03.11.1961
Neðri deild: 12. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

12. mál, skemmtanaskattsviðauki

Matthías A. Mathiesen:

Hæstv. forseti. Við 1. umr. þessa máls í Ed. bar á góma breytingar á lögum um innheimtu skemmtanaskatts almennt, og minntist hæstv. menntmrh. Þar á breytingu, sem, eins og hann gat um, ekki væri ákveðin enn, en hefði komið til greina, þ.e.a.s. að undanþiggja Leikfélag Reykjavíkur frá greiðslu skemmtanaskatts jafnt við leiksýningar Þjóðleikhússins í Reykjavík. Ég vildi aðeins láta koma fram athugasemdir í sambandi við þetta, að það fordæmi, sem hér mundi verða skapað, gæti e.t.v. leitt til þess, að leikfélög, sem stunduðu leiksýningar hér í næsta nágrenni við Reykjavík, mundu fara fram á slíkt hið sama, og reyndar sá ég það í blaðaviðtali við hæstv. ráðh. í gær, að hann hafði orðið var við ýmsar hreyfingar í þá átt. Ég vildi ekki láta hjá líða við 1. umr. þessa máls að vekja athygli á þessu.