30.03.1962
Neðri deild: 80. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. um breyt. á l. um húsnæðismálastjórn o.fl., sem hér liggur fyrir á þskj. 315. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, sbr. nál. á þskj. 521, en nm. Hannibal Valdimarsson og Jón Skaftason skila sérálitum um málið.

Hæstv. félmrh. gat þess við 1. umr., að frv. væri samið af nefnd, sem enn þá vinnur að endurskoðun laga um húsnæðismál, og að um bráðabirgðabreytingar væri að ræða á lögunum, heildarendurskoðun þeirra mundi verða hraðað eftir föngum.

1. gr. frv. kveður á um breytingu á stjórn húsnæðismálastofnunarinnar. Skal hún nú skipuð fimm mönnum, kjörnum af Alþingi, í stað fjögurra áður. Enn fremur á sæti í stjórninni einn maður frá Landsbanka Íslands, skipaður af ráðh., en hann hefur ekki atkvæðisrétt um lánveitingar. Varamenn eru jafnmargir og valdir á sama hátt. Félmrh. skipar stjórnarformann. Kjörtímabil stjórnarinnar er lengt úr þrem árum í fjögur. Breytingin frá gildandi og eldri lagaákvæðum um stjórn húsnæðismálastofnunarinnar miðar að því að styrkja aðstöðu stjórnarinnar frá því, sem verið hefur, og er fylgt þeirri reglu, sem allir þingflokkarnir eru nú orðnir ásáttir um, um skipun slíkra stjórna og nefnda, að láta styrkleikahlutföllin á milli flokkanna á Alþingi ráða. Liggur það í augum uppi, að í þýðingarmikilli stofnun hefur það mikið að segja, að stjórnin sé þess umkomin að eiga gott samstarf við ráðandi ríkisstj. og þingmeirihluta á hverjum tíma.

2. gr. frv. veitir Landsbankanum heimild til þess að gefa út bankavaxtabréf, er nemi allt að 150 millj. kr. á ári í næstu 10 ár, en í gildandi lögum er heimildin bundin við 100 millj. kr. á ári. Þessi hækkun er nauðsynleg vegna hækkunar á hámarkslánum, sem kveðið er á um í 3. gr. frv. Er lagt til, að í stað 100 þús. kr. komi 150 þús. kr.

Þá er loks í 4. gr. lagt til, að framlag ríkisins til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis verði framvegis með þeim hætti, að leggi sveitarfélag fram fé í þessu skyni, annaðhvort sem óafturkræft framlag eða lán, þá skuli ríkissjóður lána jafnháa upphæð á móti. Verður þá framlag eða lán ríkisins ekki bundið við ákveðna upphæð, eins og verið hefur. Á fjárlögum þessa árs eru 4 millj. kr. í þessu skyni. Einnig er það nýmæli í 4. gr., að heimilt skal að greiða sveitarfélagi helming lánsfjárhæðar, þegar nýbygging er orðin fokheld.

Meiri hl. heilbr.- og félmn. telur þær breytingar, sem í frv. felast, allar vera til mikilla bóta og mælir með því óbreyttu. Með samþykkt þess er að því stefnt að bæta úr mjög brýnni þörf fyrir aukna fyrirgreiðslu við húsbyggjendur. Þess er þó ekki að vænta, að þeirri þörf verði fullnægt nema meira verði að gert, og á því hafa stuðningsflokkar stjórnarinnar fullan hug. En enginn húsbyggjandi er neinu bættari, þó að honum séu gefnar einhverjar gyllivonir, sem ekki er hægt að gera að raunveruleika, og þess vegna þýðir t.d. ekki að hækka lánin út á hverja íbúð meira en svo, að unnt verði að útvega nægilegt fjármagn til þess að standa við hækkunina. Hina brýnu þörf húsbyggjenda þekkja allir, og hv. stjórnarandstæðingar hafa bæði í sambandi við afgreiðslu þessa máls í Ed. og margsinnis áður á s.l. tveim árum flutt ýmsar yfirborðstillögur í húsnæðismálum. Það er grár leikur að slá á slíka strengi, þótt í stjórnmálabaráttu sé, — eða hverjar mundu efndirnar verða hjá hv. framsóknarmönnum og kommúnistum, ef svo ólíklega færi, að þeir kæmust í þá aðstöðu að þurfa að standa við öll þau loforð, sem þeir eru sífellt að gefa húsbyggjendum með tillöguflutningi sínum í sölum Alþingis? Það er hætt við, að þeir mundu reynast harla úrræðalitlir. Mörg undanfarin ár hefur fjöldi íbúða verið allt of lengi í smíðum vegna fjárskorts, og mun það ótalið, hvað það ástand hefur leitt af sér mikla beina hækkun á byggingarkostnaði auk annars kostnaðar, sem lendir á húsbyggjendum, þegar svo stendur á. Þetta er í mörgum tilfellum afleiðing gyllivona, sem hv. stjórnarandstöðuflokkar vilja enn halda áfram að hampa í sambandi við þetta mál. En blákaldur veruleikinn segir til um það, hversu mikla fyrirgreiðslu húsnæðismálastofnunin getur veitt. Þar veltur á öllu, hversu mikið fjármagn er hægt að útvega. Stofnunin hefur haft í fastar tekjur frá 29 millj. kr. til 34 millj. kr. á ári, og nú er svo komið, að skyldusparnaðurinn fer stöðugt minnkandi vegna stóraukinna endurgreiðslna. Mun þessi tekjustofn að sögn kunnugra ganga í sjálfan sig á næstu 2–3 árum. Auk föstu teknanna hefur húsnæðismálastofnunin haft til umráða umsamin fjárframlög ýmissa annarra lánastofnana og sjóða, og s.l. ár hafði hún til ráðstöfunar um 60 millj. 877 þús. kr. Miðað við gildandi reglur um lánveitingar var fjárþörf allt að 1579 umsækjenda talin um 100 millj. kr. í byrjun þessa árs og hækkar að sjálfsögðu, þegar þetta frv. hefur náð fram að ganga. Mælir meiri hl. heilbr.- og félmn. með frv. í trausti þess, að sú fjáröflun, sem jafnframt er unnið að í þessu skyni, megi takast svo vel, að lagabreytingin geti komið húsbyggjendum að fullum notum.