09.11.1961
Neðri deild: 15. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 928 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Einar Olgeirsson:

Hæstv. forseti. Það er mjög slæmt, að hæstv. forsrh. skuli ekki vera viðstaddur hér, af því að nokkuð er deilt á þá ræðu, sem hann hér hefur flutt, og raunar væri mjög æskilegt fyrir okkur þm. að vita, hver færi með forsrh.-embættið sem stendur. Ég vona, að sá hæstv. ráðh., sem talar næst, upplýsi okkur um það, hver það sé, þannig að við gætum þá a.m.k. beint okkar máli nokkuð til þess manns, sem í augnablikinu færi með það embætti, meðan sjálfur forsrh. hæstv. er fjarverandi.

Hæstv. dómsmrh. hefur nú minnzt nokkuð á þessi mál og gert ofur litla tilraun til þess að verja það, sem hæstv. forsrh. hafði haldið fram, og tókst honum nú ekki vel. Hann er lögfræðingur líka og ætti að kunna að gera greinarmun á því, þegar hann er að tala um útgáfu brbl., að það var tvenns konar efnislegt, sem í því fólst. Fyrra atriðið var það, og það er höfuðatriði þess frv., sem við erum að ræða nú í dag, að taka valdið úr höndum Alþingis til að skrá gengið. Hitt atriðið er aftur á móti það að ákveða gengið, og það var annarri stofnun, starfsmönnum ríkisstj., bankastjórn Seðlabankans, falið að gera. Allar þær röksemdir, sem hér hafa verið fluttar, líka af hæstv. dómsmrh. nú síðast í ræðu hans, hníga að því, að það hafi verið nauðsynlegt að breyta genginu og að ríkisstj. hafi álitið, að það hafi verið brýn nauðsyn að breyta genginu og það mætti ekki bíða. Þetta getur frá sjónarmiði ríkisstj. og frá sjónarmiði forseta lýðveldisins verið þeirra skoðun, og þá geta þeir framkvæmt þá skoðun með því að gefa út brbl. um að breyta genginu, ef þeir álíta brýna nauðsyn bera til þess. Það er það eina, sem hæstv. ráðh. hafa sannað í sínum ræðum, að út frá þeirra sjónarmiði væri brýn nauðsyn til að breyta genginu. Það gátu þeir gert með brbl. og þar með afstýrt þeirri yfirvofandi þjóðarhættu, sem þeir álitu vera, en ég álít rangt hjá þeim. En hvaðan kom þeirra skoðun um, að það væri brýn nauðsyn að taka valdið af Alþingi? Það hefur enginn þeirra sýnt fram á það enn þá. Þeir gátu fullnægt öllum þeim rökum, sem þeir hafa haldið fram um, að það ætti að breyta genginu, með því að breyta genginu með brbl., og það var það eina, sem var í samræmi við það, sem Alþingi hafði áður ákveðið. En það, sem þeir gera, er bara allt annað. Þeir fela nokkrum embættismönnum sínum í þjóðfélaginu að ákveða gengið, taka valdið af Alþingi. Og ég vil biðja hæstv. ráðh., sem koma til með að ræða þetta mál hér, um að gera svo vel að halda sér við það og sanna, að þeir hafi haft einhvern rétt samkvæmt stjórnarskránni og samkvæmt lögum til þess að gera slíkt. Þetta er meginatriðið í því, sem við erum að ræða, og við skulum ekki vera að reyna að draga neina dul á þetta með löngum ræðum, eins og hæstv. viðskmrh. var að gera, um efnahagsástandið í landinu og annað slíkt, þótt maður sé reiðubúinn til að ræða það líka.

Hér er, eins og einmitt hv. 4. landsk. (IRH) lýsti áðan í sinni ræðu, um ákaflega þýðingarmikið stjórnarskrárlegt atriði og stjórnarfarslegt atriði að ræða, þar sem Alþingi þarf sannarlega að standa vörð um sinn rétt og um stjórnarskrá og lögin í landinu.

Hæstv. dómsmrh. færði fram þau rök hér áðan sem ein rök fyrir því, að það hefði nú verið gott að taka valdið af Alþingi og fela Seðlabankanum og ríkisstj. að skrá gengið, að þetta hefði verið ósköp óþægilegt á undanförnum árum og óskynsamlegt, að Alþingi hefði stundum kannske verið þrjár vikur að fjalla um eitt gengislækkunarfrumvarp. Þetta eru út af fyrir sig mjög skynsamleg rök frá hálfu hæstv. dómsmrh. Það voru bara ekki nein rök fyrir því, að það ætti að taka valdið af Alþingi nú í sumar, vegna þess að þeirri brýnu nauðsyn, sem ríkisstj. áleit að væri á að skrá nýtt gengi, var hægt að fullnægja með útgáfu brbl. um annað gengi, og kom ekkert því máli við, hvort það átti að taka það vald af Alþingi. Og ég vil, fyrst hæstv. dómsmrh. minntist á þetta og færði fram þau rök, að það væri óskynsamlegt og óeðlilegt, að Alþingi væri að fjalla kannske þrjár vikur um að breyta genginu í landinu, vegna þeirra áhrifa, sem það hefði á almenning, og gæfi braski undir fótinn og annað slíkt, — ég vil benda hæstv. dómsmrh. á, hvernig fór í sumar, þegar þetta vald var tekið af Alþingi og þegar ríkisstj. tók þetta vald í sínar hendur? Hvað gerðist þá? Var þá þagað? Kom þá ekkert fram um, að það ætti að lækka gengið? Pössuðu allir upp á að þegja þá, þeir sem eitthvað áttu að vita um þetta? Nei, það var síður en svo. Hver var það, sem slúðraði? Hver var það, sem hélt opinbera ræðu? Kannske það hafi verið einhver af ráðherrunum? Fór ekki sjálfur fjmrh. að þvaðra um, að það væri nauðsyn að lækka gengið? Hvað hefði verið gert við fjmrh. í Bretlandi, ef hann hefði talað þannig? Hann hefði sagt af sér undireins, tafarlaust, og verið álitinn óhæfur til þess starfs. En þegar fjmrh. hér á Íslandi fer að tala um, að það verði bara að lækka gengið, löngu áður en það er gert, þá er það víst álitin stjórnspeki. Mikið má vera, ef hann hefur ekki hækkað í tign á eftir. Ég held, að hann hafi jafnvel orðið varaformaður Sjálfstfl. Ég held, að það sé sannarlega þörf á því, þegar svona er farið að og einmitt þegar hæstv. dómsmrh. er búinn að gefa áminningu út af því, hve nauðsynlegt það sé, ef gengislækkun eigi að verða, þá fari hún fram skyndilega, án þess að nokkur maður tali um slíkt áður, að gefa hæstv. fjmrh. ærlega áminningu um að passa á sér munninn.

Ég held þess vegna, að það komi úr hörðustu átt, þegar hæstv. ríkisstj., — ég tala nú ekki um, ef það hefði verið sjálfur fjmrh., sem var að gefa okkur þessa áminningu, — fer að tala um, að það sé hættulegt að láta Alþingi fjalla um gengisskráningarvaldið og það sé svo óskaplega öruggt, ef þetta sé í höndum fjmrh. og ríkisstj., þá verði þagað svo vel.

Við skulum hins vegar ræða þetta mál, einmitt þetta sjálft stjórnarfarslega mál, sem hér er um að ræða, og það ýtarlega. Ég álít, að það verði ekki of ýtarlega rætt, vegna þess að hér séu á ferðinni mjög hættulegar tilhneigingar til þess að stjórna landinu meir og meir með einræði, stjórna landinu með brbl. og gera þingið meir og meir að aðila, sem eigi að samþykkja það, sem ein ríkisstj. hefur ákveðið, kannske með því að kalla hennar þm. saman á fund og kannske ekki.

Fyrsta atriðið, sem ég vil gera að umtalsefni í þessu sambandi, er sjálft löggjafarvaldið. Ég vil undirstrika það, að ríkisstj. sem slík hefur ekkert löggjafarvald, og nú vil ég biðja þá löglærðu menn, svo að ég taki mér í munn orð hæstv. landbrh., sem honum þykir svo vænt um að nota hér, að hafa í huga þá breytingu, sem varð á okkar stjórnarháttum við það, að lýðveldi var stofnað á Íslandi, því að mér virðist stundum á þeim umr., sem fram fara, að jafnvel sumir þm. og jafnvel sumir ráðh. geri sér þetta ekki fyllilega ljóst.

Með löggjafarvaldið á Íslandi fara skv. stjórnarskrá, 2. gr., Alþingi og forseti Íslands. Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið, og það er eingöngu þessara tveggja aðila að gefa út lög á Íslandi, og það er eingöngu og fyrst og fremst á ábyrgð þessara tveggja aðila að samþykkja lög og gefa út lög. Þó skal það fram tekið, eins og fram gengur náttúrlega af stjórnarskránni, að brbl. getur forseti ekki gefið út, nema einhver ráðh. undirskrifi. En það er vald forsetans að gefa út brbl. Í 28. gr. stjórnarskrárinnar stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út brbl. milli þinga.“

Þetta vald til brbl. er annars vegar vald Alþingis og hins vegar vald forseta. Ég vil taka það fram sem minn skilning, og þætti mér vænt um, að mér löglærðari menn segðu líka sitt álit í sambandi við þetta mál: Ég álít, að forseti geti neitað að skrifa undir brbl., sem ríkisstj. leggur fyrir hann, — það sé alveg ótvírætt. Ríkisstj. hefur ekki kröfu á því, að forseti undirskrifi brbl. Það er ekki vald, sem ríkisstj. getur framkvæmt sem slík. Forseti er skv. stjórnarskránni ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. En það að gefa út brbl. er ekki stjórnarathöfn, það er löggjafarstarf, þannig að þegar forseti undirskrifar brbl., tekur hann þar með á sig ábyrgð, ríkisstj. auðvitað líka, og hún ber þá hreinu stjórnmálalegu ábyrgð frammi fyrir Alþingi, en forsetinn tekur líka á sig ábyrgð. Það, að ég vil undirstrika þetta, stafar af því, að í stjórnarskrá lýðveldisins er forsetanum gefið það vald að geta neitað að staðfesta lög frá Alþingi og þar með skotið þeim lögum undir þjóðardóm og þjóðin þannig verið æðsti dómstóllinn um, hvort lögin skuli öðlast gildi áfram eða ekki, þótt þau hafi gildi þann tíma, sem líður, frá því að Alþingi hefur samþykkt þau og þangað til dómur þjóðarinnar fellur. Þetta vald var gefið forseta Íslands með sérstöku tilliti til þess, að það var ákveðið, að hann skyldi kosinn af þjóðinni, en ekki af Alþingi, þannig að hann átti að vera vörður þjóðarheildarinnar gagnvart Alþingi og gagnvart því, að Alþingi og þeir flokkar, sem þar kynnu að vera í meiri hluta, misnotuðu sitt vald á móti meiri hluta þjóðarinnar. Þetta var tilgangurinn með því, hvernig þeir, sem sömdu lýðveldisstjórnarskrána, orðuðu þessi mál og gengu frá þessu. Vald forseta er þess vegna mjög mikið á Íslandi, og vald hans til þess að neita að undirskrifa brbl. er að mínu áliti ótvírætt, enda væri óeðlilegt, ef hann gæti ekki neitað að undirskrifa brbl., þegar hann getur meira að segja skírskotað lögum, sem samþ. eru á Alþingi, til þjóðardóms.

Hins vegar var það svo, meðan við vorum konungsríki, að þá var ekki hugsanlegt, að konungur gæti neitað að undirskrifa brbl., vegna þess að konungsvaldið var aðeins formlegt vald, og það hefði brotið í bága við þingræðið, ef konungur Íslands hefði ætlað þá að nota sína aðstöðu til þess að neita að undirskrifa brbl. Ríkisstj. hafði þá þann raunverulega rétt til þess að gefa út brbl.

Á þetta vil ég leggja áherzlu, og ég vil gjarnan vita, hvort við erum ekki sammála um þennan skilning á stjórnarskránni og þessu valdi og þessari skiptingu valdsins, hvort sem það er í sambandi við þetta mál eða önnur mál, sem síðar kunna að koma, til þess að það sé ekki neinn efi um, hvernig valdskiptingin er, sem er grundvöllur fyrir okkar þjóðskipulagi.

Hér hefur verið talað um, að bráðabirgðalöggjafinn sé óbundinn. Hver er þá bráðabirgðalöggjafinn? Það er forsetinn, sem þó getur ekki notað valdið í þessu tilfelli, hvað brbl. snertir, nema einn ráðh. undirskrifi. Ég vil, að þetta komi greinilega fram, til þess að það sé augljóst, að ábyrgðin er þarna sameiginleg hjá forseta lýðveldisins og hjá ríkisstj., þegar brbl. eru gefin út. Þetta er ákaflega þýðingarmikið mál, af því að það varðar grundvöll að öllu okkar stjórnskipulagi.

Nú skulum við því næst athuga þá möguleika, sem opnast fyrir okkur í sambandi við umr. um þessi lög og beitingu þessa valds til að gefa út brbl. Það má að vísu allmikið deila um þetta vald, og það hefur aðallega verið af hálfu þeirra, sem reyna að verja þetta lagafrv., sem hér liggur fyrir, verið skírskotað til þess, að það hafi oft verið gefin út brbl. á Íslandi, sem hafi verið hæpin. Það getur verið rétt. Það afsakar í raun og veru ekki neitt, nema það minnir okkur hér á Alþingi á það, að við verðum þá að standa þarna betur á verði og við verðum að reyna að innleiða betri hætti í þessum efnum, svo framarlega sem okkur finnst of mikið að því gert að beita þessu valdi. Og nú vil ég taka það fram, að stjórnarskráin sem slík er að vísu ekki mjög nákvæm í þessum efnum. Það eru þessi orð, „brýn nauðsyn“, sem þarna eru, og þið hafið heyrt áðan þær túlkanir, sem hv. 4. landsk, las hér upp, einmitt eftir fyrrv. prófessor við lagadeild háskólans, sem nú skipar embætti forsrh., þannig að a.m.k. þeir, sem lögin hafa kennt í háskólanum, hafa viljað vera gætnir um þetta efni. Hins vegar sagði hæstv. forsrh. nú, að bráðabirgðalöggjafinn væri að öðru leyti algerlega óbundinn. Þetta er dálítið hættuleg yfirlýsing. Þetta er raunverulega yfirlýsing um það, að forseti og ríkisstjórn, ef þeir eru sammála, þá geti þessir aðilar gengið mjög langt í því að beita þessu valdi. „Brýn nauðsyn“ er náttúrlega út af fyrir sig mjög teygjanlegt hugtak.

Og þá vil ég aftur vekja athygli á því, að það er hægt, ef svona álit er haft á hlutunum, eins og hæstv. forsrh. kom hér með, að framkvæma meira og meira einræði innan ramma stjórnarskrárinnar, ef hún er svona skoðuð, og gera þingræðið hreinan skrípaleik. Við skulum bara segja, að hæstv. ráðherrar væru eitthvað óánægðir, t.d. með þá skipan mála, að þeim fyndist ganga hægt að koma á einkaauðvaldi í landinu, einkaframtaki og öðru slíku, sem ýmsir menn hafa haft áhuga á, og að alls konar ríkisrekstur og þjóðnýting væru allt of lengi að þvælast fyrir. Við skulum segja það, að ríkisstjórn og forseti kæmu sér saman um það einn góðan veðurdag, að Landsbanka Íslands skyldi breytt í hlutafélag með brbl., hlutafélag með skulum við segja 10 millj. kr. hlutafé og þessi hlutabréf yrðu boðin út þá þegar og t.d. öllum dugandi kaupsýslumönnum í landinu gefinn kostur á að kaupa þau á nafnverði, hvað þeir mundu suðvitað fljótt gera, því að þeir eru góðir „business“-menn í slíkum efnum. Og væri t.d. Alþingi lokið í marz og brbl. gefin út í apríl og í maí væri búið að gera Landsbankann að hlutafélagi og þetta 10 millj. kr. hlutafélag, sem góðir kaupsýslumenn hefðu eftir ágætri fyrirmynd, að dómi hæstv. landbrh. (IngJ), keypt hlutina í, væri búið að yfirtaka þessar 400 millj., sem Landsbanki Íslands á í skuldlausum eignum, og þeir væru farnir að stjórna því og stjórnuðu því fyrirtæki áfram. Svo kæmi Alþ. saman 10. okt., og í millibilinu væru kannske allir þingmenn stjórnarflokkanna orðnir góðir hlutafélagar í Landsbanka Íslands h.f. Hvernig stæði Alþ. að vígi að eiga að breyta þessu á eftir? Er eitthvað í stjórnarskránni, sem mundi hindra þetta, ef forseti og ríkisstj. væru sammála um það og álitu þetta brýna nauðsyn? Við skulum bara segja, að það hafi eitthvað verið að gerast í þjóðfélaginu, jafnvel kannske verið verkfall, og atvinnurekendur hafi kannske haft tilhneigingu til þess að semja við verkamenn og það hafi verið nauðsynlegt að kaupa atvinnurekendur frá því að semja við verkamenn og gefa þeim fríðindi og þeim hafi verið boðið upp á þetta, ef þeir vildu standa fast á móti. Það hefur vissulega komið fyrir hér, að ríkisstjórnir hafa viljað örva atvinnurekendur upp í að standa fast á móti því að semja við verkamenn. Ég man eftir t.d., að Framsfl, skoraði á atvinnurekendur í sept. 1944 mjög harðvítuglega að láta nú ekki undan verkamönnum. Það var um leið og hann hætti þátttökunni í fjögurra flokka samningunum, sem þá fóru fram um nýsköpunarstjórnina. M.ö.o.: Það geta komið fyrir mál, þar sem þjóðin og Alþ. á það einvörðungu undir heiðarleika forseta lýðveldisins og ríkisstjórnarinnar, hvað gert er í svona efnum.

Stjórnarskráin gerir satt að segja ráð fyrir tiltölulega miklum heiðarleika af hálfu stjórnarvalda. Og ef það fer að fara lítið fyrir þeim heiðarleika, þá er allt okkar þjóðskipulag í hættu. Ef farið er að misnota það vald, sem þessum mönnum sem fulltrúum þjóðfélagsins í heild hefur verið fengið í hendur, forsetanum og ríkisstjórninni, þá er allt þjóðskipulag okkar í hættu. Stjórnarskráin gerir ekki ráð fyrir, að menn misnoti valdið, sem þeim er gefið. Hún kveður að vísu á um landsdóm, en við vitum allir, að Alþ. hefur allan þann tíma, sem hann hefur átt að starfa, aldrei séð um að koma landsdómi í það form, að hann gæti í raun og veru starfað. Þess vegna vil ég leggja áherzlu á það, um leið og menn eru að ræða hér, hvað séu stjórnarskrárbrot og hvað stjórnarskrárbrot ekki, þá er annað atriði, sem þarna kemur inn í, og það er: Er hér um að ræða misnotkun valds af hálfu þeirra, er beita því, eða ekki? Og það er ekki síður stórt atriði í þessu heldur en hitt, sem við máske getum deilt heilmikið um, hvenær er stjórnarskrárbrot og hvenær ekki. En ótvírætt eftir þeim skýringum, sem núv. hæstv. forsrh. gaf sem lagaprófessor og voru lesnar upp áðan af hv. 4. landsk. þm., þá er útgáfa þessara bráðabirgðalaga stjórnarskrárbrot.

Þetta stjórnarskrárbrot er því verra, sem þetta stjórnarskrárbrot beinist beinlínis gegn Alþingi. Ég þykist vita, að það hefði verið rætt hér mjög harðvítuglega um af hálfu ýmissa flokka, ef það hefði verið um að ræða t.d. eignarnám á eigu einhvers stórfyrirtækis hér í landinu eða eitthvað annað slíkt, og það hefði verið rifizt mikið um, að þetta bryti í bága við eignarnámsparagrafinn í stjórnarskránni, eða ýmislegt annað þess háttar. En þegar um er að ræða að skerða vald sjálfs Alþingis, þá er hættulegt atriði á ferðinni, þar sem Alþ. verður vissulega að vera á verði. Það voru færð fram þau rök fyrir því af einum þeirra hæstv. ráðh., sem hér töluðu, að þm. stjórnarflokkanna hefðu komið saman, — ég veit ekki, hvort þetta er rétt eða ekki. Hafi svo verið, að þingmenn stjórnarflokkanna hafi komið saman og þeir verið spurðir að þessu og þeir samþykkt þetta, kannske einmitt samþykkt, að valdið væri tekið af Alþ., vegna þess að þeir hafi ekki viljað fá á sína ábyrgð að skrá gengið, þá liggur mér við að spyrja: Er ekki hér verið að gera samsæri gegn Alþ.? Og hvað er það, sem stjórnarskráin uppáleggur þingmönnum í þessu sambandi? Stjórnarskráin, í 48. gr., uppáleggur þingmönnum, að þeir séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína. Stjórnarskráin uppáleggur þingmönnum að ráða málum til lykta eftir að hafa hlustað á mál manna og myndað sér skoðanir á málunum. Hvað er það, sem gerist, þegar ein ríkisstjórn kallar sína stjórnarflokka saman á milli þinga til að leggja fyrir þá einhver mál, sem hún ætli sér að gefa út? Það þýðir, að stjórnarþingmennirnir fá ekki að heyra málið nema frá einni hlið, venjulega kannske á einum einasta fundi, og standa undir meira eða minna áhrifavaldi frá hálfu sinna forustumanna til þess að beygja þá undir að samþykkja slíkt, alveg þveröfugt við það, sem mundi vera, svo framarlega sem þeir fengju tækifæri til að ræða þessi mál á Alþ. Ég álít, að slíkt sé aldrei nein afsökun, enda dæmi um það, að þeir menn, sem á slíkum skyndifundum hafa fallizt á viss bráðabirgðalög og bráðabirgðaráðstafanir, hafa horfið frá þeim málum á eftir, þegar þeir athuguðu málið.

Ég vil nú leyfa mér að staðhæfa það, að þessi brbl. séu svo fjarri því að vera í samræmi við stjskr. og í samræmi við það, að stjórnin hafi treyst sér til að hafa meiri hluta á Alþingi fyrir þessum verknaði, ef hann væri framkvæmdur, eftir að Alþ. kæmi saman, að ég held einmitt, að hæstv. ríkisstj. hafi gefið út þessi brbl. vegna þess, að hún treysti sér ekki til þess að koma þeim gegnum þingið, þegar þing væri kallað saman og málið lagt fyrir það. Ég leyfi mér að staðhæfa það. Ég held, að hér sé þess vegna ákaflega mikil hætta á ferðinni. Allt stjórnarfar viðreisnarinnar er að komast í þá aðstöðu á Íslandi, að það þolir ekki lengur þingræðisleg vinnubrögð. Það grípur meir og meir til einræðisaðgerða í þessum málum. Það er hins vegar engum vafa bundið, að slíkar einræðistilhneigingar, svo lengi sem forseti og ríkisstjórn eru sammála, þá er hægt að reyna að rýma þær innan stjórnarskrárinnar. Ég nefndi sem dæmi hér áðan, ef Landsbankanum væri breytt svona með brbl. Ég býst við, að flestum mundi finnast það í dag vera fjarstæða að láta sér detta slíkt í hug, og það væri gífurleg valdskerðing gagnvart Alþ. og gagnvart þjóðfélaginu í heild, ef slíkt væri gert. En það mætti alveg jafnt verja það gagnvart stjórnarskránni eins og þessi lög, sem voru gefin út 1. ágúst í sumar.

Hæstv. forsrh. ræddi það síðan nokkuð, að þótt Alþ. hefði neitað lagagreininni, 2. gr., sem var í gengisskráningarlögunum 1950, þar sem Landsbankanum var uppálagt að skrá gengið þegar kaupgjald breyttist, þá þýddi það ekki, að Alþ. mundi neita þessum lögum eða það væri í ósamræmi við vilja Alþingis að hafa gefið út þessi brbl. í sumar, vegna þess að þetta ákvæði stæði ekki þar í. Þetta er nú anzi mikil hártogun. Sannleikurinn er, að þessi brbl. voru auðsjáanlega gefin út í sumar og valdið afhent Seðlabankanum til þess að framkvæma það, sem fyrirhugað var í 2. greininni um gengisskráningarfrv. 1950, að breyta genginu, þegar kaupinu væri breytt, enda er það aðalforsendan hjá hæstv. viðskmrh. í hans skilgreiningu til forseta lýðveldisins, að kauphækkanir hafi farið fram og þess vegna þurfi að breyta, þess vegna þurfi að taka valdið af Alþ. og skrá nýtt gengi. Það er því hálffurðulegt af hæstv. forsrh. að koma með slíkt.

Nú skulum við víkja að því, sem hæstv. viðskmrh. sagði um þetta mál. Hann viðhafði þessa sömu sófistísku röksemd og hæstv. forsrh., að alþýðusamtökunum hafi verið illa við gengisskráningarákvæði í gengisskráningarlögunum, 2. greinina 1950, vegna þess, að þar hafi verið uppálagt Landsbankanum að skrá gengið að nýju, svo framarlega sem kaupgjald breyttist, og þess vegna hafi þessu verið breytt þá. En hvað gerir hann einmitt sjálfur núna? Hann fer sjálfur fram á það, að vegna þess að kaupið hafi hækkað, þá sé valdið tekið af Alþ. um að skrá gengið og fengið í hendur Seðlabankanum, og ríkisstjórnin, sem hefur valdið yfir bankastjórum Seðlabankans og á líka eftir þessum brbl. að hafa hönd í bagga með gengisskráningunni, skráir síðan gengið þannig, að fyrir útlendan atvinnurekanda er hækkunin á þeim útlenda gjaldeyri nákvæmlega jafnmikil og afturhaldsblöðin hér héldu fram að kaupið hefði hækkað, þannig að það er einmitt verið að framkvæma það, sem alþýðusamtökin mótmæltu 1950, með þessum gengisskráningarlögum.

Hvað sagði hæstv. viðskmrh. sjálfur um þessi lög, þegar þau voru til umræðu í marz 1950? Hann sagði eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta, — það var 15. marz 1950, þá var Gylfi Þ. Gíslason aðeins þingmaður, en ekki viðskmrh.:

„Þá er gert ráð fyrir því í 2. gr., að Alþ. afsali sér þýðingarmiklu valdi, sem það hefur haft allt frá 1924 til að ráða gengi krónunnar, og Landsbankanum fengið það í hendur. Ég álít, að það komi ekki til mála, að Alþ. afsali sér þessum rétti.“

Þetta segir hann almennt, að það komi ekki til mála, að Alþ. afsali sér þessum rétti. Svo bætir hann við:

„Sérstök ástæða er og til að gagnrýna, hvernig komizt er að orði í niðurlagi þessarar greinar, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: Landsbanka Íslands er skylt að taka sérstaklega til athugunar gengisskráningu íslenzkrar krónu, þegar almenn breyting verður á kaupgjaldi, önnur en sú, sem kveðið er á um í lögum þessum.“

Og síðan heldur núv. hæstv. viðskmrh. áfram: „Nú er hagfræðingum þeim, sem undirbjuggu þetta frv., auðvitað ljóst, að kaupgjald getur haft áhrif á gengið. En þeim hlýtur líka að vera ljóst, að þar er aðeins um að ræða einn þátt af mörgum, sem áhrif hafa á gengið, og alls ekki hinn mikilvægasta, heldur eru það markaðsskilyrði og framleiðslugeta þjóðarinnar í heild. En hvað á það þá að þýða að nefna kaupgjaldið eitt? Með þessu er verið að hóta launþegasamtökunum í landinu. Það er ekki verið að tala um að breyta genginu, ef verðlag breytist erlendis, en því er hótað, að gengisbreyting skuli verða framkvæmd, ef kaupgjald hækkar. Það hafa engin samráð verið höfð við launþegasamtökin í sambandi við þetta frv., og er það illt. Hitt er þó verra, að í því skuli felast slíkar hótanir í garð launþegasamtakanna. Ég hef af þessum ástæðum leyft mér að bera fram á þskj. 429 brtt. um, að þessi grein skuli felld niður.“

Þetta var afstaða hæstv. viðskmrh. 1950. Í fyrsta lagi var hann á móti því að taka úr höndum Alþ. það vald til að skrá gengið, sem það hafði haft frá 1924. í öðru lagi var hann sérstaklega á móti því, að það væri gefið í skyn eða mælt svo fyrir, að endurskoða skyldi gengisskráningu, svo framarlega sem kaup hefði hækkað. En hvað er það, sem hann gerir nú sem viðskmrh.? Hann leggur til við forseta Íslands, að einmitt ráðstafanir skuli gerðar til að breyta genginu, vegna þess að miklar kauphækkanir hafi orðið. Það, sem hann var að berjast á móti sem hótunum í garð launþegasamtakanna 1950, það framkvæmir hann sem hefndaraðgerðir gegn launþegasamtökunum 1961. Það er ekki gott að sitja lengi í ráðherrastól, ef menn þróast á þennan veg.

Hins vegar var hann ekki einn um það, þó að hann væri með róttækustu mönnum Alþfl. 1950, að hafa þessa skoðun. Það voru menn, þegar hæstv. viðskmrh. var vinstra megin í Alþfl., það voru menn, sem voru hægra megin í honum og höfðu samt mjög svipaðar skoðanir. Ég skal t.d. minna á það, sem fyrrv. hæstv. forsrh. landsins, Stefán Jóh. Stefánsson, form. Alþfl. þá og alllengi, sagði í sinni ræðu um þetta mál, 1950, 27. febr., með leyfi hæstv. forseta:

„Því er haldið fram af hæstv. fjmrh. og í grg., að þetta vald sé víða,“ — hann er að tala um valdið til að skrá gengið eða færa það yfir til Landsbankans, — „að þetta vald sé víða í höndum ríkisstjórna og þjóðbankans, og vefengi ég það ekki. En það er nokkuð annað, þegar valdið hefur um tugi ára verið hjá Alþ. Þá er það mikil og alvarleg breyting að fá það í hendur ríkisstj. á hverjum tíma, og ekki sízt af því, að stjórnmálabaráttan hér er harðari, óvægari og miskunnarlausari en víðast hvar annars staðar, og ríkisstjórn gæti dottið í hug að nota þetta vald, þótt hún vissi sig með því ganga á móti meiri hluta fólksins í landinu.“ — Ég vil vekja athygli á því, að það eru orð Stefáns Jóh. Stefánssonar, sem ég er að lesa. — „Þar sem stjórnmálahættir eru þroskaðir og þar sem ríkisstjórnir gera sér fulla grein fyrir ábyrgð sinni og þar sem enn fremur stjórnarandstaðan gerir sér ekki síður grein fyrir sinni ábyrgð, þar er síður hætta á, að þetta vald verði misnotað. Ég óttast meira, að það verði misnotað hér í hinni óvægu flokkabaráttu, og í huga verkalýðsins og launastéttanna mundi það vekja ugg um það, að hverri þeirra tilraun til betri kjara yrði svarað með gengislækkun þegjandi og hljóðalaust, en slíkt gæti leitt til baráttu, er orðið gæti afdrifarík og hættuleg íslenzku þjóðlífi. Ég vil því mjög gagnrýna ákvæði 2. gr. og tel ákvæði hennar óskynsamleg hér á landi og ólíkleg til þess að leggja varanlegan grundvöll að viturlegum ráðstöfunum til úrlausnar á verðbólgu og dýrtíðarmálum þjóðarinnar.“

Þetta voru orð fyrrv. forsrh. landsins, Stefáns Jóh. Stefánssonar, 27. febr. 1950. — Hæstv. viðskmrh. má fara að athuga sinn gang, þegar hann er kominn svona langt hægra megin við Stefán Jóh. Stefánsson, sem hann einu sinni í æsku sinn var svo stoltur af að vera alllangt vinstra megin við, og raunar flæmdi þann mann út úr Alþfl. og forustustöðu þar sökum þess, hve langt Stefán Jóh. Stefánsson væri orðinn til hægri í þeim flokki. En svona gengur nú lífið, að nú er hæstv. viðskmrh. kominn það langt til hægri í því nýja samfélagi, sem hann hefur öðlazt sess í, að hann er nú farinn að gera ekki aðeins það, sem hann sjálfur áleit ófært, heldur líka það, sem þessi kunni hægri forustumaður Alþfl. áleit ófært og varaði við fyrir ellefu árum.

Ég get haldið áfram þessum tilvitnunum. Haraldur Guðmundsson talaði á sama veg. Og í þeirri atkvgr., sem fram fór hér í Nd. Þá, fyrir ellefu árum, stóð allur Alþfl. með þeirri tillögu, sem við þá fluttum, sósíalistar og Alþfl.-menn, Ásgeir Ásgeirsson, núv. forseti lýðveldisins, líka. Eins og menn muna, urðu stjórnarskipti, á meðan á þessu stóð, og það var síðan í efri deild, að það tókst að fá það fram, að Framsfl. gekk inn á að breyta þessum ákvæðum.

Það er þess vegna alveg greinilegt, að þeir menn, sem á undanförnum áratugum hafa hugsað af fullri alvöru um þessi mál og viljað standa þarna á verði um rétt Alþ., hafa varað við því að taka þetta vald úr höndum Alþ. Og alveg fráleitt mundi öllum slíkum mönnum hafa fundizt að gera slíkt þar að auki með brbl., enda er það yfirleitt sá verknaður, sem hörmulegast er að hæstv. ríkisstj. skuli hafa farið inn á, því að með því móti er hún að taka upp þær aðferðir, sem áður voru mest kenndar við Hitler, að stilla þingmönnum og Alþ. frammi fyrir gerðum staðreyndum og beygja síðan sína þingmenn með alls konar aðferðum til þess að samþykkja það, sem þeir ella hefðu ekki samþykkt.

Þá kemur að þeim þætti í þessu máli, sem snertir sérstaklega ábyrgð hæstv. viðskmrh. Hann átti að sanna hæstv. forseta landsins, að það væri brýn nauðsyn á að gefa þessi brbl. út. Hann kemur með þrjár röksemdir, þegar hann er að lýsa þessu, og ábyrgð ráðh. er vissulega mjög mikil í þessum efnum, vegna þess að hann er sá aðili þingkjörinn, sem þarf að undirskrifa með forseta, til þess að forseti geti beitt þessu valdi. Hæstv. viðskmrh. segir í rökstuðningnum til forsetans, með leyfi hæstv. forseta, að áhrif kauphækkananna muni á skömmum tíma breiðast um allt hagkerfið. Og síðan segir hann fleira þarna, sem ég skal fara nokkuð út í. Ég vil taka það mjög greinilega fram, að ég er ekki að firra hæstv. ráðh. og ríkisstj. neinni ábyrgð, þó að ég álíti, að forseti landsins beri ábyrgð með þeim á þessu. Það er gefið, að ef ríkisstj. hefði sagt forsetanum satt, þá hafði hann ekki ástæðu til að gefa út þessi lög á þennan veg, sem hann gerði. Og það, sem ég álasa þessari hæstv. ríkisstj. og sérstaklega hæstv. viðskmrh. fyrir, það er, að hann hafi sagt ósatt, það hafi verið möguleiki til þess að ráða við þá hluti, sem hann nú færir fram sem rök. Það gildir enn þá, þó að við höfum forseta, að það er slæmt, ef „Herlegdáð“ lýgur að kónginum. Það er vert að hæstvirtir ráðh. geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð, sem á þeim hvílir í þessu efni.

Í fyrsta lagi segir hæstv. viðskmrh.: „Áhrif kauphækkananna munu á skömmum tíma breiðast um allt hagkerfið og valda almennri hækkun framleiðslukostnaðar.“ Er þetta rétt? Hvað var það, sem hafði gerzt, þegar samið var um kaupgjaldið?

Það, sem hafði gerzt, var það, að t.d. Dagsbrún hafði samið um hækkun, sem samsvaraði á ári, ef ég man rétt, eitthvað 5000 kr. fyrir 8 tíma vinnudag. Ef maður reiknar með 3000 Dagsbrúnarmönnum, er það 15 millj. kr. breyting. Og ef maður reiknar með samsvarandi hækkun hjá öllum öðrum, sem stóðu í verkfallinu, gæti þetta kannske verið breyting upp á 34–40 millj. Þetta er það, sem hafði gerzt. Og þetta var það, sem lá fyrir. Hæstv. viðskmrh. segir, að þessi áhrif muni á skömmum tíma breiðast um allt hagkerfið. Hver segir það? Hver segir, að það breiðist um allt hagkerfið? Það eina, sem liggur fyrir, er, að tilfærsla um 30 millj. kr. fer þarna fram. Jú, ef hæstv. viðskmrh. álítur, að ýmis félög, sem ekki fóru í verkföll, við skulum segja t.d. Iðja hér í Reykjavík, hafi ætlað að fara í verkfall, þá þurfti hún sinn frest um það allt saman, og við gátum þá séð það og látið hana fara í verkfall. Eða hins vegar ef iðnrekendur vildu án verkfalls verða við því að hækka kaup, þá Þeir um það. Hvað snertir hin atriðin, hvort ætti t.d. að hækka við starfsmenn ríkisins, það var atriði, sem gat verið mjög sanngjarnt og er það að mínu áliti. En það lá ekki fyrir sem alveg óhjákvæmilegt strax á því augnabliki, að það yrði að gerast t.d. undireins í júlí, og því síður, að það þyrfti að verða við því að hækka almennt álagningu eða eitthvað annað slíkt. M.ö.o.: þetta voru staðlausir stafir, sem þarna var verið að segja. Það eina raunverulega, sem fyrir lá á þessu augnabliki, var, að teknatilfærsla upp á 30 millj. kr. eða svo mundi fara fram. Það setti sannarlega ekki þjóðfélag, sem hefur 7000 millj. veltu á ári, á höfuðið, þannig að þetta var ekki satt, sem þarna var verið að segja.

Þá sagði hæstv. viðskmrh., að þetta mundi hafa í för með sér versnandi afkomu útflutningsatvinnuveganna. Hver segir, að þetta þurfi að hafa í för með sér versnandi afkomu útflutningsatvinnuveganna? Það lá fyrir margsannað á þessum sama tíma, að bara með nokkurri vaxtalækkun væri hægt algerlega að vega upp á móti þeirri kauphækkun, sem fram hefði farið, þannig að hagur útflutningsatvinnuveganna væri jafngóður eftir sem áður. Þarna er verið að segja forsetanum ósatt í rökstuðningi brbl. Og svo er því bætt við, að það þurfi að koma í veg fyrir atvinnuleysi og gjaldeyrisskort og þess vegna þurfi að gefa út þessi brbl. Hver sannaði það, að atvinnuleysi og gjaldeyrisskort mundi leiða af þessu? Hæstv. ríkisstj. hefur stært sig mjög af því, að það hafi ekkert atvinnuleysi verið á hennar tíma, og við höfum til allrar hamingju á þessum síðustu 20 árum, t.d. hér syðra, haft lítið af atvinnuleysi að segja venjulega nema tvö ár, sem álíka stjórn sat að völdum og sú, sem nú er. Og það lá ekkert fyrir, að það væri að brjótast út atvinnuleysi þess vegna. Hvað snertir gjaldeyrisskort, hver segir, að hafi þurft að breyta genginu til þess að koma í veg fyrir gjaldeyrisskort? Það hafa í 30 ár verið notaðar aðrar aðferðir til þess á Íslandi, að hafa eftirlit með innflutningi.

M.ö.o.: ekkert af þessu, sem hæstv. viðskmrh. heldur þarna fram, voru nein rök gagnvart forseta Íslands um að gefa út brbl. í þessu efni.

Hvað var það, sem átti að gera, svo framarlega sem ríkisstj. áleit, að hér væri hætta á ferðum? Ef ríkisstj. áleit, að það væri sú hætta á ferðum, að það yrði atvinnuleysi, að það yrði gjaldeyrisskortur, að það mundu breiðast út um allt þjóðfélagskerfið alls konar vandræði, sem mundu leiða af sér hrun, miklar kauphækkanir og almenn hækkun á framleiðslukostnaði og allt mögulegt annað slíkt, hvað var það, sem hæstv. ríkisstj. þá átti að gera? Það, sem hæstv. ríkisstj. átti að gera, var að kalla saman Alþingi. Ég beindi því til ríkisstj. sem formaður þingflokks Alþb. þá í samráði við minn þingflokk, að þetta yrði gert. Ég gekk á fund hæstv. forsrh. 26. júlí og flutti honum þessi tilmæli, þessa kröfu og staðfesti það með bréfi daginn eftir. Ég vil leyfa mér að lesa upp þetta bréf, til þess að það komi hér í þingtíðindin. Ég veit að vísu ekki, hvað vel ríkisstj. hefur rætt það, en ég vil þó vekja athygli hennar á, að svo fremi sem hún hefði farið að þeim ráðum, sem henni voru þá gefin, þá hefði hún losnað við mest af því, sem við nú stöndum frammi fyrir, og við þá leiðu framkvæmd, sem hún hefur orðið sek um, að gefa út þau einræðissinnuðu lög, sem við hér erum að ræða. Bréf þingflokks Alþb. 27. júlí til hæstv. ríkisstj. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Hér með leyfi ég mér, herra forsætisráðherra, að staðfesta með þessu bréfi samtal okkar klukkan 11.15 í gær, 26. júlí, þar sem ég bar fram þá kröfu fyrir hönd þingflokks Alþýðubandalagsins, að Alþingi væri kvatt saman til aukafundar hið bráðasta, og vil ég um leið ítreka rökstuðning vorn fyrir þeirri kröfu.

Af hálfu stuðningsblaða ríkisstj. og málsmetandi manna úr hópi stuðningsmanna hennar hafa verið bornar fram kröfur um, að allt verðlag í landinu sé hækkað verulega, og því jafnvel verið lýst yfir af sjálfum fjmrh., að ný gengislækkun sé óhjákvæmileg. Ríkisstj. hafði áður lýst yfir því sem stefnu sinni að leyfa engar verðhækkanir á innlendum vörum og þjónustu vegna launahækkana og ítrekað þá stefnu sína, að atvinnurekendur og verkamenn verði að semja um kaupgjald, án þess að kauphækkunum sé hleypt út í verðlagið, atvinnurekendur yrðu að standa á eigin fótum og bera sjálfir þær kauphækkanir, er þeir samþykkja. Og sýnist nú hætta á, að horfið verði frá þessari stefnu, sem verkalýðssamtökin hafa treyst á að fylgt yrði, eftir að búið var að afnema með lögum kaupbætur samkvæmt vísitölu. Álítum vér óhjákvæmilegt, að Alþingi verði til kvatt, áður en nokkur slík stefnubreyting yrði ákveðin.

Jafnframt viljum vér leiða athygli hæstv. ríkisstj. að eftirfarandi staðreynd í sambandi við kaupgjaldsmálin, eins og þau standa nú: Tímakaup Dagsbrúnarmanna er nú 22.74 kr. samkvæmt nýgerðum kaupsamningum, en var í desember 1958 og janúar 1959 23.86 kr. Kaupgjaldið þyrfti því enn að hækka um 5% til þess að ná því kaupgjaldi í krónutölu, sem var fyrir 2½ ári. En frá því í marz 1959 þar til í júlí þessa árs hefur verðlag á vörum og þjónustu hækkað um 19% án nokkurrar verðlagsuppbótar. Þessar tölur sýna, hve fráleitt það væri og ranglátt að ætla nú að beita ríkisvaldinu til þess að rýra kjör almennings frá því, sem nú hefur verið um samið í frjálsum samningum, enda augljóst, að slíkar ráðstafanir hlytu að kalla á nýjar gagnráðstafanir verkalýðssamtakanna. Jafnframt er rétt að minna á vegna fyrri yfirlýsingar ríkisstj., að kaupgjald íslenzkra verkamanna er eftir nýafstaðnar kauphækkanir lægra en stéttarbræðra þeirra á Norðurlöndum, að sérstakt góðæri er nú um síldarafla, meira en verið hefur um tvo áratugi, og að verðlag á útflutningsvörum fer hækkandi, aðalútflutningsvörurnar hafa hækkað um 10–30%. Öll rök hníga þess vegna að því, að áður en tekið væri að beita ríkisvaldinu til þjóðhættulegra verðhækkana, beri að kveðja Alþingi saman til þess að gefa því kost á að taka ákvarðanir í þessum stórmálum og marka stefnuna.

Þá viljum vér leggja áherzlu á það, að vér ætlum, að ástand ríkissjóðs, ráðstöfun þjóðarframleiðslunnar og ástandið í sölumálum útflutningsins, ekki sízt hvað síldina snertir, geri það og mjög brýnt, að Alþingi fjalli um þau mál öll nú þegar.

Síðast, en ekki sízt, viljum vér ítreka þær kröfur, sem fram hafa verið bornar af hálfu fulltrúa þingflokksins í utanrmn. um, að Alþingi verði kallað saman nú þegar vegna þeirra samninga um landhelgina, sem gerðir hafa verið, eftir að Alþingi lauk.

Virðingarfyllst,“

Undirskrifað af 7 þm. Alþýðubandalagsins. M.ö.o.: áður en ríkisstj. þann 1. ágúst gaf út brbl., var búið að flytja henni þau tilmæli frá þingflokki Alþb., að Alþingi yrði kallað saman, einmitt vegna þess, að yfirlýsingar höfðu verið gefnar út, m.a. af hæstv. fjmrh., um, að gengislækkun væri óhjákvæmileg. Ríkisstj. hafði aðstöðu til þess og henni hafði verið bent á þá leið, sem var sú eina rétta stjórnarfarslega leið, þegar ríkisstj. allt í einu tók upp á því að gerbreyta um alla stefnu, hverfa frá öllum sínum stefnuyfirlýsingum, að kalla saman Alþingi og leggja það undir þess dóm. Þetta var farið fram á við ríkisstj. Þetta gerði hún ekki.

Hvernig stóð á því, að hæstv. ríkisstj. vildi ekki fallast á þetta? Ríkisstj. hafði lýst því yfir, — og þá komum við að því pólitíska atriði í sambandi við þessi mál, — ríkisstj. hafði lýst því yfir, þegar hún tók við völdum, og marglýst því yfir á sínum stjórnarferli fram að ágúst í sumar, að kaupgjaldssamningar væru atriði, sem verkamenn og atvinnurekendur yrðu einir að eigast við um. Atvinnurekendur yrðu sjálfir að bera ábyrgð á sínum gerðum: Ríkisstj. ætlaði ekki að láta kauphækkanir, sem þeir kynnu að samþykkja, fara út í verðlagið. Og þeir ætluðu ekki, hvorki með uppbótum né gengislækkunum, að bæta sjávarútveginum það upp, ef hann semdi um það, sem að sumra dómi kynnu að vera óskynsamlegir samningar í slíkum efnum. M.ö.o.: það átti að kalla íslenzka atvinnurekendastétt til ábyrgðar. Ríkisstj. ætlaði að sýna henni það, að hún yrði að standa á eigin fótum. Þetta var stefna ríkisstj. Og þetta var, eins og ég hef stundum í öðru sambandi komizt hér að orði, — þetta var e.t.v. þó það skásta í hennar stefnu, að láta atvinnurekendur bera ábyrgð á sínum gerðum og láta þá án þess að fá einhverjar verðlagsuppbætur eða verðhækkanir verða að laga sinn atvinnurekstur að því, með því að skapa slíkar framfarir í atvinnurekstrinum, að þeir stæðu undir kauphækkununum, sem þeir semdu um.

Hvað veldur því þá, að ríkisstj. allt í einu breytir þarna um stefnu, gerbreytir um stefnu? Hafði ríkisstj. máske frá upphafi skoðað sig sem fulltrúa atvinnurekenda einna saman og litið svo á, að atvinnurekendastéttin í landinu mundi vera nægilega sterk til þess að geta brotið verkalýðssamtökin á bak aftur í átökum? Hafði hún litið þannig á, að atvinnurekendastéttin ætti í fullu tré við verkalýðssamtökin og þess vegna væri óhætt að láta þessar tvær stéttir eigast við á þó þessum erfiða vettvangi, sem það er fyrir verkalýðssamtökin að þurfa að standa í löngum verkföllum, því að ekki hefur það spurzt, að atvinnurekendur hafi soltið, þegar verkföll hafa verið, en sorfið hefur að mörgum verkamannafjölskyldunum, þegar þær hafa verið að berjast fyrir sínum rétti? Hafði ríkisstj. treyst á, að atvinnurekendurnir gætu sigrað verkamenn í átökunum? Hafði hún haft bak við tjöldin samráð um þá harðvítugu, óskynsamlegu pólitík, sem Vinnuveitendasamband Íslands framfylgdi í þessum vinnudeilum í sumar, og ætlazt til þess, að atvinnurekendastéttin gæti sigrað, gæti brotið verkalýðinn á bak aftur? Og hafði ríkisstj. þess vegna m.a. beitt valdi sínu í sambandi við síldarverksmiðjur ríkisins til þess að reyna að hindra það, að síldarvertíðin kæmist í gang á Norðurlandi? Ef svo hefur verið, að ríkisstj. hafi gengið út frá því, að í þessum frjálsu átökum, þessum frjálsu samningum mundu atvinnurekendur sigra, þá er afstaða hennar skiljanleg, þá sem sé hugsar hún sem svo: Ég treysti á, að atvinnurekendur sigri verkamenn, og þess vegna lýsti ég því yfir, að ég mun láta alla þeirra samninga afskiptalausa: — Svo kemur það á daginn, að verkamenn sigra að þeirra áliti og atvinnurekendur verða í frjálsum samningum að fallast á kauphækkun, sem allur þorri atvinnurekenda lýsti yfir að hann gæti staðið við án nokkurrar verðhækkunar, en sumir vildarvinir ríkisstj. e.t.v., sem allan tímann heimtuðu meiri gengislækkun, hafa sagt: Nú skulum við nota tækifærið og lækka gengið. Sem sé, kastaði ríkisstj. þá allt í einu grímunni, þegar hún sá, að atvinnurekendur að hennar áliti biðu ósigur, og sagði: Fyrst þið bíðið ósigur á sviði hinnar faglegu baráttu, skulum við grípa til okkar pólitíska valds og skakka leikinn? — Ef svona hefur verið, var þetta skiljanlegt út frá því sjónarmiði, að ríkisstj. hafi skoðað sig frá upphafi sem verkfæri harðsvíruðustu atvinnurekendanna í landinu, treyst á, að þeir gætu brotið verkalýðssamtökin á bak aftur, ákveðið þess vegna að beita svo ríkisvaldinu, þegar hún sá, að þeir gætu ekki gert það. Þá hafa sem sé allar yfirlýsingar ríkisstj. í tvö ár verið ósannindi, verið hræsni og yfirvarp. Þá hefur allan tímann ekkert annað búið þarna á bak við en það, að ríkisstj. ætlaði sér að láta vald atvinnurekendanna í landinu verða sterkara en vald verkalýðsins, en treysti á, að það vald yrði sterkara í þeim faglegu átökum, og þegar sú von hennar brást, ætlaði hún að sýna, að hennar ríkisvald væri þó nógu sterkt til þess að geta skakkað þarna leikinn.

Ef þetta er meining ríkisstj. og svona á að halda áfram, þá vil ég segja það við hæstv. ráðh., að þá stefna þeir beint til einræðis og harðstjórnar á Íslandi. Ef ríkisstj. ætlar að taka sér dómsvaldið um það, hvað atvinnurekendastétt landsins þoli, og segja í hvert skipti, sem að hennar áliti er gengið inn á meira kaupgjald en hún álítur að atvinnurekendastéttin eða einhver hluti hennar þoli, þá ætli hún að beita ríkisvaldinu á móti, þá er verið að gera það að þrælkunarvaldi gagnvart verkalýðnum. Hæstv. ríkisstj. veit, að það voru með stærstu atvinnurekendum í landinu, sem lýstu yfir í sumar, að þeir þyrftu enga verðlagsbreytingu út á þá kauphækkun, sem þeir höfðu samið um. Samband ísl. samvinnufélaga hafði lýst yfir, að það þyrfti enga kauphækkun út á það, sem það hafði samið um viðvíkjandi iðnaðinum. Hvað þýddi þess vegna það, sem ríkisstj. var að gera? Var það það, að hún sæi fram á, að ef frjáls samkeppni fengi að halda áfram, þá mundu samvinnusamtökin leggja undir sig atvinnureksturinn í landinu? Og ég vil þá spyrja: Máttu þau þá ekki gera það, ef þau voru færari um að reka atvinnureksturinn í landinu heldur en einkareksturinn? Átti þetta að verða ráðstöfun til þess að skakka leikinn og tryggja það, að einkareksturinn, sem þyldi ekki að borga sama kaup og samvinnusamtökin, gæti fengið þarna sérstakar uppbætur á kostnað allrar þjóðarinnar? Það er bezt, að hæstv. ríkisstj. skýri, hvað það er, sem hún meinti með þessu, sú ríkisstj., sem margsinnis hafði lýst því yfir, að hún mundi láta þessi mál afskiptalaus. Ríkisstj. hafði lýst því yfir, að hún ætlaði sér að skapa trú á gildi íslenzku krónunnar, hún ætlaði að skapa trú hjá almenningi í landinu, að hann ætti að leggja sitt sparifé inn í bankana og treysta á að fá ekki miklu verri krónur til baka. Hún rauf öll þessi heit sín. Hún brást öllum þeim sparifjáreigendum í landinu, sem hún hafði verið að reyna að skapa trú á gildi krónunnar hjá. M.ö.o.: ríkisstj. braut alveg við blað, hvað hennar yfirlýsingar snertir, fór þarna inn á harðstjórn, sem hlýtur auðvitað ekki aðeins að kalla á pólitíska mótspyrnu á Alþingi og kalla á það, að allir þeir, sem vilja vernda lýðræði og þingræði, sameinist á móti svona aðferðum, heldur hlýtur líka óhjákvæmilega að kalla á nýjar aðgerðir af hálfu verkalýðssamtakanna, eins og nú þegar liggur fyrir og eins og nú þegar er samstaða um hjá verkalýðssamtökunum — og ekki aðeins þeim, heldur hjá flestum starfsmannasamtökunum í landinu. Ég býst við, að það sé að verða tímaspursmál bráðum, hvenær meira að segja þau samtök í landinu, sem hafa ekki verkfallsrétt, fara að neyðast til þess að beita verkfallsrétti, ef eins heldur áfram og nú er.

Hæstv. ráðh., sem hér hafa talað, hafa reynt að sýna fram á það í alllöngum umræðum, sem raunar heyra undir næsta mál á eftir á dagskránni, að atvinnurekendur hefðu ekki getað staðið undir þessu. Það er hrein vitleysa, og það var sannarlega tími til kominn, að það yrði skapað eitthvert aðhald að atvinnurekendunum í landinu um að standa undir því kaupgjaldi, sem þeir semja um. Einmitt því aðhaldi er ríkisstj. að sleppa með þessum ráðstöfunum. Ríkisstj. hafði talað um það mörgum fögrum orðum,að nú yrðu atvinnurekendur að standa á eigin fótum, þetta marghataða og margrætna uppbótakerfi yrði nú loksins að hverfa, atvinnurekendur yrðu að standa á eigin fótum. Það var talað um það eins og væri verið að básúna út einhvern fagnaðarboðskap, að nú yrðu atvinnurekendur endilega að fá að fara á hausinn. Því var jafnvel lýst, ég held af hæstv. viðskmrh., að það hefði verið slíkt ófremdarástand í landinu, að það hefðu mjög fáir atvinnurekendur farið á hausinn s.l. 20 ár. Nú áttu þeir svei mér að fá að fara á hausinn. Og ég efast ekki um, að þeir hafi gengið á hausnum sumir atvinnurekendur, a.m.k. hérna í deildinni hjá okkur, gengið á hausnum og bankaskuldunum og það í allmörg ár. En þeir eru ekki settir á hausinn enn þá af hæstv. ríkisstj. Þvert á móti, það hafa verið gefin út alls konar skuldaskilalög til þess að bjarga þeim. M.ö.o.: atvinnurekendur hafa alls ekki átt að standa á eigin fótum, og þegar kom að því, að verkalýðssamtökin stilltu þeim frammi fyrir því, að þeir yrðu að sýna það, að þeir yrðu að standa á eigin fótum, og þeir sömdu við verkalýðssamtökin um kauphækkanir, þá var þó sannarlega tími til kominn, að þessir atvinnurekendur, sem voru svona óþægir við ríkisstj. að vera að hækka kaupið, sem hún auðsjáanlega vildi ekki, fengju þá að taka afleiðingum gerða sinna. Nei, ríkisstj. hljóp undir bagga, hækkaði gengi erlendrar myntar og reyndi þannig að ræna af verkalýðnum öllu því, sem hann hafði samið um með frjálsum samningum við atvinnurekendur. Þetta framferði er fyrir neðan allar hellur.

Nú hafa, held ég, bæði hæstv. forsrh. og hæstv. viðskmrh. í umr. um þetta mál komið nokkuð inn á, að þegar kauphækkanir hafi verið framkvæmdar, þá hafi verið hlaupizt frá — af hálfu t.d. vinstri ríkisstj. — þeim kauphækkunum, sem þá hafi verið gerðar. En hins vegar vildi hæstv. viðskmrh., held ég, halda því fram, að núv. stjórn hefði brugðizt ákaflega drengilega við og ekki hlaupizt frá vandanum, heldur staðið fast á sinni stefnu. Við skulum athuga ofurlítið, hvernig aðstæðurnar þarna eru og hvort það er verið að sýna ábyrgð eða ábyrgðarleysi.

Það voru framkvæmdar kauphækkanir 1958, um haustið, eins og hæstv. viðskmrh. man. Og nú vil ég taka það fram, að í hvert skipti, sem kauphækkanir eru framkvæmdar, kemur upp sú spurning í þjóðfélaginu, hvort atvinnurekendurnir og þjóðfélagið eigi að láta þessar kauphækkanir verða raunverulegar með því að gera vissar breytingar á þjóðfélaginu og atvinnurekstrinum eða hvort eigi að reyna að hlaupast frá ábyrgðinni með því að hleypa þessu öllu út í verðlagið. Verkalýðssamtökin stóðu að kauphækkuninni haustið 1958, og þar voru að verki bæði menn, sem fylgja Alþb., Alþfl. og ég gæti jafnvel trúað Sjálfstfl. Og ég ætla ekki þeim mönnum úr Sjálfstfl., sem fylgdu þeim kauphækkunum þá, þá dul, að þeir hafi gert það í neinu ábyrgðarleysi, og ég mundi sérstaklega, ef það væri einhver ráðh. Sjálfstfl. hér inni núna, beina þeirri spurningu til hans, hvort Sjálfstfl., að svo miklu leyti sem menn úr honum tóku þátt í þeim kauphækkunum 1958, um haustið, — hvort þeir hafi gert það í einhverju ábyrgðarleysi og hvort þeir hafi ekki álitið, að þær kauphækkanir, sem þá voru framkvæmdar, væru fyllilega þannig, að atvinnureksturinn gæti borið þær. Vinstri stjórnin, þ.e.a.s. forusta Framsfl., hæstv. forsrh., sem þá var, Hermann Jónasson, gafst upp í desemberbyrjun við að leysa þau vandamál, sem honum fannst hafa skapazt af þessum eðlilegu kauphækkunum. Hann gafst upp við þau. Það var fyrirsjáanlegt, að þjóðfélagið gat vel leyst þau vandamál. Það eina, sem þurfti til þess, var að gera nokkrar róttækar ráðstafanir viðvíkjandi atvinnurekstrinum og viðvíkjandi þjóðfélagsrekstrinum, sem sé ráðstafanir, sem allar kauphækkanir alltaf heimta. Og nú skulum við athuga, hvernig kaupmáttur tímakaupsins er þá, þegar þetta vandamál er lagt fyrir vinstri stjórnina, í þessu tilfelli fyrir forustu Framsfl. Hver er kaupmáttur tímakaupsins í desember 1958? Kaupmáttur tímakaupsins er 104 í des. 1958. Kaupmáttur tímakaupsins var allt árið 1947 tæplega 103. M.ö.o.: það, sem verkalýðurinn fór fram á með kauphækkununum haustið 1958 og kom fram með vísitölunni, eins og hún var 1. des., það var, að kaupmáttur tímakaupsins væri 104, m.ö.o., að á árinu 1958 eða öllu heldur kannske árinu 1959 yrði kaupmáttur tímakaupsins sá hinn sami og hann var 12 árum áður, þ.e. árið 1947. Og þessi krafa var þá borin fram af þeim, sem stóðu að þeim samningum, sem þá voru gerðir, Alþýðuflokksmönnum, Alþýðubandalagsmönnum og mörgum verkalýðssinnum úr Sjálfstfl., og ekki er talað um ábyrgðarleysi af hálfu Morgunblaðsins í einum einasta leiðara þá. M.ö.o.: vandamálið, sem þá bar að leysa og ég áleit að hefði verið auðvelt að leysa af vinstri stjórninni og áleit alltaf að hefði verið mikið glapræði af þáv. forsrh. ríkisstj. að hlaupast frá þessu, það var að tryggja kaupmátt tímakaupsins nokkurn veginn hinn sama og hann var allt árið 1947, fyrir 12 árum, og það var sannarlega ekki til mikils mælzt, enda þurfti til þess að gera Ýmsar róttækar ráðstafanir, bæði viðvíkjandi atvinnurekstri og viðvíkjandi þjóðfélagsrekstrinum. Og það var á því, sem það strandaði. Framsfl. vildi þá ekki horfast í augu við að grípa til slíkra róttækra ráðstafana og hafði allan tímann í vinstri stjórninni staðið á móti því að koma heildarstjórn á þjóðarbúskapinn eða öðru slíku.

Ég vil minna á, að það félag, sem stundum hefur verið ásakað fyrir að vera harðvítugast í sóknum til kauphækkana, Dagsbrún, það félag reyndi eins lengi og hægt var að ná samkomulagi við ríkisstj. um þessi mál, og í Alþýðublaðinu, sem þá var líka stjórnarmálgagn, birtist sumarið og haustið 1958 hver greinin á fætur annarri til þess að skora á Dagsbrún að fara nú að fara af stað með verkföll, knýja fram kauphækkanir. Það er vert, að hæstv. Alþýðuflokksráðherrar í ríkisstj. muni eftir, að þegar kaupgeta tímakaupsins var 95 og 96, þá var það Alþýðublaðið, sem ögraði Dagsbrún til að fara af stað, eftir að fagmennirnir í Reykjavík voru búnir að fá kauphækkanir. Og þær kauphækkanir, sem síðan fengust með samningum án verkfalls hjá Dagsbrún og öðrum, voru ekki meiri en svo, að kaupgeta tímakaupsins eftir hækkun á landbúnaðarvörunum og allt annað slíkt er 104 í desember, og það er allur vandinn, sem ríkisstj. stóð frammi fyrir. Forusta Framsfl. gafst upp við að leysa þann vanda, hvernig ætti að halda kaupgetu upp á 104 stig þá, — kaupgetu, sem menn úr Alþfl. og Sjálfstfl. höfðu álitið sjálfsagt og ábyrgðarfullt að vinna að því að skapa.

Hvernig stöndum við svo í dag? Framsfl. sundraði vinstri stjórninni og gafst upp við að gera þjóðfélagslegar ráðstafanir til að halda kaupgetu, sem var 104. Hvernig stöndum við svo í dag? Kaupgetan var komin niður í 84 stig, miðað við 100 1945, 1. maí, þegar verkalýðsfélögin fóru af stað. Hver var kaupgeta tímakaupsins, þegar verkalýðsfélögin höfðu staðið heilan mánuð með miklu meira í verkfalli og knúið fram samninga, sem verkalýðsfélögin að vísu sættu sig við, þó að þeir samningar væru ekki um gífurlegar hækkanir, síður en svo, — hver var kaupgeta tímakaupsins, þegar þessum verkföllum var lokið og þessir samningar komnir í framkvæmd 1. júlí 1961? Kaupgeta tímakaupsins var 91,2. M.ö.o.: vandamálið, sem lá fyrir núv. hæstv. ríkisstj., var að láta atvinnurekendur gera slíka hagræðingu á sinum atvinnurekstri eða gera þær breytingar á þjóðfélagsskipuninni, að það stæði undir kaupgetu tímakaupsins, sem var 91.2 eða 13 stigum lægri en það, sem var í des. 1958. Ég vil segja við þá menn eins og hæstv. viðskmrh., sem talaði hér mörg orð til Framsfl. og var að ávíta hann fyrir að hafa hlaupizt frá því að leysa þau vandamál að tryggja kaupgetu tímakaups upp á 104 stig, — ég vil segja við þann hæstv. viðskmrh., að honum ferst ekki að ásaka Framsfl. fyrir þá vitleysu, sem ég álít að Framsfl. hafi gert, þegar hann hljóp frá því að tryggja þá kaupgetu, þegar núv. hæstv. ríkisstj. treystir sér ekki til þremur árum seinna að tryggja kaupgetu, sem er 91 stig eða 13 stigum lægri. Þar ferst öðrum að ásaka Framsfl. fyrir að hlaupast frá því heldur en hæstv. viðskmrh. Ég álít, að það hafi ekki verið nokkur vandi, ekki nokkur minnsti vandi að tryggja þá kaupgetu, sem sköpuð var með verkföllunum í sumar, kaupgetu upp á 91 stig. Það hefði verið lafhægt, enda liggja hér fyrir yfirlýsingar frá sterkustu og að mörgu leyti bezt reknu atvinnufyrirtækjum í landinu, að þau gátu þetta hæglega.

Sannleikurinn er, að ríkisstj. væri enn þá aumari en jafnvel við andstæðingar hennar höfum nú viljað gera hana, ef hún treystir sér ekki til þess að varðveita kaupgetu upp á 91 stig. Það eru ekki nema þrjú ár á Íslandi, sem kaupgeta hefur verið lægri en það á síðustu 20 árum. Hvers konar hallærisríkisstj. er það þá, sem situr hér við völd, sem treystir sér ekki til að varðveita slíka kaupgetu? Það er sú aumasta ríkisstj., sem nokkurn tíma hefur setið að völdum hér, síðan lýðveldið var stofnað. Ég vil þess vegna segja: Hæstv. viðskmrh. ferst ekki að ásaka vinstri stjórnina, þó að hún sundraðist á því spursmáli að færa kaupgetu upp á 104 stig. Það var að mínu áliti mjög vel hægt, og hefði Framsfl. ekki hlýtt þá fyrst og fremst fyrirmælum efnahagsráðunautar núv. ríkisstj., Jónasar Haralz, og þeim illu ráðleggingum, sem berast yfirleitt frá þeim, sem bezt samböndin hafa fyrir þá vestur um hafið, eins og Vilhjálmi Þór eða Jónasi Haralz, — ef þeir hefðu farið eftir öðrum ráðum, þá hefði vinstri stjórnin getað haldið áfram og hæglega getað tryggt þá kaupgetu, sem var sköpuð með samningunum haustið 1958. En sú ríkisstj., sem var búin að koma kaupgetunni í 84 og eftir verkföllin sá þessa kaupgetu vera komna í 91, hvað gerir sú ríkisstj.? Sú ríkisstj. grípur til harðstjórnar, til níðingsverks, til þjófnaðar, því að annað er ekki það verk, sem framið var með gengislækkuninni í sumar. Það var verið að stela af verkamönnum því, sem þeir höfðu samið um, það var verið að stela af sparifjáreigendunum því sparfé, sem þeir höfðu trúað þessari ríkisstj. og hennar bönkum fyrir, og það var gagnvart þjóðfélaginu öllu verið að vinna hið versta verk. Þjóðfélagið hafði treyst á, að það mætti trúa yfirlýsingu þessarar ríkisstj. um, að hún ætlaði ekki að hleypa út í verðlagið kauphækkunum, en hún ætlaði að skapa festu í þjóðfélaginu, hún ætlaði að skapa traust gengi peninganna, og ríkisstj. gerir allar þessar yfirlýsingar sínar, tveggja ára yfirlýsingar, í sífellu endurteknar, gerir þær allar saman að lygi. Og þegar menn standa þannig frammi fyrir því að gera allt ósatt, sem þeir hafa hátíðlega lýst yfir, þá hafa menn venjulega ekki nema eitt ráð, og það er að grípa til harðstjórnar, það er að grípa til einræðislaga, eins og gengislækkunarlögin voru í sumar. Það er misnotað það vald, sem forseti og ríkisstj. hafa, brotið í bága við allt það, sem þeir hafa áður lýst yfir, og allt, sem þeir áður hafa barizt fyrir og barizt á móti, m.ö.o. ætlað að skapa hér í skjóli stjórnarskrárbrota kúgunarvald, sem haldi verkalýðnum niðri á því lægsta stigi, sem hann hefur komizt hvað kaupgetu snertir, að þrem árum undanteknum á síðustu 20 árum. Þetta framferði er slíkt, að það er alveg óþarfi af hæstv. ríkisstj. að vera að vitna í fyrri ríkisstj. hér á Íslandi í þessu efni. Það hefur engin ríkisstj. hagað sér svona eins og þessi hefur gert — ekki nokkur. Það hefur engin ríkisstj. gripið til harðstjórnar og einræðislaga til þess að leysa svona lítinn vanda.

Það er hægt að reyna að tala um það og jafnvel af miklum þjósti, að aðrar ríkisstj. hafi gefizt upp á efnahagsvandamátunum, en það voru þá bara vandamál, sem voru miklu, miklu stærri, — gefizt upp við að tryggja kaupgetu, sem var 13% hærri en sú, sem nú var um að ræða. Ég vil undirstrika þetta sérstaklega vegna þess, að þegar menn einu sinni byrja að beita ríkisvaldinu sem kúgunarvaldi í staðinn fyrir að láta það vera hlutlaust, eins og ríkisstj. hafði lýst yfir, þá er ekki gott að sjá fyrir endann á því, hvert slík valdbeiting fer, og þá getur það kostað slík átök í okkar þjóðfélagi, að enginn okkar, jafnvel ekki hæstv. ríkisstj., hefði kosið þær afleiðingar átakanna, sem yrðu, þegar út í þau væri komið.

Ég hef nú fyrst og fremst gert hér að umtalsefni sjálf lögin, rökin, sem fyrir þeim voru færð fram, þær almennu stjórnarfarslegu og þær almennu pólitísku afleiðingar af setningu þessara bráðabirgðalaga. Ég mun ekki fara hér út í að ræða sérstaklega þann hluta úr ræðu hæstv. viðskmrh., sem sneri að aflanum, framleiðslunni og öðru slíku. Því hafa verið gerð svo rækileg skil af hv. 4 þm. Austf., formanni okkar þingflokks, þannig að þar þarf engu við að bæta. En eitt vildi ég segja hæstv. viðskmrh., svo að segja frá sjónarmiði verkalýðssamtakanna í þessum efnum. Hæstv. viðskmrh, getur ekki gengið út frá því, að verkalýðurinn í landinu eða launþegarnir í landinu taki í sífellu tillit til þess, ef atvinnurekendur landsins stjórna sínum atvinnurekstri illa. Það er ekki verkalýðurinn, sem á að blæða fyrir það. Ef atvinnurekendur í landinu eru óforsjálir, ef þeir eru skeytingarlausir um rekstur síns atvinnuvegar, eða þeir sóa og eyða miklu í sambandi við sinn atvinnurekstur eða í sambandi við sinn eigin búrekstur, ef þeir láta ganga á sig af hálfu annarra aðila, hvort heldur þeir aðilar eru heildsalar, bankar eða aðrir slíkir, eða láta reyta af sér af atvinnurekstrinum svo og svo mikið til annarra aðila þannig, þá er ekki við því að búast, að verkalýðurinn uni við slíka óstjórn atvinnurekstrarins í landinu. Hvort atvinnurekendunum finnst atvinnureksturinn bera sig eða ekki, — og atvinnurekendurnir halda því fram, að hann beri sig ekki, — þá eru það engin rök gegn því, að það eigi að hækka kaup verkalýðsins. Það eru aðeins rök fyrir því, að atvinnureksturinn í landinu verður að vera betri. Ef kaupið er hækkað og verkalýðurinn knýr það fram, að einn atvinnurekandi verður að hækka kaup, þá þýðir það, að sá atvinnurekandi fer að berjast fyrir því, ef hann er síldarsaltandi, að hann fái bryggjurnar ódýrari, ef hann er atvinnurekandi hér í Reykjavík með stórlán hjá bönkunum, að hann fái vextina lægri, ef hann þarf að sækja mikið undir ýmsa heildsala með að kaupa sín hráefni og annað slíkt, að hann fái niður verðið á hráefninu, m.ö.o. að hann reyni að gera atvinnureksturinn praktískari á öllum sviðum.

Hæstv. viðskmrh. og hæstv. ríkisstj. eru að losa atvinnurekendurna við það að hugsa um að reka sinn atvinnurekstur vel og skynsamlega með því í sífellu að gefa þeim aðstöðu til þess að hækka bara verðlagið, þegar kaupgjaldið er hækkað, eins og ég hef áður sagt hér í sambandi við annað mál og skal ekki endurtaka. Kauphækkanirnar knýja fram framfarirnar í þjóðfélaginu, og með því að láta atvinnurekendunum haldast uppi að hækka verðlagið alltaf að sama skapi sem kaupið er hækkað hjá þeim er framförunum í þjóðfélaginu meira eða minna sleppt.

Hæstv. viðskmrh. kom inn á, að það hefði verið nauðsynlegt vegna greiðsluhallans á þjóðarbúskapnum að gera þessar ráðstafanir viðvíkjandi genginu. Það má bæta greiðsluhalla á einum þjóðarbúskap með tvennum aðferðum: Annars vegar með því að skera niður lífskjörin, með því að auka fátækt almennings, til þess að almenningur geri minni kröfur til þess að kaupa þær vörur, sem þarfnast gjaldeyris, til þess að fá þær inn í landið. Og það má líka bæta greiðsluhallann með aukinni framleiðslu og aukinni úrvinnslu á vörunum, og það þýðir framför í þjóðfélaginu, það þýðir að gera þjóðina sem heild ríkari og þjóðfélagið fært um að standa undir kauphækkunum verkalýðsins. Hæstv. ríkisstj. hefur tekið hinn fyrri kostinn um að bæta úr greiðsluhalla, kost fátæktarinnar hjá almenningi, þann kost að draga úr eftirspurninni eftir gjaldeyri, og það er ein af forsendunum fyrir þessum brbl., að það þurfi að draga úr eftirspurninni eftir gjaldeyri, til þess sé nauðsynlegt að skera niður lífskjörin hjá almenningi. Þetta er ekki aðeins óviturlega gert, þetta er og ranglátt. Hin eðlilega aðferð var að skapa miklu meiri úrvinnslu úr okkar hráefnum. Eitt fullunnasta hráefni, sem við höfum flutt út í stórum stíl, hefur verið freðfiskurinn. Framleiðslan á honum hefur í tíð þessarar hæstv. ríkisstj. verið minnkuð og minnkuð mikið. Eitt af þeim hráefnum, sem við getum fengið einna mest fé fyrir, ef við fullvinnum það, er síldin. Við munum hafa flutt út síld í sumar fyrir um það bil 600 millj. kr. Af því munu upp undir 330–340 þús. tunnur hafa verið saltsíld. Ef við aðeins tækjum 100 þús. tunnur af þessari saltsíld, legðum hana niður í dósir sem gaffalbita og annað, mundi verðmæti þeirra 100 þús. tunna vera 500 millj. kr. Þetta er möguleiki, sem lengi hefur staðið Íslendingum opinn. Þar þarf ekkert sérstaklega mikið fé til, en hver stórhuga ríkisstj., sem væri að hugsa um að bæta þjóðarhaginn, auka þjóðarverðmætin, sem framleidd eru, mundi gera það. En það er síður en svo.

M.ö.o.: til þess að bæta úr greiðsluhalla var ekki nauðsynlegt með brbl. að fyrirskipa fátækt hjá almenningi, að ræna almenning þeirri litlu kauphækkun, sem hann hafði fengið. Það var hægt að bæta úr greiðsluhallanum líka með því að auka verðmæti þjóðarframleiðslunnar.

Hæstv. viðskmrh., held ég, orðaði það svo í ræðu einu sinni, þegar hann var að sýna fram á, hve fráleitar einhverjar kauphækkanir hefðu verið, — ég man nú ekki nákvæmlega, hvort það var í sambandi við aðgerðirnar 1958 eða hvort það var núna, enda gildir það einu máli, — þá setti hann það fram sem einhverja fjarstæðu. Hann sagði, held ég, orðrétt: Gat þjóðarframleiðslan orðið 11–12% meiri næsta ár? Og mér skildist, að svarið lægi í spurningunni hjá hæstv. viðskmrh., að það var fráleitt að hugsa sér annað eins og að þjóðarframleiðslan gæti orðið 11–12% meiri næsta ár. Ég vil segja hæstv. viðskmrh., að það er ekkert auðveldara en tryggja það á Íslandi, að þjóðarframleiðslan geti orðið 11–12% meiri næsta ár, ef ráð er tekið í tíma með að gera þær ráðstafanir. Hann segir: þjóðarframleiðslan hjá okkur eykst bara um 3–4%. — Jú, vissulega. Það er nú einmitt meinið, vitleysan í okkar þjóðarbúskap, að við höfum yfirleitt á undanförnum áratugum ekki aukið þjóðarframleiðsluna að meðaltali nema kannske um 3–4% á ári, sem er allt of lítið. Við höfum verið þar í flokki með löndum eins og Bretlandi og öðrum slíkum, sem hafa verið einhver þau lægstu í Vestur-Evrópu í þessum efnum. Hæstv. viðskmrh. veit, að í þeim kapítalistíska heimi er á síðasta áratug aukning þjóðarframleiðslunnar frá 3 upp í 9½% að hámarki. Þar stendur eitt sér Vestur-Þýzkaland, sem að vísu tók við sínu landi í mjög slæmu ástandi 1950 og voru þess vegna hlutfallslega meiri framfarir en í flestum öðrum löndum kapítalismans. Hins vegar veit hæstv. viðskmrh. líka, að í þeim sósíalistísku löndum hefur á þessum sama tíma þjóðarframleiðsluaukningin ár frá ári orðið í flestum 11–15%, t.d. Sovétríkjunum, held ég, 13 eða 14% og hjá þeim, sem komast þar hæstir, eins og Kína, upp í 28%. Það er engum efa bundið, að með heildarstjórn á okkar þjóðarbúskap er fyllilega hægt að tryggja aukningu á þjóðarframleiðslu ár frá ári, sem sé að meðaltali — við skulum segja 10–11–12%. Að vísu hefur, eins og eðlilegt er, meðan við erum fyrst og fremst eins mikil fiskveiðiþjóð og við erum og því miður allt of lítil fiskiðnaðarþjóð, nokkuð mikið gildi í þessu efni, hvernig aflinn er. Þó er það svo, að úrvinnsla aftans, þegar hún væri komin í fullan gang hjá okkur, þá mundi hún nokkurn veginn jafna upp þær sveiflur, sem annars hafa verið á aflamagninu hjá okkur. Þær eru ekki svo gífurlegar, þó að þær séu allmiklar vissulega. Þess vegna er það, að verkalýðurinn á Íslandi, þegar hann gerir kröfu til sómasamlegra lífskjara, þá getur hann ekki tekið tillit til þess, ef landinu er stjórnað verr en nokkru öðru nágrannalandi okkar. Hann getur ekki tekið tillit til þess. Hann hlýtur að gera þær kröfur til valdhafanna, að launabætur ár frá ári séu ekki minni en t.d. 6–8% og síðan verði valdhafarnir að gera svo vel að sjá um, að þjóðarframleiðslan sé það vel skipulögð, úrvinnsla m.a. á okkar fiski og sá iðnaður, sem við komum upp við okkar fossa og annað slíkt, sé það mikil, að það standi undir slíkri eðlilegri aukningu. Þetta er það, sem hefur vantað hjá okkur í þau 20 ár, sem við höfum verið að tala um. Þetta er það, sem hefur vantað, þessi heildarstjórn á þjóðarbúskapnum. Atvinnurekendastéttin og margar ríkisstjórnir hér hafa legið á því laginu að bæta bara atvinnurekendum upp með verðbólgu og með gengislækkunum kauphækkanirnar hjá verkalýðnum og fría þannig atvinnureksturinn frá því og atvinnurekendurna að þurfa að skapa stórfelldar framfarir í atvinnulífinu. Svo hefur verkalýðnum orðið að blæða fyrir þetta með því að þræla lengur en nokkur verkalýður gerir í nokkru okkar nágrannalandi til þess að hafa sómasamlega í sig og á og til þess að geta byggt upp landið. Þess vegna vil ég svara þeirri spurningu hæstv. viðskmrh.: Gat þjóðarframleiðslan verið orðin 11–12% meiri næsta ár? — Hún gat orðið það, ef viturlega var stjórnað, ef komin var heildarstjórn á okkar þjóðarbúskap og allir möguleikar hagnýttir í því efni. Það er sjálf óstjórnin á okkar þjóðfélagi, sem er orsökin að því, að þjóðarframleiðsluaukningin er svona lítil ár frá ári, bara 3–4% og stundum ekki einu sinni það, í staðinn fyrir 10, sem hún gat orðið. Þó vil ég taka það fram, að það eru ekki einu möguleikarnir á hækkun og endurbót á lífskjörum verkalýðsins, að þjóðarframleiðslan vaxi. Það er líka hægt, eins og ég hef tekið fram áður, að skipuleggja atvinnureksturinn betur og skynsamlegar og jafnvel að draga úr gróða atvinnurekenda á vissum sviðum, m.a. úr gróða t.d. bankanna, til þess að tryggja þannig betri afkomu hjá verkalýðnum.

Hæstv. viðskmrh. og hæstv. ríkisstj. hefur haldið því fram, að það hafi verið þessi 10%, sem samið var um sem grunnkaupshækkun, sem hafi látið allt fara út um þúfur. Hæstv. ríkisstj, sjálf hafði mælt með 6% og hafði látið í það skína, að ef sáttatillagan væri samþykkt, mundi þetta verða raunveruleg kauphækkun. Hæstv. ríkisstj. hafði sömuleiðis mælt með því, að næsta ár yrði 4% hækkun í viðbót. M.ö.o.: ef maður má taka ríkisstj. alvarlega, hafði hún mælt með því, að hækka mátti um 6%, án þess að nokkur gengislækkun eða uppbætur eða annað þyrfti að koma til, 1. júlí 1961 og 4% í viðbót 1. júlí næsta ár. Sem sé, allt vandamálið, sem að áliti ríkisstj. var fyrir hendi, var, hvernig þjóðfélagið ætti að standa undir 4% kauphækkun í eitt ár. Þetta var þá allur vandinn, sem sé nokkrir tugir milljóna króna, sem ríkisstj. annars leikur sér með. Það munaði því, að það var ómögulegt annað en fara út í gengislækkunina, og þá um 13%, þ.e. hækka dollarann um 13%.

Það blandast engum hugur um, að það var allt annað þarna að verki en þetta. Það var í fyrsta lagi valdapólitík af hálfu ríkisstj. Hún skoðaði sig sem fulltrúa atvinnurekendanna, og fyrst hennar atvinnurekendur gátu ekki sigrað verkalýðinn í frjálsum átökum, átti ríkisvaldið að gerast kúgunarvald til þess að sýna, að það væri þó einn sterkari aðili, sem gæti hjálpað, þegar Vinnuveitendasamband Íslands brotnaði. Það átti m.ö.o. að sýna valdið. Í öðru lagi átti að bjarga fjárhag ríkissjóðs, af því að það var fyrirsjáanlegur 150 millj. kr. halli á ríkissjóðnum, og þess vegna var það, að hæstv. fjmrh. var sá, sem hljóp fram fyrir skjöldu til þess að lýsa því yfir, að það væri gengislækkun, sem væri alveg óhjákvæmileg. Og svo bættist þarna við, að maður hefur svo sem ósköp vel vitað allan tímann að það dundu í sífellu þær kröfur á hæstv. ríkisstj. frá hálfu skuldakónganna, m.a. hér í hv. Nd., skuldakónganna í Sjálfstfl., að gengislækkunin hefði verið allt of lítil seinast, skuldirnar væru allt of þungbærar og þess vegna væri alveg nauðsynlegt að nota nú tækifærið til þess að lækka gengið meira. Það hafði víst verið deilt um það í ríkisstj. á sínum tíma, hvort ætti að setja dollarann 38 eða hvort ætti að setja hann 41. Og mér skilst, að hæstv. ríkisstj. hafi nú notað tækifærið og hugsað sem svo: Ég fór ekki nógu langt niður 1960, það er bezt að bæta úr því núna, nota kaupdeilurnar sem yfirvarp og komast niður í 43.

Röksemdafærsla hæstv. ráðh. í þessu efni, hvort sem maður tekur það stjórnarfarslega, pólitískt eða efnahagslega, er alls staðar jafnbágborin. Málstaðurinn er svo slæmur, að þær raunverulegu hvatir í þessu mega ekki koma fram. Og hver er svo afleiðingin, eftir að búið er að skella þessari gengislækkun á? Hver er svo afleiðingin núna, þegar verið er að skella verðhækkununum á? Hvernig er hlutfallið þar, segjum t.d., þegar Eimskip fær 10% hækkun á álagningu? Hlutfallið er það, að aðeins þriðjungurinn af þessari verðhækkun er rakinn til kaupgjaldsins, 2/3 eru raktir til gengislækkunarinnar.

M.ö.o.: sú dýrtíð, sem nú er leidd yfir almenning í landinu, sá skaði, sem hæstv. ráðh. valda þjóðinni með þessu, hann er fyrst og fremst af þeirra eigin gengislækkun, það er hrein verðbólguráðstöfun, sem þarna er gerð. Kauphækkunin, þó að henni sé þarna þvert á móti yfirlýsingu ríkisstj. allri velt yfir á almenning, þá er hún ekki nema örlítill partur, eins og meira að segja sjálfur hæstv. viðskmrh. hefur orðið að gefa yfirlýsingar um hér á Alþ. Þess vegna er það greinilegt, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki haft nein haldbær rök fyrir því að gefa út þessi brbl. Þau eru í senn hefndarráðstöfun gagnvart verkalýðnum, hefndarráðstöfun gagnvart þjóðfélaginu, óviturleg efnahagsleg ráðstöfun og ráðstöfun til þess að reyna að bjarga fjárhag ríkissjóðs. En með því að framkvæma þessa ráðstöfun er stigið það tæpt, að það er farið inn á einræðisleið, farið inn á misnotkun valds. Það er bókstaflega brotinn ekki aðeins andi, heldur líka bókstafur stjórnarskrárinnar. Þess vegna er ekki óeðlilegt, að þetta mál verði rætt allýtarlega hér á Alþingi. Það hefur ekki verið svona hættulegt mál þingræðinu í landinu og lífskjörum almennings á ferðinni um áratugi.