13.11.1961
Neðri deild: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Hæstv. forseti. Okkur hv. 4. þm. Austf. (LJós) greinir mjög á um, hverjar ákveðnar staðreyndir séu varðandi verðlag á íslenzkum útflutningsafurðum. Ég hafði aldrei gert mér neina von um, að mér tækist að fá hann til þess að játa það hér í þessum ræðustól, að hann hefði ekki farið með rétt mál í hinni harðorðu ræðu sinni, sem hann flutti í gagnrýniskyni á það, sem ég hafði sagt við upphaf þessarar umr. Ég flutti mitt mál til þess að gera öðrum hv. þm. ljóst, að það, sem þessi hv. þm. hafði sagt, fékk ekki staðizt.

Ég ætla í örfáum setningum að rifja upp, um hvað við höfum deilt og um hvað við deilum, áður en ég kem að þeirri uppástungu, sem ég ætla að gera gagnvart hv. þm.

Ég hafði sagt það í framsöguræðu minni, að sjávaraflinn hafi á árinu 1960 orðið minni en á árinu 1959. Ég hafði sagt, að um mjög alvarlegt verðfall á íslenzkum sjávarafurðum hafi orðið að ræða á árinu 1960, á árinu 1961, þessu ári, hafi hins vegar orðið um verulega verðhækkun að ræða, en sú verðhækkun vegi hins vegar enn ekki upp á móti verðfallinu, sem varð á árinu 1960, þannig að í ágúst 1961, þegar síðari gengisbreytingin var gerð, hafi meðalverð á sjávarafurðum enn verið dálítið lægra en það var um áramótin 1959–1960, þegar fyrri gengisbreytingin var afráðin. Hv. þm. sagði í fyrri ræðu sinni, að allt þetta, sem ég hefði sagt, væri rangt. Þess vegna hélt ég seinni ræðu mína. Og þrátt fyrir þær upplýsingar, sem í henni komu fram, og þær tölur, sem ég las úr opinberum skýrslum og úr bókhaldi ríkisstofnana, þ.e. útflutningsdeildar viðskmrn., kemur hv. þm. hér enn og endurtekur, að allt þetta, sem ég hafði sagt og ég lýsti í meginatriðum áðan, hvað var, sé rangt. Nú er það að vísu svo, að um aflamagnið er ástæðulaust að deila, því að um það eru til opinberar skýrslur, enda kom það fram strax í fyrri ræðu hv. þm. og einnig í þessari síðari ræðu, að það, sem ég hafði sagt um það mál, er rétt, aflinn var minni á árinu 1960 en hann hafði verið á árinu 1959. Þetta deilumál má því segja að sé úr sögunni. En hv. þm. skákar í því skjóli, að opinberar skýrslur eru ekki birtar um verðlag á sjávarafurðum eða verðbreytingar frá mánuði til mánaðar eða ári til árs. Og þess vegna telur hann sér fært að koma hér og staðhæfa enn, að þær tölur, sem ég hef birt samkv. opinberum heimildum um þessi efni, séu rangar.

Nú tel ég í sjálfu sér vera afar óheppilegt og ekki vansalaust, að tveir menn skuli standa hér hver á eftir öðrum í ræðustóli sjálfs Alþingis og segja sitt hvað um hluti, sem jafnauðvelt á að vera að komast að sannleikanum um og verðlag á fiskimjöli og lýsi og á íslenzkum sjávarafurðum yfir höfuð að tala og hvernig það breytist frá ári til árs og mánuði til mánaðar. Ég tel það vera nauðsynlegt fyrir hv. þm. — og ekki aðeins fyrir þá, heldur fyrir allan almenning í landinu, sem fylgzt hefur með þessum orðaskiptum okkar, að fá að vita, hvað satt er í þessu. Þó að okkur hv. þm. hafi í þessum efnum greint á um margt, þá ætla ég nú að gera til hans ákveðna uppástungu og vona, að við getum orðið sammála um hana. Ég ætla að stinga upp á því, að við sameiginlega skrifum Fiskifélagi Íslands, — sem væntanlega er sú stofnun, sem við báðir getum treyst í þessum efnum, — við skrifum Fiskifélagi Íslands stutt bréf og biðjum það um skýrslu um þróun verðlags á fiskimjöli og lýsi á árunum 1959, 1960 og 1961 og biðjum það enn fremur um að gera samanburð á verðlagi íslenzkra sjávarafurða um áramótin 1959–1960 annars vegar og í ágúst s.l. hins vegar. Ég sting einnig upp á því við hann, að þegar þessi skýrsla er fengin, þá gerum við sameiginlegar ráðstafanir til þess, að hún sé birt í dagblöðunum öllum, og þá getur almenningur — auk þingmanna — fengið um það að dæma, hvor okkar hafi farið með rétt mál í þessari deilu og hvor með rangt mál. Ég vil sem sé stinga upp á því við hv. þm., að við undirskrifum báðir svo hljóðandi bréf til Fiskifélags Íslands:

„Þess er hér með óskað, að Fiskifélag Íslands semji skýrslu um þróun verðlags á fiskimjöli og lýsi á árunum 1959, 1960 og 1961 og geri enn fremur samanburð á verðlagi íslenzkra sjávarafurða um áramótin 1959–1960 og í ágúst s.l.“

Ég er tilbúinn til þess ásamt hv. þm. að koma þessari beiðni á framfæri við Fiskifélagið, og að sjálfsögðu tilbúinn til þess á eftir að standa að því, að a.m.k. það blað, sem ég á sérstakan aðgang að hér í höfuðstaðnum, birti þessa skýrslu. Þetta tilboð geri ég hér með til hv. 4. þm. Austf.