23.03.1962
Efri deild: 69. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður talaði mjög fjálglega um það, að núv. ríkisstj. torveldaði fólki á allan hátt að koma yfir sig húsnæði. Eitt aðalátrúnaðargoð þessa hv. þm. fór með þessi húsnæðismál á árunum 1957 og 1958. Þá átti ég sæti í þessari hv. d. ásamt honum. Þá var ekki yfir því kvartað, að það dygði ekki húsnæðismálastjórn að hafa fyrra árið 45 millj. kr. til ráðstöfunar og síðara árið, 1958, 48 millj. Þá sat þessi hv. þm. hér og lét ekki á sér kræla, þó að vitað væri þá, að þá var lánaþörfin samkvæmt umsóknum, svo að höfð sé sama viðmiðun og ég hafði hér í ræðu minni í gær, milli 120 og 130 millj. kr. Síðast þegar talning fór fram á þessu, um s.l. áramót, var þörfin, eins og ég skýrði frá hér í gær, um 98 millj. kr. Á síðasta ári, þ.e.a.s. á ári þessarar voðalegu ríkisstj., eru hins vegar afgreiddar til lánaumsækjenda rúml. 78 millj.

Ég ætla, að af þessum fáu orðum sé ljóst, hver heilindin eru í viðkvæmnishjali þm. um, að torveldaðar séu íbúðarhúsabyggingar almennings, þegar borin er saman afstaða hans til þessara mála á fyrrnefndum valdaaðstöðuárum hans sjálfs og hans átrúnaðargoðs og svo staðreyndirnar um það, hvað húsbyggjendur hafa fengið af fé í hendurnar á s.l. árum.