13.11.1961
Neðri deild: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Lúðvík Jósefsson:

Hv. forseti. Mér þykir fyrir, að hæstv. viðskmrh. skuli ekki vera hér staddur, þegar ég svara hér ræðu hans. Það vildi svo til s.l. fimmtudag, að ég var tepptur á öðrum fundi, þegar þetta mál var hér til umræðu, en þá þurfti hæstv. viðskmrh. að svara minni ræðu, sem ég hafði flutt hér í upphafi þessa máls. Hann gerði hlé á máli sínu og lét leita að mér, og ég fannst auðvitað, og ég var síðan fenginn til þess að hlýða hér á mál hans, og hann hellti svo úr skálum reiði sinnar yfir mig í langri ræðu og að ég hygg mjög fágætri. Ég get ekki neitað því, að ég muni kannske víkja nokkuð harkalega að hæstv. ráðh. í einhverjum tilfellum, — ég vil ekki sverja fyrir það, — og ég kann afar illa við það að þurfa að flytja mína ræðu út af þessari ræðu, sem hæstv. ráðherra flutti hér, að ráðherranum fjarstöddum. En hitt skal ég aftur á móti viðurkenna, að hæstv. forseti deildarinnar hefur reynt að stilla þannig til, að málið yrði ekki hraðar afgreitt í þinginu en svo, að það er full ástæða til að taka tillit til óska hv. forseta um að halda hér umr. áfram. En mjög hefði ég viljað samt óska eftir því að fá að draga mitt mál eitthvað, ef von er á hæstv. viðskmrh. En telji hv. forseti ekki tök á því, verð ég að svara ræðu hans hér, þó að hann sé ekki viðstaddur. Mér skilst, að hæstv. ráðh. sé tepptur nú í augnablikinu, en það muni væntanlega ekki taka langan tíma. Ég vildi því enn einu sinni skjóta því til hv. forseta, hvort ekki væru tök á því að bíða með umr. um málið einhvern stuttan tíma, þar til hæstv. viðskmrh kemur.