13.11.1961
Neðri deild: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Lúðvík Jósefsson:

Hæstv. forseti. Ég skal nú ekki skorast undan því lengur að flytja ræðu mína hér, þó að hæstv. viðskmrh. sé hér ekki viðstaddur, en til hans vildi ég sérstaklega beina orðum mínum í tilefni af þeirri ræðu, sem hann flutti hér á dögunum, s.l. fimmtudag.

Ég býst við því, að það hafi fleirum en mér, sem hlýddu á þá ræðu, sem hæstv. viðskmrh. flutti hér s.l. fimmtudag, þar sem hann svaraði minni ræðu, þótt þessi ræða hæstv. ráðh. nokkuð sérkennileg. Það var greinilegt, að hæstv. ráðh. var mjög sár út í þá ræðu, sem ég hafði flutt hér, og honum var mikið niðri fyrir og hann taldi, að ég hefði farið mjög hörðum orðum um þá ræðu, sem hann flutti hér sem framsöguræðu fyrir þessu máli. Hæstv. ráðh. sagði í upphafi síns máls mörg stór orð um mína ræðu, að ég hefði flutt þar rangt mál, — og það dugði ekki að segja rangt mál, heldur alrangt mál, ég hefði verið með ósvífnar blekkingar, umgengizt sannleikann með léttúð. Þetta eru allt saman orð beint úr ræðu hæstv. ráðh. Og síðan sagði hann að málflutningur minn hefði verið óvenjulega óskammfeilnar blekkingar. En svo sagðist hæstv. ráðh., þegar hann hafði hnýtt þessu öllu saman, vita það, að mönnum mundi finnast þetta nokkuð stór orð „úr mínum munni hér í þessum ræðustól“, sagði hæstv. ráðh. Það var alveg greinilegt, að hann vildi leggja á það nokkra áherzlu, að hans munnur talaði hér heldur betur en margir aðrir í þessum efnum. En það er mikill misskilningur. Það er létt verk að finna því stað, að hæstv. ráðh. hefur haft til að vera hér nokkuð stórorður í garð annarra þm., ekki síður en aðrir, og þessi orð ætla ég að beri því líka glöggt vitni.

En hver var nú ástæðan til þess, að hæstv. viðskmrh. tók á þessu máli á þá lund, sem hann gerði? Ástæðan var sú, að það höfðu risið deilur á milli mín og hans, eiginlega fyrst og fremst um tvö meginatriði: Annars vegar það, að ráðh. hafði haldið því fram í þessum umr., eins og ég orðaði það, að mikið aflaleysi hafi verið á árinu 1960, og í öðru lagi: mikið verðfall hafi orðið á afurðum árið 1960. Ég hélt því hins vegar fram, að hér hefði ekki orðið sérstakt aflaleysi árið 1960 og að það verðfall, sem ráðh. talaði um, hafi verið orðið fyrir gengisbreytinguna í febrúarmánuði 1960. Um þetta voru deilurnar okkar á milli. Ráðh. sagði svo og lagði á það mikla áherzlu, að ég hefði sagt, að hann hefði talað um aflaleysi, en á slíkt hefði hann aldrei minnzt. Um það atriði sagði hæstv. ráðh. orðrétt á þessa leið: „Ég vil vekja athygli á því strax, áður en ég held lengra, að ég sagði aldrei eitt orð í ræðu minni um aflaleysi, að það hafi verið aflaleysi á árinu 1960. Hann má lesa hundrað sinnum, og sú setning fyrirfinnst ekki.“ Og svo til viðbótar öllu vandlætingartali hæstv. ráðh. sagði hann, að ég hefði á þennan hátt og í fleiri tilfellum gefið mér forsendur, sem ég hefði síðan lagt út af, en hann hins vegar hefði aldrei gefið tilefni til. Það var nú svo. En hvað var það, sem hæstv. ráðh. sagði þá í þessum efnum, sem ég kallaði, að hann hefði rætt hér um aflaleysi á árinu 1960? Ræða hæstv. ráðh. hefur birzt í aðalmálgagni flokksins, Alþýðublaðinu, og reyndar skrifuðu flestir fréttaritarar, sem hér voru staddir, nokkuð um þessa ræðu í blöðum sínum, og þeir voru því til frásagnar um þetta ekki síður en ég.

Nú skal ég taka hér upp nokkrar glefsur úr ræðu hæstv. ráðh., þar sem hann einmitt var að ræða þetta mál um aflaleysið, sem ég nefndi svo. Það skal að vísu játað, að hæstv. ráðh. notaði ekki þetta orð, en hann notaði annað orð í staðinn allan tímann og það hét aflabrestur. Nokkrar tilvitnanir eru hér í ræðu hæstv. ráðh. um þetta efni. Hann segir á einum stað í ræðunni: „verðfallið og aflabresturinn á árinu 1960.“ Á öðrum stað: „Hin mikla skerðing á framleiðsluverðmæti þjóðarbúsins vegna verðlækkunarinnar á sjávarafurðum erlendis og aflabrestsins höfðu m.ö.o.“ o.s.frv. Á enn öðrum stað segir: „Að vissu leyti mátti segja, að forsendurnar fyrir skráningu gengisins 38 kr. á dollar hefðu þegar breytzt á árinu 1960 vegna hins gífurlega verðfalls á útflutningsafurðum og aflabrestsins.“ Þannig hélt ráðh. áfram í hverju tilfellinu af öðru að tala um gífurlegan aflabrest, sem orðið hafi á árinu 1960, og hann reiknaði það út, eins og segir í þessari prentuðu ræðu ráðh., að þetta, verðfallið og aflabresturinn, hefðu leitt til þess, að sjávarútvegurinn hefði fært í þjóðarbúið á árinu 1960 400 millj. kr. minna en annars hefði verið, hefði þessi aflabrestur og verðfallið ekki komið til. Ráðh. sagði orðrétt: „Verðfallið og aflabresturinn ollu þess vegna því, að framleiðsluverðmæti sjávarútvegsins á árinu 1960 var um það bil 400 millj. kr. minna en það hafði verið 1959.“ En svo, eins og ég las hér upp eftir hæstv. ráðh., hnykkti hann á og sagði, að menn mættu lesa ræðu sína hundrað sinnum og þar fyndu menn aldrei, að minnzt hefði verið á aflaleysi.

Mér kemur nú til hugar í þessu sambandi: Hvað er það, sem hæstv. ráðh. á við með aflaleysi? Er einhver misskilningur okkar á milli um það, hvað aflaleysi og aflabrestur þýða? Heldur kannske hæstv. ráðh., þegar ég notaði orðið aflaleysi, að það þýddi það, að það hefði ekki verið neinn afli á því ári? Hafði hann kannske ástæðu til að líta svo á, að orðið þýddi það? Nei, ég ætla honum ekki slíka fávizku, vegna þess að hér er um mjög algenga notkun á þessu orði að ræða, þar sem rætt er um það, þegar afli bregzt verulega, að þar hafi verið um aflaleysi að ræða. Nei, hið sanna er, að yfirlestur ræðu hæstv. viðskmrh. sannar það, að meginþráðurinn í ræðu hans er um hinn gífurlega aflabrest, sem hann talar um að orðið hafi á árinu 1960, og hið gífurlega verðfall á afurðum, sem hafi orðið á því ári og leitt hafi til þess, að þjóðarbúið hafi tapað um 400 millj. kr. af tekjum sínum á því ári. l;g leyfði mér að viðhafa þau orð líka í þessu efni, að ráðh. hafi haldið því fram, að þjóðarbúið hafi orðið fyrir miklum áföllum árið 1960 af þessum ástæðum, og ráðh. sagði, þegar hann kom að þessu orðalagi mínu: „Ég undirstrika þetta, ég vek athygli á þessu orðalagi,“ sagði ráðh. En hvað er það að tapa yfir 400 millj. af tekjum ársins? Er það ekki að verða fyrir gífurlegu áfalli? Það þýðir um það bil, að tekjur af sjávarútvegi Íslendinga hafi rýrnað um 15% á einu ári.

Nei, í þessum efnum er rétt að gera sér grein fyrir því, að hæstv. viðskmrh. getur ekki flúið frá því, að hann hafi byggt upp ræðu sína á því að reyna að sanna það að erfiðleikar viðreisnarstefnunnar stöfuðu af því, að það hafi verið um aflabrest að ræða á árinu 1960 og gífurlegt verðfall á útflutningsafurðum okkar á því ári.

Ég sneri mér því að því í minni ræðu að ræða um þessi tvö atriði, hvort um raunverulegan aflabrest eða aflaleysi hafi verið að ræða á árinu 1960 eða ekki, og svo aftur að hinu atriðinu: Var um gífurlega verðlækkun á útflutningsvörum okkar að ræða á árinu 1960, — og ber þar með að skýra út frá þessum tveimur atriðum þá erfiðleika, sem viðreisnarpólitíkin var komin í? Og hvað var það, sem ég gerði, þegar ég vék að þessum atriðum? Jú, ég las beinlínis upp úr opinberri skýrslu tölurnar um aflann á árinu 1960 og um aflann á árinu 1959 og aflann á árinu 1958 og vitnaði síðan til aflans á árinu þar á undan, að hann hefði verið miklu minni. Ég benti á það, að árið 1960 hefði aflinn verið skráður rúmlega 513 þús. tonn, heildaraflinn, en árið 1959 skráður 564 þús. tonn, nokkru meiri, eins og ég sagði. En árið 1958, sem viðurkennt var sem mikið aflaár, var aflinn hins vegar skráður 505 þús. tonn eða minni en árið 1960, og árið 1957 var aflinn mun minni en 1958 og einnig árið 1956. Sannleikur málsins er því sá, eins og ég sagði, að aflinn var sá næstmesti, sem við höfum haft, á árinu 1960, og þó er það eins og ég gerði grein fyrir í mínu máli, að það er í raun og veru ekki hægt að líta aðeins á þessar brúttótölur. Það gefur falska merkingu um það, hvernig aflinn hafi raunverulega verið á þessu ári. Af því gerði ég fulla grein fyrir því í sambandi við aflann, hver aflinn hafi verið á þessu ári hjá bátaflota landsmanna, hjá togurunum og á þorskveiðum og svo aftur á síldveiðum, og niðurstaðan varð sú, að aflinn á bátaflotanum var 20% meiri árið 1960 en hann hafði orðið árið 1959. Það var aðeins á síldveiðunum einum, þar sem um var að ræða hjá bátunum, að aflinn væri minni árið 1960 en á árinu 1959. En þó var það svo, að árið 1960 er næstbezta síldarár, sem við höfðum haft um 18 ára tímabil.

Hæstv. ráðh., þegar hann flutti hér sitt mál, þá var hann svo hneykslaður niður í tær, að hann taldi mér það til sérstakrar syndar, að ég skyldi hafa lesið hér upp aflatölurnar, og sagði, að ég hefði beinlínis lesið þessar tölur upp hér, eins og hann orðaði það, með köldu blóði, og svo sagði hann á eftir, að þessar tölur sönnuðu einmitt það, sem hann hefði verið að halda fram. Ja, sér er nú hvað! Þegar fram á það er sýnt, að afli bátaflotans í landinu hefur aldrei fyrr í sögunni orðið eins mikill og árið 1960, þá segir hæstv. ráðh., að það sanni hans mál um það, að það hafi verið aflabrestur, og þegar það kemur í ljós, að síldveiðin á árinu 1960 er sú næstmesta, sem verið hefur um 18 ára tímabil, þá sannar það, að það hafi verið aflabrestur. Ég segi það fyrir mitt leyti, að þetta er harla einkennilegur málflutningur. En þegar hæstv. viðskmrh. sér það samkvæmt þessum opinberu skýrslum, að málinu er svona farið eins og ég hef lýst, þá reynir hann að smjúga út úr vandanum með því að reyna að láta í það skína, að deilan á milli mín og hans í þessum efnum, varðandi aflaleysið eða aflabrestinn 1960, hafi snúizt um það, hvort aflinn hafi minnkað á árinu 1960 frá árinu 1959. Það hefur engin deila staðið um það, og það er hreinn tilbúningur hjá hæstv. ráðh., þegar hann gerir mér upp þau orð, að ég hafi haldið því fram, að aflinn á árinu 1960 hafi orðið meiri en á árinu 1959. Í minni ræðu stendur þvert á móti margundirstrikað, að það er rétt, að heildaraflinn, mældur í kílóum, var nokkru meiri árið 1959 en 1960, en það sannar ekkert um það, að það hafi verið aflabrestur á því ári. Nei, um það var ekki deilan. Það lá mjög skýrt fyrir, hvernig aflinn skiptist á milli þessara ára. En það var um hitt, sem deilan var, hvort sérstakt aflaleysi hafi verið á árinu 1960, sem hafi leitt til þeirrar afsökunar, sem hæstv. ráðh. var með, að þjóðarbúið hafi orðið þá fyrir miklu áfalli.

Í þessu efni vék ég líka að því, til að gera hér nokkru frekari grein fyrir samanburði á Þessum aflatölum, að þegar samanburður meira að segja væri gerður á milli þessara tveggja aflahæstu ára, sem við höfum haft, 1960 og 1959, þá er rétt, að árið 1960 var afli togaraflotans miklu minni, sérstaklega í tölum skráður, heldur en hann var árið 1959, enda var vitanlega tvímælalaust um aflaleysi hjá togurunum að ræða, reyndar lélegum afla líka árið 1959. En ég benti á, að það er ekki hægt að bera saman aflatölur togaranna á þann hátt, sem ráðh. gerði og ýmsir hafa gert, vegna þess að aflatölurnar árið 1959 og 1960 eru í sjálfu sér ólíkar. Árið 1960, þegar afli togaranna minnkar mikið, talið í tölum, þá stafar það að allverulegu leyti af því, að skipin eru þá gerð út með allt öðrum hætti en árið á undan. Árið 1960 sigldu skipin mikið með afla sinn á erlendan markað, en hitt árið lögðu þau miklu meiri hluta af afla sínum upp innanlands. En þegar siglt er með aflann á erlendan markað, þá vitanlega fellur heildaraflamagnið niður, en verðið kemur til með að hækka um leið. Það er því vitanlega ekki hægt, ef maður er að gera sér grein fyrir raunverulegri afkomu, að bera þessar tölur svona saman. Vegna þess er það líka, að þegar maður ber saman tölurnar, brúttóaflatöluna 513 þús. tonn 1960 og 564 þús. tonn árið 1959, þá er þessi samanburður líka mjög ónákvæmur af þessum ástæðum. En eins og ég hafði vikið hér að áður, þá er ég ekkert óvanur því, og það átti eftir að sannast betur hér í þessum umr. eða í ræðu hæstv. ráðh., — ég er ekkert óvanur því, að ýmsir hagfræðingar í þessu landi noti tölur í sambandi við íslenzkan sjávarútveg þannig, að þeir þekkja að vísu tölurnar vel og fara oft rétt með tölurnar og langoftast, en þeir vita bara ekki, hvað stendur á bak við tölurnar, því að þá vantar upplýsingar um það, hvað þær í raun og veru gilda. Hæstv. ráðh. ætlaði nú að snúa sig út úr þessu atriði með því að segja, að hann hefði líka fengið upplýsingar um það, að meðalveiði togaranna á árinu 1960, sem ég hafði viðurkennt að væri minni afli þá en árið á undan, — að þá hafi meðalafli togaranna verið 11.8 smál. á dag, á veiðidag, en hins vegar árið 1959 meðalaflinn 14.9 tonn á dag, og það sýndi bezt, að þarna hefði verið um verulega aflarýrnun að ræða. Eins og ég sagði, þá var ekki ágreiningur okkar á milli um það, að það var um aflarýrnun að ræða hjá togurunum. En þessar tölur eru eins og fleiri hjá hæstv. ráðh. þannig, að það er ekki hægt að bera þær saman af mönnum, sem þekkja til. Annað árið, árið 1959, er mjög mikill hluti af afla togaranna karfi, sem er landað hér innanlands. Hann er mældur í tonnum sem óslægður fiskur, óinnanífarinn með haus og hala, en ísfiskurinn, sem er seldur á erlendum markaði, er mældur á allt annan hátt, sem innanífarinn fiskur og hefur rýrnað um 10–12% fram að þeim degi, þegar hann er vigtaður á erlendum markaði. Við vitum það mætavel, að hér er um ósambærilegar tölur að ræða, og um meðalaflamagnið, sem hér er tilfært á dag, er ekki gengið út frá sams konar grundvelli í báðum tilfellum. Þetta er alveg augljóst dæmi um það, hvað sumir hagfræðingar, sem eru ekki sérstaklega vandir að vinnubrögðum sínum, geta flaskað í svona efnum, þegar þeir eru að bera saman tölur, að vísu báðar um afla, en þó um aflaeiningar, sem eru í sjálfu sér mjög ólíkar hvor annarri.

Ég benti á þetta með togarana, aðeins til að vekja athygli á því, að aflatalan 1960 er í raun og sannleika vegna togaranna einnig of lág í samanburði við árið 1960, ef samanburðurinn væri gerður á nákvæmlega hliðstæðum grundvelli. En ég hafði undirstrikað það, að ég teldi, að út úr þessu dæmi ætti í raun og veru að taka togarana, vegna þess að það er með öllu óeðlilegt að hafa þá inni í þessu dæmi, þegar er verið að gera upp aflamagnið á árinu 1959 og árinu 1960, af þeim ástæðum, að það heldur því enginn maður fram, að gengislækkunin síðari hafi verið gerð vegna togaranna. Togararnir hafa búið við þannig sérstakar kringumstæðum nú, að það er viðurkennt mál, að gengisbreyting ein getur ekki leyst þeirra vanda. Vandi togaranna er þannig, að þeir hafa verið meira og minna í fjárhagslegu reiðileysi nú nærri um tveggja ára tímabil. Mikill hluti flotans hefur legið aðgerðalaus. Það er því engin von til þess, að heildarafli togaranna t.d. á árinu 1961 og 1960 geti verið eins mikill og hann var 1959 og 1958, á meðan allur togaraflotinn var rekinn, en nú hefur ¼ og upp í 1/3 hluti af togaraflotanum legið ónotaður. Enda var það skýrt fram tekið, þegar gengisbreytingin var gerð í febrúarmánuði 1960, að það gengi, sem þá var ákveðið á íslenzkri krónu, var miðað við það, að bátafloti landsmanna ætti að geta verið rekinn hallalaust án uppbóta og styrkja. Við það var gengið miðað, og ég býst við því, að þessum grundvelli hafi ekki verið breytt við síðari gengislækkunina, sem ákveðin var 1. ágúst í sumar.

Ég vil, áður en ég skil við þennan þátt málsins, aðeins draga saman meginatriðin um þetta deiluatriði, sem hér er á milli mín og hæstv. viðskmrh. þ.e. um það, hvort það hafi verið mikill aflabrestur á árinu 1960 eða ekki. Hvað er það, sem hæstv. viðskmrh. hefur fært hér fram máli sínu til stuðnings? Hefur hann lesið upp aflatölur? Hefur hann gert einhverja skilgreiningu hér á aflanum? Hann hefur ekki getað sagt eitt einasta atriði máli sínu til stuðnings í þessum efnum um aflabrestinn mikla á árinu 1960 annað en það að segja, að það hafi verið minni afli þá en árið 1959. Dettur nú nokkrum manni í hug, að það þurfi að þýða, að það hafi verið aflabrestur, þó að aflinn kunni að hafa verið aðeins lægri en það árið, sem aflinn var mestur? Skýringin með aflabrestinn er því gersamlega fallin um sjálfa sig, þrátt fyrir alla þá vandlætingu, sem hér kom fram í ræðu hæstv. viðskmrh. s.l. fimmtudag. Þar sem hann þóttist ætla að afsanna það, sem ég hafði sagt í þessum efnum, þá hefur hæstv. ráðh. ekki getað fært fram eitt einasta atriði ekki eitt einasta atriði — máli sínu til stuðnings um aflamagnið á árinu 1960, aðra en þessa, að aflinn hafi verið minni en 1959. Ég ætla því fyrir mitt leyti, að þetta liggi nokkuð ljóst fyrir.

En við skulum þá víkja að hinu deiluefninu, um verðfallið mikla á árinu 1960. Það var alveg greinilegt, að það var aðalatriðið í ræðu hæstv. viðskmrh. Hann hélt sjálfur, að þar væri hann að ná sér aðeins niðri og þar kynni hann þó að geta komizt á flot með sína duggu í þessum efnum, því að hann fann það, að hann var algerlega í strandi í sambandi við fullyrðinguna um hinn gífurlega aflabrest á árinu 1960, og af því byrjaði hann líka mál sitt á því að þræta fyrir það, að hann hefði talað um aflaleysi á árinu 1960, þó að ræða hans sé öll saman prýdd því mikla orði, að þar hafi verið um gífurlegan aflabrest að ræða. Hann sá þann kost vænstan að reyna að þræta fyrir þetta, af því að hann sá, að hann var í algerum ógöngum. En segjum, að sá þáttur sé úr leik, þetta með aflabrestinn, en víkjum að hinu með verðfallið.

Um hvað snerist ágreiningur okkar í þeim efnum? Ég hafði sagt, að verðfallið á síldarmjöli og síldarlýsi hafi verið orðið fyrir gengisbreytinguna í febrúarmánuði 1960 og það hafi verið tekið tillit til þess við gengisskráninguna. En hæstv. ráðh. sagði, að verðfallið hafi ekkert verið á árinu 1959, og vildi reyna að sanna það með tölum, en hins vegar hafi orðið mjög mikið verðfall á árinu 1960. Ekki var vandlætingin minni hjá hæstv. ráðh., þegar hann vék að þessu atriði. Slíka ósannsögli, sagði hann, hefði hann ekki heyrt. Hann orðaði það þannig, hæstv. ráðh., þegar hann fór að lesa þetta upp eftir mér, minnast á það: „Ég bara missi andann,“ sagði hæstv. ráðh. Og svo sagði hann, að hann ætti erfitt með að lesa upp slík ósannindi eins og þessi, þótt þau væru höfð eftir öðrum. Ja, þvílíkt! Ég veit að vísu ekki, hvað þetta orðalag á að þýða, þar sem hæstv. ráðh. segir: „Ég á erfitt með að lesa upp svona ósannsögli, þótt eftir öðrum sé.“ Er það kannske eitthvað betra að hafa upp svona ósannsögli, ef hún er ekki eftir öðrum? Er það kannske eitthvað betra?

Við skulum nú athuga þessi mát betur, hvor okkar hefur haft á réttu að standa í þessum efnum með verðlækkunina, sem hæstv. ráðh. byggði svona mikið á.

Hæstv. ráðh. vildi nú sanna sitt mát með því, að hann gæti lesið upp tölur úr opinberri skýrslu, sem sönnuðu það, að verðfallið hafi ekki orðið fyrr en á árinu 1960, eins og hann sagði, en ekki á árinu 1959, og svo las hann hér upp langan lista, sem ég efast satt að segja um að nokkur hafi fylgzt með nema þá líklega helzt ég, af því að ég er kunnugur listanum og hafði kannske meiri áhuga á þessu en aðrir, eins og málið var flutt. En hér kemur þetta gamla, þegar vissir fróðleiksmenn eru að lesa upp tölur, sem þeir vita harla lítið, hvað á bak við stendur. Hæstv. viðskmrh. las hér upp tölur frá útflutningsnefnd sjávarafurða um sölu á fiskimjöli á árinu 1959, allmargar sölur. Það er í fyrsta lagi um þessa skýrslu að segja, að dagsetningar á sölunum þýða allt annað en hæstv. ráðherra hélt. Málið er nefnilega þannig, að það er mjög algengt, að útflytjendur að slíkum afurðum sem þessum selji með tveggja, þriggja og fjögurra mánaða fyrirvara. Og svo framarlega sem þeir eru að selja innan þeirra marka, sem þeim er heimilt að selja, eiga sér stað þessar fyrirframsölur, þó að skráningin fari ekki fram, fyrr en um afskipun er að ræða, sem fer fram jafnan löngu síðar. Þetta er nú fyrsta atriðið, sem hæstv. ráðh. flaskar algerlega á í þessu efni. Og það er hægt að sanna það, að hæstv. ráðherra flaskar á í þessu. Það vill svo vel til, að það eru ekki bara fullyrðingar einar. Það er hægt að sanna það með mörgum dæmum, að hann er hér að fara villur vegar. Það vakti fyrst athygli mína vegna þess, hvernig deilurnar voru til komnar, þar sem við höfðum aðallega verið að ræða um verð á síldarmjöli og síldarlýsi, að hæstv. ráðh. kaus að lesa upp lista yfir sölu á fiskimjöli. En ég hrópaði fram í til hans og bað hann um að lesa líka um sölu á síldarmjöli. Það kom hins vegar ekki. En hvernig er þessu í raun og veru varið? Jú, því er varið þannig, að í kringum 85% af öllu fiskimjöli, sem framleitt er í landinu á hverjum tíma, er framleitt á aðalvertíðinni, fram í maímánuð. Þá fellur það til. Seinni hluta ársins fellur tiltölulega mjög litið til af fiskimjöli á viðkomandi framleiðsluári. Síldarmjölið er hins vegar framleitt á miðju sumri og seinni part sumars, og það þarf því að glíma við söluna á því seinni part ársins. En hitt er yfirleitt selt fyrri part ársins og á miðju ári, og meginhlutinn af því er venjulega farinn rétt upp úr miðju ári eða á haustin. Ég skal nefna tölur í þessu sambandi einmitt frá þessu ári. Í maílok, sem er fyrir þann tíma, sem við höfum talað um að þetta verðfall hafi komið til greina, var þegar búið að flytja út af fiskimjöli 11626 tonn, eða rétt um það bil helminginn af heildarársframleiðslu þá. Í septemberlok var búið að flytja út af fiskimjöli 22045 tonn og allt þetta fiskimjöl er raunverulega selt fram að miðju ári, fyrri hluta ársins, þó að afskipanir fari ekki fram fyrr en í ágúst og september. Salan á fiskimjöli fór því yfirleitt fram, á meðan verðlækkunin var ekki komin til greina, og heildarútflutningurinn á fiskimjöli á þessu ári var orðinn 22 þús. tonn rúmlega í septemberlok. Í desemberlok var allur útflutningurinn 24211 tonn, eða aðeins örfá tonn eftir. Enda var greinilegt, að hæstv. ráðherra gat vitanlega ekki nefnt nema smásleikjusölur, sem áttu sér stað í nóvember og desembermánuði af fiskimjöli, 100 og 150 tonn og allt niður í 50 tonn, sem höfðu verið seld fyrir löngu á allt öðru verði. Og fiskimjölið valdi hæstv. ráðh. einnig af því, þegar hann sá, í hvers konar óefni hann var kominn, — einnig af því, að það féll mun seinna, fiskimjölið, heldur en síldarmjölið, vegna þess að sú vara á erlendum markaði, sem olli mest verðlækkuninni, var mjöl frá Perú, sem líkist miklu meira okkar síldarmjöli en fiskimjöli og er af allt öðrum gæðaflokki. En vitanlega verkaði þetta þó á fiskimjölið, en kom bara seinna fram.

Við skulum líta á hinar tegundirnar, því að þar kemur þetta enn þá betur fram.

Hvernig var ástatt með síldarmjölssöluna á árinu 1959? Í maílok, eða sem sagt áður en síldarvertíð hófst á því ári, var heildarútflutningurinn á síldarmjöli 2094 tonn, sem öll eru auðvitað frá árinu á undan. í septemberlok var heildarútflutningurinn af síldarmjöli 4463 tonn, sem er langsamlega mest af framleiðslunni árið á undan, t.d. þessi 2 þús. tonn, sem ég var að geta um. Og í árslokin var útflutningurinn af síldarmjöli samtals 8107 tonn, Alveg örugglega um 5–6 þús. tonn af þessu voru raunverulega frá árinu á undan, enda kom þetta vitanlega í ljós, því að í árslokin voru gefnar upp birgðir af síldarmjöli í landinu 12500 tonn eða í kringum 3/4 af ársframleiðslunni, sem lá eftir af síldarmjölinu, sem framleitt er hér í júní-, júlí- og ágústmánuði. En hvað voru aftur birgðirnar af fiskimjöli um áramótin? Allar birgðirnar af fiskimjöli um áramótin voru 2850 tonn, af því að fiskimjölið fór út fyrri hluta ársins á gamla verðinu, háa verðinu.

Við skulum skoða þetta líka með lýsið. Síldarlýsissalan fór þannig fram, að í maílok 1959 var búið að selja út úr landinu 513 tonn, en í septemberlok 1140 tonn og í árslok 21130 tonn, sem sagt meginhlutann af þessu frá árinu á undan, fyrningar, sem oft vilja verða eftir, enda eru uppgefnar birgðir af síldarlýsi í árslokin 1959 19600 tonn, eða svo að segja öll ársframleiðslan. En það, sem sýnir þetta þó kannske allra bezt eða á þann hátt, að menn muni veita þessu skýrasta athygli, það er að virða fyrir sér opinberar umsagnir þeirra, sem hér áttu beint hlut að máli. Ég hef hér í höndunum skýrslu og reikninga síldarverksmiðja ríkisins fyrir árið 1959. Í þessari skýrslu, sem er undirrituð af allri stjórn verksmiðjanna og endurskoðendum og er undirskrifuð og þetta er gefið út 10. okt. 1960, segir um afurðasöluna árið 1959, orðrétt, sem hér segir: „Strax í vertíðarbyrjun fóru söluhorfur ört versnandi, og fór lýsisverð lækkandi allt fram í febrúarmánuð 1960.“ Hafa menn veitt þessu athygli? Stjórn síldarverksmiðja ríkisins gefur það út í ársskýrslu sinni, að strax í vertíðarbyrjun 1959, það þýðir í júníbyrjun, fóru söluhorfur ört versnandi og lýsisverð lækkandi allt fram í febrúarbyrjun 1960. Síðar í þessari skýrslu segir ennfremur: „Þegar kom fram á síldarvertíðina, fór að verða erfitt að selja síldarmjöl og verðið fór ört lækkandi.“ En til þess að benda einnig á, hvernig er háttað sölu þessarar vöru, og sýna fram á, að það er rétt, sem ég hef haldið hér fram um þessa fyrirframsölu, skal ég tilfæra hér annað atriði úr skýrslu síldarverksmiðjustjórnar, en þar segir: „Síldarverksmiðjum ríkisins tókst að selja 1000 tonn af síldarmjöli í lok júlímánaðar fyrir 19 sh. og 9 d. á próteineiningu. Síðan seldu verksmiðjurnar mjölið á fallandi markaði, og voru síðustu 4000 smálestirnar af framleiðslu SR seldar á 12 sh. og 9 d. pr. prótein-einingu.“ Verksmiðjurnar geta þess hér alveg sérstaklega, að þeim hafi tekizt að selja 1000 tonn af síldarmjölinu, vegna þess að þær voru hér með fyrirframsölu, á nokkru hærra verði, en allt meginmagnið, sem varð að seljast síðar, fór hins vegar á miklu lægra verði. Ég ætla, að það komi alveg skýrt fram hjá þessum dómbærasta aðila í þessu máli, sem hafði með söluna á síldarafurðunum að gera, stjórn síldarverksmiðja ríkisins, að þær staðfesta það, sem ég sagði, að á miðju árinu 1959 eða strax í síldarvertíðarbyrjun skall verðfallið á og fór ört vaxandi fram eftir árinu, sem leiddi til þess, að afurðirnar lágu svo að segja allar óseldar um áramótin.

En svo var hitt dæmið, sem hæstv. viðskmrh. þurfti auðvitað ekkert um að tala heldur. Hann fékk velgju af því að hafa það upp í sinni ræðu, sem ég hafði sagt um þessi efni. Hann sagðist hafa fengið andköf við að lesa það. En hvernig ætli þau köf hafi verið, sem hæstv. ráðh. hafi fengið af að lesa það, sem hann hefur sjálfur skrifað um málið áður, það, sem öll hæstv. ríkisstj. hefur skrifað um málið? Í gengislækkunarfrv. í febrúarmánuði 1960 segir í grg. um þessi mál, orðrétt, eins og ég skal nú lesa upp: „Að því er bræðslusíldarafurðir og hvalafurðir snertir, hefur orðið mikið verðfall á mjöli á árinu 1959.“ Þetta stendur í gengislækkunarfrv. Fékk ekki hæstv. viðskmrh. velgju, þegar hann las þetta, þegar hann þoldi ekki að heyra mig segja það? Í þessu sama frv. eða grg. frv. segir enn fremur um þessi mál: „Þegar tekið er tillit til þessa og enn fremur gert ráð fyrir, að bátaútveginum verði bætt það verðfall, sem orðið hefur á síðasta ári á fiskimjöli, verður niðurstaðan sú, að hið nýja gengi þurfi að vera kr. 38.00 á Bandaríkjadollar.“ Hér er einnig vikið að því, að gengisskráningin hafi verið ákveðin 38 kr. á dollar vegna verðfallsins á fiskimjöli, sem orðin var 1959, þó að hæstv. ráðh. haldi nú, að hann hafi fundið opinberar skýrslur, sem sanni, að verðið á fiskimjöli hafi verið stöðugt út allt árið 1959 og fram á árið 1960. En hann bara misskildi þær skýrslur. Hann veit ekki, hvað þær gilda. Það, sem hann sem einn af ráðherrunum sagði í grg. gengislækkunarfrv., var rétt. Verðfallið var komið. Og í grg. gengislækkunarfrv. segir enn fremur á öðrum stað orðrétt sem hér segir: „Nú er ætlunin, að munurinn hverfi að fullu,“ — þ.e.a.s. í sambandi við uppbætur eða greiðslur á síldarafurðir og þorskafurðir, en þar hafi verið um mismun að ræða áður. „Nú er ætlunin, að munurinn hverfi að fullu, enda hafa alvarlegar horfur skapazt varðandi sölur á afurðum vegna þessarar atvinnugreinar.“

Þetta liggur sem sagt alveg ljóst fyrir. Stjórn síldarverksmiðja ríkisins hefur lýst því yfir í ársskýrslu sinni, að verðfallið hafi verið orðið. Útflutningsskýrslurnar sanna, að afurðirnar hlóðust upp seinni hluta ársins, þær sem framleiddar voru á miðju ári og þar á eftir, og voru ekki seldar vegna verðfallsins. Og ríkisstj. hafði sjálf viðurkennt þetta í gengislækkunarfrv. sínu í febrúarmánuði 1960 og hafði, að hún sagði sjálf, tekið tillit til þessarar verðlækkunar við ákvörðunina á gengi krónunnar. Allur þessi upplestur hjá hæstv. ráðh. úr bókum útflutningsnefndar hefur því vitanlega ekkert að segja annað en að sanna manni það, að hæstv. ráðherra kann ekki með þær tölur að fara. Hann veit ekki, hvað stendur á bak við þær, enda hefði hann auðvitað mátt sjá það, að þær sölur, sem tilgreindar eru hafa farið fram á haustmánuðum 1959 á fiskimjöli, eru algerlega óverulegar sölur, og auk þess er þar líka um að ræða clearing-sölur, sem alltaf voru á allt öðru verði en á hinum frjálsa markaði.

Ég held því, að það megi slá því föstu, alveg eins og með hinn margumtalaða aflabrest á árinu 1960, að það var rétt, sem ég sagði, að verðfallið á síldarafurðunum var orðið fyrir gengisbreytinguna í febrúarmánuði 1960. En ég hafði orðað það einnig þannig í minni ræðu, að það verðfall hafi hins vegar haldið áfram á árinu 1960. En það var ekki, eins og hæstv. viðskmrh. sagði, eingöngu á árinu 1960. Það var orðið á árinu 1959.

Þá var annað atriði í útreikningum hæstv. viðskmrh. varðandi þessi mál, sem ég hefði haft gaman af að víkja að, en það eru útreikningar hans á því, að verðlag á sjávarafurðum hafi raunverulega farið lækkandi að meðaltali til frá árslokum 1959 og þar til í ágústmánuði nú í sumar. Hæstv. ráðherra hafði í sinni frumræðu slöngvað þessu fram og haldið því fram, að hér hefði verið um verðlækkun að ræða, sem næmi að meðaltali 1.8% á þorsk- og karfaafurðum, og meðaltalslækkunin á þorsk- og síldarafurðum væri 3.8%. Hann færði þessu ekki frekar stað í sinni fyrri ræðu, en ég vefengdi þetta og nefndi dæmi, sem bentu mjög til þess, að þetta fengi ekki staðizt. En í síðari ræðu sinni reyndi hæstv. ráðh. að sanna þetta enn frekar og tilnefndi nú allmargar tölur eins og áður um verðbreytingarnar, sem orðið hefðu á ýmsum útflutningsvörum sjávarútvegsins á þessu tímabili, frá árslokum 1959 og til ágústmánaðar í sumar. Ég hef nú virt þessar nýju tölur hæstv. ráðh. fyrir mér, og ég hika ekki við það eftir að hafa kynnt mér þær að segja, að þær séu alrangar, því að þótt ekki væri neitt annað en það að reikna bara út með venjulegum reikningi frá þeim tölum, sem hæstv. ráðh. tilnefndi hér, þá kemur í ljós, að tölur hans eru rangar. En auk þess er svo grundvöllurinn hjá honum líka alrangur. Þegar hæstv. ráðh. fær þetta út, segir hann, að miðað sé við það, að verð á fiskimjöli hafi lækkað á þessum tíma um 25.8% og á síldarmjöli um 18%. Taki maður bara þær tölur, sem hæstv. ráðh. nefndi hér um verðlagið í árslokin 1959 eða ársbyrjun 1960 og svo aftur nú í ágústbyrjun, þá er alveg augljóst mál, að þessar prósentur eru rangar, þær fá ekki staðizt. En auk þess er svo það, að eins og ég hef sýnt hér fram á áður, eru tölurnar, sem hæstv. ráðh. er með um hið raunverulega verð á þessum afurðum seinni hluta ársins 1959, rangar. Þær eru ekki í samræmi við það verð, sem raunverulega var orðið á þeim og menn urðu að glíma við, þegar spurningin var um það, hvort þeir ættu að selja eða selja ekki. Þó að sú verði útkoman, að þeir, sem liggja með síldarmjöl og síldarlýsi í októbermánuði og nóvembermánuði og desembermánuði 1959, selji næstum ekki neitt og það sé enn hægt að halda sig við gamla verðið, þá sannar það ekkert um verðið, sem orðið var, og þó að þessar vörur hafi síðan allar verið seldar á árinu 1960, vorið 1960, á þessu lága verði, sem var orðið fyrir löngu, en salan fór ekki fram fyrr en þarna, þá sannar það ekki, að þá fyrst hafi verðlækkunin orðið. Hæstv. viðskmrh. nefndi t.d. um verð á fiskimjöli, að þann 9. febr. eða nokkru fyrir gengisbreytinguna hafi verð á fiskimjöli verið á tiltekinni sölu, sem hann nefndi, 18 sh. og 6 d. Það var athyglisvert með þessa sölu, sem fór fram 9. febr., að hún var upp á 50 tonn. Og ég verð nú að segja það, að það er alger undantekning, að slíkar sölur fari fram, enda er auðvitað verðið, sem þarna er skráð, langtum hærra en verðið var á þessum tíma. En göngum samt út frá því, að verðið hafi verið 18 sh. og 6 d. á protein-einingu 9. febr. 1960. Og svo skulum við ganga út frá því, að verðið hafi verið það, sem hæstv. ráðh. tilgreindi hér í ræðu sinni, nú í ágústmánuði, 17 sh. og 3 d. Þá sjá allir, að verðlækkunin er ekki 25.8%, heldur rétt í kringum 5%. Og þó að maður taki síðustu söluna, sem hæstv. ráðh. nefndi á árinu 1959, sem er, eins og ég sagði, á alveg óraunhæfu verði, 20 sh. og 3. d., sem var toppurinn á árinu 1959 eða um það bil, og svo aftur síðari töluna, sem ráðh. nefndi, 17 sh. og 3 d., þá sjá allir, að lækkunin er ekki nema 15%, en ekki 25.8%. Það er því alveg augljóst mál, að bara prósentuútreikningurinn hjá hæstv. ráðh. heldur ekki, ekki einu sinni það. Verðlækkunin er ekki þessi, sem hæstv. ráðh. hefur reiknað með í meðaltalsútreikningi sínum. En auk þess var svo verðið allt annað í raun og veru seinni hluta ársins 1959 og í byrjun ársins 1960 heldur en ráðh. er með í sínu dæmi.

Hæstv. ráðh. segir varðandi lýsisverðið, að í meðaltalsútreikningnum sé reiknað með, að síldarlýsið hafi lækkað á þessu tímabili um 32.6%. En samkv. hans eigin tölum, sem ég, eins og ég hef sagt, hef fyrirvara á, vegna þess að það er allt of hátt verð skráð í lok ársins 1959, en jafnvel þó að sé gengið út frá hans tölum, þá var verðið á síldarlýsi, sem þá var selt, 400 tonnum, 62 sterlingspund tonnið, en verðið, sem hann gaf upp að hefði verið á stórum sölum á síldarlýsi nú í aprílmánuði og maímánuði á þessu ári, var 59 sterlingspund tonnið á stærri sölunni og á minni sölunni 57 pund og 5 sh., eða verðlækkunin samkv. hans eigin tölum er ekki nema 5%–7.5%, en hann notar hér í þessa meðaltalsútreikninga sína, að lýsið hafi lækkað um 32.6%. Er þetta nú ekki, hæstv. viðskmrh., að fara svolítið léttúðlega með sannleikann, svo að maður noti þau orð, sem hæstv. ráðh. notaði um það, sem ég hafði sagt? Er það ekki að fara nokkuð léttúðlega með sannleikann að tilnefna tölur og svo passar ekkert af þeim einu sinni í beinum útreikningi?

Ég hef stundum látið falla hér nokkuð beisk orð í garð hagfræðinga, sem ég skal þó játa að ég met mikils á margan hátt, því að ég álít, að ég hafi ýmislegt af þeim gott lært. Ég verð að segja það, að mér hefur yfirleitt fundizt þeir fara sæmilega rétt með tölur. Ég hef ásakað þá mest fyrir það, að þeir hafi ekki skilið, hvað á bak við tölurnar stendur í ýmsum tilfellum. Þar sem ég hef þekkt bezt til, eins og í sambandi við sjávarútvegsmál, hef ég fundið þetta áberandi. En það keyrir auðvitað alveg um þverbak í þessum efnum, þegar hagfræðingar eins og hæstv. viðskmrh. fara rangt með útreikninga í beinum prósentureikningi, í beinni meðferð talna. Þá kastar vitanlega alveg tólfunum. Ég held því, að það hafi verið býsna rétt. sem ég sagði hér í minni fyrri ræðu, þessari ræðu, sem stakk svona á þessum belg, sem hæstv. ráðh. blés hér upp, sem allir vita, að hæstv. ráðh. var fyrir fram ákveðinn í að reikna það út, að ytri áföll, aflabrestur og verðfall, hefði sett hér allt í strand. Og ég sagði, að ég væri honum sammála í því, um þessa meginútkomu úr dæmi hans, — viðreisnarpólitíkin hans var komin í strand, það var rétt. En skýringar hans á því, hvað því olli, að hún var komin í strand, voru alrangar. Þær fá ekki staðizt. Það voru engin ill náttúruöfl, sem settu allt úr skorðum hjá hæstv. ríkisstj., það var hennar ranga efnahagsstefna, sem hér greip inn í. Vaxtaokrið, pólitík, sem leiddi m.a. til framleiðslustöðvana og annarra erfiðleika í framleiðslu landsmanna, það var það, sem hér var að verki, en ekki hitt, að það væri einhver sérstakur aflabrestur eða sérstök verðlækkun, sem olli því, að svona hafði farið.

Ég hafði leyft mér að halda því fram, að sannleikur málsins hafi verið sá, að nú á miðju ári, eða um það leyti, sem nýja gengislækkunin var ákveðin, hafi raunverulega verð á okkar útflutningsvörum verið orðið alimiklu hærra en það var á þeim tíma, sem gengislækkunin í febrúarmánuði 1960 var ákveðin. Sannleikurinn er sá, að verð á síldarmjöli og fiskimjöli og síldarlýsi, sem hafði lækkað fyrst og fremst á árinu 1959, þetta verð t.d. á síldarmjölinu og fiskimjölinu fór ofan í 11 sh. á protein-einingu, og megnið var selt á kringum 12 sh. til 12 sh. og 6 d. Niður í þetta hafði verðið fallið. En hvað var svo komið nú á miðju sumri, að þá var þetta verð komið upp í 17 sh. og 6 d. og 18 sh„ einnig eftir upplýsingum, sem hæstv. viðskmrh. hefur gefið hér í þessum umræðum. Það er því enginn vafi á því, að verðið var orðið hærra, allmiklu hærra en reiknað var með í gengislækkunarlögunum í febrúarmánuði 1960. Verðið á síldarlýsi var mjög svipað. Nú voru gerðar allstórar fyrirframsölur á þessu vori, upp á 59 sterlingspund tonnið, en verðið var í kringum 60 sterlingspund tonnið, 62 sterlingspund og fór niður í 57 sterlingspund um áramótin fyrir gengisbreytinguna. En aðrar afurðir, sem ég hafði hér vikið að, — þetta voru þær, sem aðallega höfðu lækkað, — en aðrar afurðir, eins og hæstv. viðskmrh. varð að viðurkenna, höfðu yfirleitt hækkað. En þær hafa auðvitað hækkað, allt annað en það, sem hæstv. ráðh. gaf hér upp.

Ég er eiginlega alveg gáttaður á þeirri fyndni hjá hæstv. viðskmrh., sem ætti þó að vita einhverja ögn um þessi mál, að hann skuli lesa hér upp yfir alþm. slíkar tölur sem hann gerði um þá verðbreytingu, sem orðið hefur á ýmsum okkar útflutningsvörum á þessu tímabili. Hann segir t.d., að verð á ísfiski, sem flestir fylgjast með verðinu á, hafi hækkað frá árslokum 1959 og þangað til nú um 3.8%. Hvílík firna fjarstæða! Ég veit, að það er til aðeins ein leið til að búa til svona vitlausar tölur, og ég þykist alveg sjá, hvernig hún kemur út. Það er auðvitað getgáta, en ég læt hana samt fara til skýringar á því. Þeir menn, sem taka verðið á ísvörðum fiski hjá íslenzkum skipum, t.d. í Bretlandi eða Þýzkalandi, í desembermánuði eða nóvembermánuði, þegar markaðurinn er hæstur og beztur, og bera það svo aftur saman við markaðsverðið í júlí eða ágústmánuði, þegar gengislækkunin var gerð, þegar fiskur er nær óseljandi á erlendum markaði á hitatímabilinu og fellur alltaf lægst, þeir, sem bera saman svona tölur, geta vitanlega fengið út 3.8%. En þannig ber enginn maður saman verð á ísfiski. Þeir, sem eitthvað þekkja til málanna, verða vitanlega að bera saman sambærilega tíma og helzt yfir eitthvað svolítið tímabil til þess að geta gert sér grein fyrir því, hvort um hækkun eða lækkun hefur verið að ræða á ísfiski á erlendum mörkuðum. En þessi tala er hrein vitleysa, að verðlagsbreytingin á ísfiski hafi aðeins verið 3.8% á þessu tímabili.

Þá sagði hæstv. viðskmrh., að verðhækkun hefði orðið á freðfiski frá árslokum 1959 þangað til nú í ágústmánuði í sumar, og nefndi töluna 4%. Það er ekki ómerkilegt fyrir þá, sem hafa staðið í því sjálfir að selja þessa vöru og ættu að vita um verðið á henni, að heyra þetta nefnt. Ég nefndi hér tvo aðila í fyrri ræðu minni í sambandi við verð á frosnum fiski. Það liggur opinberlega fyrir og það vita allir landsmenn, að það var gerður nýr sölusamningur við Sovétríkin um frosinn fisk. Verðið bæði á karfaflökum og þorskflökum var hækkað í þessum samningi úr 128 sterlingspundum tonnið upp í 140 sterlingspund, eða um rétt tæp 10%. Ég nefndi líka, að verðið á einingu bæði til Tékkóslóvakíu og Austur-Þýzkalands hafi líka hækkað mun meira en þetta. Okkur hefur verið sagt það, eins og ég sagði hér í minni fyrri ræðu, að verðið á Bandaríkjamarkaði hafi hækkað líka og miklu meira en þetta. En ef verðið hefur nú hækkað til Rússa og annarra slíkra, hvar hefur verðið þá lækkað, til þess að út komi talan 4%? Hvar hefur það lækkað? Hverjum hefur verið selt á lægra verði? Vill ekki hæstv. viðskmrh. skýra frá því, fyrst hann er að nefna þessar tölur? Nei, hér er vitanlega um alranga tölu að ræða. Hið sanna mun vera það, sem ég hélt hér fram og ég hef heyrt þá menn halda fram, sem eru gjörkunnugastir þessum málum, að á árinu 1960 og nú fram á 1961 megi reikna með því, að meðaltalshækkun á frosnum fiski sé í kringum 10%, en ekki 4%.

Svo segir hæstv. viðskmrh. mér það, að verð á skreið hafi hækkað um 4% á þessu tímabili, frá árslokum 1959 til miðs sumars 1961. Það vill nú svo vel til með skreiðina, að ég ætti að þekkja nokkuð vel til með hana, — ég er í stjórn þeirra landssamtaka, sem aðallega hafa með þetta að gera, — og það vill svo vel til líka, að það er gefið út lágmarksverð á skreið og það er ekki heimilað að selja undir þessu lágmarksverði. Og það var gefið út nýtt lágmarksverð upp úr áramótunum síðustu, og þar er um minnstu hækkun að ræða 9%. Svo kemur viðskmrh. og segir, að hann hafi reiknað í sínum útreikningum með 4%. Óverkaður saltfiskur, og svo skal ég nú ekki tína upp miklu meira af þessu, segir hæstv. ráðh. að hafi hækkað um 5%. Ég las hér í þessum umræðum beint upp úr ársskýrslu íslenzkra saltfiskframleiðenda, þar sem segir, að þeir hafi fengið hækkun á árinu 1960 4%. Hitt liggur svo fyrir, eins og ég hef upplýst hér í þessum umræðum, að á þessu ári hafa verið gerðar allmargar sölur á saltfiski og nokkuð stórar, og hækkunin er frá minnst 6% og upp í 17%. Ég ætla, að þessar tölur m.a. sýni alveg greinilega, að þessi meðaltalsútreikningur hjá hæstv. viðskmrh. á enga stoð í veruleikanum. Hér er farið alveg rangt með staðreyndir. Sannleikur málsins er sá, að á þessu tímabili hefur verið um talsverða hækkun á okkar útflutningsvörum að ræða. Útflutningurinn stóð því betur að vígi þannig séð á miðju sumri í ár en hann gerði áður. Hitt er svo auðvitað ljóst, og allir veita því athygli, að ráðh. fær út þessa meðaltalslækkun með því að reikna óeðlilega mikla lækkun á síldarafurðum og fiskimjöli á þessu tímabili.

Ég ætla svo, að allar aðvaranir hæstv. ráðh. til hv. þm. og annarra, sem hér hlýddu á, um það, að þeir mættu ekki taka orð mín gild í þessum efnum, — ég ætla nú, að þær verði ekki teknar ýkja alvarlega hjá þeim, sem hafa fylgzt með því, sem ég hef greint frá nú um þessi atriði.

En ég vék að ýmsu fleira í ræðu hæstv. ráðh., þegar ég flutti hér mína ræðu. Ég benti á, að útreikningar hans um það, að þjóðarbúið hafi misst af tekjum, sem næmu 400 millj. kr., árið 1960 vegna aflabrests og verðlækkana, væru rangir. Ég vék að því, að hin talan, sem hæstv. ráðh. nefndi, að búast mætti við, að þjóðarbúið fengi í ár, 1961, um 320 millj. kr. minna frá sjávarútveginum en eðlilegt hefði verið, — ég vék að því, að sá útreikningur fær ekki heldur staðizt. En til viðbótar þessu gerði ég svo grein fyrir því, að í þessari síðari tölu, 320 millj. sem minna á að koma í þjóðarbúið á yfirstandandi ári frá sjávarútveginum, þar er að finna tölu hjá hæstv. ráðh., sem hann taldi að væri 150 millj. kr., vegna aukins rekstrarkostnaðar hjá fiskiskipaflotanum eða útgerðinni á árinu 1961 fram yfir það, sem áður hefði verið. Ég gerði aths. við þessa tölu hjá hæstv. ráðh. Ég benti á, að útreikningum hans um það að færa upp rekstrarkostnað bátanna á árinu 1961 til samræmis við aukinn fjölda þeirra ætti ekki að haga eins og hæstv. ráðh. gerði, því að hann gerði ekki ráð fyrir því, að bátafloti landsmanna lá langtímum saman ónotaður á árinu 1961. Mikill hluti bátaflotans var ekki rekinn í janúar- og febrúarmánuði s.l. Og til þess arna átti vitanlega að taka tillit í sambandi við rekstrarkostnað flotans, ef menn ætluðu sér að fara út í það að reikna út rekstrarútgjöld. Hæstv. ráðh. hljóp yfir þetta. Og hæstv. ráðh. hækkaði rekstrarútgjöld togaraflotans með því að bæta þeim nýju togurum við, sem keyptir höfðu verið, og reiknaði auðvitað með því, að útgjöld þeirra yrðu þar af leiðandi meiri. En hann tók ekki tillit til þess, að það voru reknir miklu færri togarar og eru reknir miklu færri togarar árið 1961 en höfðu verið reknir hér áður. Samt hækkaði hann útgjöldin í rekstri skipanna. Ég benti ráðh. á þetta, og hverju svaraði hann? Engu. Hann vildi aðeins halda sér við það, sem hann hafði áður sagt, að þjóðarbúið hefði orðið fyrir miklum áföllum, bæði árið 1960 og 1961, vegna þess að sjávarútvegurinn skilaði í þjóðarbúið minna en áður.

Ég vék líka að því í minni ræðu og finnst ástæða til að koma að því hér aftur með örfáum orðum, að gengislækkunin, sem var ákveðin 4. ágúst í sumar, var í raun og veru ekki gerð fyrir útgerðina í landinu, og það sést bezt á því, að á sama tíma sem verð á erlendum gjaldeyri er hækkað um 13.1% fékk útflutningurinn ekki að njóta tilsvarandi hækkunar á sínum útflutningsvörum. Ríkissjóður byrjaði strax á því að taka til sín talsverðan hluta af gengishagnaðinum og ákvað að ráðstafa þessum hluta af gengishagnaðinum til þess að standa undir afborgunum og vöxtum af ríkisábyrgðarlánum, sem ríkissjóður hefur hingað til staðið einn undir. Hér var því verið að gera gengislækkun, sem var til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Þessu hefur ekki verið mótmælt, enda er það erfitt. Það er líka alveg ljóst mál, að ríkissjóður hlýtur að fá verulega auknar tekjur, tolltekjur og söluskattstekjur, frá 4. ágúst í sumar, að gengislækkunin var gerð, vegna þess að tollarnir eru innheimtir af hærri fjárhæðum en áður og hljóta því að veita ríkinu mun meiri tekjur.

Það er alveg augljóst mál, að ríkissjóður hafði nokkurn hagnað í svipinn af þessari gengisbreytingu, en t.d. fiskiskipafloti landsmanna hefur ekki haft neitt hagræði af gengislækkuninni. og spurði hæstv. ráðh. um það og þá aðra ráðh., sem hér voru staddir, hvað ríkisstj. hugsaði sér áð gera til þess, að t.d. fiskiskipastóllinn fengi að njóta gengislækkunarinnar, a.m.k. á móti því, sem sjávarútvegurinn verður að gjalda vegna lækkunarinnar. Fiskverð hefur ekki breytzt um einn einasta eyri til bátaflotans frá 4. ágúst í sumar. Verð á þorski hefur ekki hækkað um einn eyri. Verð á síld hefur ekki hækkað um einn eyri. Bátaflotinn fékk enga tekjuhækkun, en bátaflotinn og togaraflotinn fengu auðvitað aukin rekstrarútgjöld sem afleiðingu af gengisbreytingunni. Og ég benti einnig á það, að það virðist allt stefna á það, að sjávarútvegurinn eða fiskiskipastóllinn fái ekki heldur að njóta neinnar verðhækkunar vegna gengislækkunarinnar á næsta ári, því að fulltrúar bátanna í landinu og togaranna hafa snúið sér til þeirra, sem kaupa aflann hér innanlands og vinna aflann, og hafa óskað eftir því að fá samninga um hækkað verð á aflanum til samræmis við gengisbreytinguna, því að gengisbreytingin var afsökuð með því, að þetta væri gert fyrir fiskiskipaflota landsmanna. Og þessir kaupendur hafa svarað og sagt, að þeir gætu ekki hækkað fiskverðið um einn einasta eyri.

Gengislækkunin, eins og hún hefur verið framkvæmd til þessa, hefur því ekki komið sjávarútveginum nema mjög takmarkað til góða. En sjávarútvegurinn hefur fengið stóraukin útgjöld vegna gengisbreytingarinnar. En hæstv. viðskmrh. vék ekki einu orði að þessum atriðum í sinni löngu ræðu, sem hann flutti hér s.l. fimmtudag. Það segir vitanlega nokkuð sína sögu um það, hvernig þau rök hans standast, að þessi gengislækkun hafi verið gerð fyrir sjávarútveginn í landinu.

Þá er hér eitt atriði enn, sem mig langar til að minnast á örfáum orðum, af því, sem hefur komið hér inn í þessar umræður, en það er það, er hæstv. viðskmrh. hélt því fram, að við, sem erum andvígir þessari síðari gengislækkun og höfum deilt allmikið á þá ráðstöfun, héldum því fram í öðru orðinu, að atvinnuvegir landsmanna hefðu getað borið kauphækkun þá, sem ákveðin var hér á s.l. sumri, en í hinu orðinn héldum við því fram, að viðreisnarstefnan hafi komið atvinnuvegunum á kaldan klaka. Frá minni hálfu hefur þetta komið alveg skýrt fram. Ég hef allan tímann haldið því fram og bent á það, að gengislækkunin í febrúarmánuði 1960 var framkvæmd þannig, var gerð þannig, að á því er enginn vafi, að nokkrar greinar í atvinnulífinu högnuðust á gengisbreytingunni. Iðnaðurinn, innlendi iðnaðurinn, hlaut að hagnast, af því að hann fékk stóraukna vernd gagnvart innfluttum vörum með nýjum gífurlega háum söluskatti. Og reynslan hefur líka sannað þetta, að iðnaðurinn hefur grætt, og hann gat út af fyrir sig staðið undir nokkurri kauphækkun, eins og forustumenn iðnaðarins, m.a. í þessum umræðum, hafa lýst yfir að hafi verið kleift fyrir iðnaðinn. Ég hef líka bent á áður, að það leikur enginn vafi á því, að skipafélögin í landinu högnuðust á gengisbreytingunni, sem gerð var í febrúarmánuði 1950. Reikningar þeirra sýna það líka, að þau hafa haft verulegan gróða. Þau hefðu getað staðið undir kauphækkuninni að sínu leyti. Það er heldur enginn vafi á því, að vátryggingarfélögin í landinu græddu á gengisbreytingunni. Þau hefðu sannarlega getað staðið undir kauphækkuninni að sínu leyti. En á hinu er enginn vafi, að sjávarútvegurinn var þannig settur vegna efnahagsstefnu ríkisstj. almennt séð, að hann gat ekki einu sinni gengið þrátt fyrir enga kauphækkun. Það er mér ljóst. En það sannar ekki, að það sé rétt að láta þar staðar numið og segja, að þá sé allt í lagi. Það ber vitanlega að átta sig á því, að það voru tilteknar ráðstafanir í efnahagsmálastefnu ríkisstj., sem gerðu sjávarútveginum svona erfitt fyrir, þó að jafnvel væri um að ræða hækkandi verðlag á erlendum mörkuðum. Vaxtaokrið, sem ríkisstj. hefur haldið uppi, hefur lagt gífurlega þungan skatt á sjávarútveginn sem heild. Það var auðvelt fyrir sjávarútveginn að standa undir þeirri kauphækkun, sem samþykkt var á s.l. sumri, hefði ríkisstj. viljað t.d. fara eftir tillögum okkar Alþb.-manna um að lækka vextina og þá einkum og sérstaklega á framleiðslulánum verulega, eins og bankakerfið í landinu þyldi mjög auðveldlega. Hefði þetta verið gert, þá hefði ekki verið um neinn vanda að ræða hjá sjávarútvegi okkar. Það hefði líka átt að breyta til um þá óheillavænlegu og röngu viðskiptastefnu, sem ríkisstj. hefur haldið uppi nú síðan viðreisnin var ákveðin, því að sú viðskiptastefna hefur verið útflutningsframleiðslunni mjög í óhag. Sú viðskiptastefna hefur dregið úr beztu mörkuðunum og jafnvel skapað söluörðugleika í sumum greinum. Hér er því ekki um neina mótsögn að ræða, eins og hæstv. viðskmrh. vill láta liggja orð að. En hitt er svo líka ljóst, að það verður ekki hægt að halda því fram, að sá tiltölulega litli munur í kauphækkun þeirri, sem endanlega var um samið, 10–12%, og hinni, sem ríkisstj. hafði áður lýst yfir að hún mundi styðja, um 6%, þessi tiltölulega litli munur getur ekki verið meginorsökin til þess, að ríkisstj. greip til þess óyndisúrræðis að fella gengi krónunnar aftur í sumar.

Ég skal svo, þar sem venjulegur fundartími er nú búinn, ljúka hér máli mínu, en vil aðeins segja það, að ég ætla, að það hafi nú komið svo skýrt fram sem þörf er á, að ég hef farið hér með rétt mál í sambandi við aflamagnið á árinu 1960 og afla undanfarandi ára og einnig um verðlagið, en hins vegar held ég, að hæstv. viðskmrh. verði að læra betur í þeim efnum en vott hefur borið um, að hann kynni hér.