03.04.1962
Neðri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Ingvar Gíslason:

Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja mjög umr. um þetta mál, þó að vissulega gefi það tilefni til allmikilla umr. í sjálfu sér, en það má segja um þetta frv., að megineinkenni þess er, hve skammt það nær. Það hefur verið sagt hér í umr., ég held af hæstv. ráðh., að þetta séu bráðabirgðaúrræði, sem hér er bent á, og hann hefur einnig nefnt, að nefnd starfi að því að finna lausn á þeim vanda, sem veðlánastarfsemin hefur við að glíma og snertir að sjálfsögðu fyrst og fremst húsbyggjendur í landinu. Þessi nefnd hefur nú verið að starfi, skilst mér, um tveggja ára skeið, og ég hygg, að það megi segja, að árangur af starfi hennar sé enn sáralítill, svo að ekki sé meira sagt. Og það væri mjög æskilegt, ef hæstv. félmrh. gæti gefið nánari upplýsingar um starf þessarar nefndar og verksvið hennar, enda man ég ekki til þess, að hann hafi á það minnzt eða farið mjög náið út í það áður við þessar umr. En eftirtekjan af tveggja ára starfi þessarar nefndar er svo lítil, að furðu gegnir að mínum dómi. Í þessu frv. er engin tilraun gerð til þess að bæta úr því, sem er brýnast í starfsemi veðlánakerfisins, sem sé að tryggja fjármagn til starfseminnar. Og þær brtt., sem fram hafa komið við þetta frv., hafa allar verið felldar við 2. umr. Ég sé ekki, að í þessu frv., eins og það liggur nú hér fyrir við 3. umr., felist neitt slíkt ákvæði, að það tryggi það fjármagn, sem til þess þarf, að hægt sé að reka veðlánakerfið. Og eins og frv. er nú úr garði gert, er það aðeins fallið til þess að vekja falskar vonir hjá húsbyggjendum, sem bíða hundruðum saman eftir því að fá úrlausn sinna mála. Ég vil því skora á hæstv. ríkisstj. að hraða þeirri lausn, sem til þess þarf, að svo megi verða, og ef það er þessarar nefndar, sem um hefur verið rætt, að gera tillögur um það efni, þá verði henni gefin fyrirmæli um að hraða störfum sínum og leggja fram álit sitt sem allra fyrst.

Í þessu sambandi, vil ég einnig leyfa mér að gera fsp. til hæstv. ráðh., sem er líka mikilsvert atriði í þessu sambandi, hvenær megi vænta þess, að næst verði úthlutað lánum af hálfu húsnæðismálastjórnarinnar. Ég hygg, að flestir hafi búizt við því, að lánsúthlutunin færi fram í febr. s.l., en nú er komið fram í apríl, og það bólar ekkert á því, að úthlutun fari fram. Ég veit, að hæstv. ríkisstj. gerir sér grein fyrir því, að það er ekki spurt hér að tilefnislausu, og ég álít, að lánsumsækjendur eigi kröfu til þess, að þessum spurningum verði svarað.

Ég vil undirstrika það, sem ég hef áður sagt, að mikilvægustu atriði þessa frv. ná allt of skammt eða þau atriði, sem ættu að vera mikilvægust, ef settur væri botn í þær tillögur, sem felast m.a. í 2. og 3. gr. En þar sem það er ekki tryggt, að veðlánakerfið fái það fjármagn, sem til þess þarf, þá sýnist mér, að frv. sé með öllu tilgangslaust og til einskis að samþykkja það.

En ég vil að lokum bera enn fram aðra fsp., sem ég tel að sé mikilvæg fyrir þetta mál og hefur ekki enn þá komið fram. Sú fsp, er um það, hvort þeir lántakendur, sem þegar hafa fengið hámarkslán, 100 þús. kr., eins og er nú samkv. núgildandi lögum, geti vænzt þess, þegar búið er að hækka þetta lánahámark upp í 150 þús., að fá lán af þeirri upphæð. Ég mundi óska þess, að hæstv. ráðh. vildi svara þessu, því að ég hygg, að það hafi gildi fyrir lögin, þegar á að fara að framkvæma þau.