12.03.1962
Neðri deild: 65. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

128. mál, Kirkjubyggingarsjóður

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. dóms- og kirkjumrh. fyrir að hafa beitt sér fyrir því, að þetta frv. var flutt hér í þinginu, og sömuleiðis þakka ég hv. meiri hl. menntmn. fyrir afgreiðslu málsins. Ég læt hv. 3. þm. Reykv. alveg um það, hvað hann álítur um það fólk, sem sækir kirkju, hvort það er lifandi eða dautt, en ég held nú satt að segja, að þessi orð hans séu ámóta gaspur og oft heyrist frá þessum hv. þm. hér í þinginu. Hv. þm. vill, að þessu fé, sem varið er til kirkjubygginga, sé fremur varið til byggingar barnaheimila og annarra slíkra stofnana í landinu. Ég er honum mjög sammála um það, að til slíkra verkefna væri nauðsyn að veita mikið fé. En ég vil aðeins benda á það, og það er tilgangur minn með því að standa hér upp, að yfirleitt mun reynslan og sagan hafa sýnt það, að kirkjubyggingar og efling kirkjulegs starfs hefur aldrei staðið í vegi fyrir líknarstarfsemi meðal kristinna þjóða, heldur hefur það verið undirstaðan undir líknarstarfseminni, að kirkjur væru byggðar og kirkjulegt starf eflt.