17.11.1961
Neðri deild: 20. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (941)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð að gefnu beinu tilefni frá hv. 4. þm. Austf. (LJós). Annars er ég sammála um það, að almennar umr. um þetta eru ástæðulausar. (EOl: Það er ráðh., sem hefur byrjað. — LJós: Það er nú nokkuð seint.) Það eru nokkur orð, sem ég vil segja til skýringar á því, sem fram kom í ræðu hv. þm., á ummælum í grg. stjórnarfrv. frá 1960 um gengisbreytinguna, og um það, sem hann hafði vitnað í skýrslu stjórnar síldarverksmiðja ríkisins. Ég skal láta duga að segja nokkur orð til skýringar á þessu hvoru tveggja.

Það hefur enginn ágreiningur verið um það milli mín og hv. þm., að verðfall á mjöli og lýsi var byrjað á árinu 1959. Verðfallið á mjöli hófst vegna stóraukins framboðs á mjöli frá Perú og vegna stóraukinnar spákaupmennsku á Perú-mjölinu. Það, sem okkur hefur greint á um, er, hvenær aðalverðfallið á mjölinu hafi orðið. Þetta verðfall á Perú-mjölinu var þegar orðið öllum ljóst haustið 1959, og það var þetta verðfall á Perú-mjölinu, sem vitnað var til í grg. ríkisstj. í febrúar 1960. Það þótti rétt að vekja athygli á þessari staðreynd vegna þess, að menn bjuggust við frekara verðfalli, sem og varð raunin á. Það hefur því enginn ágreiningur verið um, að verðfallið bæði á mjöli og lýsi hafi byrjað á árinu 1959. Ágreiningurinn hefur orðið um hitt, hvenær aðalverðfallið hefur orðið. Um það skal ég ekki fjölyrða meir. Það geta allir, sem vilja vita hið sanna í málinu, dæmt um eftir þeim grundvallarupplýsingum, sem fyrir liggja.

Þá eru nokkur orð í sambandi við það, sem hv. þm. vitnaði til skýrslu síldarverksmiðjustjórnarinnar, skýrslu, sem að vísu er samin árið eftir að þeir atburðir gerðust, sem skýrslan fjallar um. Ég skal aðeins vitna hér í fundargerð fundar, sem haldinn var 3. sept. 1959 og þar sem saman komu helztu útflytjendur á mjöli, þar sem var staddur m.a. Sigurður Jónsson framkvstj. síldarverksmiðja ríkisins og þar segir í fundargerðinni, með leyfi hæstv. forseta: „Sigurður Jónsson sagðist ekki taka afstöðu til karfamjölsins, þar sem þeir ættu ekkert af því, en vildi, að síldarmjöl yrði ekki lækkað.“ Það, sem hér kemur fram, staðfestir það, sem ég hef um þetta sagt, að verðlækkun erlendis á síldarmjöli var hafin á árinu 1959, en sjálfur framkvæmdastjóri síldarverksmiðja ríkisins óttaðist þó ekki meir en svo, að sú verðlækkun mundi halda áfram, að hann vildi ekki lækka verðið á mjölinu til útflutnings. Því miður hélt hins vegar verðlækkunin áfram, andstætt því, sem hv. þm. hefur haldið fram.