12.03.1962
Neðri deild: 65. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

128. mál, Kirkjubyggingarsjóður

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Þessar umr. eru með nokkuð sérstökum hætti, og eitthvað stendur annað beinlínis á bak við þær heldur en menn vilja láta koma hér fram allir saman, sem talað hafa. En mér finnst, að það sé nauðsynlegt að leiðrétta misskilning, sem fram hefur komið hér hjá hv. þm., að þó að framlagið, sem ríkið leggur til, sé hækkað til kirkjubyggingasjóðs, eins og það er á fjárlögum, um 25%, þá sé það í einhverju ósamræmi við annað, sem ríkisstj. hefur á prjónunum í sambandi við lán til íbúðabygginga í landinu.

Í frv., sem lagt hefur verið fyrir Alþingi um verkamannabústaði, er beinlínis stefnt að því og ákveðin fyrirmæli um að afla sjóðnum meiri tekna og ráðagerðir um að geta stóraukið lánin. Þau hafa verið út á hverja ibúð hæst um 160 þús. kr., en mér er kunnugt um, að innan ríkisstj. og þeirrar nefndar, sem starfaði að undirbúningi málsins fyrir hönd ríkisstj., hefur verið gert ráð fyrir því, bæði með því að leggja meira álag á ríkissjóðinn og sveitarfélögin og að afla meira lánsfjár til þessara sjóða, að geta hækkað þau og þá helzt upp í 300 þús. kr., eða um nærri 100%.

Í öðru frv., um húsnæðismálastofnunina, er á sama hátt gert ráð fyrir því að hækka heimildina til lánveitinga úr 100 þús. í 150 þús. Og það má segja, að það skipti auðvitað öllu máli, að hægt sé að framfylgja þessu. Þó verður að gera að óreyndu ráð fyrir því, að bak við þetta sé tiltekin meining um það, að þessar lánveitingar geti hækkað um allt að 50%, miðað við það, sem þær hafa verið áður, og kannske meira, því að hér var hámarkið áður 100 þús., en hefur lítið verið veitt og líklega ekki nema bara í seinni tíð að því hámarki, en áður 70 þús. og þaðan af minna. Landsbankanum er í samræmi við þetta veitt aukin heimild til þess að gefa út bankavaxtabréf, frá 100 millj. kr. heimild árlega næstu 10 ár upp í 150 millj. kr.

Loks vil ég vekja athygli á því, að ákvæði núgildandi laga um framlag ríkissjóðs til útrýmingar heilsuspillandi íbúða hefur verið ákveðið með tilteknu hámarki í lögum fram að þessu, 4 millj. kr. Hér er þessu hámarki sleppt og tekin upp sú meginregla, sem í upphafi var við setningu húsnæðismálalöggjafarinnar 1955, að ríkið skuli leggja fé til jafns við sveitarfélögin í þessu sambandi. Ef þau telja þörf á því að byggja fyrir og leggja fram fé, sem meira nemur en þessum 4 millj. kr., þá skuldbindur ríkisstj. sig eftir þessu frv., ef að lögum verður, til þess að leggja til jafns við sveitarfélögin.

Og mér finnst ekki stórmerkilegar upplýsingar um það, að á 17. gr. fjárlaga hafi lækkað framlög til húsnæðismálastofnunar ríkisins, laun framkvæmdastjóra og húsnæðismálastjórnarinnar hafi lækkað eitthvað. Ég held, að það sé enginn skaði skeður með því. Og til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis er ákveðið núna 3 millj. 800 þús. kr. Það er bara til samræmis við það, að það var meira en nægjanlegt eftir þeirri eftirspurn, sem var eftir þessu fé frá sveitarfélögunum á undanförnum árum. Þessi liður um yfirstjórn þessara mála, sem er þannig til kominn, verður að sjálfsögðu ekki neitt til þess, að það sé þarna verið að draga úr framlögum til íbúðabygginga. Þau hafa heldur aldrei meiri verið en á s.l. ári. Það er hins vegar rétt, að byggingarkostnaður hefur aukizt og þetta kemur að því leyti ekki að jafnmiklum notum. En hvernig sem þetta er borið saman við þessa 200 þús. kr. hækkun til kirkjubyggingasjóðsins, þá verður það þó í öllum tilfellum meira, sem ætlazt er til að framlögin hækki til hinna almennu húsbygginga, bæði verkamannabústaða og lána frá húsnæðismálastofnun ríkisins, heldur en hér er gert ráð fyrir.