03.11.1961
Neðri deild: 12. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. forseti. Þegar kjaramálin leystust á s.l. sumri, stóð hæstv. ríkisstj. frammi fyrir því að ákveða, hvað gera skyldi vegna þeirra breyt., sem orðið höfðu á kaupgjaldinu. Þá var um ýmsar leiðir að ræða, — þá leið að leggja sig fram um að gera ráðstafanir, sem tryggt gætu, að kauphækkanirnar, sem höfðu orðið, yrðu að raunverulegum kjarabótum, og ráðstafanir, sem gætu komið í veg fyrir það um leið, að jafnvægið raskaðist í þjóðarbúskapnum. Ég skal koma að því síðar, að þetta tel ég að hefði verið hægt. En hæstv. ríkisstj. fór ekki inn á þessa braut, eins og hæstv. ráðh., sem nú talaði, gerði grein fyrir, heldur greip ríkisstj. þess í stað til að gefa út brbl. um gengislækkun, þá aðra í röðinni á 16 mánuðum.

Slík ráðstöfun til viðbótar því, sem áður hafði gerzt, er svo stórfelld örþrifaráðstöfun, að það er með öllu óverjandi af hæstv. ríkisstj. að hafa tekið slíka ákvörðun án þess að kalla þingið saman og láta það fjalla á þinglegan hátt um það ástand, sem orðið var eftir kauphækkanirnar. Ef hæstv. ríkisstj. komst að þeirri niðurstöðu, að hún gæti ekki ráðið við málin án þess að stofna til nýrrar gengislækkunar, bar henni auk þess að segja af sér þá samstundis í sumar, kalla saman þingið og láta það verða upphaf að þingrofi, svo að fram gætu farið almennar alþingiskosningar um, hvað gera skyidi, hvort leggja ætti út í nýja gengislækkun eða gera öflugar ráðstafanir til að tryggja jafnvægið í þjóðarbúskapnum og koma í veg fyrir það dýrtíðarflóð, sem yfir þjóðina hlýtur að fossa nú eftir þessa síðari gengislækkun ofan á hina.

Þetta var hæstv. ríkisstj. skylt að gera, því að þarna voru þáttaskil. Hæstv. ríkisstj. sá nú fram á, að viðreisnarráðstafanir hennar frá því 1960 náðu ekki tilgangi sínum, þær voru alveg farnar út um þúfur. Þær ráðstafanir voru byggðar á því, eins og allir vita, að lækka gengið mjög mikið og gera aðrar ráðstafanir um leið til að draga stórkostlega úr peningaumferðinni og kaupmætti almennings í landinu með aukinni dýrtíð og einnig til að draga úr framkvæmdum með aukinni dýrtíð. En kaupgjald og afurðaverð til bænda skyldi standa í stað.

Hæstv. ríkisstj. var bent á það strax, þegar þessar ráðstafanir voru gerðar, að þetta gæti með engu móti staðizt, hér væri reitt svo hátt til höggs, að þjóðarbúskapurinn mundi ekki þola höggið. Það hlyti því að fara svo, að þessar ráðstafanir leiddu ekki til jafnvægis og stöðugs verðlags, heldur mundu þær því miður verða eins og fyrsta velta á dýtíðarhjólinu í nýrri umferð. Þetta lægi í því, að þessu mundi fylgja svo stórfelld kjaraskerðing og samdráttur í framleiðslunni, að fólk fengi ekki þolað slíkar búsifjar, og því væri tómt mál að tala um í því sambandi óbreytt kaupgjald og óbreytt afurðaverð.

Á þetta var bent, og reynslan sýndi, að þeir, sem vöruðu við, höfðu alveg rétt fyrir sér. Verðhækkunaráhrifin af því, sem gert var í fyrra, gátu aldrei orðið undir 1 milljarð og 100–200 millj. kr., miðað við þjóðarbúskapinn eins og hann var þá. Fram á þetta var sýnt með útreikningum, sem voru ekki vefengdir og ekki er heldur hægt að vefengja. Þegar svo tillit var tekið til þess, að altar þjóðartekjurnar voru þá metnar á 5½–6 milljarða, gaf auga leið, að af þessu varð svo stórfelld röskun, að þetta gat aldrei blessazt. Þetta var því dauðadæmt frá upphafi og hlaut að mistakast.

Þetta kom svo greinilega fram, bæði í fyrravetur varðandi áhrifin á framleiðsluna og síðan á lífskjörin og endaði svo með því, að fullkomið hernaðarástand var orðið í kjaramálum s.l. sumar. Þetta hefði alls ekki átt að koma hæstv. ríkisstj. á óvart, og hún hafði engan rétt til þess, þegar að þessu kom, að grípa til brbl. eða nokkurra ráðstafana án samráðs við Alþingi. Henni bar að kalla Alþingi saman, gefa Alþingi tóm til þess að skoða þessi mál. En ef hæstv. ríkisstj. hafði komizt að þeirri niðurstöðu, um það leyti sem Alþingi þá kom saman, að hún gæti ekki við þetta ráðið og teldi, að ný gengislækkun, slíkt örþrifaráð, kæmi til greina, þá bar ríkisstj. vitanlega, um leið og þingið kom saman, að segja af sér og efna síðan til þingrofs, til þess að þjóðin gæti tekið ákvörðun um það, hvort þessum leik, sem hafinn var með viðreisninni, skyldi haldið áfram eða gerðar aðrar ráðstafanir, sem ég kem að síðar.

Ég skal ekki fara langt út í að ræða, hvaða ástæður geta legið til þess, að svona ráðstafanir skuli vera gerðar með brbl., en það er fullkomin ástæða til að finna að því, að það skuli vera gert, eins og ég hef nú þegar bent á. Mér kemur í hug, að ein ástæðan til þess, að gripið er þarna til brbl. útgáfu, kunni að vera sú, að hæstv. ríkisstj. hafi örvænt um það, að hún mundi geta fengið alla sína fylgismenn á þinginu til þess að samþykkja gengislækkun í sumar, eins og landið lá. Ég hef grun um, að þetta kunni að vera ein ástæðan til þess, að hæstv. ríkisstj. gengur fram hjá Alþingi í þessu og gerir þetta með brbl., því að sú ástæða ríkisstj., sem færð er fram, að það hafi legið svo mikið á, að það hafi ekki þess vegna verið hægt að leggja málið fyrir þingið, er hrein tylliástæða. Vitanlega skiptir það engu máli, þó að þetta mál hefði fengið nokkurra vikna meðferð í þinginu, og þetta er því hrein tylliástæða.

Ég get alveg búizt við því, að hæstv. ríkisstj. hafi óttazt að koma málinu ekki fram á þingi í sumar og er því útgáfa brbl. enn ámælisverðari einmitt fyrir það, því að með því að gera slíkar ráðstafanir, sem hljóta að valda ágreiningi einnig í stjórnarflokkunum, — með því að gera slíkar ráðstafanir með brbl., án þess að til komi sú athugun á málinu, sem á að fara fram á Alþ., og án þess að við verði komið þeim áhrifum á afgreiðslu svona stórmáls, sem þingmenn eiga rétt á að koma við, þá er ríkisstj. að brjóta venjulegar og réttar þingræðisreglur.

Það getur verið freistandi fyrir ríkisstj., sem vill koma fram óvinsælu máli, sem hún er í vafa um, að hún hafi þingmeirihluta fyrir, og hún óttast, að hún verði jafnvel að hætta við, ef hún fjallar um á þingræðislegan hátt, — það getur verið freistandi fyrir ríkisstj. að ganga fram hjá Alþingi með slíkt mál og gefa út um það brbl., ef þannig stendur á, að hægt er að koma því við. En fyrir slíkri freistingu mega hæstv. ráðherrar alls ekki falla, því að ef þeir falla fyrir þeirri freistingu, munu þeir nota þessa aðferð í vaxandi mæli við hin óvinsælustu mál, og með því komast málin á það stig, að þeir rýra stórkostlega vald þingsins. Og áður en þeir vita af, eru þeir farnir að stjórna með tilskipunum og bráðabirgðalögum án þess að virða réttar þingræðislegar reglur. Þetta er sú stórkostlega hætta, sem ævinlega er til staðar.

Það er freistandi fyrir ráðh. að spara sér þá miklu baráttu, sem í því getur legið að koma ágreiningsmáli gegnum þingið. Það getur verið freistandi fyrir þá að spara sér þá miklu vinnu og baráttu, sem því fylgir. En þeir mega ekki falla fyrir þeirri freistingu, þeir verða að halda þingræðið í heiðri og taka það á sig að berjast fyrir málunum á þinginu sjálfu, en ekki ganga inn á þá braut í vaxandi mæli að sniðganga þingið og vera kannske, áður en þeir vita sjálfir af, búnir að grafa undan áhrifum Alþingis.

Ég vil því leyfa mér að finna mjög að því, að hæstv. ríkisstj. skyldi fara á bak við Alþingi með þetta mál. Það er ekki hægt að bera það fyrir sig til afsökunar, að þingmenn stjórnarflokkanna kunni að hafa komið á nokkurra klukkustunda fund til þess að hlusta á boðskap ríkisstj. um þessi mál. Það er engin afsökun í slíku. Slíkt er ekki þingleg meðferð á stórmáli eins og þessu, og það er óhugsandi, að þjóðin og þingmennirnir geti komið við áhrifum sínum í sambandi við afgreiðslu máls, sem þannig er á haldið, — innan luktra dyra á nokkrum klukkustundum, undir þeirri pressu, sem þar er lögð á menn við slík tækifæri, þegar kappsfullum forustumönnum kann að þykja mikið við liggja og hafa tekið eitthvað í sig. Það er ekki æskilegt, að hin stærstu mál hljóti slíka meðferð, og hættulegt að venja sig á slík vinnubrögð, enda ættu menn að forðast þau og standa heldur með karlmennsku að því að kalla saman þingið og láta málin fá þar eðlilega meðferð, þó að það sé fyrirhafnarsamara. Með því einu móti er hægt að halda þingræðið fullkomlega í heiðri.

Ég skal ekki fara hér út í að rekja söguna í þessum efnum. Það má vel vera, að það hafi einhvern tíma áður verið farið á tæpasta vað í þessu tilliti og við einhver önnur tækifæri gengið helzt til langt í því að gefa út brbl. En þótt svo hafi verið, er það engin afsökun fyrir því að halda á þessu máli eins og nú hefur verið gert. Við ættum að sameinast um að láta slíkt alls ekki verða að reglu. Það er áreiðanlega ekki hollt fyrir nokkurn okkar, að slíkt verði að venju.

Það er annar þáttur í sambandi við meðferð málsins, sem ég vil sérstaklega vekja athygli á. í stjórnarskránni stendur, að brbl. skuli því aðeins setja, að brýna nauðsyn beri til. Nú geri ég ráð fyrir því, að hæstv. ríkisstj. liti þannig á, eins og hæstv. ráðh., sem talaði fyrir málinu, kom inn á, að það hafi borið brýna nauðsyn til að breyta genginu einmitt í sumar í skyndi, þó að ég og fjöldamargir fleiri lítum allt öðruvísi á. En það er eitt atriði í þessu máli, sem er mjög þýðingarmikið, og það er, að brbl. eru ekki aðeins um að breyta skráðu gengi íslenzku krónunnar. Það gat verið skiljanlegt, að hæstv. ríkisstj. teldi brýna nauðsyn bera til þess frá sínu sjónarmiði að breyta með brbl. skráðu gengi íslenzku krónunnar, þó að ég telji, að það hafi verið í þessu falli gersamlega óforsvaranlegt að gera það með brbl. En það er óhugsandi, að hæstv. ríkisstj. geti fundið nokkur rök fyrir því, að það hafi borið brýna nauðsyn til að taka með brbl. gengisskráningarvaldið úr höndum Alþingis og flytja það yfir í Seðlabankann. Það er óhugsandi, að það sé hægt að finna nokkur rök fyrir því, að brýna nauðsyn hafi borið til að gera þetta, einmitt þetta, með brbl. í ágústmánuði. Ef hæstv. ríkisstj. vildi halda stjórnarskrána í heiðri og ákvæði hennar um þetta efni, hefði hún vitaskuld aðeins átt og alls ekki undir neinum kringumstæðum að ganga lengra en að breyta sjálfri gengisskráningunni með brbl., en ekki láta sér detta í hug að gefa út brbl. um að taka vald í jafnþýðingarmiklu máli og hér er um að ræða með brbl. úr höndum Alþingis, færa það yfir í aðra stofnun án þess að kveðja Alþingi saman.

Ég vil taka undir þær raddir, sem þegar hafa komið fram á Alþingi um, að þetta sé brot á stjórnarskrárákvæðinu. Hæstv. ráðherrar munu kannske segja, að hér sé ekki mikið tjón orðið, því að ef það sé ekki þingvilji fyrir þessu, meirihlutavilji fyrir þessu, þá sé hægurinn hjá að taka þetta ákvæði út úr frv. nú, og þá hafi ekki stórfelldur skaði skeð, þó að þetta hafi staðið í lögum um nokkra mánuði.

En hæstv. ráðh. verða að gera sér grein fyrir því, að þessi rök eru alls ekki fullnægjandi, vegna þess að þegar kappsfull ríkisstj. er búin að setja ákvæði eins og þetta inn í brbl. og fá sína menn á lokuðum fundum, í fljótræði máske marga, til þess að fallast á þetta, án þess að málið sé nokkuð rætt, þá verður málið úr því alls ekki nálgazt með frjálsu móti af þeim þingmönnum og þeim þingmeirihluta, sem hér á hlut að máli. Þá mun niðurstaðan verða sú, að hvað sem tautar mun mönnum verða haldið að því að standa við það, sem þeir hafi samþykkt og ákveðið á hinum lokuðu fundum, án þess að málið hafi fengið nokkra þingræðislega meðferð. Og ef einhver hefði tilhneigingu til þess að íhuga þau rök, sem kynnu að koma fram í gagnstæða átt, eða við nánari íhugun áliti, að hér væri ekki skynsamlega ráðið að breyta slíku fyrirkomulagi til frambúðar, þá er það allra líklegast, að við þann mann verði sagt: Þú getur þó ekki verið þekktur fyrir að fara að breyta því, sem þú ert sjálfur búinn að ákveða áður og andstæðingarnir eru búnir að deila á og ríkisstj. hefur lagt sitt nafn við.

Og þá höfum við aðferðina, sem notuð er, og þetta er náttúrlega mjög glöggt dæmi um, hvernig alls ekki má notfæra sér ákvæði stjórnarskrárinnar um útgáfu brbl.

Það allra lengsta, sem hæstv. ríkisstj. gat gengið án þess að óvirða þingið og traðka í raun réttri á þess rétti, var að ákveða með brbl., þótt slæmt væri, hvernig skrá skyldi gengið, og leggja það svo fyrir Alþingi. Ef svo hæstv. ríkisstj. áleit að það væri heppilegra að flytja gengisskráningarvaldið alveg yfir til Seðlabankans, þá var hægurinn hjá fyrir hæstv. ríkisstj. að leggja fram frv. um það eða bæta því inn í frv., þegar Alþingi kom saman, og láta það mál fá venjulega meðferð í þinginu.

Þetta vænti ég, að hæstv. ráðh. sjái fullkomlega, að þarna hefur orðið á stórfelld skyssa. og þetta verði framvegis notað til varnaðar. Það er meira að segja í þessu sérstaka dæmi nokkur reynsla hér á hv. Alþingi. Einu sinni var ríkisstj., sem stakk upp á því í stjfrv. að færa gengisskráningarvaldið yfir til Seðlabankans. Þetta var lagt fram hér í frv., eins og margir hv. þm. kannast við, því að það hefur verið rifjað upp dálítið í sambandi við þetta mál. En við nánari athugun og þegar skoðuð voru þau rök, sem fram komu um þetta mál á þingi, féllust menn á að hætta við þessa fyrirætlun og töldu ekki hyggilegt að haga þessu þannig.

Ég efast alveg um, þegar haldið er á málinu á þann hátt, sem nú er gert, að menn telji sig frjálsa að því að taka til greina þau rök, sem kunna að koma fram í málinu við meðferð þess hér á Alþingi. Ég er raunar öllu heldur alveg viss um, að með þessu hefur málið verið sett í mjög óheppilegar skorður og hv. þm. reynast þvingaðir í þessu máli, vegna þess að það hefur verið hrapað að því að setja þetta ákvæði einmitt á þennan hátt með brbl.

Ég veit, að hv. þm. sjá stórfelld missmíði á því, að ríkisstj. skuli án þess að kalla Alþingi saman taka með brbl. valdið af Alþingi á þennan hátt og flytja það yfir til Seðlabankans. En það verður vafalaust reynt að þvinga þetta hér í gegn, jafnvel þótt einhver í stjórnarliðinu vildi breyta því, og þá á þeim grundvelli, að það væri álitshnekkir að því fyrir hæstv. ríkisstj., ef þetta yrði ekki einmitt sett í lög nákvæmlega eins og hún gekk frá því. Það er auðvitað allt annað að vinna að máli og íhuga mál, eftir að það er komið þannig, eða við hinar kringumstæðurnar, sem eru þær eðlilegu, að uppástunga um þetta kæmi fram í stjórnarfrv. og bæri að með því móti á eðlilegan hátt.

Ég skal þá víkja nokkuð að öðrum atriðum í sambandi við gengisfellinguna og efnahagsmálin yfirleitt.

Ég er búinn að minnast á, hvað raunverulega fólst í viðreisninni, sem samþykkt var í fyrra, og er búinn að minnast örfáum orðum á, í hvern hnút öll þessi mál voru komin s.l. sumar, þegar vinnudeilurnar urðu. En ég vil aðeins fara ofur lítið nánar út í þetta.

Ég býst við því, að margir hafi talið líklegt, að það yrðu vinnudeilur eða kjaradeilur miklu fyrr en þær raunverulega urðu. Ég held, að það leiki ekkert á tveimur tungum, að almenningur í landinu sýndi ríkisstj. mikla biðlund og sýndi mikla þolinmæði, jafnstórkostlega og dýrtíðarflóðið hækkaði á mönnum frá því, að viðreisnin var gerð, jafnt og þétt. Flóðið náði í hné og það náði í mitti, og menn sýndu alveg ótrúlega staðfestu í því að standa þetta af sér, og sannast að segja var það ekki fyrr en menn flutu hreinlega upp og óstætt var orðið með öllu, að nokkur aðhafðist nokkurn skapaðan hlut til þess að bjarga sér. Það var ekki fyrr en menn vissu ekki sitt rjúkandi ráð margir, hvernig þeir ættu að sjá sér og heimilum sínum farborða, að nokkuð var gert til þess að reyna að knýja fram endurbætur á ástandinu. Það er talið, að kaupmáttur launanna hafi verið orðinn um 15–20% minni s.l. vor en hann var í október 1958, og gaf það þó ekki fulla hugmynd um þá erfiðleika, sem yfir höfðu dunið, því að þar kemur svo margt fleira til. T.d. hafði þá breytzt svo stórkostlega kostnaður við að koma sér þaki yfir höfuðið og gera aðrar ráðstafanir varðandi framtíðina fyrir heimilin, að mikið var byrjað að draga úr byggingarframkvæmdum, ekki sízt byggingu íbúðarhúsnæðis. Og með hinum háu vöxtum og styttum lánstíma á fasteignalánum hafði bygging íbúðarhúsnæðis verið gerð enn erfiðari en sjálft verðlagið sagði til um. Þannig var þessum málum komið.

Samtök launamanna í landinu tóku þessi mál upp við ríkisstj. s.l. vetur og greindu frá þeim stórkostlegu vandkvæðum, sem orðin voru í þessu efni. Ég held, að enginn maður hafi treyst sér þá til þess að halda því fram, að hægt væri lengur að lifa mannsæmandi lífi með fjölskyldu af lægsta verkamannakaupi, sem var þá um 4000 kr. á mánuði fyrir fulla 8 stunda vinnu hvern einasta virkan dag ársins, eða um það bil 48 þús. kr. á ári. Ég held, að enginn hafi viljað bera sér í munn, að hægt hafi verið að lifa af þessu kaupi. Hér voru því góð ráð dýr. Verkalýðsfélögin sneru sér til ríkisstj. og báðu um, að þetta mál yrði athugað og ríkisstj, gerði einhverjar ráðstafanir til þess að lækka kostnaðinn við að lifa, sem gætu þá orðið til þess, að kauphækkanir þyrftu ekki að eiga sér stað. Allan veturinn stóðu yfir umr. um þessi mál, en hæstv. ríkisstj. sagði alltaf, að hún gæti ekkert aðhafzt í þessa átt, hún sæi engan möguleika á því að koma til móts við almenning á nokkurn hátt í þessu. Það yrði við þetta að standa.

Nú aftur á móti, þegar verið er að ræða um þessi mál á eftir, tók ég eftir því, að hæstv. fjmrh, sagði í útvarpsumr. hér á dögunum, að ef ekki hefðu orðið kauphækkanir í sumar, þá hefði verið hægt að lækka tollana. Þetta stendur í þingtíðindunum eftir hæstv. ráðh., sagt nú fyrir nokkrum dögum. Þetta sagði hæstv. ráðh. til að sýna, hversu mikils menn hefðu farið á mis með því að hækka nokkuð kaupið. Nú væri mikil dýrtíð, sagði ráðh., sem stafaði af því, að kaupið hefði verið hækkað og menn hefðu ekki stillt sig um það. En ef kaupið hefði ekki verið hækkað, sagði hæstv. ráðh., að það hefði verið hægt að lækka tollana. Nú spyr ég þennan hæstv. ráðh.: Hvernig stóð á því, að hann sagði ekki forustumönnum launasamtakanna í fyrravetur frá því, að það væri hægt að lækka tollana, ef kaupið stæði óbreytt? Hvers vegna bauð þessi hæstv. ráðh. ekki fram tollalækkun þá til þess að reyna að koma í veg fyrir eða draga úr kauphækkuninni? Hvers vegna gerði hann það ekki? Ég spyr, og það væri æskilegt að fá útskýringar hæstv. ráðh. á þessu, og ég býst við, að mörgum mundi þykja forvitnilegt að heyra svör hans við því, hvernig á þessu stóð, fyrst hann lýsir því nú yfir, að það hefði verið hægt að lækka tollana, — hvernig á því stóð, að ríkisstj. bauð ekki fram í fyrravetur tollalækkun til þess að koma til móts við eðlilegar og sjálfsagðar kröfur hinna lægst launuðu um kjarabætur frá því, sem þá var orðið. Eða er þetta bara eins og hver önnur blekking, sem hæstv. ráðh. kastar nú fram vegna þess. hversu vandasamt er fyrir hann og aðra að verja síðari gengislækkunina? En ef svo er, þá er slíkt með öllu óverjandi. Það er með öllu óverjandi af þessum hæstv. ráðh. að kasta nú fram svona fullyrðingum út í bláinn, fullyrðingum eins og þeim, að ef ekki hefði verið hækkað kaupið í sumar, þá hefði verið hægt að lækka tollana. Það er með öllu óverjandi að kasta slíku fram í blekkingaskyni, þegar verið er að ræða um það, sem gert hefur verið nú, annars vegar og hins vegar um það, hvað hefði átt að gera. Ég spyr því enn: Hvers vegna bauð hæstv. ráðh. ekki fram tollalækkun í fyrravetur, fyrst hann lýsir því nú yfir, að það hefði verið hægt?

Þegar verkföllin skullu á, breyttist afstaða ríkisstj. nokkuð. Hún fór að halda því fram, að það gæti einhver kauphækkun komið til greina, eins og raunar hæstv. viðskmrh. greindi hér áðan. Áður hafði því verið haldið fram allan veturinn, að engin kauphækkun gæti komið til greina, þjóðarbúskapurinn þyldi alls ekki meira en þessar 4000 kr. á mánuði til verkamanna fyrir 8 stunda vinnu hvern einasta virkan dag á ári. Það væri það, sem þjóðarbúskapurinn þyldi, það yrðu menn að skilja. En þegar verkföllin voru skollin á, fór hæstv. ríkisstj. að láta halda því fram, að það væri eftir allt saman hægt að hækka kaupið eitthvað, 3% t.d. strax og 3% eftir ár. Og þegar verkföllin hörðnuðu, vinnudeilurnar hörðnuðu og sáttasemjarar fóru á stúfana með tillögu um 6% kauphækkun, breyttist afstaða ríkisstj. enn og hún sagði eða lét sín málgögn segja, að kerfið mundi þola þessa 6% kauphækkun, sem sáttasemjarar lögðu til.

Á þessu öllu saman varð almenningi ljóst, að það var því miður ekkert að marka það, sem hæstv, ríkisstj. sagði um þessi mál. Hún var orðin þrísaga á örfáum mánuðum. Þetta jók tortryggnina í þessum efnum um allan helming og gerði sættir ólíklegri, enda var sáttasemjaratillagan felld við almenna atkvgr., eins og kunnugt er, og verkfallsátökin hörðnuðu um allan helming. En hæstv. ríkisstj. gerði ekkert til þess að leysa verkföllin. Það eina, sem hún lagði til, var að verða þrísaga á örfáum mánuðum.

Nú veit enginn, hvað hæstv. ríkisstj. ætlaðist í raun og veru fyrir um þessi verkfallsmál. Má vera, að hún hafi ætlað að leggja til orrustu við verkalýðsfélögin og setja löggjöf um kaupgjaldið, og einn af leiðtogum Alþfl. hér á hv. Alþingi hefur legið stjórninni stórkostlega á hálsi í útvarpsumr. fyrir það, að hún skuli ekki hafa haft manndóm í sér til þess að lögfesta kaupgjaldið. Strax eftir að þessi 6% tillaga var felld, hefði ríkisstj. átt að hafa manndóm í sér, sagði þessi leiðtogi Alþfl., til þess að lögfesta kaupgjaldið. Má vera, að ríkisstj. hafi haft það í hyggju og ætlað að láta þannig sverfa til stáls við verkalýðinn og verkalýðshreyfinguna. Hún hefur í því sambandi verið að reyna að láta skína í, að þessi verkföll hafi verið að einhverju leyti pólitísks eðlis, sem er auðvitað fullkomin fjarstæða, þegar þess er gætt, að það var fullkomnari eining um kjaramálin innan verkalýðshreyfingarinnar og með launastéttunum en nokkru sinni áður. Mér skilst, að það hafi varla fundizt nokkur verkamaður, í hvaða flokki sem var, sem taldi annað geta komið til greina en fá einhverja réttingu málanna frá því, sem þau voru þá orðin. Allt tal hæstv. ríkisstj. um, að hér hafi verið á ferðinni einhverjar pólitískar ráðstafanir til þess að gera henni óþægilegra fyrir, eru gersamlega úr lausu lofti gripnar, og það vita allir landsmenn.

Má vera, að ríkisstj. hafi ekki ætlað sér að fara löggjafarleiðina, heldur hafi hún ætlað að beygja verkalýðsfélögin með því að hafa nógu langt verkfall og fórna síldarvertíðinni í því sambandi. A.m.k. getur það bent til þess, að hæstv. ríkisstj. virtist vera hvetjandi í því, að atvinnurekendafélagið héldi uppi nokkurra vikna verkfalli til þess að reyna að þvælast fyrir því, að verkalýðsfélögin fengju 1% af kaupgjaldi í sjúkrasjóði verkalýðsfélaganna. Það virtist falla í góðan jarðveg hjá hæstv. ríkisstj., að þannig væri á málum haldið, og þá virtist þjóðarbúið hafa fullkomlega ráð á því, að framleiðslan félli niður. Má því vera, að hæstv. ríkisstj. hafi ætlað sér að hafa verkfallið geysilega langt og fórna því sem þyrfti, jafnvel síldarúthaldinu, stofna til algers hruns í þágu þeirrar hugsjónar að beygja verkalýðssamtökin. Um þetta verður aldrei vitað til fulls, vegna þess að verkföllin leystust þrátt fyrir allt á þann hátt, sem nú skal fljótt koma að. En hitt vita menn, að stjórnin reiddist heiftarlega, þegar verkföllin voru leyst, og taldi það til skemmdarverka af hendi samvinnufélaganna t.d., að þau áttu hlut í því að semja, fyrst á Húsavík, síðan á Akureyri og loks við Dagsbrún í Reykjavík. En þegar þessir samningar voru gerðir, t.d. á Akureyri, var þannig ástatt, að þar mátti heita allsherjarverkfall, og þeir, sem stóðu fyrir málum verkamanna, voru reiðubúnir til þess að sættast á 10% kauphækkun almennt og 1% í sjúkrasjóði verkalýðsfélaganna og svo nokkra hækkun á eftirvinnu.

Hæstv. ríkisstj. segir, að það hafi verið skemmdarverk að afstýra áframhaldandi allsherjarverkfalli annars staðar á landinu í byrjun síldarvertíðarinnar með því að fallast á að semja við verkamenn um 10% hækkun á almennu kaupi, 1% í sjúkrasjóð og nokkra hækkun á eftirvinnunni. Þetta kallar hæstv, ríkisstj. pólitískt skemmdarverk. En það er svo fjarri því, að þetta sé í nokkru samræmi við almenningsálitið í landinu, að það er alveg sama, hvern maður hittir utan nánasta kunningjaliðs hæstv. ráðh., alls staðar er sama viðhorfið. Menn telja þessa samninga, sem gerðir voru til að leysa verkfallið, alveg sérstaklega hóflega og hafði yfirleitt ekki dottið í hug, að það væri hægt að leysa verkfallið með minni kauphækkun, eins og á stóð, fyrir þá lægst launuðu en 10%. Almennt hefur þessum samningum verið alveg sérstaklega fagnað og það algerlega án tillits til þess, í hvaða flokki menn standa. Þetta eru áreiðanlega ekki neinar fullyrðingar út í bláinn.

Það kom líka meira að segja fram sums staðar úr sjálfum stjórnarherbúðunum fyrst einmitt fögnuður og viðurkenning í þessa átt, m.a. í blaði Alþfl. á Akureyri, — áður en hæstv. ráðh. og þeirra nánasta lið var búið að sækja í sig veðrið og finna út, að það væri pólitískt skemmdarverk að leysa nær því allsherjarverkfall í byrjun síldarvertíðar með því að fallast á að hækka kaup verkamanna upp í 4400 kr. á mánuði fyrir 8 stunda vinnu hvern einasta virkan dag. Þetta væri pólitískt skemmdarverk. Og mismunurinn á þeirri lausn, sem hæstv. ráðh. og þeir, sem að þessu standa, sögðu að væri tiltækileg, þ.e.a.s. 6% hækkun á kaupi verkamanna, — mismunurinn á því og þeirri lausn, sem ofan á varð, er, eins og menn mega sjá, um 160 kr. á mánuði, — mismunurinn á þeirri úrlausn, sem þeir töldu tiltæka, og hinni úrlausninni, sem var sögð skemmdarverk. Út af þessum mismun þurfi að lækka gengi íslenzku krónunnar um 13%. Þetta er hugsanagangurinn og röksemdafærslan, sem mönnum er boðið upp á. 10% kauphækkun fyrir verkamanninn er sem sagt um 400 kr. á mánuði, en 6% hækkunin var um 240 kr. á mánuði, og mismunurinn á úrlausnunum er 160 kr. á mánuði.

Svo koma hæstv. ráðh. hér og halda langa, langa fyrirlestra með ótal tölum til að sýna hv. alþm. fram á, að það hefði verið viðlit fyrir ríkisstj., hefði verið viðlit og hún hefði hugsað sér, — ég bið ykkur að taka eftir orðalaginu, hún hefði ætlað sér og hún hefði lagt sig fram til þess að 6% kjarabót kæmi að fullum notum sem kjarabót. Hæstv. viðskmrh. sagði hér áðan, að ríkisstj. hefði lagt sig fram um þetta, ef það hefði orðið 6% kauphækkun, m.ö.o.: ef kaup verkamanna hefði hækkað um 240 kr. á mánuði. En af því að kaup verkamanna hækkaði um 400 kr. í staðinn fyrir 240 kr. á mánuði, eða 160 kr. meira, þá hefur ríkisstj. ekki lagt sig fram um, að úr því gætu orðið varanlegar kjarabætur, heldur snúið algerlega við blaðinu og kallað yfir þjóðina þá óðaverðbólgu, sem hlýtur að fylgja 13% gengislækkun ofan á allt, sem fyrir var.

Ég bið menn að taka eftir þessum málflutningi og þessum hugsunarhætti. Þetta er mönnum svo ætlað að taka sem góða og gilda vöru og stimpla samtök eins og samvinnuhreyfinguna. Þar sem eiga hlut að máli 30 þús. manns í landinu, sem eins konar bófasamtök eða samtök skemmdarverkafólks, sem hafi í þessu tilliti framið afbrot, þjóðfélagslegt afbrot, eyðilagt viðreisnarráðstafanir ríkisstj. með því að leysa með þessu móti allsherjarvinnustöðvun á Akureyri og eiga síðan nokkurn þátt í því sama í Reykjavík með því að semja við Dagsbrún. Það er hvorki meira né minna, sem hér er lagt við.

Það bætist svo ofan á þetta, að áður en þessir samningar höfðu verið gerðir, hafði verið samið um kaupgjald verkamanna í Vestmannaeyjum og það hafði verið hækkað meira, um 14.7% án þess að nokkur aðfinnslurödd heyrðist úr stjórnarherbúðunum, og fiskimenn höfðu líka fengið samninga um talsverðar kjarabætur, sem þeim veitti sízt af, líka án þess að að því væri fundið eða það væri talið til skemmdarverka. En það var kannske dálítið annað, vegna þess að þar komu samvinnufélögin ekkert nærri. En þar var þó verið að gefa fordæmi og leggja línu í þessu máli. Og ekki nóg með það. Eftir að samvinnufélögin höfðu gert þennan samning við verkalýðsfélögin, um þessar hóflegu úrbætur, og leyst þannig ekki bara sinn vanda, sem var stórkostlegur, því að öll þeirra framleiðsla lá niðri, heldur líka vanda þjóðarinnar, því að það mátti ekki tæpara standa, að síldarvertíðin yrði eyðilögð, — eftir að samvinnufélögin höfðu gert þetta, var haldið áfram að semja, og þá voru það aðrir, sem sömdu, og einmitt þeir, sem leyfa sér að kalla samninga samvinnufélaganna skemmdarverk. En þeir sömdu um meiri kauphækkanir í öllum áttum, um meiri kauphækkanir en hinir lægst launuðu höfðu fengið í samningunum, sem samvinnufélögin höfðu fallizt á, og þeir hældu sér af þessu. Þeir hældu sér af því, að þeir sömdu um meira. T.d. var sagt í dagblaðinu Vísi í Reykjavík 17. júní, með leyfi hæstv. forseta:

„Það liggur í augum uppi, að samkvæmt tilboði Vinnuveitendasambandsins fá verkamenn hærra kaup í umslag sitt en samkvæmt þeim kjörum, sem SÍS samdi við Dagsbrún um.“

Þeir hæla sér af því, nokkrum dögum eftir að þessi samningur er gerður, sem þeir nú kalla skemmdarverk, að það sé gengið lengra á þeirra vegum til móts við óskir verkafólks heldur en samvinnufélögin hafi gert. Þetta getur maður nú kallað heilindi.

Ég drap á hér áðan, að það hefði stappað nærri allsherjarverkfalli, þegar þessi úrlausn fékkst. M.a. var síldarvertíðin í raun réttri hafin, undirbúningur var í fullum gangi og undirbúningur síldarvertíðarinnar truflaðist mjög verulega af þessum verkfallsátökum, jafnvel þó að þau leystust eins og varð, hvað þá ef haldið hefði verið á þessum málum eins og hæstv. ríkisstj. virtist helzt vilja: Að láta verkfallið standa áfram vikum og mánuðum saman óleyst til þess að koma í veg fyrir, að því er mér skilst, að annað eins kæmi fyrir og það, að verkamenn fengju 400 kr. kauphækkun í staðinn fyrir 240 kr. kauphækkun á mánuði. í þágu þeirrar „hugsjónar“ sýnist hafa verið meiningin að fórna síldarvertíðinni eða þá að leggja til höfuðorrustu við verkalýðsfélögin eftir löggjafarleiðinni í þágu þeirrar sömu „hugsjónar“.

Ég held, að hæstv. ríkisstj. sé ekkert öfundsverð af þessu sjónarmiði, og ég held sannast að segja, að hún hafi almenningsálitið í landinu algerlega á móti sér í þessu tilliti og henni sé legið mjög á hálsi fyrir þær ráðstafanir, sem svo komu í framhaldi af þessum vinnubrögðum. Ég held, að það sé alls ekki skoðun almennings í landinu, að hér hafi verið um pólitísk skemmdarverk að ræða. Ég held, að það sé þvert á móti álit langflestra, að þessi samningur, sem gerður var, hafi verið mjög hóflegur og miklu bjargað og að fjöldinn allur af stuðningsmönnum ríkisstj., sem hafa verið a.m.k., hefði fremur viljað kjósa stjórninni það hlutskipti að gangast fyrir álíka lausn eins og þeirri, sem varð, heldur en það, sem hún valdi sér með afstöðu sinni í þessum átökum, og ég tala nú ekki um með gengislækkuninni, sem á eftir kom.

Í sambandi við þessa samninga, sem gerðir voru, kom margt athyglisvert í ljós, t.d. það, að samvinnufélögin lögðu sig fram um að reyna að hafa samninginn þannig úr garði gerðan, að halda mætti vinnufriði til frambúðar. Í því sambandi lögðu samvinnufélögin geysilega mikla áherzlu á að fá inn í samninginn ákvæði þess efnis, að kaupgjald skyldi standa óbreytt eitt ár, nema því aðeins að gengislækkun yrði eða framfærslukostnaður hækkaði um meira en 5 stig eða sem næst 5%, en 5 stig í vísitölunni núna jafngilda 10 stigum í gömlu vísitölunni. Og á þetta féllust verkalýðsfélögin til samkomulags og sýndu með því að mínu viti mjög mikla tillitssemi gagnvart sjónarmiði vinnuveitenda í þessum málum. Forustumenn verkalýðsfélaganna féllust á, að kaupið skyldi hreyfast samkvæmt vísitölu og samningurinn skyldi standa, nema því aðeins að gengislækkun yrði eða framfærslukostnaðurinn hækkaði um 5%, — takið eftir því. Móti þessu skyldi svo koma. að kaupið hækkaði um 4% eftir eitt ár, ef báðir aðilar gætu samþykkt, að samningurinn stæði þá áfram.

Ég fullyrði, að með þessu ákvæði, með þessum samningi hafi ríkisstj. fengið ákjósanlegan grundvöll til þess að stöðva verðbólguþróunina í landinu. Og ég fullyrði, að með réttum og skynsamlegum ráðstöfunum hefði stjórninni verið í lófa lagið að halda dýrtíðarvextinum innan þeirra marka, sem sett voru með þessum samningi, og skapa þannig möguleika fyrir áframhaldandi vinnufriði. Ég álft, að með þessu hafi samvinnuhreyfingin og verkalýðshreyfingin fært ríkisstj. „á diski“ hinn ákjósanlegasta grundvöll til þess að tryggja stöðugt verðlag og ná því jafnvægi, sem hæstv. ríkisstj. telur sig vera að keppa eftir. Ég skal koma nokkru nánar inn á þetta. Þetta tækifæri vildi ríkisstj. ekki notfæra sér. Hún vildi þess í stað halda samdráttarstefnunni áfram og segja verkalýðshreyfingunni stríð á hendur, að því er manni skilst, í leiðinni með gengislækkunarlögunum, og í raun og veru samvinnuhreyfingunni líka með öllum þeim þungu ásökunum, sem hæstv. ríkisstj. og hennar lið hefur látið frá sér fara í garð hennar út af þessum hóflegu og eðlilegu samningum.

Þá kemur spurningin: Hvernig gat ríkisstj. komið málum þannig fyrir, að ekki leiddi af þessu stórfelld vandkvæði fyrir hana? Ég skal koma örlítið inn á þetta, eins og raunar áður hefur verið nokkuð gert af hálfu framsóknarmanna. í fyrsta lagi vissum við það, sem erum kunnugir hjá samvinnuhreyfingunni, að samvinnuhreyfingin þurfti ekki að fara fram á neinar hækkanir á iðnaðarvarningi sinum, þó að kaupið yrði hækkað eins og samningurinn gerði ráð fyrir. Nú er einnig komið í ljós, og það taldi a.m.k. ég mjög líklegt fyrir fram, — nú er komið í ljós, að nær allur iðnaðurinn í landinu gat tekið á sig þessa kauphækkun. Sú verðhækkun, sem hefur verið leyfð á iðnaðarvarningi við endurskoðun þá á verðlaginu, sem orðið hefur í framhaldi af gengislækkuninni, er vegna gengislækkunarinnar, en nær undantekningarlaust hefur fyrirtækjunum verið neitað um verðhækkanir vegna kauphækkunarinnar. Það hefur komið í ljós, að fyrirtækin gátu nær undantekningarlaust tekið kauphækkunina á sig, og sú verðhækkun, sem nú verður á iðnaðarvarningi, er nær eingöngu vegna gengislækkunarinnar, en ekki vegna kauphækkunarinnar. Um þetta leyfi ég mér hér með m.a. að vísa í greinargerðir um þessi mál, sem hafa komið í stjórnarblöðunum og ég gæti ímyndað mér að ættu rót sína að rekja til iðnrekenda.

Þá vil ég benda á, að þrátt fyrir kauphækkunina gat verð á saltsíld og verð á síld í bræðslu hækkað talsvert verulega frá því, sem það var árið áður.

Enn fremur vil ég benda á, að við athugun, sem fram hefur farið á sjávarútveginum að öðru leyti og rekstri hraðfrystihúsanna, kemur í ljós, að sá mismunur í vinnulaunakostnaði fyrir hraðfrystihúsin, sem kemur fram vegna þess, að samið var um 10% kauphækkun og nokkuð aukna eftirvinnu í stað þess að semja um 6% kauphækkun, eins og sáttasemjarar lögðu til, — að þessi útgjaldamismunur getur aldrei numið meira en sem svarar 1–2% af útflutningsverði afurðanna.

Þetta eru staðreyndir, sem óhugsandi er að komast fram hjá. Hráefnisverð, verð á fiskinum inn í hraðfrystihúsin, liggur einhvers staðar nærri 50% eða helmingi af útgjöldum húsanna. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna telur kaupgjaldið yfirleitt undir 20% í þeim verðreikningum, sem hún hefur gert. En til þess að vera gætnir í þessu skulum við segja 20% af kostnaðinum vinnulaun. Þessar tölur sýna, að þessi kaupgjaldsmismunur, sem varð vegna þess, að gengið er að nokkru meiri kauphækkun, getur ekki haft neina úrslitaþýðingu fyrir fiskiðnaðinn. Það mundi engum manni detta í hug, að það ætti að lækka gengi íslenzkrar krónu t.d., þó að það yrði 1—2% verðfall á afurðum frá frystihúsunum. Kauphækkun sú, sem fiskimenn höfðu fengið, var komin fyrr um veturinn, áður en gengið var frá því verði, sem frystihúsin greiddu fyrir fiskinn, og kom því ekki inn í þessa mynd.

Ef hæstv. ríkisstj. hefði svo viljað mæta þessari kauphækkun með því að lina á samdráttarráðstöfunum sínum, sem þá hefði orðið til þess að bæta rekstrarfjáraðstöðu atvinnurekstrarins, bæði iðnaðarins, sjávarútvegsins og annarra greina, og hefði viljað fallast á að lækka vextina ofan í það, sem þeir voru, áður en viðreisnin kom til, hefði verið hægt að bæta fiskiðnaðinum upp með því miklu meira en svaraði mismuninum á þeim vinnusamningum, sem gerðir voru, og hinum, sem hæstv. ríkisstj. taldi vel við unandi eða sæmilega við unandi. Það er alveg ljóst.

Ég hef í höndum verðreikninga frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem sýna, að það er þeirra skoðun, að vaxtakostnaður hjá frystihúsunum leiki einhvers staðar á milli 40 og 45% af kaupgjaldinu, stofnvextir og rekstrarvextir. Á þessu sjáum við því, að ef vextirnir hefðu verið lækkaðir um ¼ hluta eða svo, þá hefði það gert mun meira en að vega upp þennan mismun og raunar hrokkið langleiðina til þess að bæta fiskiðnaðinum upp alla þá kauphækkun, sem varð.

Þegar svo við þetta bætist, að vöruumsetning í landinu hefði vaxið talsvert við kauphækkunina og við slíkar ráðstafanir til þess að bæta hag fyrirtækjanna, þá hefðu tekjur ríkissjóðs vaxið gífurlega, sennilega um mörg hundruð milljónir, vegna þess að búið er að hauga svo tollum á nauðsynjavörur og þann varning, sem menn yfirleitt kaupa til heimilanna, að aukin kaupgeta hefði að mjög miklu leyti lent beint hjá ríkissjóði. Og síðustu upplýsingar hæstv. fjmrh. um horfurnar í ríkisbúskapnum benda alveg eindregið í þá átt, að ef þessi leið hefði verið farin, sem ég nú er að lýsa, hefði ríkissjóður haft mjög mikil fjárráð síðari hluta þessa árs, og þá hefði verið hægt að nota eitthvað af því fjármagni til þess að greiða fyrir sjávarútveginum, þar sem skórinn kreppti mest að honum, og til þess að hjálpa til að halda vísitölunni, dýrtíðaraukningunni, innan við þessi 5%, sem hún mátti vera mest, til þess að vinnusamningar gætu staðið áfram.

Ég er alveg sannfærður um, að ef það hefði verið haldið á málum á þessa lund, hefði verið hægt að tryggja, að það hefði orðið talsvert veruleg kjarabót að þessari kauphækkun í sumar. Ég er ekki þar með að segja, að hún hefði orðið sem svaraði sjálfri kauphækkuninni brúttó. Þessi kjarasamningur hefði getað orðið grundvöllur að því að stöðva sig á verðhækkunarbrautinni, í stað þess að þær ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú gripið til, eru fullkomið óyndisúrræði, sem því miður verður til þess að gera þessi mál verri viðureignar en nokkru sinni fyrr. Og það er sárgrætilegt til að hugsa, að hæstv. ríkisstj. skyldi ekki bera gæfu til að notfæra sér einmitt þessa kjarasamninga á þennan hátt. Með því að skoða málið frá þessari hlið, hygg ég, að flestum hljóti að vera ljóst, að það er algert frumhlaup og að ófyrirsynju að lækka gengið á þann hátt, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert.

Hæstv. viðskmrh. ræddi hér nokkuð mikið áðan í sinni ræðu um, að það hefðu orðið óhagstæðar breytingar nokkrar á aflamagni og verðlagi sjávarafurða á undanförnum árum, tók til í því sambandi árin 1959, 1960 og 1961. En ég vil spyrja hæstv. ráðh. af þessu tilefni: Álítur hæstv. ráðh., að það eigi að hringla til með gengið á íslenzku krónunni sí og æ og látlaust fram og aftur, jafnvel eftir hinum minnstu sveiflum á aflamagni og verðlagi afurðanna? Sýnist ekki hæstv. ráðh., að það ætti að komast hjá því að hringla með gengi krónunnar sí og æ eftir öllum sveiflum, sem verða á verðlagi sjávarafurða og aflamagni? Hæstv. ráðh. hlýtur líka, jafnglöggur maður og hann er á marga lund, að gera sér grein fyrir því, að það er margt fleira, sem kemur til íhugunar í þessu sambandi, en aðeins aflamagnið þá og þá vertíðina og verðlag sjávarafurða það og það tímabil. T.d. kemur hér inn í framleiðsla iðnaðarins í landinu og afkoma hans og margir fleiri þættir. Ég mótmæli þeirri skoðun, að það eigi að hringla sífellt með gengisskráninguna fram og aftur eftir aflamagni þessa eða hina vertíðina eða verðlagi á sjávarafurðum, sem e.t.v. breytist frá mánuði til mánaðar, ýmist upp eða niður. Eða mundi hæstv. ráðh. vilja halda þessum hugsanagangi áfram og slá því föstu og lýsa yfir því skýrt og skorinort, að hann mundi beita sér fyrir því að hækka gengi íslenzku krónunnar að óbreyttum öðrum ástæðum, ef verð á sjávarafurðum eða afli færi vaxandi í eitthvað svipuðum mæli og hann telur, að hvort tveggja hafi farið rýrnandi það tímabil, sem hann ræddi um? Það, sem hæstv. ráðh. rakti í þessu efni, sýnast mér ekki nein rök fyrir því, að gengislækkun eins og þessi hefði átt að geta komið til mála. Að mínu viti átti að nálgast málið frá allt öðru sjónarmiði, — frá því sjónarmiði, sem ég nú hef rakið, þ.e. út frá afkomu atvinnuveganna.

Hæstv. ráðh. nálgaðist líka málið frá annarri hlið. Hann sagði, að kauphækkun eins og þeirri, sem varð, fylgdi geysilega mikil peningavelta innanlands, og reiknaði út talsvert í því sambandi, kom með tölur, sem mér fundust að verulegu leyti út í bláinn. Hann sagði. að 1% launahækkun hefði í för með sér 30–40 millj. kr. hækkun á tekjum og þá hefði þessi kauphækkun, sem varð, væntanlega haft í för með sér 500–600 millj. kr. hækkun á tekjum. Kauphækkunin var alls ekki slík, að það geti verið nokkur grundvöllur að því að nefna slíka tekjuhækkun í því sambandi. En auk þess vil ég fyrir mitt leyti taka það fram, að þessar tölur segja í raun og veru hreint ekki neitt. Hæstv. ráðh. veit mjög vel, að það var von á stórauknum gjaldeyristekjum vegna óvenjulega góðrar síldarvertíðar. Hæstv. ráðh. hefur engin tök á því að reikna út, hversu mikið af því fé, sem farið hefði í umferð vegna kauphækkunarinnar, hefði komið fram sem eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri. Hann hefur engin skilyrði til þess að reikna slíkt út. Það er algerlega ágizkun út í bláinn, að þessi kauphækkun hefði skapað of mikla eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri. Þess ber að gæta, að framleiðsla sjávarútvegsins fór vaxandi vegna betri og meiri síldveiða, og þess er líka að gæta, að framleiðsla iðnaðarins í landinu fer sívaxandi ár frá ári. Það er mjög athyglisvert, að þegar hæstv. ráðh. var að halda því fram, að íslenzkur þjóðarbúskapur gæti ekki með nokkru móti staðið undir 4400 kr. kaupi á mánuði fyrir verkamann, þá hélt hann sig sífellt við, að það hefði orðið aflabrestur einstakar vertíðir, og nokkrar breytingar, sem hann nefndi, á verði sjávarafurða, en hann forðaðist eins og heitan eldinn að ræða um, að ef eðlilega er á málum haldið varðandi framleiðsluna, á hún að fara vaxandi ár frá ári, m.a. iðnaðarframleiðslan. Sú framleiðsla getur engu síður staðið undir kauphækkunum og lífskjarabótum en önnur framleiðsla í landinu. En fram hjá þessu gekk hæstv. ráðh. algerlega. Hann vildi líka láta líta svo út sem öll sú aukning á tekjum, sem hefði orðið vegna kauphækkunar í þjóðarbúinu, hefði hlotið að koma fram sem eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri og setja fjárhag landsins út á við gersamlega úr skorðum. Þetta er alveg úr lausu lofti gripið og ekki hægt að ræða mál á þennan hátt.

Það er miklu eðlilegri leið að reyna að átta sig á því, hvað atvinnureksturinn raunverulega getur borið, eins og ég gerði tilraun til áðan með minni röksemdafærslu, þar sem ég taldi mig sýna fram á, að gengislækkunin hafi frá því sjónarmiði verið hið versta óhapp.

Út yfir tekur alveg, þegar hæstv. ráðh., eins og gert var í löngu greininni, sem kom frá hæstv. ríkisstj. í sumar, tekur sig til og bætir ofan á kauphækkunina, sem hann reiknaði 500–600 millj., því, sem hann telur þurfa að greiða í kaup því unga fólki, sem bætist árlega við í hóp hinna vinnandi karla og kvenna, segir, að það séu 300 millj. Þessu verði að bæta við kauphækkunina til að sjá þann háska, sem fram undan er, og hina gífurlegu hættu fyrir gjaldeyrisafkomu þjóðarinnar út á við. Þetta þýðir sama og að fullyrða, að það unga fólk, sem bætist í hóp þeirra, sem taka kaup, vinni ekki fyrir sér, það leggi ekki í þjóðarbúið sem svarar því kaupi, sem það fær, — það bætist við eins og baggi á hina, sem fyrir eru, — Það þurfi að jafna, — hugsið ykkur annan eins hugsunarhátt og röksemdafærslu eins og þessa, — að það þurfi í raun og veru að jafna kaupi þessa fólks eins og bagga ofan á þá, sem fyrir eru, það þurfi að lækka lífskjör þeirra, sem fyrir eru, sem svarar kaupi þeirra, sem bætast við í hóp hinna vinnandi á hverju ári. — Þetta veit ég, að hæstv. ráðh. sér að nær engri átt. En þetta sýnir bara, út í hvaða ógöngur og ófærur jafnvel hinir gleggstu menn geta lent, þegar verið er að reyna að skjóta tyllirökum undir jafnfráleita ráðstöfun og þessi gengislækkun er.

Auðvitað er óhætt að gera ráð fyrir því, að það verði framleiðsluaukning árlega í þjóðarbúinu, fullkomlega á móti því kaupi, sem unga fólkið fær, sem bætist í hóp hinna vinnandi. Það er fjarstæða, að það þurfi að gera ráð fyrir því, að það verði að herða ólina að hinum til þess að standa undir þessu kaupgjaldi og blanda því inn í umr. um nauðsyn á gengislækkun, að það hafi þurft að lækka gengi krónunnar til þess að þrengja að öðrum sem þessu svaraði, kaupgjaldinu til unga fólksins. Ég verð að segja, að hæstv. ráðh. virðist ekki hafa mikla trú á því búskaparlagi, sem haldið er uppi í landinu, ef þetta ber að skoða sem mat hans á þeim möguleikum, sem það gefur.

Rökstuðningurinn fyrir gengislækkuninni fær ekki staðizt, og afleiðingin verður svo stórkostleg ný dýrtíðaralda, sem enginn veit enn, hversu hátt kann að rísa.

Það er svo mál út af fyrir sig, að þegar hæstv. ráðh. var að gera grein fyrir þjóðarbúskapnum og niðurstöðunum af honum, var það eiginlega þetta, að þjóðarframleiðslan hefði minnkað undanfarið að magni og verðmæti, afstaðan út á við hefði samt batnað, vegna þess að það hefði verið framkvæmdur svo mikill samdráttur í peningakerfinu hér innanlands. En samdráttur í peningakerfinu þýðir, að kaupgetan hafi verið minnkuð mikið, — kaupgetan bæði til neyzlu og framkvæmda. En þrátt fyrir þetta sagði svo hæstv. ráðh., að kjaraskerðingin hefði eiginlega engin orðið. Þetta rekur sig vitanlega allt saman hvert á annars horn, og er óhugsandi, að þetta geti staðizt. Ef það er rétt, sem hæstv. ráðh. heldur fram, að samdrátturinn í peningakerfinu hafi skert kaupmáttinn innanlands svo mikið, að afkoman út á við hafi orðið betri en áður þrátt fyrir mikið minnkaða framleiðslu, þá hlýtur auðvitað að hafa orðið alveg gífurleg kjararýrnun í landinu, því að ekki hefur þetta allt saman komið niður á fjárfestingunni, það vitum við upp á hár. Þetta fær ekki með nokkru móti staðizt, og þó að hæstv. ráðh. hefði þarna einn fyrirvara, og hann var sá, að sjávarútveginum hefði vegnað verr en áður, og ég skal ekki draga úr því, að það sé rétt, þá er það vitanlega alls ekki nægileg skýring eða fullnægjandi. Hitt er staðreyndin, að þessar ráðstafanir höfðu í heild sinni þau áhrif, að það minnkaði stórkostlega kaupmáttur tekna og launa yfirleitt og varð úr stórfelld kjararýrnun. Á hinn bóginn batnaði afkoman út á við ekki 1960, þó að ráðh. vildi láta líta svo út, vegna þess að þó að gjaldeyrisstaða bankanna lagaðist nokkuð, rýrnuðu birgðir og söfnuðust lausaskuldir miklu meira en á móti því. Hitt er svo annað mál, að ég og fleiri, við höldum því fram, að ef hæstv. ríkisstj. hefði ekki lagt út í svona stórfelldar samdráttarráðstafanir í fyrra, þá hefði framleiðslan orðið mun meiri en hún hefur orðið. Skal ég ekki fara út í núna að endurtaka rök okkar fyrir því. Þessar miklu ráðstafanir til samdráttar og til þess að skerða rekstrarfé fyrirtækjanna hafa orðið til þess að minnka þjóðarframleiðsluna og þjóðartekjurnar.

Höfuðniðurstaðan af því, sem ég vildi sagt hafa, verður þess vegna sú, að það hefði verið hægt, ekki aðeins að komast hjá gengislækkuninni núna, heldur hefði, ef unnið hefði verið að þessum málum með stillingu og víðsýni í stað þess að láta reiðina ráða fyrir sér, verið hægt að notfæra sér þessa kjarasamninga í sumar til að komast inn á heppilegri brautir en gengið hefur verið á nú um sinn.

Þessi gengislækkun verður því miður bara byrjun á nýrri veltu, dýrtíðarveltu, og leysir engan vanda.

Ég vil svo að lokum aðeins víkja að atriði, sem snertir þessi mál, og ég vona, að hæstv. forseti finni ekki að því, þó að það snerti að vísu alveg eins mikið eða jafnvel meira frv., sem er hér á dagskrá næst á eftir. En þær ráðstafanir eru þó í beinu framhaldi af og í sambandi við gengislækkunina. Ég vildi minnast á þetta núna.

Mig langar að biðja hæstv. ráðh. viðskiptamála að athuga, hvort hann geti ekki við framsögu þess máls, þegar þar að kemur, eða umr. þess gefið vissar upplýsingar. Þar er gert ráð fyrir, að talsvert af þeirri hækkun á útflutningsvörum, sem verður vegna gengislækkunarinnar, verði tekið í sjóði nokkra, sem eiga að ganga til ýmissa ráðstafana fyrir sjávarútveginn. Nú langar mig til, af því að það er engin greinargerð fyrir því máli, að biðja hæstv. ráðh. að upplýsa: í fyrsta lagi, hvað hann gerir ráð fyrir að þetta útflutningsgjald nýja af sjávarafurðum, sem getið er um í 1. mgr. 7. gr. þess frv., verði há fjárhæð, — hvað hann áætlar, að það verði há fjárhæð á þessu ári. Ég misskil það held ég ekki, að það er 4½% hækkun frá því, sem nú er, en bið hann þá að upplýsa, ef það er misskilningur. Enn fremur, hvað hann mundi áætla, að þetta yrði á næsta ári. Ef hæstv. ráðh. vildi gera slíka áætlun, sem mér finnst sjálfsagt að komi fram í málinu strax við 1. umr. þess, gætum við áttað okkur á því, hvað er að gerast. Loks langar mig til að biðja hæstv. ráðh. að láta gera sams konar áætlun um það, hversu mikið fjármagn muni koma inn á þessu ári og þá næsta ári samkv. 8. gr. þess frv.

Ég tók eftir því við útvarpsumr., sem voru nú ekki fyrir löngu, að þá sagði einn af hæstv. ráðh. eitthvað í þá átt, að með þessu frv. hefði verið komið í veg fyrir stöðvun framleiðslunnar þegar á þessu hausti. Kauphækkanirnar hefðu verið svo stórfelldar, að sjávarútvegurinn hefði getað stöðvazt á þessu hausti, ef ekkert hefði verið gert. Þetta er eins og hver önnur brosleg fjarstæða. En þetta minnir mig á, að það hefði verið mjög æskilegt, ef hæstv. ríkisstj. hefði viljað láta koma fram í sambandi við þetta mál grg. um áhrif þessarar síðustu gengislækkunar á sjávarútveginn. En þessi gengislækkun er gerð með þeim sérstaka hætti, að það er hækkað verð á erlendum gjaldeyri um 13%, og þar með hækkar verð á skipum og bátum og öllu því, sem þarf að nota til útgerðarinnar, en aftur á móti kemur ekki nema nokkur hluti af verðhækkununum á afurðunum sjávarútveginum til góða. Það er lagt í ýmsa sjóði, sem að vísu eiga að styðja hann með ýmsu móti, beint og óbeint. Það hefði verið mjög æskilegt, ef hæstv. ríkisstj. hefði viljað láta gera áætlanir um það, hvaða áhrif þessi nýja gengislækkun hefði á afkomu sjávarútvegsfyrirtækjanna nú alveg á næstunni.

Ég mun svo láta þetta nægja að sinni.