02.04.1962
Efri deild: 77. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

128. mál, Kirkjubyggingarsjóður

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Menntmn. þessarar hv. þd. hefur rætt það frv., sem hér liggur fyrir, um breyt. á lögum um kirkjubyggingasjóð. N. leggur til, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu, sem um ræðir í nál. á þskj. 559 og er um það, að 2. gr. frv. orðist svo sem þar segir. Sú breyting, sem þarna er lögð til, er nánast eingöngu um upphæðir í krónutölu. Eins og lögin nú eru, þá er heimilt að veita allt að 200 kr. á hvern teningsmetra, þó aldrei yfir 1000 kr. á hvern fermetra gólfflatar, en hér er lagt til, að þessar upphæðir hækki upp í 400 kr. á teningsmetra að hámarki og 2000 kr. á hvern fermetra gólfflatar. Eins og fram kemur í aths. við lagafrv., svara 1000 kr. í byggingarkostnaði 1954 til liðlega 2000 kr. samkv. núgildandi vísitölu byggingarkostnaðar, og er þessi tvöföldun á upphæðum lána í samræmi við þá hækkun, sem um ræðir í 1. gr. frv., þar sem er lagt til, að ríkissjóður greiði í kirkjubyggingasjóð eigi lægri upphæð en 1 millj. kr. á ári næstu 20 ár, en er í lögum 500 þús. Hins vegar er þessi upphæð, sem hér er lögð til, 1 millj. kr., komin inn á fjárlög yfirstandandi árs. — Nefndin leggur sem sé einróma til, að frv. verði samþykkt með þessari breytingu, en svo sem fram kemur í nái., var einn nm. fjarverandi, þegar málið var afgreitt í nefndinni.