12.03.1962
Neðri deild: 65. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

128. mál, Kirkjubyggingarsjóður

Einar Olgeirsson:

Hæstv. forseti. Mér skildist á hæstv. dómsmrh., að þetta, sem um ræðir í 2. gr., sé komið frá kirkjuþingi og að það sé síður en svo, að þar sé raunverulega um nokkra stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstj. að ræða. Það sé sem sé vart við því að búast, að sem rökrétt afleiðing af samþykkt þessarar 2. gr. mundi það hljótast á næstunni, að heimiluð yrðu lán úr sjóðum ríkisins og opinberum sjóðum samkv. svipaðri vísitölu og þar á að heimila lán eftir.

Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. hefur athugað þessa 2. gr. fullkomlega, áður en hún setti málið inn í þingið. Það væri ekkert ólíklegt, að ýmsir aðrir borgarar þjóðfélagsins en þeir, sem á kirkjuþingi sitja, t.d. þeir, sem á búnaðarþingi sitja, og ýmsir fleiri, mundu fara að heimta svipuð réttindi og þarna eru veitt. Ég hafði hálfgerða grunsemd um, að eiginlega hefði nú kirkjuþingið snúið á það veraldlega vald, þegar það laumaði þessu frv. svona í gegn. Hæstv. ríkisstj. hefði gengið út frá því, að það væri allt svo saklaust og gott, sem kæmi frá kirkjuþinginu, að það væri óhætt að taka við þessu eins og hverri annarri guðsblessun og láta þetta fara alveg óathugað í deildina. En mér sýnist, að þetta hljóti að draga nokkurn dilk á eftir sér. Mér skilst, að ef stjórn þessa sjóðs er heimilað að hækka lánsupphæðir samkvæmt vísitölu, verði ekki komizt hjá því að leyfa stjórnum annarra sjóða að hækka lánsupphæðir samkv. vísitölu, og ef einhverjir sjóðir skyldu þá ganga fullsnemma til þurrðar, þá er ég hræddur um, að það yrði þá kvakað því meir á hæstv. ríkisstj., þegar þeir sjóðir væru þornaðir. Mér sýnist sem sé kirkjuþing hafa þá mjög klóklegu aðferð að reyna að pota þessu dálítið áfram og orðið nokkuð ágengt og smeygt svo þarna inn þessu vísitöluákvæði sínu, án þess að ríkisstj. hafi kannske tekið sérstaklega vel eftir því. Ég held þess vegna, af því að kirkjubyggingarnar halda jafnt áfram í ár, að það væri enginn skaði skeður, þó að þetta væri nú ofur lítið betur athugað.

Það er rétt hjá hæstv. dómsmrh., að þetta er aðeins heimild. En hvað segði hæstv. ríkisstj. um að gefa atvinnurekendum það sem heimild að greiða vísitölu á kaup? Því ekki að gefa þeim slíka heimild? Ef stjórn kirkjubyggingasjóðs getur farið svona vel með sína peninga og færi ekki að verða áleitin við ríkissjóð á eftir, því skyldi þá ekki heimilt atvinnurekendum líka að semja um slíkt? Ekki eru það síður menn, sem ættu að kunna fótum sínum forráð hvað fjármuni snertir, þeir duglegu og framtakssömu atvinnurekendur Íslands, vanir að fást við fjármál, heldur en þessir blessaðir kirkjunnar þjónar, sem oft og tíðum eru kannske ekki mjög saklausir í öllum slíkum fjármálum og þyrfti kannske miklu frekar að passa upp á. Ég held þess vegna, að það mætti þá alveg eins fara að innleiða það að gefa atvinnurekendum heimild til að greiða verkamönnum kaup samkv. vísitölu, — ég tala nú ekki um, ef það væri miðað við, hvernig vísitala t.d. framfærslukostnaðar hefur hækkað frá því 1953. Mig minnir, að nýlega hafi verið sagt frá því, að bara síðan núv. hæstv. stjórnarsamsteypa tók við völdum, hafi kostnaðurinn við eina sæmilega íbúð hækkað um — ég man ekki, hvort það voru 130 þús., en mig minnir a.m.k., að það hafi verið nokkuð yfir 100 þús. kr., og það þó ekki nema síðan 1958 til 1962, svo að ef það væri nú heimilað að fara að lána eftir vísitölu byggingarkostnaðar úr hinum og þessum sjóðum, þá er ég hræddur um, að það yrði anzi drjúgt.

Það er rétt, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að vissulega eru á mörgum stöðum kirkjur byggðar yfir menn. En mér sýnist hugsunarhátturinn sums staðar við kirkjubyggingarnar, sérstaklega hér í Reykjavík, vera kannske frekar sá, að það sé verið að byggja þær guði til dýrðar, heldur en að það sé beinlínis verið að hugsa um mennina í því sambandi. Held ég þó, að honum væri betur við, að byggð væru fyrr barnaheimili eða eitthvað annað slíkt, ef hann mætti tala við sina erindreka hér á jörðu.

Ég held þess vegna, að það væri að öllu leyti langheppilegast, að þessu máli væri frestað að sinni. Það mundi ekki hljótast neitt illt af því. Eins og hæstv. dómsmrh. upplýsti, er þegar búið að ákveða 1 millj. á fjárlögum yfirstandandi árs, og við hefðum svo tækifæri til undir næsta þing að athuga það að láta þá fleiri verða samferða, ef á að taka vísitöluútlán upp sem reglu á ný í lög, og e.t.v. að athuga, hvort því fé, sem við vildum verja í þessu sambandi, yrði máske betur varið öðruvísi en í þetta í svipinn.

Ég vil vekja athygli á því, að vissulega er komin inn á fjárlög nú þegar 1 millj. kr. til kirkjubyggingasjóðs á næsta ári, en þar með er ekki alveg gefið, að öll næstu 20 ár sé þetta það brýnasta, sem við þyrftum að verja 1 millj. til, þannig að ég sé enga ástæðu til þess, að við séum að binda það í lögum fyrir næstu 20 ár að verja til kirkjubyggingasjóðs 1 millj. á ári. Það er nægur tími að ákveða það jafnóðum. Og ef menn vildu fara að binda einhverja 1 millj. þannig, sem menn hefðu afgangs á þessum miklu sparsemdartímum, þá held ég að væri t.d. nær, eins og ég gat um áðan, að verja því í sérstakan barnaheimilasjóð.

Ég held þess vegna, að það væri heppilegast, að afgreiðslu þessa frv. væri frestað nú og atriðin í því betur athuguð.