26.03.1962
Neðri deild: 76. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í sambandi við þessa till., sem nú var mælt fyrir, langar mig til þess að beina stuttri og mjög einfaldri fsp. til hv. fyrra flm., sem nú var að ljúka máli sínu. Efni þessarar till. er það, að Seðlabankinn eigi að ákveða vexti í sem mestu samræmi við hæð vaxta í nágrannalöndunum. Nú langar mig til þess að vita, hvort þessi till. þýði, að hv. flm. hafi almennt áhuga á því, að verðlag hér á landi sé sem næst því, sem það gerist í nágrannalöndunum. Maður skyldi halda það, af efni till. að dæma, og hef ég sérstakan áhuga á að vita, hvort hv. þm. t.d. telur, að verðlag á afurðum landbúnaðarins, einnar af okkar höfuðatvinnugreinum, eigi að vera hér sem næst því, sem gerist í nágrannalöndunum.

Um þetta vildi ég gjarna fá sem greiðust svör hjá hv. flm. En til að hjálpa honum til að svara spurningunni umsvifalaust ætla ég að skýra frá því, hvert er verðlagið á nokkrum helztu afurðum landbúnaðarins hér í Reykjavík og í þeirri af höfuðborgum nágrannalanda, sem okkur er næst og greiðastar samgöngur eru við, þ.e.a.s. Kaupmannahöfn. Lítil flaska af nýmjólk kostar hér í Reykjavík óniðurgreidd kr. 6.87, en í Kaupmannahöfn kr. 5.19. Kílóið af 45% osti kostar hér í Reykjavík kr. 63.30, en í Kaupmannahöfn kr. 42.33. Kílóið af eggjum kostar hér kr. 50.93, en í Kaupmannahöfn kr. 32.33. Kílóið af kjöti kostar hér óniðurgreitt kr. 37.25, en í Kaupmannahöfn kr. 34.89. Kílóið af kartöflum kostar hér óniðurgreitt kr. 5.55, en í Kaupmannahöfn kr. 2.13. Mig langar til þess að fá að vita hjá hv. flm. þessarar till., hvort hann ætlast til þess, að t.d. verðlag á landbúnaðarvörum hér og í nágrannalöndunum sé samræmt, hvort beri að taka till. svo alvarlega eða ekki.