allt eins geta verið að kenna illum áhrifum frá tíð vinstri stjórnarinnar. Ég vil því bæta aðeins við nú við þessa umr. öðrum tölum, sem hníga í sömu átt og sýna kannske enn ljósara, hvert stefnir í byggingarmálum þjóðarinnar. Árið 1957 og 1958, á tveimur heilum árum vinstri stjórnarinnar, var byrjað á byggingu samtals 1408 íbúða í Reykjavík. En á viðreisnarárunum tveimur, 1960–61, var byrjað á byggingu samtals 888 íbúða í Reykjavík. Mismunurinn er 520 íbúðir. Þessar tölur tala sínu máli. Á stjórnarárum vinstri stjórnarinnar er hafin bygging 520 fleiri íbúða í Reykjavík en á árum viðreisnarstjórnarinnar. Ég veit ekki, hvort hv. 10. þm. Reykv. vill vefengja þessar tölur eða reyna að skýra þær sem ill áhrif frá tíð vinstri stjórnarinnar, en ég er hræddur um, að það reynist honum erfitt til lengdar að stangast við staðreyndirnar, þótt bölvaðar séu.