24.10.1961
Efri deild: 8. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

42. mál, almannatryggingar

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða, nú þegar við þessa 1. umr., að láta í ljós undrun mína á þessu frv., sem hér liggur fyrir. Raunar kom mér það ekki með öllu á óvart, því að þetta frv. sýnir rausnarskapinn í garð bótaþega almannatrygginga á sama hátt og rausnarskapur sömu hæstv. ríkisstj. hefur verið gagnvart öðrum þeim, sem upp á náð hennar eru komnir, eins og t.d. fastlaunamenn. Ég vil minna á, að þegar bótafé til gamalmenna, sjúklinga og öryrkja var hækkað á öndverðu ári 1960, var í rauninni verið að bæta fyrir gamlar syndir. Annað var ekki gert þá. Þetta fólk hafði, eins og öllum er kunnugt, lengi verið beitt óvenjumiklu ranglæti, enda voru kjör þess orðin á árinu 1959 og fram á árið 1960 langt fyrir neðan það, sem getur kallazt mannsæmandi.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta, en aðeins rifja upp eitt dæmi, sem sýnir þetta glögglega. Í árslok 1959 nam ellilífeyrir hér á landi aðeins 17% af launum verkamanna, en á sama tíma nam þessi ellilífeyrir í Svíþjóð og Danmörku 30–35% af verkamannalaunum. Eftir leiðréttinguna, sem gerð var í marz 1960 hér, hækkaði þetta hlutfall Íslands úr 17% upp í tæp 24%. Það fór þannig að nálgast það, sem á Norðurlöndum annars staðar tíðkast. Meiri var þessi hækkun ekki í ársbyrjun 1960. Hún nálgaðist að vera það sómasamlega og var ekkert fram yfir það. Síðan hafa að sjálfsögðu allar fjárhæðir bóta almannatrygginganna staðið algerlega í stað í landinu. En það er annað, sem hefur ekki staðið í stað í þessu landi, og er verðlagið þar á meðal. Dýrtíðin hefur aukizt hröðum skrefum, svo að segja dag frá degi, alla þessa 18 mánuði, sem síðan eru liðnir. Matvæli, fatnaður og þjónusta hafa að meðaltali hækkað um 25–30% síðan í marz 1960, og enn eru þessir liðir, þessir mikilsverðu liðir vísitölu framfærslukostnaðarins, óðum að hækka. Opinbera vísitalan hefur hækkað á sama tíma úr 101 stigi upp í, að ég hygg, 114 stig í október, en við þau 114 stig má ýkjulaust bæta 10 stigum, sem vísitalan hefur verið lækkuð um á þessu tímabili vegna aðgerða, sem gamalmennum og flestum öryrkjum koma lítt eða ekki til góða. Þar á ég við lækkun beinna skatta og fjölskyldubætur.

Það þarf ekki að fjölyrða um þetta. Það ber allt að sama brunni. Þær hækkanir, sem bótaþegar fengu snemma á síðasta ári og voru ekki óverulegar, hafa frá fyrsta degi verið að renna út í sandinn. Þannig hefur þessi leiðrétting, sem þá var gerð á gömlu og stóru ranglæti, þegar verið gerð að engu. Þetta þykir mér rétt að benda á nú þegar við þessa 1. umr.

Nú vill hæstv. ríkisstj. hækka þessar bætur almannatrygginganna um 13.8%. Ég vil benda á, að sú hækkun gerir ekki einu sinni að vega upp á móti þeirri dýrtíðaraukningu, sem orðið hefur síðan 1. júlí í sumar, hvað þá því í dýrtiðinni, sem áður var komið og eftir á að koma nú á næstu mánuðum. Samkvæmt því, sem ég sagði áðan og ég tel réttast, hefði þessi hækkun nú átt að nema ekki minna en 25–30%, ef stuðzt er við opinberar skýrslur um verðhækkanir, en í stað þess skal nú bótaþegunum af hæstv. ríkisstj. skammtað 13.8%.

Ég veit það vel, að talsmenn hæstv. ríkisstj. munu afsaka sig með því, að hækkun bótafjárins í apríl 1960 hafi átt að mæta komandi dýrtíð. En þetta er ekki rétt, eins og ég tók fram. Hækkunin var fyrst og fremst leiðrétting á ástandi, sem bótaþegum var orðið óþolandi. En nú er aftur komið í sama farið og var 1959 eða allt til apríl 1960 um ástand bótaþeganna í efnahagslegu tilliti. Nú er aftur komið í sama farið, og 13.8% hækkun breytir þar litlu um á þessum tímum dýrtíðar og óðaverðbólgu. Það, sem gera hefði átt strax, þegar hækkun bótanna var samþykkt í marz 1960, var að vísitölutryggja allar greiðslur til bótaþega almannatrygginganna. Þetta var réttlætismál, sem allir hefðu átt að viðurkenna og hjálpast að við að tryggja. En stjórnarflokkarnir voru ófáanlegir til þess, og komu þó fram tillögur um það hér á þingi, en voru felldar. Ég veit, að nú mun slík tillaga koma fram hér í þessari hv. d., og ég vænti þess, að hún hljóti betri undirtektir en sams konar tillögur fengu hér á þinginu í marz 1960.

Að lokum vil ég láta í ljós þá von mína, að hv. félmn. athugi þetta mál gaumgæfilega, fyrst og fremst að þessi 13.8% eru allsendis ófullnægjandi uppbætur handa bótaþegum almannatrygginganna, og í öðru lagi, að hún athugi það af gaumgæfni, hvort ekki geti talizt fært að verðtryggja allar bætur almannatrygginganna héðan í frá. Hér er um að ræða lífeyri, sem er svo lágur, að alger óhæfa ætti að teljast, ef lækkaður yrði að verðgildi um eina krónu, hvað þá meira.