23.03.1962
Neðri deild: 72. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósefsson) [frh.]:

Hæstv. forseti. Ég hafði í þeim hluta ræðu minnar, sem ég var búinn að flytja, aðallega rætt meginefni frv., eins og það liggur fyrir, en það er um flutning á valdi frá Alþingi yfir til stjórnar Seðlabankans varðandi skráningu á gengi krónunnar, og hafði endurtekið það nokkrum sinnum, að ég teldi, að þessi ráðstöfun, að setja brbl. eins og hæstv. ríkisstj. gerði um þetta atriði á s.l. sumri, gæti ekki staðizt ákvæði stjórnarskrárinnar. Hæstv. forseti sá sérstaka ástæðu til þess að víta mig fyrir þau ummæli, sem ég hafði haft, þó að ég ætli, að ég hafi ekki sagt þar mikið annað en margir aðrir ræðumenn hafa sagt hér úr þessum sama stóli um þetta sama efni. Þó má vera, að einhver skilsmunur hafi verið á orðalagi mínu og annarra. En ég hygg, að ég hafi rætt það svo ýtarlega, hver væri mín skoðun á þessu máli, að það hafi ekki farið neitt á milli mála, að það var og er mín skoðun, að setning brbl. 1. ágúst um breyt. á þessu valdi standist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar. Ég tók eftir því, að hæstv. forseti vildi gera hér skilsmun á, hvort um væri að ræða, að því væri haldið fram sem áliti ræðumanns, að þannig hafi verið að málum staðið, að það samrýmdist ekki ákvæðum stjórnarskrárinnar, eða hvort því væri haldið fram, að ríkisstj. hafi vitandi vits valið þá leið, sem hún valdi, sem hafi leitt til þess, að ákvæði stjórnarskrárinnar voru ekki höfð í heiðri. Í þessum efnum get ég vitanlega ekki sagt annað en það, sem er mitt álit. Það er mitt álit, að ríkisstj. hafi vitað fullvel, hvað hún var að gera, þegar hún setti þessi lög, og það er mitt álit, að það, sem gert var, samrýmist ekki ákvæðum 28. gr. stjórnarskrárinnar. Og ég sé satt að segja ekki mikinn mun á því, þó að ég hefði farið að halda því fram, að ríkisstj. hafi gert þetta óvitandi, hvað hún var að gera. Ég álít hreint og beint, að með því hefði ég verið að óvirða ríkisstj. að halda því fram, að hún hafi af einhverjum fávitahætti sett þessi lög. Ég held þvert á móti, að hún hafi vitað fullvel, hvað hún var að gera, þótt hún hafi valið þessa leið. Það má vel vera, að einn líti á málið á þennan hátt og annar á hinn, og verður auðvitað hver að hafa það, sem honum þykir betra í þessum efnum. En ég hef hér gert fyllilega grein fyrir skoðun minni á setningu brbl. varðandi það efni, sem frv. fjallar um. Ég tel, að í þessum efnum hafi ég aðeins rætt um efnisatriðið og ekki á neinn hátt haft óviðurkvæmileg orð í frammi, nema að því leyti til, sem meining mín á efni málsins er þessi, sem ég hef lýst.

Það hefur greinilega komið hér fram, að hæstv. ríkisstj. hefur reynt að rökstyðja setningu þessara brbl. og gengislækkunina á s.l. sumri með því, að þá hafi verið búið að semja um svo mikla kauphækkun í landinu, að efnahagskerfi þjóðarinnar stafaði háski af. Við 1. umr. þessa máls flutti hæstv. viðskmrh. hér alllangt mál, þar sem hann lagði höfuðáherzlu á tvennt því til réttlætingar, að brbl. voru sett og gengið var lækkað. Hann benti á, að kauphækkanirnar á s.l. sumri hefðu verið meiri en svo, að hagkerfið hefði þolað þær hækkanir, og svo hitt, að afkoman á árinu 1961 væri þannig, að það væri t.d. alveg sýnilegt, að sjávarútvegurinn mundi leggja í þjóðarbúið allmiklu minni fjárhæð en hann hefði gert t.d. árið 1959.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að það mætti telja nokkurn veginn víst, að heildarfiskaflinn á árinu 1961 mundi verða um 3% minni en hann var árið 1959. Reynslan hefur nú þegar sýnt, að þessi fullyrðing hæstv. ráðh. er röng, svo að þessi röksemd fyrir gengislækkuninni á s.l. sumri fær ekki staðizt. Hæstv. ráðh. sagði einnig, að það mætti áætla, að heildartekjur af sjávarútvegsframleiðslunni á árinu 1961 mundu verða um 170 millj. kr. lægri en heildartekjurnar af sjávaraflanum 1959, og hann bætti við: Það má einnig telja, að heildarútgjöld sjávarútvegsins, t.d. í gjaldeyrisnotkun, vegna þess að skipin hafa verið fleiri, gerð út með dýrari tækjum en áður, muni vera um 150 millj. kr. meiri á árinu 1961 en á árinu 1959, og að þannig sé líklegt, eins og hæstv. ráðh. sagði, að sjávarútvegurinn muni leggja í þjóðarbúið 320 millj. kr. minna á árinu 1961 en á árinu 1959, og þetta taldi hann aðra höfuðástæðuna til þess, að það hefði þurft að grípa til gengislækkunarinnar í ágústmánuði. Nú hefur sú stofnun, sem heyrir einmitt undir hæstv. viðskmrh. og hann vill nú setja allt sitt traust á sem sérstaka kunnáttumenn í efnahagsmálum þjóðarinnar og færa forustumönnum þeirrar stofnunar sumt af því valdi, sem Alþingi hefur haft, t.d. varðandi skráningu á gengi krónunnar, Seðlabanki Íslands, nú hefur einmitt þessi stofnun nýlega í ársskýrslu sinni gefið út tölur sínar um það, hvernig árið 1961 kom út í þessum efnum. Þar kemur í ljós, að það er áætlað af Seðlabankanum, að heildarframleiðsluverðmæti sjávarafurða á árinu 1961 muni verða í kringum 400 millj. meira en árið 1960 og rétt tæpum 200 millj. meira en árið 1959. Það er því nú alveg augljóst, að eftir þessum kenningum hæstv. viðskmrh. og því öðru, sem hann hefur sagt hér um gengisskráninguna, þá ætti hann og hæstv. ríkisstj. samkvæmt þessu að taka nú gengisskráninguna til endurskoðunar á nýjan leik og breyta genginu aftur, því að það hefur sýnt sig, að fyrri útreikningar hans í þessum efnum, sem gengislækkunin á s.l. sumri var byggð á, voru rangir. Það hefur sem sé komið í ljós, að þjóðarbúið sem heild hefur hér haft úr allmiklu meira að spila á árinu 1961 en á árinu 1959, því að þessar tölur, sem ég nefndi til hækkunar á heildartekjum, voru bara varðandi sjávarútveginn, bara varðandi sjávaraflann, en auk þess upplýsir svo Seðlabankinn, að mjög veruleg aukning hafi orðið í landbúnaðarframleiðslunni á árinu og mikil aukning frá árinu 1959.

En hvað gerir nú hæstv. ríkisstj., og hvað gerir nú hæstv. viðskmrh., sérstakur talnafræðingur ríkisstj. í þessum málum, hvað gerir hann nú, þegar tölurnar snúast við á þennan hátt, það sem hann hafði grundvallað útreikninga sína á? Sem sagt, fyrr á árinu er því haldið fram, að það sé nauðsynlegt að lækka gengi krónunnar nokkuð vegna þess, að aðalatvinnuvegur þjóðarinnar muni skila minna í þjóðarbúið en reynslan hefur sýnt að hann hefur gert, og reynslan hefur einnig sýnt, að aðrir atvinnuvegir hafa einnig aukið framlag sitt í þjóðarbúið, afraksturinn er þar meiri en áður var. Verða þá útreikningarnir teknir til sérstakrar endurskoðunar aftur, eða má þá hlaupa yfir þessi rök, sem áður var beitt? Þarf þá ekki lengur á þeim að halda? Vinnur þetta svipað því og ég gat um fyrr í minni ræðu varðandi samningsréttinn, hinn frjálsa samningsrétt, vinnur þetta allt á eina hlið? Ef atvinnurekendur semja af sér að dómi ríkisstj. í frjálsum samningum við verkamenn, þá grípur ríkisstj. inn í og breytir samningunum, en ef verkamenn gerðu það, þá gerði það ekkert til. Ef þjóðarframleiðslan hefur minnkað eða er minni en vonir stóðu til, þá eru það rök fyrir því, að það þurfi að lækka gengi krónunnar, en ef þjóðarframleiðslan vex fram yfir það, sem ráð var fyrir gert, þarf þá ekkert að gera? Skiptir það þá engu máli? Gilda rökin þá ekki lengur? Það væri fróðlegt að fá upplýsingar frá hæstv. viðskmrh. eða einhverjum úr hæstv. ríkisstj. um þetta efni.

Því hefur verið haldið fram, að kauphækkanirnar á s.l. sumri, sem námu 10–12%, mundu þýða það, ef þessi kauphækkun gengi til allra launastétta í landinu, gengi í gegnum allt hagkerfið, þá mundi það raunverulega þýða, að kaupmátturinn í landinu yxi um 300–400 millj. kr., því að reikna megi, að aukinn kaupmáttur vaxi um ca. 30 millj. kr. með hverju 1%, sem kaupið hækkar. Þegar gert er ráð fyrir því, að kauphækkanirnar á s.l. sumri hafi leitt til þess, að heildarkaupgeta í landinu vaxi um 300–400 millj. kr., liggur það aftur á móti fyrir, að heildarframleiðslutekjur þjóðarinnar hafa vaxið um miklu meira en þessa upphæð. Það liggur sem sé fyrir, að sjávarútvegurinn einn mun leggja í þjóðarbúið rétt um 400 millj. meira á árinu 1961 en hann gerði á árinu 1960. Þó að maður geri nú ráð fyrir því, að þessar áætlunartölur séu réttar, að kaupmátturinn hafi vaxið um 300–400 millj. kr. hjá öllum launþegum í landinu vegna kauphækkananna á s.l. sumri, þá ber líka að hafa það í huga, að tvennt gerðist á árinu: þjóðarframleiðslan óx, eins og ég hef greint frá, og svo hitt, að þær ráðstafanir voru í gildi, að 253,2 millj. kr. af tekjum, sem féllu til á árinu, voru bundnar á sérstökum reikningi í seðlabanka landsins og höfðu ekki kaupmátt á því ári. Það er því alveg greinilegt, að sparifjárbindingin í bönkunum ásamt með framleiðsluaukningunni standa fyllilega undir þeim aukna kaupmætti, sem launahækkanirnar eru sagðar hafa valdið. Ég sé því ekki annað en einmitt þessar tölur, sem fram hafa komið á vegum hæstv. ríkisstj., sýni það beinlínis og sanni, að það hefur verið rúm fyrir alla þessa kauphækkun og meira þó, ef leggja má sem sagt til grundvallar þau meginrök, sem ríkisstj. hafði þó byggt á sínar niðurstöður hér áður fyrr.

Það er enginn vafi á því, að ástæðan til gengislækkunarinnar á s.l. sumri var ekki sú, að kaup launþega hafi hækkað þá of mikið fyrir okkar hagkerfi eða að það hafi ekki þolað kauphækkunina. Það voru ekki rökin fyrir því, að gengislækkunin var ákveðin. Og það er heldur enginn vafi á því, að þessi mikla gengislækkun, sem þá var ákveðin, var ekki gerð fyrir sjávarútveginn í landinu almennt, hún var ekki gerð til þess að forða stöðvun bátaflotans, eins og látið var í veðri vaka. Þvert á móti var gengislækkunin framkvæmd þannig á árinu 1961, að það var miklu meiri hætta á því, að bátaflotinn stöðvaðist á því ári vegna gengislækkunarinnar, heldur en hitt, að gengislækkunin kæmi í veg fyrir stöðvun. Ástæðan var sú, að bátaflotinn varð að búa við óbreytt fiskverð, óbreyttar tekjur, frá því að gengislækkunin var gerð 3. ágúst til ársloka, en fékk hins vegar á sig aukin útgjöld vegna gengislækkunarinnar. Seinni hluti ársins var því tvímælalaust bátaútgerð landsmanna og togaraútgerðinni til ógagns. Gengislækkunin varð til þess að þyngja róðurinn hjá þessum aðilum, en ekki til þess að létta hann.

Hinu skal ég ekki neita, að frystihúsin í landinu og nokkrir fleiri aðilar, sem keyptu fiskafla síðari hluta ársins af bátaútvegsmönnum og af togaraeigendum, þessir aðilar höfðu nokkurn hagnað, þó ekki mikinn, en nokkurn hagnað af gengislækkuninni í ágúst. En það er svo, eins og hér hefur verið bent á af öðrum, líka alveg augljóst mál, þegar litið er á það, hvernig gengislækkunin var framkvæmd, að hún var ekki gerð fyrir sjávarútveginn. Það var þar eitthvað annað, sem skipti ríkisstj. meira máli, því að gengislækkunin var framkvæmd á þann hátt, að verð á erlendri vöru hækkaði að vísu um 13,2%, en útflytjendur, þeir sem stóðu í útflutningsframleiðslunni, fengu ekki jafnmikla hækkun til sín sem hækkuninni á innfluttu vörunni nam. Framkvæmdin á gengislækkuninni var þannig, að útgjöldin fengu að hækka sem gengislækkuninni nam, eða um 13,2%, en tekjur útflutningsaðila voru ekki látnar hækka að sama skapi. Í stað þess ákvað ríkisstj. með brbl. þann hátt á að taka allverulegan hluta með sérstökum aukaskatti af útflutningnum og leggja í vissa sjóði. Ríkisstj. taldi sig hafa í undirbúningi lög um sérstakt vátryggingakerfi fyrir fiskiskipaflotann í landinu, og hún vildi safna peningum í þennan vátryggingasjóð, og einnig ákvað ríkisstj. að safna nokkru fé í stofnlánadeild sjávarútvegsins og tók því allverulegan hluta af hinu raunverulega útflutningsverði sjávarafurða og ætlaði að leggja það í stofnlánadeild sjávarútvegsins, sem þó hefur verið lokuð deild um langan tíma og ekki veitt nein venjuleg lán. Og þá ákvað ríkisstj. einnig að taka verulegan hluta af hinu nýja útflutningsverði og leggja hann í hlutatryggingasjóð í þeirri ætlan að taka þetta fé síðar til að leysa vanda togaraútgerðarinnar í landinu.

Það var því alveg augljóst mál, að ríkisstj. var að ákveða meiri gengislækkun en þurfti að vera vegna útflutningsins, vegna þess ástands, sem ríkti hjá útflutningnum. Hún ákvað gengislækkunina svo ríflega, að hún gæti náð miklu á annað hundrað millj. kr. til þess að leggja sérstaklega til hliðar. Og það var ekki nóg með það, að ríkisstj. gerði þetta, heldur var svo alveg greinilegt, að þeir, sem stjórnuðu ríkiskassanum, höfðu sannarlega í huga að maka eitthvað krókinn á sjálfri gengislækkuninni. Með því að lækka gengi krónunnar sem svaraði 13.2% hækkun á verði erlends gjaldeyris tókst að hækka tolltekjur og söluskattstekjur ríkissjóðs frá 1. ágúst til áramóta nokkuð á annað hundrað milljóna króna. Fjmrh. hefur eflaust gert sér þetta ljóst, þegar hann stóð að gengislækkuninni í ágústmánuði, að hann var á þennan hátt að drýgja tekjur ríkissjóðs mjög verulega, þar sem mikill hluti af útgjöldum ríkissjóðs var bundinn skv. eldri fjárl. og breyttist ekki á þessu ári, en tekjurnar hækkuðu svo að segja allar. En ríkissjóður gerði betur en þetta. Það var einnig ákveðið með gengislækkuninni, að ríkissjóður skyldi kasta eign sinni á allan gengishagnaðinn, sem yrði af öllum þeim birgðum af útflutningsvörum, sem í landinu voru, þegar gengislækkunin var samþ. Það var auðútreiknað dæmi, því að menn vissu nokkurn veginn um það, hvað útflutningsbirgðirnar voru miklar, og það kom í ljós, að gengishagnaðurinn af þessum birgðum nam 150 millj. kr., og ríkið ákvað að eigna sér þessa upphæð og leggja hana í sérstakan sjóð. Slíkt sem þetta hefur aldrei verið gert áður, þegar gengislækkun hefur verið framkvæmd á Íslandi.

Þetta leiddi auðvitað til þess, að svo fór, að ríkissjóður, sem hafði mjög veika stöðu fjárhagslega gagnvart Seðlabanka landsins, um það leyti sem gengisbreytingin var gerð, skuldaði þá Seðlabankanum meira en ríkissjóður hafði nokkurn tíma áður gert á sama tíma, það snerist svo við, þegar komið var fram undir árslok, að hagur ríkissjóðs var orðinn mjög góður. Tekjurnar höfðu sem sagt stórum vaxið vegna gengislækkunarinnar, en útgjöldin hækkað lítið á því ári. Og ekki var nóg með það. Svo fór ríkissjóður að innheimta í stórum stíl gengishagnaðinn, sem nam 150 millj. kr., og svo þegar gengishagnaðurinn var tekinn og lagður í ríkissjóð, gat auðvitað ríkissjóður borgað upp sínar skuldir betur en áður við Seðlabankann, og hægt var að gefa út tilkynningu um áramótin um það í útvarpið, að nú ætti ríkissjóður orðið inni á reikningi sínum hjá Seðlabankanum. Síðan skrifa auðvitað blöð ríkisstj. um það, að þarna megi menn sjá, hvort viðreisnin hafi ekki bjargað fjárhag þjóðarinnar, fjárhag ríkisins, áður hafi ríkissjóður verið nokkuð skuldugur, en nú hafi allt snúizt á betra veg og ríkissjóður eigi orðið inni hjá Seðlabankanum.

Auðvitað jafngildir þessi ráðstöfun ríkisins, að taka gengishagnaðinn af útflutningsbirgðunum, sem í landinu voru, þegar gengisbreytingin var gerð, raunverulega hreinni eignaupptöku hjá þeim mönnum, sem áttu birgðirnar. Þeir áttu hér liggjandi í landinu birgðir af útflutningsvörum, sem í mjög mörgum tilfellum átti eftir að vinna allmikið við. Það átti eftir t.d. að taka fiskinn úr fiskhjöllunum, auðvitað á því nýja kaupgjaldi, sem þá var orðið í landinu, — það átti eftir að taka þennan fisk, meta hann og pakka, og það átti eftir að kaupa undir hann frakt á erlenda markaðinn. Allt þetta varð vitanlega að gerast á grundvelli nýs verðlags. Eigi að síður átti að gera upp við þessa aðila, sem þessa framleiðslu áttu, á gamla genginu. En það fékkst meira verð í íslenzkum krónum mælt fyrir þessa vöru, þegar hún var flutt úr landi, og ríkisstj. sagði þá: Ég tek þennan mismun og legg hann í sjóð og bæti mína stöðu, og útkoman er svo sú, að viðreisnin hefur heppnazt. — Það er léleg viðreisn í efnahagskerfi einnar þjóðar, sem þarf á einni gengislækkun á ári að meðaltali að halda. Ef hvorki er hægt að reka ríkisbúskapinn né annan búskap í landinu án þess að framkvæma gengislækkun í sífellu með vissu millibili, þá er það heldur lélegt hagkerfi.

Auðvitað er það svo, að þessi gengislækkun, þessi bati, sem kom fram af þessum ástæðum á seinni hluta s.l. árs, þessi bati fjarar allur út, ef hlutirnir fá að jafna sig að eðlilegum hætti. Auðvitað er það hið eðlilega og það, sem hlýtur að verða og hefur alltaf orðið alls staðar, að gengislækkun leiðir til þess, að t.d. launþegasamtökin sækja á á nýjan hátt og reyna að jafna metin á ný, þau hækka sitt kaup, þau una ekki kjaraskerðingunni til lengdar. Og sama er vitanlega að segja um aðra, sem gengislækkunin bitnar á, þeir vitanlega sækja á á nýjan hátt og jafna metin. Það kemur að því, að ríkissjóður getur ekki einhliða notið gengislækkunarinnar þannig að fá meiri tolltekjur, fá meiri söluskatt inn. Ríkissjóður verður fyrr eða síðar að svara einnig út fleiri krónum, t.d. til vegagerðar í landinu og til annarra framkvæmda í landinu, því að annars væri raunverulega verið að skera niður framkvæmdir á þennan hátt. Og þegar þetta hefur síðan jafnað sig, þá er vitanlega þessi björgun runnin út í sandinn með öllu, því að gengislækkun ein út af fyrir sig getur engu bjargað til lengdar. En þá má búast við því, eða það hefur a.m.k. heyrzt, að þá vilji forsvarsmenn viðreisnarinnar telja sér það til tekna, að framleiðslan á árinu 1961 var mikil, heildartekjur þjóðarinnar hafa orðið miklar, og sú útkoma á að sanna mönnum það, að viðreisnin út af fyrir sig hafi borið árangur.

Það er auðvitað enginn vafi á því, að ástæðan til þess, að t.d. sjávaraflinn varð mikill á árinu 1961, var fyrst og fremst sú, að á því ári sóttu á miðin hjá okkur fleiri stór og ný og vel útbúin skip en áður hafa gert á siidveiðar hjá okkur. Það voru einmitt síldveiðiskipin, það voru einmitt nýju skipin, sem keypt voru samkvæmt ákvörðun vinstri stjórnarinnar, samkvæmt ákvörðunum bæði á árinu 1958 og 1959, — það voru þeir bátar, sem voru keyptir samkvæmt ákvörðun á þeim árum, sem einmitt skiptu mestu máli um aflaaukninguna á síldveiðunum 1961. En þegar viðreisnin var samþykkt hér á Alþingi og grg. hagfræðinga ríkisstj. lá fyrir um nauðsyn viðreisnarinnar, var því einmitt haldið fram, að það skaðlega við það tímabil, sem ríkt hafði áður, tímabilið frá 1955–1959, hefði verið það, að þjóðin hefði stofnað til of mikilla erlendra skulda, við hefðum þá lifað um efni fram, við hefðum keypt of mikið bæði af tækjum og öðru slíku og það þyrfti að gera á þessu breytingu. Síldveiðiskipin nýju, sem björguðu afkomunni á s.l. ári, það voru fordæmdar framkvæmdir af þeim viðreisnarmönnum.

Nei, það eru ekki skip, sem hafa verið keypt samkvæmt tillögum þeirra viðreisnarmanna, sem hafa staðið undir aflanum. Þeim skipum fer svo ört fækkandi, að t.d. var útkoman sú á s.l. ári, 1961, að þá gekk stórlega á fiskiskipaflota landsmanna, þá eignuðumst við ekki líkt því að vera ný skip sem nam árlegri fyrningu flotans, og þó segja allir þeir, sem með þessi mál hafa að gera, skýrsluhöld í þessum efnum, að þó verði aukning flotans miklum mun minni á árinu 1962 en á árinu 1961. Í skýrslu Seðlabankans, sem ég var að vitna hér til áðan, segir, að á árinu 1961 hafi ný skip verið keypt til landsins fyrir aðeins 183 millj. kr., borið saman við rétt aðeins tæpar 600 millj. kr. árið á undan. Mismunurinn er yfir 400 millj. kr., eða nánar tiltekið 413 millj. kr. Auðvitað vitum við, að það árið, sem við kaupum ný framleiðslutæki, ný fiskiskip til landsins fyrir yfir 400 millj. kr. meira en annað árið, þá er varla við því að búast, að við höfum eins mikinn peningalegan afgang það árið eins og hitt, þegar við kaupum minna af skipum. Árið þegar við kaupum lítið af skipum, þegar við jafnvel göngum á fiskiskipaflotann, á framleiðslutækjaeign þjóðarinnar, það árið má auðvitað búast við því, hafi verið sæmilegt framleiðsluár, að þá verði einhver peningalegur afgangur. Þá eignumst við einhvern lausan gjaldeyri. Þá stendur hin peningalega útkoma í kassanum eilítið betur en í hinu tilfellinu. En er það betri efnahagsafkoma hjá einni þjóð að eiga peningana í öðru tilfellinu fremur en að eiga ný framleiðslutæki eða ný skip í hinu? Þegar núv. hæstv. ríkisstj. montar af því, að gjaldeyrisafkoman sé betri árið 1961 en hún var áður, þá er það eingöngu vegna þess, að hún keypti ekki framleiðslutæki, hún keypti ekki fiskiskip, en safnaði peningunum. Hitt á að heita tap og hættuleg fjármálastarfsemi hjá þjóðinni, að hafa breytt þeim hagnaði, sem þjóðin hefur haft á einu ári, í varanleg og góð framleiðslutæki.

Nei, það er síður en svo, að nokkuð það hafi gerzt í gjaldeyrismálum þjóðarinnar eða öðrum þáttum peningamálanna, sem bendi til þess, að viðreisnarstefnan hafi sannað réttmæti sitt fram yfir þá stefnu, sem hér ríkti áður. Þvert á móti liggur það alveg augljóslega fyrir, að framleiðslan á s.l. ári, 1961, hefði átt að vera meiri en hún var, hefði ekki verið mikill og almennur ágreiningur í landinu út af stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum. Við skulum ekki gleyma því, að það féll niður verulegur hluti af útgerð landsmanna allan janúarmánuð og mestallan febrúarmánuð á s.l. ári. Þá voru deilur á milli útgerðarmanna og ríkisvaldsins og á milli sjómanna og útgerðarmanna, sem allt stafaði raunverulega af efnahagsráðstöfunum ríkisstj. Vegna þessara miklu verkfalla í upphafi ársins varð þorskafli bátaflotans miklu minni það ár en árið á undan. Og auðvitað kostaði það þjóðarbúið einnig talsvert mikið, að hér voru almenn verkföll í um einn mánuð á miðju árinu. Hefði þeirri stefnu í efnahagsmálum verið haldið fram, sem friður gat verið um hjá þjóðinni, þá var einmitt búið í tíð vinstri stjórnarinnar og þeirrar stjórnar, sem hér fór með völd, áður en viðreisnarstjórnin tók við, að leggja grundvöll að vaxandi þjóðartekjum og batnandi þjóðarafkomu.

Það er í rauninni alveg grátlegt að heyra það, þegar þessi mál eru rædd, að ábyrgir aðilar skuli setja dæmið þannig upp að halda því fram, að það árið, sem nokkur gjaldeyrir kann að safnast fyrir eða peningaleg aðstaða batna eitthvað, en hins vegar er ekki hirt um það að endurnýja framleiðslutæki landsmanna, ekki hirt um það að kaupa ný tæki, þá sé góðæri, en hitt árið, þegar framleiðslutæki þjóðarinnar hafa verið stóraukin og endurbætt og lagður grundvöllur að aukinni þjóðarframleiðslu, en þá vitanlega ekki safnað gjaldeyrisforða, á meðan á slíku stóð, þá hafi verið hallæri.

Ríkisstj. hefur mjög haldið því fram, að sú kauphækkun, sem verkalýðsfélögin sömdu um á s.l. sumri, hafi verið of mikil, og enn þá er það svo, að ríkisstj. vill ekki viðurkenna sína villu í þessum efnum, og hún stritast þarna á móti, þó að hún viti, að allt bendir til þess, að slíkt geti leitt til almennra vinnustöðvana, ef ekki verður undan látið. En í þeim efnum er hollt fyrir ríkisstj. að hafa í huga, hvað hafði gerzt, áður en kom til þeirra kauphækkana á s.l. sumri, sem samkomulag var þá um á milli atvinnurekenda og verkamanna. Það hafði gerzt, í stuttu máli, að í ársbyrjun 1959 höfðu þeir tveir flokkar, sem nú fara með völd í landinu, beitt sér fyrir því að lækka kaup með lögum frá Alþingi frá því, sem gildandi samningar sögðu þá til um, um það, sem þeir þá kölluðu 5.4% kauplækkun. Verkalýðssamtökin hafa almennt talið, að þarna hafi verið raunverulega um 10% launalækkun að ræða, en við skulum aðeins miða við það, að það sé rétt, sem núv. stjórnarflokkar viðurkenna sjálfir, að þarna hafi þó verið um beina kauplækkun að ræða frá því, sem samningar sögðu til um, um 5.4% í ársbyrjun 1959. Og hvað gerist svo næst í kaupgjaldsmálunum? Svo líður allt árið 1959 og launþegar búa við þessa kauplækkun, og svo liður enn fram í febrúarmánuð 1960, að viðreisnarlöggjöfin er samþykkt og ný stórfelld gengislækkun ákveðin, og enn þoldu verkalýðssamtökin í landinu afleiðingar þessarar gengislækkunar, allt árið 1960 og hálft árið 1961. Og hvað hafði svo gerzt á þessu tímabili? Hvaða afleiðingar höfðu orðið gagnvart launþegum landsins af gengislækkun viðreisnarinnar? Jú, afleiðingin var sú, að í maímánuði 1961 hafði vísitalan fyrir vörur og þjónustu í landinu hækkað um 17%. Torfi Ásgeirsson hagfræðingur hefur reiknað það út, að í febrúarmánuði 1960, þegar viðreisnarlöggjöfin var samþykkt, hafi kaupmáttur tímakaups verið 99, en hins vegar hafi kaupmátturinn í maímánuði 1961, þegar leiddi til kaupdeilna á s.l. sumri, þá hafi þessi sami kaupmáttur verið kominn niður í 84 stig, eða lækkað um 15 stig eða 15%. Jafnvel þó að hér séu teknar lægstu tölur, er enginn vafi á því, að kauplækkun sú, sem launþegasamtökin í landinu höfðu orðið að þola á þessu tímabili, þessu valdatímabili núv. stjórnarflokka, var yfir 20%, og þegar verkalýðssamtökin höfðu eftir vinnudeilurnar á s.l. sumri samið um 10—12% kauphækkun, þá var talið, að kaupmáttur tímakaupsins væri kominn aftur upp í 91.5 stig. Hann var sannarlega ekki kominn upp í það, sem hann var, þegar viðreisnarlöggjöfin var samþykkt hér á Alþingi. Þá var hann færður aftur úr 84 stigum upp í 91.5 stig.

Þegar þessi atriði eru höfð í huga, hlýtur hæstv. ríkisstj. að viðurkenna, að það hafði sannarlega gerzt í þessum málum það, sem hlaut fyrr eða síðar að draga til þess, að launþegar í landinu færu að sækja sinn rétt, færu að berjast fyrir nýjum kjarabótum sér til handa, og það, sem um var samið, þar sem samið var um 10–12%, var ekki meira en svo, að það var alveg furðulegt, að ríkisstj. skyldi bregðast þannig við, að hún skyldi skella á gengislækkun, sem raunverulega hækkaði allt innflutt verðlag um 13.2%. Og ég þykist vita, að hæstv. ríkisstj. viti líka um það, að afleiðingin af þessu hefur orðið sú, að nú er reiknað út, að kaupmáttur tímakaupsins sé kominn neðar en hann hefur verið skráður nokkurn tíma nú um 15 ára skeið. Hann er nú skráður, kaupmáttur tímakaupsins, 83 stig, eða hann er orðinn lægri en hann var áður en til verkfallanna kom á s.l. sumri. Dettur nú hæstv. ríkisstj. í hug, að ástand sem þetta fái staðizt, og heldur hún, að það sé hyggilegt að efna til nýrra framleiðslustöðvana í landinu, nýrra verkfalla, til þess að deila þarna um nokkrar prósentur í kaupi? Raunverulega var það svo, að ríkisstj. hafði staðið að því, — það vita allir menn, að bjóða fram kauphækkun á s.l. sumri, sem nam 6%, þó að hún hrykki svo upp af standinum, þegar kauphækkunin varð 10–12%. Hér ætti raunverulega ekki að vera deila um meira en 4–5%, miðað við það, sem ríkisstj. hafði sjálf viðurkennt, og síðan hún viðurkenndi þetta, hefur sannazt, að afkoma Þjóðarbúsins í heild hefur reynzt miklum mun betri en ríkisstj. áætlaði.

Ég held því, að það ætti að liggja mjög skýrt fyrir, að það var ekki ástæða til þess að lækka gengi krónunnar eins og gert var á s.l. sumri. Kauplækkanirnar gáfu ekki tilefni til þess, og afkoma atvinnuveganna gaf ekki heldur tilefni til þess.

Eitt dæmi skal ég nefna enn um það, hvernig það er raunverulega viðurkennt af opinberum aðilum, að kaup hinna lægst launuðu í landinu, verkamanna, er langt frá því að vera það, sem heita má mannsæmandi. Samkvæmt útreikningum hagstofunnar um kaup vísitölufjölskyldu, þá telur hagstofan, að í ágústmánuði 1961, eða um það leyti sem ríkisstj. gerði sína gengislækkun, hafi tekjur vísitölufjölskyldunnar átt að vera kr. 69 508.22, og þá er þó búið að draga frá þeim tekjum, sem hagstofan reiknar vísitölufjölskyldunni, 5 824 kr. í fjölskyldubætur og niðurgreiðslur. En auðvitað fá ekki allir þessar fjölskyldubætur, þó að þær séu í vísitöluútreikningnum reiknaðar á alla. Nú vitum við, að kaup það, sem verkamenn búa við í dag, veitir þeim ekki nema um 53 þús. kr. kaup, miðað við 8 tíma vinnu alla vinnudaga ársins. M.ö.o.: fastráðinn verkamaður upp á hið umsamda kaup er langt undir því að hafa það kaup, sem reiknað er með í vísitölubúinu. Í þessum vísitöluútreikningi er þó ekki reiknað með hærri húsaleigu en tæpum 900 kr. á mánuði. Nei, það er enginn vafi á því, að það voru ekki rök fyrir því að lækka gengi krónunnar eins og gert var á s.l. sumri. Og það eru þó enn þá meiri rök fyrir því nú, að hæstv. ríkisstj. viðurkenni villu sína í þessum efnum og fallist nú á fyrir sitt leyti sanngjarna kauphækkun til handa þeim lægst launuðu í landinu.

Hér liggur fyrir hv. Alþingi annað frv. um sérstakar ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um nýtt gengi. Efni þess hefur að vísu nokkuð komið inn í þessar umr., en þó eru þar ýmis atriði, sem ég mun ekki ræða við afgreiðslu þessa frv., geyma mér að ræða um, þar til hitt frv. kemur hér fyrir. En eðlilega hafa samt umr. gengið nokkuð á víxl varðandi þessi frv., af því að þau eru í rauninni svo mikið um sama efni eða sömu ráðstöfun, sem hlaut eðli málsins vegna að dragast inn í þessar umr.

Ég get nú farið að stytta mál mitt. Eins og segir í nál. mínu, legg ég til, að þetta frv. verði fellt. Það byggi ég fyrst og fremst á því, að ég tel, að setning brbl. hafi í eðli sínu verið röng um það atriði, sem þetta frv, fjallar um, hún hafi verið röng, óeðlileg og ekki í samræmi við 28. gr. stjórnarskrárinnar, og einnig hitt, að ég er algerlega andvígur því að færa gengisskráningarvaldið úr höndum Alþingis til bankastjóra Seðlabankans. Ég tel, að það sé miklu óheppilegra og það sé mjög óeðlilegt að veita stjórn þeirrar stofnunar jafnvíðtækt og mikið vald og gengisskráningin er. Og ég held líka, að það sé meiri hætta á því, að það verði tíðar gengisbreytingar með þessari skipan á framkvæmd málanna heldur en ef málið á að afgreiðast hér beint á hv. Alþingi. Og ég held, að það sé öllum fyrir beztu að reyna að halda sig við það að breyta gengi krónunnar sem allra sjaldnast. Ég tel stórhættulegt það sjónarmið, sem fram hefur komið, að það eigi með gengisbreytingum að hreyfa til gerða samninga á milli atvinnustétta í landinu eða að það eigi að hreyfa til gengi krónunnar vegna smærri sveiflna, sem kunna að verða í þjóðarbúskapnum. Það eru til ýmis önnur ráð, sem hafa verið notuð í þeim efnum, bæði af okkur og öðrum, og það á að nota þau, áður en gripið er til gengisbreytinga, enda er það alveg augljóst mál, ef menn vilja vera samkvæmir sjálfum sér, að til þess hlytum við að þurfa jöfnum höndum að vera að hækka og lækka gengið svo að segja í sífellu, því að séu það gild rök, að það beri að lækka gengið, hafi þjóðarframleiðslan minnkað um nokkur hundruð millj. kr. eitt árið, þá eru það vitanlega jafngild rök, að við þurfum að hækka gengi krónunnar, hafi orðið um allverulega framleiðsluaukningu að ræða frá því, sem áætlað hafði verið. En ég tel, að hvort tveggja sé rangt. Að því leyti til tel ég, að það sé betra að hafa þá skipun á í þessum málum, sem hér var áður, að það sé Alþingi, sem ákveður endanlega sjálfa gengisskráninguna. Og vegna þess legg ég til, að þetta frv. verði fellt.