24.10.1961
Efri deild: 8. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

42. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það hefur verið nokkurn veginn ófrávíkjanleg regla á undanförnum árum, að bótagreiðslur almannatrygginganna hafa verið látnar fylgja launahækkunum, sem orðið hafa, þegar um einhverjar launahækkanir að ráði hefur verið að ræða. Nú hefur það einnig orðið nokkurn veginn föst venja, að þessar breytingar hafa verið látnar fylgja þeim breytingum, sem orðið hafa á launum opinberra starfsmanna.

Á s.l. sumri voru laun opinberra starfsmanna hækkuð til samræmis við þær breytingar, sem höfðu orðið hjá öðrum, um 13.8%, og var hækkunin látin gilda frá 1. júlí 1961. Þetta frv., sem hér er lagt fram, gerir ráð fyrir því, að allar bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar skuli, eftir því sem við getur átt, hækka um 13.8% frá 1. júlí 1961 og að næsta 1. júní, 1962, verði bæturnar enn hækkaðar um 4%, til samræmis einnig við það, sem ákveðið hafði verið fyrir opinbera starfsmenn ríkisins.

Í 2. gr. frv. er svo heimild fyrir Tryggingastofnunina að greiða þessa hækkun bóta á árinu 1961 í einu lagi fyrir árslokin og sömu hlutfallshækkun fyrir fyrstu fimm mánuði af árinu 1962 einnig í einu lagi fyrir júnílok það ár.

Í 3. gr. er svo heimild fyrir Tryggingastofnunina til að taka lán, eftir því sem nauðsynlegt kann að reynast, til þess að standa undir þeim útgjöldum, sem af þessum hækkunum leiðir.

Þessi hækkun, sem talin er að verða muni á árinu 1961 af þessum sökum, er áætluð 28.2 millj. kr., þar af 10.4 millj. vegna fjölskyldubótanna einna, sem ríkissjóður greiðir einn, en hinar 18 millj. tæpar skiptast svo, eins og aðrar bótagreiðslur Tryggingastofnunarinnar, þannig, að hinir tryggðu bera nokkurn hluta kostnaðarins, ríkið nokkuð og ýmsir aðrir aðilar enn annan hluta af kostnaðinum.

Í lögum um almannatryggingar er heimilað að taka tillit til halla eða afgangs, sem verða kann á rekstri stofnunarinnar, og leiðrétta það, sem á vantar eða afgangs hefur orðið, á næsta ári. Í sambandi við þessi auknu útgjöld á árinu 1961, sem gert er ráð fyrir að verði mætt með lántöku í bili, þá er vitaskuld gert ráð fyrir því, að þessum kostnaði verði jafnað niður á aðilana á árinu 1962, eins og öðrum útgjöldum almannatrygginganna.

Ég tel mig svo ekki þurfa að hafa um þetta fleiri orð. Málið liggur ákaflega einfaldlega og ljóst fyrir. En ég vildi leyfa mér að leggja til, að frv. yrði að þessari umr. lokinni vísað til hv. heilbr - og félmn.