12.03.1962
Neðri deild: 65. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

128. mál, Kirkjubyggingarsjóður

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í ræðu hv. 6. þm. Sunnl. kom fram nokkur misskilningur, sem ég vildi leiðrétta, til viðbótar því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Í 17. gr. fjárl. er sérstakur kafli um húsnæðismál, og hann var í fjárlögum fyrir 1960 röskar 10 millj., en er í fjárlögum fyrir gildandi ár röskar 9 millj. Af þessu vill hv. þm. draga þá ályktun, að stuðningur ríkisins, eða a.m.k. að því er fjárlög snertir, hafi minnkað sem þessu svarar til húsbygginga, en undir þessum lið eru bæði framlög til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis og framlög til verkamannabústaða. Þetta er á algerum misskilningi byggt hjá hv. þm., vegna þess að framlögin, bæði til verkamannabústaða og til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, eru þau sömu bæði í fjárlögum fyrir 1960 og 1962, eða 3.8 millj. til hvors um sig. Það, sem lækkar undir þessum lið, er tilkostnaðurinn við skyldusparnaðinn. Kostnaður við skyldusparnað er talinn undir þessum lið, og vegna breyttra starfsaðferða við framkvæmd skyldusparnaðar hefur kostnaður lækkað verulega, og í stað þess að sá kostnaður var áætlaður í fjárlögum fyrir 1960 rúmar 2 millj., er hann áætlaður nú 1 millj. Það er þessi liður, sem hefur lækkað sem því svarar, sem heildarupphæðin er lægri, en ekki stuðningurinn við byggingu húsnæðis. Til viðbótar því má svo benda á það, sem síðasti hv. ræðumaður tók skýrt fram, að fyrir þinginu liggur einmitt frv. frá ríkisstj. um að auka verulega framlög hins opinbera til þessara mála.