17.11.1961
Neðri deild: 20. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (940)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Lúðvík Jósefsson:

Hv. forseti. það er nú augljóst mál, að hæstv. viðskmrh. ber sig heldur illa undan þeim umr., sem hér fóru fram um tiltekið dagskrármál fyrir nokkrum dögum. Honum hefur ekki nægt að ræða það mál, þegar það er hér á dagskrá, heldur kemur nú hér upp utan dagskrár og ber sig heldur illa. það er auðvitað að vonum, eins og hans málstaður er í þessu máli. Nú þykist hæstv. viðskmrh. hafa fengið skýrslu frá Fiskifélagi Íslands, sem sannar hans málstað, en afsannar minn. Við skulum nú líta svolítið betur á það, hvað hér er raunverulega sagt.

Fyrst er það að segja, að hæstv. viðskmrh. margendurtekur í ræðu sinni, að ég hafi sagt það, sem ég hef aldrei sagt. Hann heldur því hér fram, að það hafi verið deila um það hjá okkur, að ég hafi sagt, að það hafi engin verðlækkun orðið á árinu 1960. Þvert á móti hafði ég margundirstrikað það, að verðlækkunin hafi haldið áfram á árinu 1960. Deila okkar í sambandi við verðlagsmálin snerist um það, að ég hélt því fram, að sú mikla verðlækkun á mjöli og lýsi, sem hæstv. viðskmrh. reiknaði með í sínum útreikningum, hefði farið fram að verulegu leyti á árinu 1959 og þegar verið tekið tillit til hennar við útreikninga á hinu nýja gengi, en hæstv. viðskmrh. lítur gersamlega fram hjá þeirri verðlækkun, sem átti sér stað á árinu 1959, og reiknar alla verðlækkunina á árið 1960. Það breytir engu í þessum efnum, hversu hæstv. viðskmrh. endurtekur það oft, að ég hafi sagt, að engin verðlækkun hafi orðið ú árinu 1960. Ég þvert á móti sagði, að verðlækkunin hefði haldið áfram á árinu 1960, en meginverðlækkunin hafði farið fram 1959.

Ég vík þá að því, sem Fiskifélagið segir um þetta, og þeim gögnum, sem ég hafði byggt á, og þeirri reynslu, sem ég hafði í þessu, því að það skal hæstv. viðskmrh. vita, að ég hef líka í mínum höndum bein tilboð erlendis frá í sambandi við verðlagningu á þessum vörum, sem sanna það, hvað verðlagið var. Það eru fleiri en stjórn síldarverksmiðja ríkisins, sem vita, hvað verðlagið var orðið á mjöli og lýsi seinni hluta ársins 1959. En hitt veit ég, eins og ég hafði tekið fram áður, að Fiskifélag Íslands og útflutningsnefnd sjávarafurða á Íslandi skrá vitanlega ekki verðlagninguna, fyrr en salan fer fram. Síldarlýsið, sem framleitt var árið 1959, 19600 tonn, eða öll ársframleiðslan á lýsi frá 1959, lá sem birgðir um áramótin, hún var ekki seld fyrr en í marz- og aprílmánuði 1960, og þá vitanlega fyrst kom verðlækkunin fram á skýrslum hér. En hvernig stóð á því, að lýsið var ekki selt eins og venjulega að lokinni síldarvertíð 1959? Voru menn að leika sér að því að liggja með allt lýsið í september-, október-, nóvember- og desembermánuði 1959 og janúarmánuði 1960? Voru menn að leika sér að því? Hvernig stóð á því, að allar birgðirnar voru í árslokin, þó að salan færi ekki fram fyrr en í marz- og aprílmánuði, og þá vitanlega kom verðlækkunin fram á skýrslum? Það eru nefnilega til menn, eins og ég hef hér bent á, sem skilja ekki neitt í þessum málum annað en þurrar tölur og halda, að hægt sé að fara eftir þeim án þess að vita nokkuð, hvað á bak við tölurnar stendur. En sannanlega hafði verðlækkunin farið fram, og það verður Fiskifélag Íslands að viðurkenna, sem þó er að reyna að bjarga hæstv. ráðh. út úr hans ógöngum, það verður að viðurkenna í bréfi sínu, að verðlækkun á fiskimjöli, einmitt því mjölinu, sem ég sagði hér í minni ræðu að verðlækkunin byrjaði seinna á, að sú verðlækkun hafi byrjað á miðju árinu 1959. Ég benti á það, að fiskimjölið á árinu 1959 er yfirleitt framleitt fyrri hluta ársins, 85%a af ársframleiðslunni fer fram fyrir maílok, en það var búið að flytja út 22 þús. tonn af fiskimjöli í septemberlok af 24 þús. tonnum, sem voru flutt út alls á árinu. Og af því er það rétt, sem Fiskifélagið segir: Verðlækkunin á mjölinu byrjaði á miðju ári. Salan var sáralítil, eins og útflutningsskýrslur sýna, seinustu mánuði ársins, en síðan kemur verðhrunið fram á skýrslum, — verðhrunið, sem var orðið á árinu 1959, það kemur fram í skýrslum, þegar sölurnar fara fram á árinu 1960.

Ég skal hér enn einu sinni benda mönnum á það, hvernig hæstv. viðskmrh. gengur fram hjá því, sem er meginatriði málsins og deilan raunverulega snýst um á milli mín og hans, hvenær verðlækkunin á þessum afurðum átti sér raunverulega stað. Menn geta verið með þann orðaleik að segja: Verðlækkunin átti sér ekki stað, fyrr en við seldum, — af því að við bíðum með alla framleiðsluna frá 1959 til 1960. Ef deilan á milli okkar liggur í þeim orðaleik, þá er hægt að gera það dæmi upp. En ég segi: Verðlagið á erlendum markaði hafði fallið fyrr. Hvernig stóð nú á því, að hæstv. viðskmrh. vék sér gersamlega undan því að nefna einu orði umsögn stjórnar síldarverksmiðja ríkisins í opinberum ársreikningi þess fyrirtækis um það, hvenær verðfallið átti sér stað? Hvernig stendur á því, að hæstv. viðskmrh. víkur sér undan því? Í ársskýrslu stjórnar síldarverksmiðja ríkisins fyrir árið 1959 segir orðrétt, eins og ég hef lesið hér upp í þessum umr.: „Strax í vertíðarbyrjun fóru söluhorfur ört versnandi, og fór lýsisverð lækkandi allt fram í febrúarmánuð 1960.“ Er þetta lygi? Er öll stjórn síldarverksmiðja ríkisins, þar með Alþýðuflokksmaður í stjórninni, eru þeir vísvitandi að segja þetta rangt? Voru þeir að leika sér að því að geyma allar síldarafurðirnar 1953 fram á árið 1960, af því að það hafði engin verðlækkun orðið á árinu 1959? Gerðu allir það, sem framleiddu síldarlýsi á árinu 1959, að leika sér að því að bíða eftir verðfalli 1960? Eða voru þessar ástæður fyrir því, sem þessi opinbera stofnun segir, að verðfallið hafi verið orðið?

Nei, hið rétta er það, að þessi skýrsla, sem hæstv. viðskmrh. las hér upp frá Fiskifélagi Íslands, viðurkennir það, að verðfallið hafi byrjað á árinu 1959. En hins vegar greinir hún í tölum frá verðfallinu, sem orðið hafi í sölunum, sem fóru fram á árinu 1960, og þá tekur Fiskifélagið sölurnar, sem fóru fram fyrst á árinu 1960, og segir, hvað verðfallið hafi orðið mikið. En það sannar ekki neitt um það, að verðfallið hafi ekki orðið á þeim tíma, sem ég hafði greint frá og aðrir hafa líka sagt. Þegar hæstv. viðskmrh. er svo með aðstoð Fiskifélagsins nú að reikna út mismuninn á verðlagi á sjávarafurðum í ágústmánuði 1961 og verðlaginu, sem var á sjávarafurðum fyrir gengisbreytinguna í febrúarmánuði 1960, þá fær hann það út, að sjávarafurðirnar í útflutningi hafi lækkað í verði, — og á hvern hátt? Með því að taka verðið á þessum vörum þannig, að upphaflega verðið sé rangt. Sannleikurinn er sá, að verðið var ekki eins hátt í árslokin 1959 raunverulega og þessar skýrslur skrá, það var lækkað.

Hæstv. viðskmrh. minnist ekki heldur á það einu einasta orði, að hann sjálfur og ríkisstj. öll hafi sagt í febrúarmánuði 1960 það, sem ég segi, að þetta verðfall hafi átt sér stað á árinu 1959. Hvernig stendur á því, að hæstv. viðskmrh. víkur sér undan því, sem stendur skrifað í grg. stjórnarfrv. um gengislækkunina? En þar stendur m.a., eins og ég hafði lesið upp í þessum umr., orðrétt á Þessa leið: „Að því er bræðslusíldarafurðir og hvalafurðir snertir, hefur orðið mikið verðfall á mjöli á árinu 1959.“ Hvernig stendur á því, að hæstv. viðskmrh. víkur sér undan þessu, sem hann hefur sjálfur skrifað og ríkisstj. öll, en ætlar að reyna að hlaupa yfir og nefna verðlækkunina, sem kom fram í skýrslum, þegar salan á þessum afurðum fór fram á árinu 1960, sem auðvitað var orðin á erlendum markaði löngu áður, en afurðirnar höfðu bara verið geymdar í landinu?

Það var athyglisvert í skýrslu Fiskifélagsins, að þegar það er fyrst búið að segja varðandi verðið á fiskimjöli, að það hafi byrjað að falla á miðju ári 1959, en þó hafi haldizt uppi smásölur fram eftir því ári, að svo segir það í sinni skýrslu: „En í byrjun ársins 1960 þótti sýnt, að ekki væri hægt að halda uppi fyrra verði.“ Þá var nefnilega búið að samþykkja að fylgja þeirri verðlækkun, sem orðin var fyrir löngu á erlendum markaði, og skrá í opinberar skýrslur hjá okkur verðlækkunina, sem orðin var, og þá var ákveðin verðlækkunin hér í sambandi við útboð á þessum vörum frá Íslandi.

Það, sem vert er að menn taki eftir í þessum efnum, er það, að ágreiningurinn um verðlagninguna á milli mín og hæstv. viðskmrh. liggur í því: Er það rétt, sem ég sagði, að verðfallið á þessum afurðum hafi átt sér stað á árinu 1959 og að það hafi verið tekið tillit til verðfallsins við ákvörðun gengisins í febrúarmánuði 1960? Er þetta rétt? Eða er hitt rétt, að það hafi ekki átt sér stað verðfall á þessum afurðum á árinu 1959 og að það styðjist við þær tölur, sem hæstv. viðskmrh. las hér upp, sem sýndu, að það höfðu farið fram sölur allt til ársloka 1959, smásölur á mjöli, með jafnháu verði og áður hafði verið? Það var um þetta, sem deilan snerist. Það, sem ég studdist við í þessum efnum, var það, að grg. gengislækkunarfrv. staðfestir mitt mál, opinber skýrsla frá síldarverksmiðjum ríkisins staðfestir mitt mál, opinber tilboð, sem einstök fyrirtæki hafa í sínum höndum um verðlagið á þessum tíma, þessi tilboð staðfesta mitt mál, og einnig það, að opinberar íslenzkar skýrslur sýna, að þessar afurðir, sem framleiddar voru á miðju árinu 1959 og seinni hluta ársins, hrúguðust allar upp sem birgðir og voru þessar birgðir síðan seldar á árinu 1960. Þetta voru þau sönnunargögn, sem ég leiddi fram, og hæstv. ráðh. hefur ekki getað hnekkt einu einasta af þessum sönnunargögnum. Það, sem hann færir fram frá Fiskifélaginu, er viðurkenning á þessu, sem ég segi. En þar að auki kemur síðan upp útreikningur á verðlækkuninni, sem kom hér fram í sölunum sjálfum, sem fóru fram á árinu 1960, en það var sú verðlækkun, sem hafði átt sér stað á erlendum markaði fyrir löngu.

Ég þarf svo ekki að eyða hér fleiri orðum að þessu sinni að deilunni á milli okkar um verðlagninguna, það er í rauninni alveg óþarfi.

En það voru nokkur orð í sambandi við aflamagnið árið 1960, sem hæstv. viðskmrh. hafði orðið mjög tíðrætt um og hann hafði margendurtekið í sinni ræðu, að hann kallaði, að á því ári hefði verið gífurlegur aflabrestur, á árinu 1960, og ég hafði hrakið það með tölum. (Forseti: Ég vil mjög biðja hv. ræðumann að gera svo vel að stytta mál sitt. Efnislegar umr. um þetta má segja að séu ekki beinlínis tímabærar. Það eru eftir tvær umr. um þetta mál í deildinni, og bið ég hv. ræðumann því mjög eindregið um að stytta mál sitt.) Ég skal verða við ósk hv. forseta og stytta mál mitt. Ég þarf ekki á því að halda að tala hér langt mál, en vil aðeins vekja athygli á því, að ég hafði haldið mér við að ræða þetta mál, þegar það var á dagskrá, en hins vegar hafa fulltrúar frá ríkisstj. tekið þetta upp hér utan dagskrár og sannarlega gefið tilefni til þess, að hér færu fram talsverðar umr. um málið. En ég skal stytta mál mitt.

Það voru aðeins örfá orð í sambandi við aflamagnið. Þar hefur hæstv. ráðh. farið svo gersamlega á stampinn með það, sem hann sagði, að hann getur í rauninni ekkert orðið lengur sagt um hinn mikla aflabrest, sem var á árinu 1960, annað en það, að hann hafi sagt, að þá hafi verið minni afli en árið 1959. Hefur nú nokkur ágreiningur verið okkar á milli út af þessu atriði? Ég las strax upp í minni ræðu aflann 1959 og 1960. En ég sýndi hins vegar alveg ljóslega fram á, að það hefði ekki verið neinn aflabrestur, og hæstv. ráðh. er hættur að minnast á þennan aflabrest, sem hafi átt að vera á árinu 1960. En hann er talnavanur, hæstv. ráðh., eins og ég hef komið áður að í þessum umr., og reiknar út með ýmsum hætti. Nýjasta aðferðin var sú, — ég hef reyndar séð hana áður hjá mönnum, sem ég hélt að væru enn fáfróðari en hann í sambandi við fiskveiðar og fiskiskip, en það er þegar menn finna það út, að afli hafi raunverulega minnkað, ef maður ber aflann saman við rúmlestatölu á skipum. Það er nú alveg nýr mælir að finna það út, að aflamagn hafi raunverulega minnkað miðað við rúmlestatölu skipa. Ég hélt, að hæstv. ráðh. og allir vissu það mætavel, að sú mikla stækkun á skipunum sjálfum, sem annars er beitt nákvæmlega eins og minni skipunum hafði verið beitt áður, þar sem við beitum núna 150 tonna bátum til sams konar veiða og við beittum áður 50 tonna bátum og fyrir nokkrum árum þar á undan 30 tonna bátum, — þetta er vitanlega að mjög verulegu leyti gert til þess að bæta aðbúnað skipverjanna, og það er hrein fjarstæða að búast við því, að aflamagnið, sem veiðist á bátinn, standi í réttu hlutfalli við herbergjafjölda, sem skipverjum er veittur á skipinu. En menn geta vitanlega reynt að klóra sig út úr vandræðum sínum á ýmsa vegu og fundið það út, að það ár, þegar aflinn verður áberandi mestur, óx um tæp 20% á bátaflotanum, hafi samt orðið aflabrestur, af því að hann minnkaði í hlutfalli við herbergjafjölda einhvers staðar.